Posts Tagged ‘vetur’

Kuldi

Yfirleitt er kuldi ekki vandamál hér í borg. Í stuttu máli þá er heitt hér á vorin frá mars fram í júní, örlítið minna heitt á sumrin vegna rigninga fram í október og svo er sæmilega heitt restina af árinu. Hitastigið tekur þó alltaf ákveðna dýfu í desember-janúar. Þá kemur fyrir að maður fer í peysu og jafnvel jakka því að það getur verið svalt í morgunsárið. Hér hreyfir varla vind að heita má þannig að þetta er allt vel bærilegt.

Eins og sjá má í fréttum virðist allt norðurhvel jarðar vera í miklum vetrarham þessa dagana og þessi kuldi virðist hafa að einhverju leiti náð að smjúga hingað. Undanfarna daga hefur verið vel svalt svo ég var tilneyddur til að fara í sænska vetrarjakkann minn sem hefur legið að mestu ónotaður upp í skáp síðan ég flutti hingað. Nú er víst spáð því að hitinn gæti farið niður í frostmark sem er fáheyrt á þessum slóðum. Einnig er einhver möguleiki á snjókomu sem hefur ekki gerst hér í um þrjátíu ár er mér sagt.

Hér í Mexíkóborg erum við svo sunnarlega á hnettinum að við erum á samsvarandi breiddargráðu og norðurhluti Súdan svo dæmi sé tekið. Menn hafa því litlar áhyggjur af kulda hér og húsin eru byggð eftir því enda óþarfi að spandera í einangrun fyrir stuttan hluta ársins. Því hefur mér verið hálf kalt undanfarið á morgnanna því eini rafmagnsofninn sem við eigum þessa stundina er hafður í barnaherberginu. Er dálítið freistandi þessa dagana að kaupa annan en samt, það tekur því varla.

Ég er nú þegar farinn að hlakka til vorsins, reyndar fer samkvæmt reynslu minni strax hlýnandi um næstu mánaðarmót og jafnvel fyrr. Nenni ekki svona kuldaskeiði í illa einangruðu húsi.

Tags: ,