Posts Tagged ‘Porvenir’

Fríið II

Eftir gistinguna hjá Horacio var víst kominn miðvikudagur. Var þá ákveðið að fara upp í fjöllin til að skoða friðlýst svæði sem kallast Porvenir og heimsækja dóttir Orlandos, Cendy, sem býr þar skammt hjá með manni og lítilli dóttur. Aftur var farið upp í pallbílinn og brunað upp í Sierra Madre fjallgarðinn. Strákarnir fengu þó að vera í einkabíl hjá Amöndu frænku sinni ásamt Anel.

Þetta ferðalag tók töluvert á bílana sem voru báðir drekkhlaðnir fólki og allt var uppí mót, á góðum vegum þó. Byrjaði að sjóða á bíl Amöndu og dekkin á pallbílnum fóru víst illa út úr þessari ferð. En þetta hafðist allt fyrir rest. Var orðið dimmt þegar við náðum heim til Cendy og við gistum um nóttina á hóteli þar sem hús frænkunnar var yfirfullt af fólki.

Þar um nóttina tel ég að ég hafi verið bitinn af einhverju kvikindi, líklega könguló, í ökklann því eftir þetta byrjaði hann að bólgna upp og var orðinn stokkbólginn nokkrum dögum síðar. Sýklalyf og bólgueyðandi náðu þó að redda því, alltaf má búast við einhverju svona í hitabeltinu þar sem lífríkið er gróskumikið.

Skoðuðum okkur um í Porvenir daginn eftir. Við vorum komin í það mikla hæð að þarna var mikið af barrtrjám og frekar svalt í veðri, miðað við að vorum syðst í Mexíkó. Síðan var haldið aftur heim til Orlandos, hópurinn tvístraðist eitthvað á leiðinni þar sem sumir fóru til Tapachula aftur en við fórum til Triunfo. Þar um kvöldið át ég tacos á einhverjum stað sem gerði mér ekkert sérstaklega gott. En maður kvartar ekki yfir smá magakveisu á svona stöðum.

Á föstudeginum fórum við til Tapachula aftur og ákváðum þar að fara norður til höfuðborgar Chiapas sem kallast Tuxtla og skoða þar einnig bæinn San Cristóbal sem er frægur ferðamannastaður. Segi nánar frá því síðar.

Tags: , , , , ,