Posts Tagged ‘trúleysi’

Darwin og trúleysið

Nýverið átti merkisbókin Uppruni tegundanna eftir Darwin gamla afmæli en 150 ár eru víst síðan að bókin kom út. Sjálfur á ég þessa bók, minnir að ég pantaði hana í jólagjöf þegar að íslenska þýðingin kom út.

Þessi bók er afar sérstök. Þarna var ný heimsýn í burðarliðnum, fersk kenning sem kollvarpaði ekki einungis náttúruvísindum þess tíma heldur hafði mikil áhrif á öll vísindi og fræði og hefur að sjálfsögðu enn. Bók sem breytti þankagangi fólks um alla framtíð.

Lífið sem eitt sinn var töfrað fram úr hendi guðanna varð skyndilega einfaldur hluti af náttúrunni, líkt og fjöll og stöðuvötn. Náttúrulegir ferlar voru eftir allt saman hönnuðir lífríkisins og mannkynið var einungis ein greinin á hinu gríðarmikla lífsins tré.

Til að gæta allrar sanngirni þá kom verk Darwins ekki alveg eins og skrattinn úr sauðarleggnum forðum, ýmislegt hafði gerst í lok 18. aldar og á þeirri 19. sem hafði þegar breytt sýn manna á náttúruna. En Darwin náði að vefa saman þá miklu þekkingu á hinni lifandi náttúru, sem tiltæk var á þeim tíma, saman við kenningu sína um náttúrulegt val sem gangverk þróunarinnar á þann hátt að fáir gátu andmælt. Að minnsta kosti ekki af miklu viti.

Trúarbrögð urðu fyrir miklum áhrifum af verkum Darwins og segja má að hann hafi gengið af bókstafstrú dauðri. Örvænting bókstafstrúaðra manna af öllum trúarbrögðum gagnvart þróunarkenningunni er enn þann dag í dag hlálegt fyrirbæri og sorglegt í senn. Harðlínumenn sem hafna því alfarið að eitthvað geti ekki verið bókstaflega satt í sínum trúarskruddum gera sig sífellt að fíflum í umræðum um þróun með gaspri sínu og vanþekkingu. Það er reyndar merkilegt að bókstafstrú skuli enn vera við lýði í upplýstum löndum, vísindin hefðu með réttu átt að ganga frá henni fyrir löngu. Sýnir vel ítök trúarbragða í samfélaginu.

Annars langar mig að játa það hér og nú að mér leiðist alltaf þegar Darwin, þróun o.s.frv. er stillt upp gegn trúarbrögðum sem einhverjum andstæðum. Jú, eins og ég hef sagt hér að ofan þá tel ég vísindin hafa drepið bókstafstrú. En það nær ekki mikið lengra en það. Þeir sem trúa á óljósari hugmyndir um guði eins og deistar eru lítt snortnir af uppgötvunum Darwins, þær falla alveg að þeirra hugmyndum því hægt er að beygja þær eftir þörfum.

Gagnvart þessum mýkri trúarbrögðum finnst mér sjálfum mun vænlegra til árangurs að nota heimspekileg rök því þau sýna fram á fáránleika trúarbragða betur en nokkuð annað. Margir hafa aldrei nokkurn tímann velt fyrir sér inntaki sinna trúarbragða heldur fylgja einhverjum fornum hefðum sem þeim var innrætt sem börn. Í mörgum tilvikum er nægjanlegt að ræða á gagnrýninn hátt um trú þeirra til að fólk sjái að sér.

Í umræðum við slíkt fólk leiðist mér að sjá Darwin dreginn á flot eins og allsherjarskýringu á öllu og öllum. Trúarbrögð hafa mörg aðlagast þessari heimsmynd, meira að segja kaþólska kirkjan hefur samþykkt þróunarkenningu Darwins. Þeir segja eingöngu að hún skýri ekki tilurð sálarinnar en allt hitt er gott og blessað. Í rökræðum við þessa tegund trúmanna er heimspekin beittara vopn.

Allavega þá er ekki hægt að setja samasem merki milli Darwins og trúleysis, ég þurfti svona mikinn texta til að koma því á framfæri.

Tags: , ,

Flokkun trúmanna á öðru fólki

Eftir að hafa fylgst með og tekið þátt í umræðum um trúmál í nokkur ár þá hef ég tekið eftir ákveðnu mynstri í þankagangi trúmanna varðandi viðhorf þeirra til annarra manna. Gróft á litið má skilgreina álit trúmanna á öðru fólki í fjóra flokka.

Fyrsti flokkurinn og sá besti að sjálfsögðu eru trúbræðurnir, þeir sem deila sömu trú og hafa svipaðan skilning á trúarbrögðunum og helgiritum þeirra. Oft má sjá fólk rísa upp til varnar trúbræðrum sínum í deilumálum jafnvel þótt að um engin persónuleg tengsl sé að ræða. Nóg er að ef trúað er á sömu vitleysuna þá er það strax ákveðinn gæðastimpill í hugum margra.

Annar flokkurinn eru þeir sem eru í sömu trúarbrögðum en öðrum afbrigðum. Hér vísa ég aðallega til reynslu minnar af margþættustu trúarbrögðum nútímans sem er kristni. Ef trúarbrögðin eru hlutmengi í menginu kristni þá finnst það mörgum gott og blessað þrátt fyrir að þeir séu staddir í öðru hlutmengi. Dettur t.d. í hug ákveðinn kaþólikki sem fer mikinn á Moggablogginu og lofar oft hvítasunnumenn fyrir trúfestu þeirra. Ég hef ekki reynslu af öðrum trúarbrögðum hvað þetta varðar. Gæti þó trúað því að svipað gildi þar. T.d. að sjítar telji súnníta skömminni skárri en villutrúarmenn.

Til þriðja flokksins teljast einmitt villutrúarmenn eða fylgjendur annarra trúarbragða. Þetta er reyndar áhugaverðasti flokkurinn að mínu mati því svo virðist að nánast allir trúmenn telji það betra að trúa einhverju heldur en engu. Skiptir engu máli þótt að hin trúarbrögðin stangist algjörlega á við þeirra eigin. Þetta er merkileg söguleg þróun því áður fyrr voru villutrúarmenn í öllum heimshornum ofsóttir ef trú þeirra var ekki rétt. Svo virðist sem að einhvers konar þvertrúarleg samstaða sé að myndast gegn þeim sem taka ekki þátt í trúarbrjálæðinu. Gott dæmi um þetta er nýleg heimsókn Dalai Lama til Íslands þar sem biskupinn í lúthersku ríkiskirkjunni tók vel á móti kollega sínum og hélt einhverja trúarlega samkomu þar sem m.a. múslimi tók til máls auk búddistans. Þetta er í raun nokkuð furðulegt þar sem biskupinn og DL eiga fátt sameiginlegt eins og lesa má dæmi um hér.

Fjórði flokkurinn og sá lakasti eru svo auðvitað trúleysingjarnir. Vont er fyrir margan trúmanninn ef fólk deilir ekki með þeim hinni réttu og sönnu trú. En það er þó lítið böl miðað við þann hóp sem trúir hreinlega ekki á neitt yfirnáttúrulegt. Andstaðan við skynsemishyggjuna er auðskilin því hún er stærsta ógnin við trúarbrögð í dag. Í nútímanum stafar trúarbrögðum ekki svo mikil hætta af öðrum trúarbrögðum, a.m.k. ekki eins og það var hér áður fyrr þegar kristnum trúboðum var gefið opið veiðileyfi á önnur menningarsvæði. Hins vegar fjölgar þeim stöðugt sem lifa lífi sínu án allra hindurvitna og leiðsagnar heimsendabullara. Í upplýstum heimi vísinda og fræða er það eina leiðin fyrir skynsamt fólk til að lifa lífinu.

Þetta tel ég vera ástæðuna fyrir auknu þvertrúarlegu krulli sem mér finnst ég sjá í auknum mæli. Svo virðist sem sameiginleg andúð trúarnöttara á trúleysi þjappi þeim saman jafnvel þótt að þeirra lífsskoðanir innbyrðis séu oft ósamræmanlegar. Ég reikna reyndar með því að í framtíðinni eigi þessi pólun eftir að verða meira áberandi og hafa meiri áhrif. Þið lásuð það fyrst hér.

Tags: , , , , ,