Posts Tagged ‘Kúba’

Vegabréf

Ég og strákarnir urðum okkur úti um íslensk vegabréf og fengum þau send í pósti heim í sveit. Þetta er allur munur og nú verður ekkert vesen í kringum vegabréf eða vegabréfsáritanir allavega næstu fimm árin. Ungir menn eins og Ían fá einungis vegabréf til eins árs í senn í Mexíkó og íslensk vegabréf eru að auki ódýrari sýnist mér.

Þar sem við verðum (vonandi) mikið á ferðinni til Íslands liggur beinast við að notast við Bandaríkin sem stoppistöð en þar er betra að hafa Visa Waiver vegabréf á borð við þau íslensku. Það er nefnilega alls ekki sjálfgefið fyrir Mexíkana að fá útgefna vegabréfsáritun til hinna miklu Bandaríkja Norður-Ameríku. Ég veit mörg dæmi þess að fólki hafi verið hafnað um áritun án haldbærrar ástæðu. Ákaflega sérstakt hjá þessu tiltekna ríki að geta meinað fólki inngöngu án þess að það hafi í rauninni gert nokkuð af sér.

Ég notaði gamla vegabréfið í fjórum heimsálfum, ég á ekki von á því að það nýja verði jafn víðförult en þó er aldrei að vita.

Okkur langar að fara næst til Kúbu og verður það vonandi fljótlega þar sem við þurfum einungis að borga flugið. Kúbverskt vinafólk ætlar að hýsa okkur en við kynntumst pari þaðan þegar þau voru í ófrjósemismeðferð í Mexíkóborg sem kúbverska ríkið borgaði undir þau (!). Meðferðin heppnaðist með miklum ágætum og þeim fæddist stúlka sem fékk nafnið Anel eftir minni ektafrú og því er nauðsynlegt að heimsækja litlu Anel á Kúbu. Fer ekki hver að verða síðastur að sjá Kúbu undir kommúnistastjórn?

Tags: ,

Brjóstmylkingar

Emil Sær er alveg við það að falla úr flokki brjóstmylkinga (skelfilega er þetta erfitt orð). Hefur ekki fengið sopa frá mömmu sinni í tvo sólarhringa og fær þá væntanlega aldrei nokkuð meir mjólkurkyns úr þeirri átt. Gott að þessum hluta er lokið, eitt af þessum stóru skrefum í lífi ungbarna. Hann er einnig farinn að labba meðfram veggjum og húsgögnum en það er enn eitthvað í að hann fari að ganga sjálfur óstuddur.

Annars eru drengirnir báðir ljúfir og góðir, höfum verið einstaklega heppin með þá báða. Heilsuhraustir og kátir piltar. Reyndar fékk Emil einhvern vírus um daginn og fékk leiðinda bólur á andlit, handleggi og fætur. Þær eru reyndar að hörfa en hann hefur haft þær í u.þ.b. þrjár vikur. Anel fór með drenginn til læknis og hann sagði henni hvaða veira var þar að baki en hún gleymdi síðan nafninu þegar heim var komið, veirufræðingi heimilisins til mikilla vonbrigða. Þetta var víst ekkert hættulegt, eitthvað sem líkaminn ræður sjálfur fram úr með tímanum.

Talandi um brjóstmylkinga (tungan á mér fer í hnút við að segja þetta) þá fékk Anel kúnna um daginn frá Kúbu. Talið barst að brjóstmylkingum (eeerrrgh) og Kúbverjinn fræddi hana um þá skemmtilegu staðreynd að hann drakk móðurmjólkina fram að tólf ára aldri. Þetta finnst mér eiginlega sjúkt, get ekki að því gert. Hver vill hafa tólf ára krakka á brjósti? Hann sagðist alltaf hafa fengið sopann sinn þegar hann kom úr skólanum og líkaði það vel.

Svo þegar hann var fimmtán ára þá gifti hann sig. Hann fór semsagt úr einu parinu yfir í annað. Ætli það sé ekkert til á Kúbu sem heitir unglingsár? Held reyndar að þetta sé ekki normið á Kúbu en hvað veit maður svosem hvað þessir kommúnistar aðhafast?

PS. Velti því fyrir mér hvað ég fæ margar aukaheimsóknir frá BloggGáttinni fyrir að nefna brjóst í fyrirsögn.

Tags: , ,