Posts Tagged ‘Mexíkóborg’

Kuldi

Yfirleitt er kuldi ekki vandamál hér í borg. Í stuttu máli þá er heitt hér á vorin frá mars fram í júní, örlítið minna heitt á sumrin vegna rigninga fram í október og svo er sæmilega heitt restina af árinu. Hitastigið tekur þó alltaf ákveðna dýfu í desember-janúar. Þá kemur fyrir að maður fer í peysu og jafnvel jakka því að það getur verið svalt í morgunsárið. Hér hreyfir varla vind að heita má þannig að þetta er allt vel bærilegt.

Eins og sjá má í fréttum virðist allt norðurhvel jarðar vera í miklum vetrarham þessa dagana og þessi kuldi virðist hafa að einhverju leiti náð að smjúga hingað. Undanfarna daga hefur verið vel svalt svo ég var tilneyddur til að fara í sænska vetrarjakkann minn sem hefur legið að mestu ónotaður upp í skáp síðan ég flutti hingað. Nú er víst spáð því að hitinn gæti farið niður í frostmark sem er fáheyrt á þessum slóðum. Einnig er einhver möguleiki á snjókomu sem hefur ekki gerst hér í um þrjátíu ár er mér sagt.

Hér í Mexíkóborg erum við svo sunnarlega á hnettinum að við erum á samsvarandi breiddargráðu og norðurhluti Súdan svo dæmi sé tekið. Menn hafa því litlar áhyggjur af kulda hér og húsin eru byggð eftir því enda óþarfi að spandera í einangrun fyrir stuttan hluta ársins. Því hefur mér verið hálf kalt undanfarið á morgnanna því eini rafmagnsofninn sem við eigum þessa stundina er hafður í barnaherberginu. Er dálítið freistandi þessa dagana að kaupa annan en samt, það tekur því varla.

Ég er nú þegar farinn að hlakka til vorsins, reyndar fer samkvæmt reynslu minni strax hlýnandi um næstu mánaðarmót og jafnvel fyrr. Nenni ekki svona kuldaskeiði í illa einangruðu húsi.

Tags: ,

Vatnslaust

Vatnsbirgðir Mexíkóborgar minnka með hverjum deginum og nú er svo komið að þær gætu klárast i febrúar á næsta ári, hefur maður heyrt. Hafa komið dagar í ár þar sem hefur verið skrúfað fyrir vatnið í nokkra tíma en undanfarna þrjá daga hefur vatnið rétt komið í einn-tvo tíma á dag. Þetta veldur okkur miklum vandræðum, maður verður að sæta færi til að baða strákana og reyna að safna vatni á meðan það er fáanlegt.

Ástæðan fyrir þessum vatnsskorti er aðallega gríðarlegur fólksfjöldi sem býr á þessu svæði, yfir 25 milljónir, og úr sér gengið dreifingarkerfi. Sagt er t.d. hér í þessari grein frá Time að kerfið sé svo lekt að 40% vatnsins tapist á leið til neytanda.

Mikill áróður hefur verið í gangi undanfarið sem miðar að því að fá fólk til að spara vatnið. Ekki láta renna meðan þið burstið tennurnar, setið flösku í vatnskassann á klósettinu til að spara einn líter þegar sturtað er niður, farið  í sturtu ekki bað o.s.frv.

Þetta er ekki að ástæðulausu þar sem kemur einnig fram í þessari grein að Mexíkóbúar nota mun meira vatn að meðaltali heldur en margar borgir í Evrópu. Um 300 lítra á dag sem ætti að vera hægt að minnka mikið með ábyrgri notkun.

Segir sig sjálft að allar áhyggjur af svínaflensunni eru bara grín miðað við það möguleika að vatnsbirgðir borgarinnar séu á þrotum. Þetta er sérstaklega slæmt nú þegar að nægar birgðir ættu að vera til í lok regntímabilsins. Alltaf eitthvað stuð hér í bæ.

Tags: , ,

Kosningar í Mexíkó á morgun

Á morgun er kosningadagur hér í Mexíkó. Verið er að kjósa neðri deild þingsins þar sem sitja 500 þingmenn, þar af 300 kosnir beinni kosningu og 200 hlutfallskosningu. Einnig er kosið í sveitarstjórnarkosningum í 8 ríkjum og að auki í höfuðborginni Mexíkóborg sem hefur sérstöðu hér í landi, er ekki eiginlegt ríki heldur sérstakt stjórnsýsluumdæmi sem heyrir undir alríkisstjórnina. Mér skilst að fyrirkomulagið sé svipað hjá Bandaríkjamönnum með Washington DC.

Þrátt fyrir það er hér einnig borgarstjórn sem er frekar flókin í uppbyggingu eins og gefur að skilja fyrir svo gríðarstóra borg. Mexíkóborg er skipt í 16 umdæmi og hvert umdæmi kýs sinn umdæmisstjóra. Þessar kosningar hafa farið mest í taugarnar á mér undanfarið því það er bókstaflega allt þakið í auglýsingum frá frambjóðendum margra flokka. Einnig er kosið í borgarstjórn fyrir borgina í heild sinni.

Vinstrimenn hafa ráðið borginni nú um langa hríð og því er hér margt frjálslyndari en tíðkast í landinu sjálfu. Sem dæmi má nefna að fyrir tveimur árum fengu samkynhneigðir rétt til að skrá sig í sambúð og konum er leyft að fara í fóstureyðingu undantekingarlaust ef þær óska þess fyrir 12 viku meðgöngu. Í öllum öðrum ríkjum, ef ég hef skilið rétt, eru fóstureyðingar einungis leyfilegar í undantekingartilfellum. Mexíkó er mjög kaþólskt land og því má telja nokkuð gott að þessum réttindum hefur þó verið náð hér í höfuðborginni.

Eitt sem mér finnst nokkuð merkilegt við þessar kosningar að mikið er um auglýsingar í sjónvarpi og víðar frá stofnun sem gæti kannski heitið upp á íslensku Kosningastofnun alríkisumdæmisins. Þessi stofnun sér um framkvæmd kosninganna og hefur hvatt fólk mjög til að mæta á kjörstað og kjósa. Þannig vex okkar lýðræði segja þeir (í beinni þýðingu).

Ég hef ekki nennt að grafa upp tölur um kosningaþátttöku í eldri kosningum en ég gæti trúað því að kjörsóknin sé slök. Stjórnmál hér eru yfirleitt lágt skrifuð hjá almenningi, stjórnvöld njóta ekki trausts enda er spillingin hér eilíft vandamál. Það gæti skýrt þessa herferð til að fá fólkið til að mæta á kjörstaðina á morgun.

Annars verð ég feginn þegar þessu er lokið, auglýsingaflóðið hér fyrir þessar kosningar er með ólíkindum. Ég hef enn ekki fundið neinn flokk til að styðja hér í landi, hef ekki sett mig nægjanlega inn í málefni þeirra. Kemur þó ekki að sök enn þar sem ég hef ekki kosningarétt.

Hélt að ég hafði rekist á mína menn þegar ég sá auglýsingar frá græningjum um daginn en þessi græningjar eru nú eitthvað öðruvísi en þeir sem ég þekki. Eitt helsta stefnumál Partido Verde er að taka aftur upp dauðarefsingar! Aldrei gæti ég kosið slíkt hyski hversu grænt sem það væri.

Tags: , , ,

Flensubók Lárusar

Felipe Calderón, forseti Mexíkó, hvatti okkur til að vera sem mest heima hjá okkur frá 1-5 maí til að hefta útbreiðslu flensunnar. Fram til 6. maí verður lítið um að vera hér í borg, flest allir samkomustaðir lokaðir, allt skólahald liggur niðri og einungis hægt að sækja mat á veitingahúsum. Ekki er leyfilegt að tylla sér niður á slíkum stöðum lengur.

Svo virðist sem að hægt hafi verulega á útbreiðslu veirunnar í bili. Enn er óljóst hvað nákvæmlega er í gangi varðandi þessi dauðsföll sem urðu í tengslum við flensuna. Rétt er að minna á að spænska veikin byrjaði einnig sem væg flensa en breyttist síðar yfir í skaðlegri afbrigði.

Núna stendur yfir heitasta tímabilið hér í Mexíkó, frá apríl fram í júní er vel heitt hérna. Um daginn fór mælirinn í bílnum upp í 38 gráður en hann er kannski ekki alveg marktækur. Við þessar aðstæður er ekkert grín að ganga um með grímur fyrir andlitinu. Manni verður oft vel heitt núna. Við notum þessar grímur þegar við förum út úr húsi þótt ég geri mér grein fyrir því að þær séu ekki fullkomin vörn. En þrátt fyrir að þær gætu t.d. einungis minnkað líkurnar um 10% á smiti þá þigg ég þau prósent með þökkum.

Þessi flensa fer illa með efnahaginn hér í borg. Reiknað er með að um 88 milljón dollarar tapist daglega bara í Mexíkóborg vegna allra þeirra lokana sem flensan hefur valdið. Ferðamannaiðnaðurinn er svo ein rjúkandi rúst skilst manni.  Mexíkó stóð ekki svo illa í þessari fjármálakreppu sem nú herjar á heiminn miðað við mörg önnur lönd þótt að efnahagsleg örlög þess ráðast mikið til af gengi stóra nágrannans í norðri. Nú lítur ástandið mun verr út en áður. Gert er ráð fyrir því að það hægist á hagvexti mun meir en spáð hafði verið áður en þessi óværa byrjaði.

Drengirnir hafa nánast ekkert farið út undanfarna daga, Emil er að ég held sama en Ara leiðist þetta. Hann vill fara út í garð og leika, skilur ekkert í tregðu foreldra sinna undanfarið.

Sjálfur er ég hundleiður á þessu ástandi þótt það hafi einungis varað í eina viku. Vona að þessu fari að linna sem fyrst.

Tags: , , , ,

Við rætur inflúensufaraldurs

Síminn hringdi seint í gærkvöldi. Ein móðirsystir Anelar (ein af mörgum) hafði séð í fréttunum að inflúensufaraldur hafði brotist út hér í Mexíkóborg. Búið sé að loka öllum skólum, allt frá leikskólum upp í háskólana, og fólk hvatt til að vera á varðbergi. Þetta kom nokkuð ónotalega við mann, sérstaklega þar sem ég kann mína veirufræði ágætlega og ný tilfelli af banvænni inflúensu eru alltaf áhyggjuefni. Sérstaklega þegar þau koma upp þar sem ég bý!

Síðan þá hafa fréttir af þessum faraldri ekki beinlínis glatt mig. Þetta virðist vera áður óþekktur stofn sem hefur á undanförnum mánuði lagt 20 manns í gröfina svo óyggjandi sé og mjög líklega 40 aðra sem enn er þó óstaðfest. Um þúsund eru taldir hafa veikst af þessari flensu. Þetta er ný gerð inflúensuveiru A af stofni H1N1 sem olli einmitt faraldrinum 1918. Svo virðist sem þetta sé bræðingur af þremur flensustofnum, þ.e. úr svínum, fuglum og mönnum en þetta á eftir að koma betur í ljós.

Þegar nýir stofnar af inflúensu koma upp þá hafa tiltæk bóluefni yfirleitt engin áhrif og einungis er hægt að hefja framleiðslu á þeim eftir að nýi stofninn hefur verið greindur. WHO hefur þegar ráðlagt Mexíkó að bólusetja ekki gegn þessu en nota þess í stað veirulyf og önnur úrræði.

Ekki þarf að fjölyrða um það þvílík martröð það yrði ef þetta yrði að stórum faraldri í Mexíkóborg. Þetta er ein stærsta borg heims með yfir 25 milljón íbúa og jafnframt þéttbýl. Almenningssamgöngur eru yfirleitt yfirfullar á annatímum og yfirdrifin tækifæri fyrir inflúensuveiruna til að dreifa sér.

Þegar í dag voru margir komnir með grímur fyrir andlitin, sérstaklega fólk sem sinnir mörgum kúnnum daglega t.d. í móttökum og verslunum. Ég er enn ekki orðinn órólegur yfir þessu en ef flensan breiðist út þá eru nú góð ráð dýr. Verið er að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar og vonir standa til að það takist.

Ég man að Halldór Þormar talaði um í veirufræðinni forðum daga í HÍ að það væri alltaf tímaspursmál hvenær nýir inflúensufaraldrar færu af stað. Það koma alltaf þrír til fjórir á hverri öld. Aldrei bjóst ég þó við því að sjá einn í fæðingu og ég vona reyndar að það sé ekki að gerast hér. En maður veit aldrei.

Tags: ,