Posts Tagged ‘Wales’

Mun Bretland hverfa?

Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að leifarnar af breska heimsveldinu muni brátt hverfa og enda á ruslahaugum sögunnar. Ég veit ekki hvað það er nákvæmlega, það er eitthvað við breska konungsdæmið sem virkar ákaflega forneskjulegt og stirðnað á mann. Þetta stúss þeirra í kringum kóngafólkið t.d., ég skil ekki afhverju er enn verið að púkka upp á konunga á 21. öldinni í lýðræðisríkjum. Thomas Paine hlýtur að vera á stöðugum snúning í gröfinni.

Ég held að N-Írland hljóti að sameinast Írska lýðveldinu einhvern daginn, að halda sömu þjóðinni aðskildri í tveimur hólfum gengur aldrei upp til lengdar þótt að menn geti þrjóskast við lengi. Skotar eru líka orðnir líklegir til að hugsa sér til hreyfings í sjálfstæðismálum, nú sem aldrei fyrr. Wales gæti jafnvel fylgt í kjölfarið. Tek það fram að þessar hugsanlegu breytingar verða líklega á löngum tíma, nokkrum áratugum.

Breska Samveldið fer þá líklega sömu leið enda hálf súr félagsskapur þar á ferðinni, gamlir kúgarar með gömlu þrælanýlendum sínum.

Eins og ég segi þá hef ég engin sérstök rök fyrir þessum spádómum, þetta er einhver tilfinning sem hefur grafið um sig. Spáð er að Bretland og Japan verði harðast úti í efnahagskreppunni af þróuðu löndunum að undanskildu Íslandi. Slíkt ástand hefur oft í för með sér breytingar til góðs eða ills. Í þessu tilviki held ég að það grafi undan Bretlandi og að það liðist enn meir í sundur. Saga breska heimsveldisins á 20. öld var samfelld saga niðurbrots og sundrungar og ég tel að ferilinn eigi eftir að halda áfram á þeirri 21. Undir lokin verður því ekkert eftir nema gamla England til minningar um forna tíð.

Þið lásuð það fyrst hér.

Tags: , , , , ,