Posts Tagged ‘Mexíkó’

Forsetakosningar 2012

Ekki get ég látið þetta bloggtækifæri framhjá mér fara. Forsetakosningar á laugardaginn á Íslandi og á sunnudaginn í Mexíkó. Þar sem kjörtímabilið í Mexíkó eru sex ár á móti hinu fjögurra ára íslenska tímabili gerist þetta ekki oft en þó á 12 ára fresti.

Gerðist síðast árið 2000 þegar Ólafur Ragnar tók því rólega á Fróni og var sjálfkjörinn í embættið. Þetta kosningaár í Mexíkó varð aftur á móti hið sögulegusta en þá urðu mikil valdaskipti í Mexíkó. Frambjóðandi PAN flokksins (Partido Acción Nacional) Vicente Fox sigraði þá og varð fyrsti forsetinn í 70 ár sem kom ekki úr röðum hins þaulsætna PRI flokks (Partido Revolucionario Institucional). Ef snara ætti þessum flokksnöfnum yfir á íslensku gæti PAN heitið Þjóðvaki og PRI Stofnana-Byltingarflokkurinn. Fox sat til 2006 og eftirmaður hans og núverandi forseti Felipe Calderón kemur einnig úr PAN flokknum.

Sá síðarnefndi hefur orðið umdeildur í Mexíkó vegna hinnar hörðu stefnu hans í fíkniefnamálum. Hann sigaði hernum á dópgengin með þeim árangri að frá 2006 hefur tala fallinna farið yfir 50 þúsund manns. Í raun ríkir einhverskonar borgarastríð í Mexíkó þrátt fyrir að það sé minna sýnilegt en hefðbundin átök. Þrátt fyrir að Calderón hafi í raun ekki staðið sig svo illa í öðrum málaflokkum líkt og ágætur árangur í efnahagsmálum gefur til kynna þá verður þetta arfleið hans í mexíkanskri stjórnmálasögu, forsetinn sem lagði allt undir og tapaði í þessu endalausa „stríði gegn eiturlyfjum“.

Fjórir frambjóðendur eru í framboði í Mexíkó. Núverandi valdaflokkur PAN sýndi lit og bauð fram konu í embættið en kona hefur aldrei vermt forsetastólinn þar vestra. Hún Josefina Vázquez Mota hefur þó ekki hitt á réttu nóturnar í þessari baráttu og hún virðist ætla að enda í þriðja sæti ef marka má skoðanakannanir. Skömmu áður en við fórum frá Mexíkó lýsti hún því yfir í fjölmiðlum að hún tryði enn á kraftaverk en sjaldnast er gott að stóla á þau í pólitík.

Litli maðurinn í þessum kosningum og sá sem mælist með minnst fylgi heitir Gabriel Quadri en hann býður sig fram fyrir Nueva Alianza (PANAL) eða Nýfylkinguna. Þessi flokkur er að bjóða fram í annað sinn, bauð fram fyrst 2006 og er enn að mótast. Reyndar líst mér ágætlega á Gabríel þrátt fyrir að hann líti út eins og illmenni úr Austin Powers mynd með sitt fjallmyndarlega yfirvaraskegg í gamla stílnum. Held ef hann myndi raka sig ætti fylgið eftir að stíga því af því sem ég hef séð af honum var margt ágætt og ætti alveg skilið meira en Ástþórs-fylgi í kosningunum.

Sá sem virðist ætla að hafna í öðru sæti gerði það einnig 2006 en Andrés Manuel López Obrador eða AMLO eins og hann er oft kallaður er fyrrverandi borgarstjóri Mexíkóborgar og tapaði naumlega 2006 fyrir Calderón. Einungis munaði um hálfu prósentustigi eða um 250 þúsund atkvæðum. Hann býður sig fram fyrir kosningabandalag sem leitt er af hans flokki PRD (Partido de la Revolución Democrática) og gæti útlagst Lýðræðissinnaði Byltingarflokkurinn. Aðrir flokkar í bandalaginu eru PT (Partido del Trabajo) eða Verkamannaflokkurinn og Movimiento Ciudadano sem ágætt er að þýða sem Borgarahreyfinguna, flokkur sem stofnaður var á síðasta ári úr eldri flokki, krataflokkur sem berst fyrir kerfisbreytingum í mexíkönsku stjórnkerfi. Verkamannaflokkurinn eru á pari við VG í stjórnmálum og jafnvel til vinstri við þá meðan PRD eru sósíaldemókratar.

Eins og menn kannski muna þá voru úrslit þessara kosninga dregin í efa af stuðningsmönnum Andrésar og reyndar fleirum. Múrinn birti þessa grein skömmu eftir að úrslitin lágu fyrir. Margir ásökuðu PAN um að hafa stolið sigrinum og falsað kjörseðla og lengi á eftir voru mikil mótmæli í gangi um allt land. Andrés var dubbaður upp sem „réttkjörinn forseti“ og Calderón kallaður „ólögmæti forsetinn“ og er reyndar enn kallaður svo af mörgum.

Karlinn sem mun þó líklega sigra á sunnudaginn ber nafnið Enrique Peña Nieto og yfirleitt kallaður báðum eftirnöfnum sínum. Sá er fulltrúi gamla valdaflokksins PRI sem býður fram í bandalagi við Partido Verde, Græningja eða Græna flokksins sem leggur áherslu á umhverfisvernd og baráttu gegn skipulögðum glæpum.

Peña Nieto þykir með myndarlegri mönnum sem hefur kannski skilað honum eitthvað áfram í pólitík. Hann var ríkisstjóri fjölmennasta ríkis Mexíkó sem kallast Estado de México og fyrir mörlandann er hægt að líkja því ríki við Kragann. Semsagt ríkið sem liggur í kringum höfuðborgina sjálfa, Distrito Federal eða alríkisumdæmið sem er kjarni Mexíkóborgar og saman mynda DF og Estado de México stórborgarsvæðið.

Það hljómar kannski skringilega að Mexíkanar vilji hleypa PRI aftur að kjötkötlunum eftir 12 ára útlegð en þeir sátu eins og áður sagði að völdum í um 70 ár og hafa ýmislegt á samviskunni. Flokkurinn virðist síðan þá hafa unnið eitthvað í ímynd sinni, segjast nú vera flokkur 21. aldar og séu nýr PRI og ég veit ekki hvað. Peña Nieto hefur kjörþokka með sér en virðist ekki vera með þeim sleipustu þrátt fyrir það. Frægt var í Mexíkó fyrir skömmu þegar hann sótti heim bókaráðstefnu og var spurður af fréttamanni hvort hann gæti nefnt þrjár bækur sem höfðu haft áhrif á hann á sínum ferli. Skemmst er frá því að segja að hann gat það ómögulega, tafsaði eitthvað og umlaði og náði að lokum eftir drykklangt hlé að segja Biblían en mundi þó ekki eftir fleiri bókum. Þessi uppákoma og fleira í þessum dúr hefur orðið til að draga andlegt atgervi forsetaframbjóðendans í efa.

Sjálfur hef ég ekki kosningarétt í Mexíkó en ég veit í sjálfu sér ekki hvað ég ætti eftir að kjósa. Líklega er AMLO illskásti kosturinn en mér hefur þó fundist hann koma frekar illa út í umræðuþættum. Leggur yfirleitt höfuðáherslu á að rægja Peña Nieto í stað þess að koma sínum málstað á framfæri. Reyndar er nokkuð furðulegt að í landi þar sem yfir 100 milljónir búa að ekki sé hægt að finna betri forsetaframbjóðendur, mér líst frekar illa á öll fjögur.

Heldur mun ég ekki kjósa í þeim íslensku vegna smá klúðurs, hefði kosið Ara en það verður bara að hafa það. Þrátt fyrir að mér líki í raun ekki illa við Ólaf en hann bauð mér í kokkteilboð fyrir nokkrum árum úti í Mexíkóborg, geri aðrir betur. Held að það væri ágætt að breyta til á Bessastöðum en ég mun ekki gráta þótt Ólafur sitji eitthvað áfram þar.

Svona hljóðaði nú fréttaskýring dagsins.

Tags: , , , , , , , , ,

Væntanlegur fjölskyldumeðlimur

Allt fer að verða klárt fyrir fæðingu þriðja sonarins. Búið er að þvo agnarlítil föt og taka fram hitt og þetta. Sem fyrr er þetta hálf óraunverulegt á þessari stundu en manni verður líklega kippt inn í veruleikann eftir um eina viku en áætlaður fæðingardagur er 20. janúar. Gæti kannski orðið aðeins fyrr, kemur í ljós.

Nafnið er enn til umræðu hjá okkur hjónum og ekki er búist við endanlegri niðurstöðu fyrr en með vorinu. Ari og Emil hafa verið undirbúnir andlega fyrir að deila athyglinni með þriðja aðila. Sjálfur segir Ari að hann ætli sér að hjálpa til með því að halda á þeim litla og með því að hreinsa á honum rassinn þegar á þarf að halda. Sjáum til hvort að hann standi við þetta. Emil segist ætla að gefa honum knús og koss sem verður líklega auðveldara að standa við.

Sem fyrr mun drengurinn fæðast í borginni Cuautla í Morelos ríki þar sem Anel á frænda einn góðan sem mun sjá um aðgerðina en þetta verður keisaraskurður. Vona að allt gangi að óskum eins og með Ara og Emil en þeir eru sérlega vel heppnuð börn (að eigin mati). Forvitnir geta litið hér við eftir um eina viku til að fylgjast með framvindu mála.

Tags:

Brakandi ferskt ár

Hér er víst komið nýtt ár 2011. Ekkert sérstaklega fallegt ártal en bind samt miklar vonir við þetta ár. Ég vona að allir sem muna eftir mér hafi haft það gott um jól og áramót. Hérna voru jólin frekar í daufari kantinum þetta árið en maður kvartar ekkert yfir því.

Ákveðin tímamót verða hjá okkur um þessa dagana. Von er á þriðja drengnum í þessum mánuði og allt gengur það vel hjá Anel. Höfum þegar ákveðið að gefa ekkert upp um nafngiftir fyrr en drengurinn verður skráður hér opinberlega en líklega er amk fyrra nafnið þegar fundið, sjaldgæft nafn sem þekkist vart á Íslandi en er þó skráð hjá Mannanafnanefnd.

Rekstur tannlæknastofunnar gengur sífellt betur og konan hefur bætt við sig diplómu í tannígræðslum. Þessar tannígræðslur eru sænskar að uppruna og ganga undir nafninu Nobel. Þetta mun vera nýjasta nýtt í tannlækningum, í stað þess að fá falskar eru nýjar tennur skrúfaðar upp í kúnnana og eru jafnvel betri en þær upprunalegu.

Auk Anelar vinna nú sex manns hjá okkur þar af tvær í fullu starfi við aðstoð og markaðssetningu. Hinir fjórir eru tannlæknar sem koma ýmist á vissum dögum eða part úr degi. Þetta fer því að verða alvöru bisness og markmiðið er að opna nýja tannlæknastofu á þessu ári.

Við höfum einnig verið að vinna í öðrum verkefnum, ekkert þó komið enn sem kalla má áþreifanlegt en það breytist vonandi í þessum mánuði þar sem pantanir voru gerðar fyrir nokkrum vikum. Vil eiginlega ekki gaspra meira um þessi verkefni þangað til við verðum komin með eitthvað í hendurnar.

Vona að þetta verði betra bloggár en síðastliðin ár en það kemur í ljós með tímanum.

Gleðilegt nýtt ár öll!

Tags: ,

Mexíkanska byltingin 100 ára

Dagurinn í dag (gær) 20. nóvember er dagur mexíkönsku byltingarinnar en sú bylting hófst 1910 og stóð reyndar í töluverðan tíma eftir það. Sú bylting byrjaði sem andóf gegn hinum þaulsætna forseta Porfirio Díaz sem sat í meira en þrjátíu ár á valdastóli og því þjóðfélagi misskiptingar og óréttlætis sem stjórn hans lét eftir sig. Síðar þróaðist byltingin út í allsherjarátök milli stríðandi fylkinga og henni lauk ekki fyllilega fyrr en uppúr 1930 þegar helstu öfl byltingarinnar sameinuðust í einum stjórnmálaflokki sem síðar er þekktur undir skammstöfuninni PRI en sá flokkur hélt völdum allar götur eftir það fram til ársins 2000.

Eins og ég hef áður minnst á þá markar þetta ár einnig þau tímamót að 200 ár eru liðin síðan uppreisnin gegn yfirráðum Spánar hófst hér í Mexíkó þannig að þetta ártal er mikilvægur áfangi hér í landi.

Sum dagblöðin hér í landi hafa bent á að litlu sé hér að fagna. Mexíkanskt þjóðfélag er þjakað af misskiptingu auðs, félagslegu óréttlæti og mikilli spillingu auk þess sem að átök á milli glæpagengja færast í aukana með hverju árinu. Sjálfur tel ég þó að framtíð Mexíkó geti orðið nokkuð björt, sérstaklega ef tekst að koma einhverjum böndum á þessa smákónga í dópinu. Þrátt fyrir allt þá virðist hér vera töluverð viðleitni til að bæta ástandið og landið sjálft er mjög auðugt frá náttúrunnar hendi.

Fór ekki á neinar hátíðasamkundur þetta skiptið, var upptekinn að vinna og endaði með því þegar ég loks slapp út seint um kvöldið þá var metró stöðin mín lokuð. Því þurfti ég að ganga töluvert lengra til að komast á aðra stöð og bölvaði ég því öllum hátíðahöldum og þjóðernishyggju af því tilefni.

Tags:

Mexíkó 200 ára

Hér í Mexíkóborg hafa gífurleg hátíðahöld staðið yfir þar sem þess er nú minnst að 200 ár eru síðan að sjálfstæðisbarátta Mexíkó, sem þá hét Nýi Spánn, hófst gegn spænsku nýlenduherrunum. Nú er orðið svo framorðið að ég hef ekki orku í að skrifa meira um þessa merkilegu daga en vonandi gefst mér tími til þess síðar.

¡Viva México!

Tags:

Þegar ég tók þátt í útrásinni

Allar götur síðan að íslenska efnahagsundrið snérist upp í andhverfu sína haustið 2008 og varð að íslenska efnahagsviðundrinu hefur mikið gengið á heima á Fróni. Síðustu misserin hefur allt snúist um hverjum var þetta að kenna og að sjálfsögðu sýnist þar sitt hverjum. Nýverið kom út mikil skýrsla um hrunið frá rannsóknarnefnd Alþingis sem mér skilst að hafi vakið mikla lukku hjá mörgum þar sem margir fyrrverandi góðborgarar fengu orð í eyra. Það er dálítið sérstakt að fylgjast með þessu öllu saman utan frá hér í Ameríku. Til dæmis frá því í febrúar hef ég ekki mikið verið í netsambandi og því hef ég heyrt stopular fréttir af þessum ósköpum sem virðist engan endi ætla að taka.

En til að komast út úr þessu ástandi er nauðsynlegt að uppgjör við þessa tíma fari fram og ég ætla mér því að fara fram með góðu fordæmi og skýra frá mínum þætti í útrásinni.

Mín þátttaka var bundinn við ákveðinn atburð einn fagran og sólríkan vordag hér í Mexíkóborg í mars 2008. Þá kom forseti Íslands í opinbera heimsókn ásamt miklu föruneyti og sendiherra Íslands í Bandaríkjunum hélt móttöku og bauð öllum Íslendingum búsettum hér í kokteil boð. Þarna voru meðferðis bisness fólk frá íslensku bönkunum ásamt fleirum. Merkilegast var fyrir okkur að hitta Magnús Scheving sem var að kynna Latabæ.

Eitt af því sem maður ætti aldrei að gera er að reyna að rifja upp hugsanir og tilfinningar frá löngu liðnum atburðum. Held að það sé óhjákvæmilegt að bankahrunið liti eitthvað minningar mínar af þessum degi en ég held að ég ljúgi engu þegar ég segi að mér kom þetta allt undarlega fyrir sjónir. Þegar forsetinn kom hingað til Mexíkó var ég við hávísindaleg störf við UNAM háskóla en sá skóli hefur um 300 þús nemendur sem er u.þ.b. íbúafjöldi Íslands. Nefni þetta sem dæmi til að bera saman þessi tvö lönd.

Kokteilboðið var haldið á einu fínasta hóteli borgarinnar í Oaxaca-salnum, man ég. Þar hitti ég sjálfan Ólaf Ragnar ásamt sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. Verð að viðurkenna að ég man ekki alveg hvur það var en það var einhver innvígður í Flokknum. Þarna hitti maður nokkra bankamenn en á þessum tíma var Ari við það að stíga fyrstu skrefin og fór mikill tími í að hjálpa honum að ganga um sem á þessum tíma var það eina sem hann vildi gera. Missti því dálítið af þessum viðburði en hafði þó tíma til að tala við nokkra bankamenn og spjallaði við nokkra frá Landsbankanum. Man ég var að hugsa hvað Landsbankinn ætlaði sér nú að gera í Mexíkó. Reyndar eru góð fjárfestingartækifæri í þessum heimshluta enda er þetta land víst skilgreint sem „emerging market“. Kannski ætluðu þeir að bjóða Mexíkönum upp á Icesave, hver veit.

Þáverandi menntamálaráðherra var líka með í för sem eftir hrun hefur löngum verið kennd við kúlulán. Man hún blikkaði Ara aðeins þegar þau tvö fóru á sama tíma í snakk skálina. Dorrit forsetafrú var þarna líka og hún talaði einna mest við okkur enda ágætis kerling. Fleiri nafnkunna menn þekkti ég ekki enda ekki mikið inn í málunum á Íslandi og langt um liðið síðan ég hafði skoðað Séð og Heyrt. Kannski voru einhverjir frægir bindiskarlar þarna sem nú bíða eftir kærum frá sérstökum saksóknara.

Á þessum tíma var farið að hrikta aðeins í stoðum íslensks efnahags, krónan var eitthvað farin að lækka þótt að það hafi þá ekki verið neitt til að tala um miðað við það sem á eftir fór. Verðbólgan var á uppleið og stöðugt komu einhverjar vondar fréttir um bankana. Eitthvað sem kallast tryggingarálag var mikill höfuðverkur á þessum tíma en var fyrir mér hugtak sem ég hafði aldrei heyrt áður.

Í minningunni var ég því skeptískur á þetta allt saman en kannski er það fölsk minning eftir allan gauraganginn í kringum hrun bankanna um hálfu ári síðar. Þetta var víst eitt af þessum kokteilboðum sem ritstjóri Morgunblaðsins talaði um síðar að forsetinn hafði verið marenaður í af útrásarvíkingum. Held reyndar að þetta boð hafi verið í boði íslenska ríkisins en hvað veit maður svo sem?

Þarna át maður snittur og drakk gos í góðu yfirlæti rétt fyrir ragnarök íslenska góðærisins. Jafnvel þótt ég ætti eftir að búa hér í Mexíkó allt til æviloka þá býst ég ekki við því að sjá forseta Íslands hér aftur með viðskiptaföruneyti sér við hlið. Reyndar voru þetta mjög abúrd tímar og ég er helst feginn að þeir séu liðnir og vonandi koma þeir aldrei aftur. Árin þegar nokkrir Íslendingar ætluðu sér að vera stórir kallar og gera litlu krúttlegu bankana heima að einhverjum alþjóðlegum tröllabönkum og mistókst það svo herfilega að það tekur amk áratug fyrir íslensku þjóðina að rétta sig af eftir það rugl.

Þetta er mitt uppgjör við íslensku útrásina, eina skiptið sem hægt er að segja að ég hafi tekið beinan þátt í því ævintýri. Mér líður betur að hafa játað þetta fyrir ykkur og hvet nú alla til að gera upp við sinn hlut í útrásinni og hruninu svo að íslenskt samfélag geti rétt sig við sem fyrst, bæði efnahagslega og andlega.

Tags: , , , , , ,

Tengdur á ný

Loksins tókst að finna nýtt hleðslutæki fyrir Makka konunnar og ég er því kominn í samband við umheiminn á ný. Reikna má því með margföldum afköstum hér á blogginu þar sem ég er mættur með íslenskt lyklaborð sem ég hef sárlega saknað undanfarið.

Annars er ekki mjög margt í fréttum héðan frá Mexíkóborg. Gerðist svo frægur á sunnudaginn að horfa á heilan fótboltaleik sem gerist ekki oft. Horfði á mína menn Mexíkana bíða lægri hlut fyrir Argentínumönnum sem var að sjálfsögðu óverðskuldað og skrifast tapið á blinda dómara og línuverði sem gáfu Argentínu fyrsta markið þrátt fyrir óskammfeilna rangstöðu. Held samt að héðan í frá verði ég að halda með Argentínu, það er bara svo skemmtilegt að sjá sjálfan Maradona mættan aftur til leiks.

Hér hefur að sjálfsögðu verið vel heitt í maí og júní þar sem hitamælirinn fer hátt upp í fjörtíu gráðurnar á daginn. Yfirleitt slær það á hitann þegar regntímbilið hefst í júní en það hefur ekki komist almennilega af stað ennþá en það ætti að hafa hafist nú um miðjan mánuðinn.

Ari og Emil stækka og þroskast með hverri vikunni. Emil er farinn að tengja saman orð og að sjálfsögðu byrjaði hann á því að segja „nei pabbi“ eða „nei mamí“ eða „nei Ari“. Greinilegt að hann er ættaður af Snæfellsnesinu. Röddin í þeim stutta er einnig nokkuð sérstök miðað við pjakk sem er um eins og hálfs árs. Anel heldur að hann verði með mikla bassarödd þegar hann stækkar því hún er þegar orðin nokkuð karlmannleg. Svo er ég enn að gera það upp við mig hvort að Ari sé græneygður eða bláeygður, verð að viðurkenna að ég er alls ekki viss ennþá.

En hvað er að frétta af ykkur?

Tags: , , , ,

30

Í gær hafði þessi pláneta sem við búum á farið þrjátíu hringi í kringum sólu frá því að ég fæddist. Merk tímamót vissulega. Mikill munur er á því að vera tuttugu-og-eitthvað eða þrjátíu-og-eitthvað. Alltaf þegar að eitt árið bætist á mann tekur það tíma að venjast því. Held að í þetta skiptið verði aðlögunartíminn sérstaklega langur.

Hef alltaf verið ánægður með það að hafa fæðst á ártali sem stendur á heilum tug. Öll stórafmælin verða því á fallegum ártölum. Tvítugur árið 2000. Nú þrítugur.

Aldrei óraði mig fyrir því að ég ætti eftir að halda upp á þennan afmælisdag í Mexíkóborg. Þetta mun þó vera fjórða afmælið sem ég held hér í bæ. Maí er heitasti mánuður ársins hér í landi og því er alltaf hægt að stóla á gott veður á afmælisdaginn. Hitinn yfir daginn fer upp undir 40 gráðurnar. Þessi hiti er þó alveg hættur að angra mig, er orðinn vanur því að búa á suðlægum slóðum líklega.

Margir halda í kjölfar færslu sem birtist hér í mars að ég sé atvinnulaus. Leiðrétti þann misskilning hér með. Fékk aftur vinnu á sama vinnustað sem er í eigu Carlos Slim. Velti því stundum fyrir mér hvort aðrir Íslendingar vinna fyrir þann mikla kaupsýslumann.

Vinn fyrir mér sem skrifstofublók á kaupi sem fáum þætti boðlegt. Maður lætur sig þó hafa það meðan ég leita að einhverju betra. Það eru víst ekki alltaf jólin, sérstaklega á krepputímum.

Ég er í heildina séð nokkuð ánægður með lífið og tilveruna. Fallega konan mín er alltaf góð við mig og drengirnir einstaklega vel heppnaðir í alla staði. Kátir og heilbrigðir snáðar. Bisnessinn hjá konunni er á svo mikilli uppleið að annað eins hefur ekki sést síðan að útrásarvíkingarnir voru og hétu. Rétt er þó að taka fram að okkar bisness er mun betur rekinn en hjá þeim síðastnefndu.

Sakna þess þó að vera ekki starfandi líffræðingur eins og maður stefndi að. Hef að sjálfsögðu ekki gefist upp á því en það er erfitt í þessu landi að fá störf í þeim geira. Líftækniiðnaðurinn er líka mest í öðrum borgum hér en það er ekki mögulegt fyrir okkur að flytja eins og sakir standa.

Fyrir utan það er ég sáttur við lífið og tilveruna. Eins og ég hef vikið að áður þá er ég afar feginn að hafa ekki lent í óðærinu á Íslandi og sit því ekki uppi með óseljanlega íbúð sem keypt var á yfirverði eða bíl á myntkörfuláni. Valdi líklega rétta tímann til að flytja af landi brott.

Hvað tekur við á næstu árum er auðvitað ekkert sem maður getur spáð um. Kannski verður kreppan svo slæm að við eigum öll eftir að stunda mannát og sjálfsþurftarbúskap næstu árin. Kannski er kreppan í rénum (eins og margt bendir til) og uppsveifla handan við hornið. Veit þó að einhvern daginn munum við flytja héðan og fara aftur til hins vestræna heims. Hvaða land það verður veit nú enginn, sjáum til með það.

Á marga vini og kunningja sem eru að fara yfir 30 ára múrinn þessi misserin. Óska þeim öllum til hamingju með áfangann, þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af.

Tags: ,

Lengi er von á einum

Ég er ekkert hættur bloggi ef aðdáendur mínir voru farnir að óttast það. Tölvan mín var send í yfirhalningu og á sama tíma dó endanlega rafhlaðan í Makka konunnar þannig að við vorum sambandslaus um hríð.

Makkinn er kominn í gagnið en hann er yfirleitt ekki hér heima við þannig að ég sit nú á netkaffihúsi og pìkka þetta inn. Bloggið má ekki sálast þótt að tölvurnar bregðist.

Annars er ekki mikið um að vera í Mexíkó. Vinn eins og skepna daginn út og inn og allar helgar. Líklega er það eins og það á að vera.

Hef aftur blogg þegar sambandið verður orðið skikkanlegra. Nenni ekki að blogga án íslensks lyklaborðs.

Tags: ,

Yfirvofandi borgarastyrjöld?

Nei, ekki á Íslandi. Fólk er svo siðmenntað og dannað þar, því dettur ekki í hug að fara út á götur með vopn til að plaffa hvort annað niður. Sem betur fer.

Hins vegar er margt í gangi hér í Mexíkó. Einkavæðingardraugurinn er hér í fullu fjöri og nú hefur verið lagt í raforkukerfi landsins. Skömm að segja frá því en ég hef ekki fylgst nógu vel með því máli, verð líklega seint pistlahöfundur á RÚV með þessu áframhaldi.

Hvað sem því líður þá er ástandið mjög eldfimt hér í landi. Einn kúnni Anelar er fréttakona sem hélt því víst fram að borgarastyrjöld gæti verið yfirvofandi. Fólk í fjölmiðlum á víst að vita svona hluti þannig að rétt er að taka þessu alvarlega.

Allavega, ef borgarastyrjöld brýst út í Mexíkó þá lásuð þið það fyrst hér. Sjálfur hef ég mátulega miklar áhyggjur af þessu í bili, er hvort eð er hálfgert stríðsástand hér þar sem baráttan er afar hörð á milli eiturlyfjasala og hersins. Þetta er þó ekkert sem maður verður var við í þessu daglega lífi hér. Kannski fer væntanleg borgarastyrjöld fram hjá manni líka.

Tags: