Posts Tagged ‘Tabachula’

Fríið I

Fórum til Chiapas í rútu á sunnudagskvöldi og náðum þangað á mánudagsmorgni. Chiapas er syðsti hluti Mexíkó og að auki fórum við mjög sunnarlega þar til stærstu borgar þess ríkis, Tabachula. Einungis eru um 25 mín. akstur til Gvatemala þaðan. Þar eiga heima ættingjar Anelar en við fórum í útskriftarveislu Williams, eins frænda hennar sem er nýútskrifaður lögfræðingur.

Við héldum að veislan ætti að vera á þriðjudeginum en hún átti víst að vera strax þá um kvöldið. Því fór mánudagurinn í að undirbúa herlegheitin, blása upp blöðrur og þess háttar. Líklega var hátt í 40 stiga hiti þarna syðra en maður kippir sér lítið upp við slíkt í þessu landi.

Veislan fór vel fram, lambakjöt á boðstólum og mikið dansað. Þó gátum við ekki verið þarna lengi frameftir þar sem að drengirnir voru þreyttir eftir rútuferðina og sofnuðu fljótt. Við fórum því heim til Elizabet frænku, systir tengdamömmu og móðir Williams, til að sofa en það gekk ekki áfallalaust þar sem Emil ákvað að vera með tanntökuverki og græt eitthvað frameftir nóttu. Það er líka frekar óþægilegt að sofa í svona hita þar sem húsin hér eru yfirleitt ekki loftkæld.

Daginn eftir var ákveðið að fara heim til Orlando frænda, bróðir tengdamömmu, sem býr í þorpinu Triunfo um þriggja tíma akstur frá Tapachula. Fjölskylda tengdamömmu er þaðan og þar ólst hún upp. Þetta þorp er svo lítið að ég finn það hvorki á Wikipedia né Goggle Maps en hef þó ekki leitað af mér allan grun. Vandamálið með Mexíkó er að margir staðir heita nákvæmlega það sama og því stundum erfitt að leita að ákveðnum stöðum.

Öll fjölskyldan fór til Triunfo, þar af flestir á pallinum á pallbíl Orlandos að hætti dreifara. Ég sólbrann á leiðinni á pallinum frekar illa og hef enn ekki beðið þess bætur þegar þetta er skrifað. Skömmu eftir komuna þangað skelltum við okkur í sund í á einni sem rennur þarna niður hæðarnar. Triunfo er staðsett á miklum hæðum við rætur Sierra Madre fjallgarðsins og þar er geysifallegt um að litast. Allt er iðjagrænt, skógar og hæðir allt í kringum ásamt ám og lækjum sem liðast um eftir landslaginu. Við syntum í stórum hyl í á sem lá nokkuð hátt uppi í hæðunum og lítill foss steypist þar ofan í, mesta sportið var að komast á bak við hann og dýfa sér ofan í hylinn. Strákunum fannst þó vatnið heldur kalt en mér fannst það gott eftir sólbrunann.

Nokkuð skondið var að rölta um með Anel í þessum bæ því þetta er smábær og allir þekktu fjölskyldu hennar þar sem hún var eitt sinn sú ríkasta í bænum. Fullt af fólki sem kom að tala við okkur. Hittum líka á nokkra fjarskyldari ættingja sem búa þarna sem voru afar glaðir að hitta Anel og bláeygðu syni hennar. Fórum og heimsóttum elsta bróðir tengdamömmu þar um kvöldið sem heitir Horacio og hann bauð okkur gistingu sem við þáðum með þökkum þar sem heimili Orlando var yfirfullt af gestum.

Meira síðar.

Tags: , ,