Posts Tagged ‘Mexíkó’

Veikindi

Ég man þegar maður var einhleypur og veikindi voru frekar lítið mál. Maður lokaði sig af heima hjá sér og slakaði á í einhvern tíma, lét pestir og plágur líða hjá eins og lítið sé.

Með litla herramenn á heimilinu hefur þetta breyst töluvert. Anel náði sér í einhverja sýkingu í hálsi fyrir um 10 dögum af einum kúnnanum sem fljótt barst yfir til drengjanna og svo á endanum til mín. Því höfum við lítið sem ekkert sofið undanfarna viku. Maður rýkur upp nokkrum sinnum á nóttu til að huga að krílunum þrátt fyrir að maður vildi helst ekkert gera annað en að sofa í svona 20 tíma samfleytt.

Fórum til læknis i dag sem greindi hálssýkinguna og skammtaði sýklalyf fyrir drengina. Reyndar var það umhugsunarverð heimsókn, fórum án þess að eiga pantaðan tíma á opinbera heilsugæslustöð, fengum viðtal við lækni og sýklalyf án þess að borga einn pesó fyrir. Læknirinn var reyndar ekkert sértaklega viðmótsgóður en maður býst heldur ekki við miklu þegar ekkert er borgað.

Gæti trúað því að heilbrigðiskerfið hér sé á sumum sviðum fremra því sem tíðkast hjá stóra ríka nágrannanum í norðri.

Tags: ,

Orkulaus nýbúi

Fátt í þessum heimi er jafn lýjandi og að standa í biðröð hjá hinu opinbera í Mexíkó. Mig langar helst að fara í bælið og sofa til morguns.

Þrír og hálfur tími í dag í hinum ýmsu biðröðum, hef þó líklega náð að afreka það að vera orðinn innflytjandi eftir allt þetta. Nýbúi í Mexíkó, hver hefði grunað það fyrir nokkrum árum?

Hefur kostað óteljandi ferðir á hinar ýmsu stofnanir og ýmislegt annað vesen. Er kominn með bullandi Stokkhólms-einkenni eftir þetta, mér finnst kerfið hérna og skrifræðið frábært núna. Best í heimi, Íslendingar eiga margt ólært varðandi hvernig er hægt að lengja umsóknarferli og slíkt nánast út í hið óendanlega. Meira að segja sænska skrifræðið er smávægilegt og notendavænt í samanburði við það hér í Vesturheimi.

Tags: ,

Innflytjandinn

Stundum held ég að innflytjendastofnunin hér í Mexíkó hafi það að markmiði sínu að gera alla umsækjendur geðveika svo hægt sé að senda þá aftur til heimalands síns. Kannski er þetta einhvers konar hefnd fyrir það hvernig Kanada og Bandaríkin eru leiðinleg við innflytjendur frá Mexíkó. Allavega finnst mér það einkennilegt af landi sem treystir svo mikið á fjármagn frá mexíkönum í öðrum löndum að gera umsækjendum sem sækja um atvinnuleyfi hér svo erfitt fyrir.

Jæja, maður tekur því eins og hverju öðru hundsbiti. Eða kannski er nær að tala um köngulóarbit í þessum heimshluta?

Tags:

Fríið I

Fórum til Chiapas í rútu á sunnudagskvöldi og náðum þangað á mánudagsmorgni. Chiapas er syðsti hluti Mexíkó og að auki fórum við mjög sunnarlega þar til stærstu borgar þess ríkis, Tabachula. Einungis eru um 25 mín. akstur til Gvatemala þaðan. Þar eiga heima ættingjar Anelar en við fórum í útskriftarveislu Williams, eins frænda hennar sem er nýútskrifaður lögfræðingur.

Við héldum að veislan ætti að vera á þriðjudeginum en hún átti víst að vera strax þá um kvöldið. Því fór mánudagurinn í að undirbúa herlegheitin, blása upp blöðrur og þess háttar. Líklega var hátt í 40 stiga hiti þarna syðra en maður kippir sér lítið upp við slíkt í þessu landi.

Veislan fór vel fram, lambakjöt á boðstólum og mikið dansað. Þó gátum við ekki verið þarna lengi frameftir þar sem að drengirnir voru þreyttir eftir rútuferðina og sofnuðu fljótt. Við fórum því heim til Elizabet frænku, systir tengdamömmu og móðir Williams, til að sofa en það gekk ekki áfallalaust þar sem Emil ákvað að vera með tanntökuverki og græt eitthvað frameftir nóttu. Það er líka frekar óþægilegt að sofa í svona hita þar sem húsin hér eru yfirleitt ekki loftkæld.

Daginn eftir var ákveðið að fara heim til Orlando frænda, bróðir tengdamömmu, sem býr í þorpinu Triunfo um þriggja tíma akstur frá Tapachula. Fjölskylda tengdamömmu er þaðan og þar ólst hún upp. Þetta þorp er svo lítið að ég finn það hvorki á Wikipedia né Goggle Maps en hef þó ekki leitað af mér allan grun. Vandamálið með Mexíkó er að margir staðir heita nákvæmlega það sama og því stundum erfitt að leita að ákveðnum stöðum.

Öll fjölskyldan fór til Triunfo, þar af flestir á pallinum á pallbíl Orlandos að hætti dreifara. Ég sólbrann á leiðinni á pallinum frekar illa og hef enn ekki beðið þess bætur þegar þetta er skrifað. Skömmu eftir komuna þangað skelltum við okkur í sund í á einni sem rennur þarna niður hæðarnar. Triunfo er staðsett á miklum hæðum við rætur Sierra Madre fjallgarðsins og þar er geysifallegt um að litast. Allt er iðjagrænt, skógar og hæðir allt í kringum ásamt ám og lækjum sem liðast um eftir landslaginu. Við syntum í stórum hyl í á sem lá nokkuð hátt uppi í hæðunum og lítill foss steypist þar ofan í, mesta sportið var að komast á bak við hann og dýfa sér ofan í hylinn. Strákunum fannst þó vatnið heldur kalt en mér fannst það gott eftir sólbrunann.

Nokkuð skondið var að rölta um með Anel í þessum bæ því þetta er smábær og allir þekktu fjölskyldu hennar þar sem hún var eitt sinn sú ríkasta í bænum. Fullt af fólki sem kom að tala við okkur. Hittum líka á nokkra fjarskyldari ættingja sem búa þarna sem voru afar glaðir að hitta Anel og bláeygðu syni hennar. Fórum og heimsóttum elsta bróðir tengdamömmu þar um kvöldið sem heitir Horacio og hann bauð okkur gistingu sem við þáðum með þökkum þar sem heimili Orlando var yfirfullt af gestum.

Meira síðar.

Tags: , ,

Aftur heim

Fríið endaði með því að vera eitt af þessum þar sem að sýklalyf og verkjatöflur komu mér í gegnum síðustu dagana. En ef maður fer á fjarlægar slóðir þá verður maður að vera undirbúinn fyrir slíkt. Þeir sem fara í mesta lagi til Danmerkur í fríið lenda eflaust sjaldan í svona erfiðleikum en sögurnar mínar eru eflaust betri svona eftir á.

Chiapas er annars fallegasta ríki Mexíkó sem ég hef séð hingað til, slær jafnvel út Quintana Roo. Skrifa einhverja frásögn af þessu einhvern daginn. Set jafnvel inn myndir líka en það er orðið langt síðan að ég hef getað gefið mér tíma í slíkt.

Tags: ,

Kosningar í Mexíkó á morgun

Á morgun er kosningadagur hér í Mexíkó. Verið er að kjósa neðri deild þingsins þar sem sitja 500 þingmenn, þar af 300 kosnir beinni kosningu og 200 hlutfallskosningu. Einnig er kosið í sveitarstjórnarkosningum í 8 ríkjum og að auki í höfuðborginni Mexíkóborg sem hefur sérstöðu hér í landi, er ekki eiginlegt ríki heldur sérstakt stjórnsýsluumdæmi sem heyrir undir alríkisstjórnina. Mér skilst að fyrirkomulagið sé svipað hjá Bandaríkjamönnum með Washington DC.

Þrátt fyrir það er hér einnig borgarstjórn sem er frekar flókin í uppbyggingu eins og gefur að skilja fyrir svo gríðarstóra borg. Mexíkóborg er skipt í 16 umdæmi og hvert umdæmi kýs sinn umdæmisstjóra. Þessar kosningar hafa farið mest í taugarnar á mér undanfarið því það er bókstaflega allt þakið í auglýsingum frá frambjóðendum margra flokka. Einnig er kosið í borgarstjórn fyrir borgina í heild sinni.

Vinstrimenn hafa ráðið borginni nú um langa hríð og því er hér margt frjálslyndari en tíðkast í landinu sjálfu. Sem dæmi má nefna að fyrir tveimur árum fengu samkynhneigðir rétt til að skrá sig í sambúð og konum er leyft að fara í fóstureyðingu undantekingarlaust ef þær óska þess fyrir 12 viku meðgöngu. Í öllum öðrum ríkjum, ef ég hef skilið rétt, eru fóstureyðingar einungis leyfilegar í undantekingartilfellum. Mexíkó er mjög kaþólskt land og því má telja nokkuð gott að þessum réttindum hefur þó verið náð hér í höfuðborginni.

Eitt sem mér finnst nokkuð merkilegt við þessar kosningar að mikið er um auglýsingar í sjónvarpi og víðar frá stofnun sem gæti kannski heitið upp á íslensku Kosningastofnun alríkisumdæmisins. Þessi stofnun sér um framkvæmd kosninganna og hefur hvatt fólk mjög til að mæta á kjörstað og kjósa. Þannig vex okkar lýðræði segja þeir (í beinni þýðingu).

Ég hef ekki nennt að grafa upp tölur um kosningaþátttöku í eldri kosningum en ég gæti trúað því að kjörsóknin sé slök. Stjórnmál hér eru yfirleitt lágt skrifuð hjá almenningi, stjórnvöld njóta ekki trausts enda er spillingin hér eilíft vandamál. Það gæti skýrt þessa herferð til að fá fólkið til að mæta á kjörstaðina á morgun.

Annars verð ég feginn þegar þessu er lokið, auglýsingaflóðið hér fyrir þessar kosningar er með ólíkindum. Ég hef enn ekki fundið neinn flokk til að styðja hér í landi, hef ekki sett mig nægjanlega inn í málefni þeirra. Kemur þó ekki að sök enn þar sem ég hef ekki kosningarétt.

Hélt að ég hafði rekist á mína menn þegar ég sá auglýsingar frá græningjum um daginn en þessi græningjar eru nú eitthvað öðruvísi en þeir sem ég þekki. Eitt helsta stefnumál Partido Verde er að taka aftur upp dauðarefsingar! Aldrei gæti ég kosið slíkt hyski hversu grænt sem það væri.

Tags: , , ,

Einar Már um Mexíkó

Áhugavert að lesa frásögn helsta rithöfundar Íslands af ferð hans til Mexíkó á síðasta ári. Þetta er því miður allt satt og rétt sem þarna kemur fram.

Tags: ,