Posts Tagged ‘kreppan’

Grikkir

Ég er kannski illa innrættur en ég varpa öndinni léttar eftir að í ljós kom að það fannst í Evrópu þjóð sem slær Íslendinga út í fjármálaóreiðu og öllu því apaspili. Var reyndar að heyra það að eitt slagorðið sem hrópað er í Aþenu þessa dagana er „Ekki Ísland!“. Segir sitt um stöðu Íslands í dag en ég held að það sé einum of seint fyrir Grikkina að stunda þessar upphrópanir. Þeir eru það djúpt sokknir. Evruþjóð að leita á náðir AGS, þvílík niðurlæging.

Annars er ég orðinn hundleiður á þessari kreppu, fer ekki góðærið að koma rétt bráðum?

Tags: ,

Bjartsýnin eykst

Veit það ekki, ég er að verða bjartsýnni á að Hrunið verði gert upp heima á klakanum fyrir fullt og allt. Alltaf er einhver óhroði að fljóta upp á yfirborðið og nýjar upplýsingar um framferði útrásarvíkinga og pólitískra klappstýra þeirra frá gróðæristímanum koma nánast daglega.

Fólk er svo óþolinmótt, vill að allt verði gert upp einn, tveir og þrír. Rétt eins og það sé eitthvað einfalt mál að rekja upp alla þræðina í íslenska efnahagsviðundrinu. Það þarf að gera þetta af yfirvegun og án þess að hefja nornaveiðar. Mér sýnist að þetta stefni í rétta átt núna eftir allt aðgerðaleysið og ringulreiðina sem ríkti meðan ríkisstjórn Geirs Haarde fór með völd.

Held líka einnig að allir þessir tugmilljarðar sem að sögn var stungið undan af útrásardrengjunum eigi eftir að koma í leitirnar einn góðan veðurdag. Hlýtur það ekki að vera, ekki eyddu þeir öllum þessum peningum í kampavín og Elton John? Þá verður það fjármagn þjóðnýtt og sett upp í skuldirnar, þá verður þetta allt í góðum gír á nýjan leik.

Mér er ekki viðbjargandi, ég geri mér grein fyrir því.

Tags: ,

Hvaða svikamylla var í gangi í síðari heimsstyrjöld?

Mest lesna fréttin á Vísi.is er þessi hér sem hefst á svohljóðandi orðum:

Íslenska útrásin er stærsta svikamylla Evrópu frá síðari heimsstyrjöld – jafnvel þótt ekki nema 10% af þeim þeim ásökunum sem nú liggja í loftinu haldi vatni, fullyrðir danska stórblaðið Berlingske Tidende í dag.

Kannski er þetta kjánaleg spurning en hvaða svikamylla var í gangi í síðari heimsstyrjöld? Teljast Hitler og co ein slík?

Tags: , , ,

Flókinn heimur

Enn og aftur sannast fáfræði mín í peningamálum. Ég skil hreinlega ekki alveg þessa atburðarrás með Icesave draslið. Einhverjir gúbbar, sem héldu að þeir gætu rekið banka, byrjuðu að bjóða fólki í útlandinu að leggja inn peninga hjá þeim á svaka vöxtum. Síðan eyddu þeir öllum peningunum sem þeir fengu í vitleysu. Landsbankinn fer á hausinn og ríkið tók yfir leifarnar og stendur uppi með 640 milljarða (!) skuld frá áðurnefndum gúbbum við breska (fyrrverandi) sparifjáreigendur.

Ríkið þarf semsagt, samkvæmt drögum að samkomulagi, að standa í því næstu 15 árin að borga Bretum peninga sem nokkrir fávitar sviku þá um. Vegna þess að fávitarnir fæddust á Íslandi, illu heilli, þá eru samborgarar þeirra skyldugir til að borga skuldir þeirra. Það toppar þetta svo alveg að títtnefndir fávitar séu flestir með eignir sínar í einhverjum skattaskjólum í útlandinu svo að þeir þurfi ekki að borga skatta á Íslandi eins og einhverjir bjánar. Skattarnir fara jú núna í að borga skuldir þeirra, ekki séns að þeir taki þátt í svoleiðis rugli.

Held að það sé rétt sem einhver sagði að best hefði verið í ljósi aðstæðna að láta bankaræflana fara á hausinn síðastliðið haust og láta lánadrottna þeirra um að bítast um leifarnar. Varla hefði það getað orðið verra?

Tags: ,

Hvað ef?

Hvað ef? spurningar geta verið áhugaverðar. Ég hef undanfarið verið að velta því fyrir mér hvað hefði orðið um mig ef ég hefði aldrei hitt konuna mína elskulega í Svíþjóð. Líkleg atburðarás er einhvern veginn svona:

  • Í stað þess að gera lokaverkefni mitt í Mexíkó árið 2007 hefði ég líklega gert það á Íslandi.
  • Mögulega hefði mér tekist að ramba á einhverja atvinnu í faginu það sama ár.
  • Fullur af eldmóð og bjartsýni á íslenska efnahagsundrið hefði ég eflaust fest kaup á íbúð á fyrri hluta árs 2008. Maður varð jú að kaupa sér íbúð, annars tapaði maður peningum því þær eru alltaf að hækka í verði.
  • Aldrei að vita nema einn bíll á gríðarhagstæðu myntkörfuláni hefði dottið inn líka. Ég meina það, lán án verðbóta. Hversu ljúft er það?
  • Almennt séð hefði ég eflaust borðað of mikið af góðum og óhollum mat og væri líklega um 15 kílóum þyngri en ég er í dag.

Svo hefði hrunið komið. (Ég geri ekki ráð fyrir því að flutningur minn til Mexíkó hafi valdið þeim fiðrildaáhrifum að íslenska hagkerfið riðaði til falls.) Nýja íbúðin mín í 101 hefði fljótt orðið verðminni en lánið sem ég tók fyrir henni og há verðbólga sá um að ýkja muninn verulega upp. Myntkörfulánið hefði breyst í martröð og líklega hefði ég misst vinnuna eins og svo margir félagar mínir á mínum aldri.

Kannski hefði þetta endað með því að ég hefði hrökklast aftur í foreldrahús og orðið sauðfjárbóndi vestur á Snæfellsnesi. Í rauninni væri hægt að gera margt verra, segi það ekki. Líf í sveit hefur marga kosti.

Einhvern veginn sé ég mig þannig fyrir mér í þessari hliðstæðu tímalínu. Feitur, hálf-atvinnulaus, blankur, búandi heima hjá mömmu og pabba og síðast en ekki síst; alveg örugglega einhleypur og barnlaus.

Ég á aldrei eftir að sjá eftir því að hafa flutt til Mexíkó. Það er nokkuð ljóst. Þrátt fyrir að lífið hér hafi reynst mér erfiðara fjárhagslega en ég bjóst við þá er ég hamingjusamur hér úti með konunni og sonunum tveim.

Þetta þýðir þó ekki að við ætlum okkur að vera hér í Ameríku til eilífðarnóns. Vorum t.d. um daginn að athuga hvað erlendir tannlæknar þurfa að gera á Íslandi til að fá starfsréttindi þar og það virðist ekki vera mikið mál. Við gerum enn ráð fyrir því að snúa aftur einn góðan veðurdag þegar versta hrunið verður um garð gengið. A.m.k. að flytja til Norðurlandanna til að byrja með.

[Mér líst annars ekki á þessa þróun í blogginu, orðið alltof persónulegt undanfarið. Reikna með að skrifa eingöngu um umhverfismál og pólitík fram á haustið.]

Tags:

Í prófkjör í boði bankanna

Egill Helgason hittir naglann rækilega á höfuðið hér varðandi „styrki“ stórfyrirtækja handa stjórnmálamönnum í prófkjörum.

Og eins er það með prófkjörin. Frammámaður í stjórnmálaflokki sem gjörþekkir kerfið sagði mér nýlega að nánast enginn sem hefði farið í dýrt prófkjör síðustu ár hefði gert það án þess að fá væna styrki frá bönkunum. Það sé ein ástæðan fyrir því að margir stjórnmálamenn séu eins og múlbundnir þegar kemur að því að ræða málefni bankanna, velgjörðamanna sinna.

Nú fylgist ég einungis með íslensku samfélagi úr fjarlægð en mér hefur einmitt fundist einkennilegt hversu þöglir margir pólitíkusar hafa verið um bankahneykslið heima. Hér er auðvitað komin skýringin á því.

Annars hlakka ég til eins og barn til jólanna eftir næstu skoðanakönnun að heiman eftir að FLokkurinn var afhjúpaður.

Tags: , ,

Skortur á gagnrýnni sjálfstæðri hugsun

Í kjölfar efnahagslægðar um víða veröld eru margir í leit að blóraböggli. Margir benda á frjálshyggju sem sökudólginn í þessu máli, aðrir bregðast hinir verstu við og segja skort á frjálshyggju vera vandamálið. Sú frjálshyggja sem hefur verið stunduð undanfarið, t.a.m. á Íslandi, var ekki sönn og tær frjálshyggja að þeirra mati.

Óhjákvæmlega vakna minningar um fall kommúnismans og gömlu Sovétríkjanna. Margir sögðu þá að alvöru kommúnismi var ekki stundaður þar eystra og því ekki marktækt hvernig allt fór þar norður og niður. Skortur á alvöru kommúnisma var vandamálið.

Í raun og veru get ég alveg tekið undir með þessum báðum sjónarhornum. Rétt er að aldrei hefur verið til þjóðfélag grundvallað á hreinræktuðum kommúnisma né frjálshyggju. En það er ekki hægt að neita því að gömlu Sovét kommarnir kenndu sig við kommúnisma og að minnsta kosti á upphafsárum Sovétríkjanna var reynt að fylgja kenningunum. Sama má segja um frjálshyggjuna. Efnahagsstefna margra Vesturlanda tók mið af henni og fylgdi henni eftir. Margir þökkuðu aukinni frjálshyggju efnahagsframfarir á Íslandi síðustu 15 árin og nægir þar að nefna höfðuðskáldið Hannes Hólmstein.

Nú þegar blekkingarleiknum er lokið og í ljós hefur komið að íslenska efnahagsundrið var aldrei neitt annað en viðundur þá bakka menn og segja frjálshyggju hafa skort. Sá t.d. eitt komment hér hjá Guðmundi á Eyjunni þar sem því er harðlega mótmælt að til sé eitthvað sem heitir öfga-frjálshyggja því sú stefna er svo hrein og fögur að hún verður aldrei að öfgum.

Ég held að þetta gæti verið kjarni málsins, algjör skortur á gagnrýnni hugsun um þau hugmyndakerfi eða hagfræðikenningar sem þetta lið aðhyllist. Einhvern veginn er búið að fastsetja kenninguna sem algilda og ávallt rétta. Allri gagnrýni er sjálfkrafa vísað á bug, umræðum um þetta er lokið.

Mér leiðast oft samlíkingar við trúarbrögð en í þessu tilfelli verður varla hægt að líta fram hjá þeim. Líkt og í trúarbrögðum kemur allt gott frá því sem aðhyllst er en það vonda er öðrum að kenna. Þegar flugvél nauðlendir og farþegar bjargast var guð þar að verki, þegar flugvél ferst með manni og mús kemur guð hvergi þar nálægt. Þegar uppgangur er í þjóðfélaginu er það kenningunni að þakka, þegar kreppan kemur eru það andstæðar kenningar sem skemma fyrir hinni tæru lífssýn.

Ég verð að segja það að mér hundleiðist fólk sem virðist hafa fest sig í einhvers konar hugmyndafræðilegum ramma og allt sem viðkemur hagfræðilegum eða þjóðfélagslegum málum er skoðað innan þess ramma. Fólk sem heldur að finna megi einhvers konar algildan sannleika um efnahagsmál í bókum eftir Marx eða Friedman. Kreddupólitíkusar, fólk sem stundum virðist vera ófært um sjálfstæða hugsun, hvað þá gagnrýna. Fer bara eftir formúlunni.

Kannski er það leiðinlegra að vera pragmatískur en ég held að meira kommon sens hafi átakanlega skort heima á Íslandi undanfarin ár og áratugi. Maður les sögur um hvernig útrásarvíkingarnir höguðu sér og maður er eiginlega orðlaus, þeir voru í raun eins og fíklar í hegðun. Algjörlega stjórnlausir auk þess að vera siðlausir. Hvað sem segja má um frjálshyggju í sjálfu sér þá held ég að áhrif hennar í íslenskri pólitík hafi opnað leiðina fyrir sukkið og síðar meir hrunið þarna heima.

Fyrst og fremst er þó fólki um að kenna, heimsku gráðugu fólki sem ofmetnaðist og rann á rassinn með allt saman. Hugmyndafræði gerir ekki neitt af sér ein og sér, það þarf fólk til að framfylgja henni og að því ætti gagnrýnin helst að beinast. Ekki að hvaða útóbíukenningum það hefur valið sér sem kennisetningu.

Tags: , , ,

Radiohead settir á ís

Í kreppunni er allur óþarfi skorinn við nögl. Radiohead ætla að halda tónleika hér í borg þann 15. og ég hefði ekkert á móti því að mæta. En það verður líklega að bíða betri tíma.

Mér dettur varla í hug sú grúppa sem ég vildi sjá á sviði frekar en Radiohead. En lífið er tík eins og máltækið segir. Konan ætlaði að splæsa í miða þótt hún sé ekki aðdáandi en ég þvertók fyrir það. Hef verið ótrúlega hagsýnn á þessum síðustu og verstu.

Þeir koma örugglega aftur hingað einhvern daginn. Nú eða við eltum þá uppi hvar sem þeir verða.

Tags: ,

Góð hagfræði?

Ég veit skammarlega lítið um hagfræði en einhvern veginn efast ég um þessar miklu aðgerðir sem stjórnvöld víða um heim standa í þessa dagana. Mér skilst að reynt sé að gera öfugt við það sem gert var í heimskreppunni á millistríðsárunum, þ.e. að draga úr fjármagni í umferð vegna aðhaldsaðgerða þess opinbera. Þess í stað á nú svoleiðis að dæla peningum úr ríkiskössunum og seðlabönkunum inn í kerfið og þá á allt að fara á fullt á nýjan leik.

Innspýtingarnar í Bandaríkjunum eru nú samanlagt komnar í upphæðir sem mældar eru í trilljónum dollara og önnur ríki eru einnig að setja umtalsverðar fjárhæðir í alls kyns lífgunartilraunir. Nema kannski Ísland sem á enga peninga í svona tilraunir.

Ég hreinlega veit það ekki, einhvern veginn held ég að þetta eigi ekki eftir að virka þótt ég sé yfirleitt frekar bjartsýnn maður. Bankar um heim allan komu sér sjálfir í þessi vandræði og þetta ætti að vera þeirra vandamál, ekki skattborgara. Illa reknir bankar hefðu frekar átt að fara beina leið á hausinn, vera teknir til gjaldþrotaskipta og leystir upp.

Á vald.org segir í nýlegri grein um aðgerðir ríkisstjórnar Obama:

Tölfræðilega er dæmið alveg út í hött. Ef öll hlutabréf Citigroup, JP Morgan Chase og Bank og America hefðu verið seld núna í byrjun vikunnar þá hefði samanlagt verð þeirra verið $158 milljarðar. Á sama tíma er ríkið að styðja þessa þrjá banka með lánum og skuldbindingum upp á $250 milljarða og sú tala fer upp í $500 milljarða ef staða þeirra versnar. Og nú eru enn meiri peningar á leiðinni!

Það liggur í augum uppi að aðilar sem hafa fjárfest í hlutabréfum þessara banka eru í raunveruleikanum búnir að tapa svo til öllu. Án skattgreiðenda væri fjárfestingin löngu glötuð. Þannig ganga hlutirnir fyrir sig á frjálsum mörkuðum, menn græða á sumum fjárfestingum og tapa á öðrum. Þegar svona staða kemur upp þá á ríkið að þjóðnýta bankana strax og gera útistandandi hlutabréf verðlaus. Þetta er sænska leiðin. Næsta skerf er svo að taka alla vandræðapappíra út úr þessum bönkum og mjatla þeim út á markaðinn á einhverju verði. Þegar bankarnir eru lausir við allt ruslið þá braggast þeir fljótt aftur og ríkið selur þá á frjálsum markaði.

Þótt þetta sé vissulega dýrt í framkvæmd þá er þessi leið ekki aðeins ódýrara en sú sem nú er í gangi, heldur flýtir hún líka gífurlega fyrir nýjum uppgangstímum í hagkerfinu. Með því að ausa peningum árum saman í hálfdauða banka þá er hins vegar verið að tryggja þráláta efnahagslægð. Japanir gengu þessa píslagöngu eftir 1990 og kalla það týnda áratuginn. #

Þetta hljómar ekki ósennilega fyrir mér. Ég held að það hafi verið nær fyrir ríkisstjórnir að sjá til þess að fólkið geti þraukað kreppuna með t.d. atvinnuleysisbótum og niðurgreiddri félagslegri þjónustu. Að prenta peninga og dæla þeim svo út um allt, eins og úr góðri haugsugu, er örugglega ekki það skynsamlegasta í stöðunni.

Annars er ég belja á hálum ís í svona umræðum og segi ekki meira að sinni.

Tags: , ,

Pólitísk pólskipti

Áhugavert er að fylgjast með breytingum sem eru að verða í kjölfar efnahagskreppunnar, kannski sérstaklega á Íslandi. Margt það sem var sagt og skrifað fyrir hrunið og þótti ekkert athugavert þá verður nú aðhlátursefni um alla framtíð. Margtuggnar klisjur um dásemdir útrásarinnar, einkavæðingarinnar og einkaframtaksins, sem voru endurteknar svo oft að jafnvel ég var farinn að taka hluta þeirra sem viðteknum sannindum, hljóma nú eins og lélegar skrýtlur.

Að fletta upp í gömlum greinum eftir helstu hugsuði íslenska efnahagsundursins er nú eins og að lesa gamlar fræðigreinar um hið dularfulla efni flogiston. Allt það sem sagt var um kraft íslenska hagkerfisins reyndist vera hálfsannleikur eða lygi. Tal um þessa ógurlegu dulrænu krafta sem voru víst leystir úr læðingi við einkavæðinguna virkar jafn gáfulega í dag og þeir sem tala um óefnislega krafta í blómadropum.

Allt landslag í efnahagslegri umræðu er gjörbreytt eftir hamfarir síðustu mánuða. Þeir sem áður voru hafðir af spotti og spéi hafa nú fengið uppreist æru en gömlu meistarnir eru nú komnir í gapastokkinn.

Það er að verða einhvers konar pólitísk pólskipti, ekki bara á Íslandi heldur allstaðar. Allt bendir til að hnattræn vinstrisveifla sé í burðarliðnum og hún er reyndar þegar hafin í Bandaríkjunum þaðan sem tískan í póltík kemur. Orðræðan er að breytast og líklega erum við á leið út úr þessu frjálshyggjutímabili sem staðið hefur yfir í um 30 ár.

Mér sýnist því að þrátt fyrir allt séu betri tímar framundan. Vonandi markar þessi kreppa dauða kreddupólitíkusanna og að hugsandi fólk komi í þeirra stað. Fátt er leiðinlegra en bókstafstrúarmenn, sama á hvaða bókstaf þeir trúa.

Tags: