Posts Tagged ‘kosningar’

Kosningar í Mexíkó á morgun

Á morgun er kosningadagur hér í Mexíkó. Verið er að kjósa neðri deild þingsins þar sem sitja 500 þingmenn, þar af 300 kosnir beinni kosningu og 200 hlutfallskosningu. Einnig er kosið í sveitarstjórnarkosningum í 8 ríkjum og að auki í höfuðborginni Mexíkóborg sem hefur sérstöðu hér í landi, er ekki eiginlegt ríki heldur sérstakt stjórnsýsluumdæmi sem heyrir undir alríkisstjórnina. Mér skilst að fyrirkomulagið sé svipað hjá Bandaríkjamönnum með Washington DC.

Þrátt fyrir það er hér einnig borgarstjórn sem er frekar flókin í uppbyggingu eins og gefur að skilja fyrir svo gríðarstóra borg. Mexíkóborg er skipt í 16 umdæmi og hvert umdæmi kýs sinn umdæmisstjóra. Þessar kosningar hafa farið mest í taugarnar á mér undanfarið því það er bókstaflega allt þakið í auglýsingum frá frambjóðendum margra flokka. Einnig er kosið í borgarstjórn fyrir borgina í heild sinni.

Vinstrimenn hafa ráðið borginni nú um langa hríð og því er hér margt frjálslyndari en tíðkast í landinu sjálfu. Sem dæmi má nefna að fyrir tveimur árum fengu samkynhneigðir rétt til að skrá sig í sambúð og konum er leyft að fara í fóstureyðingu undantekingarlaust ef þær óska þess fyrir 12 viku meðgöngu. Í öllum öðrum ríkjum, ef ég hef skilið rétt, eru fóstureyðingar einungis leyfilegar í undantekingartilfellum. Mexíkó er mjög kaþólskt land og því má telja nokkuð gott að þessum réttindum hefur þó verið náð hér í höfuðborginni.

Eitt sem mér finnst nokkuð merkilegt við þessar kosningar að mikið er um auglýsingar í sjónvarpi og víðar frá stofnun sem gæti kannski heitið upp á íslensku Kosningastofnun alríkisumdæmisins. Þessi stofnun sér um framkvæmd kosninganna og hefur hvatt fólk mjög til að mæta á kjörstað og kjósa. Þannig vex okkar lýðræði segja þeir (í beinni þýðingu).

Ég hef ekki nennt að grafa upp tölur um kosningaþátttöku í eldri kosningum en ég gæti trúað því að kjörsóknin sé slök. Stjórnmál hér eru yfirleitt lágt skrifuð hjá almenningi, stjórnvöld njóta ekki trausts enda er spillingin hér eilíft vandamál. Það gæti skýrt þessa herferð til að fá fólkið til að mæta á kjörstaðina á morgun.

Annars verð ég feginn þegar þessu er lokið, auglýsingaflóðið hér fyrir þessar kosningar er með ólíkindum. Ég hef enn ekki fundið neinn flokk til að styðja hér í landi, hef ekki sett mig nægjanlega inn í málefni þeirra. Kemur þó ekki að sök enn þar sem ég hef ekki kosningarétt.

Hélt að ég hafði rekist á mína menn þegar ég sá auglýsingar frá græningjum um daginn en þessi græningjar eru nú eitthvað öðruvísi en þeir sem ég þekki. Eitt helsta stefnumál Partido Verde er að taka aftur upp dauðarefsingar! Aldrei gæti ég kosið slíkt hyski hversu grænt sem það væri.

Tags: , , ,

Svekktur

Nei, ekki yfir kosningunum heima heldur átti ég von á kommentaflóði vegna síðustu færslu minnar. Sjálfum finnst mér staða mín mjög merkileg og jú óheppileg ef út í það er farið. Jæja, Matti nennti þó að setja eina vísun á mig.

Staðan versnar stöðugt. Nú segja yfirvöld hér að 81 hafi látist en sumir segja er að talan sé mun hærri. Kemur í ljós á næstu dögum hvort það tekst að hefta útbreiðslu veirunnar. Allir staðir sem líklegir eru til að draga að fjölmenni s.s. kvikmyndahús, leikhús, íþróttaleikvangar o.s.frv. eru lokaðir. Mjög margir bera andlitsgrímur.

Við erum enn róleg yfir þessu, lítið hægt að gera annað. Allt fer þetta einhvernveginn.

-—-

Er ég annars einn um það að finnast íhaldið hafa unnið stórsigur í kosningunum? Þegar þetta er skrifað hafa um 90% atkvæða verið talin og þeir bláu eru með 23,6% fylgi og 15 þingmenn. Næststærsti flokkurinn. Miðað við allt sem á undan gekk þá mættu þeir teljast góðir að fá 10%. Trygglyndi íslenskra kjósenda er með eindæmum.

Ef vinstristjórninni tekst nú vel upp á næstu fjórum árum þá verða þessi úrslit ekki vera neitt innskot í eilífðina. Frekar má reikna með að þá muni enn frekar fjara undan Sjálfstæðisflokknum, þegar sýnt hefur verið fram á að Ísland geti spjarað sig án hans.

Þetta gæti verið upphafið af valdaferli krata og vinstri manna. Kratar héldu t.d. völdum í Svíþjóð samfleytt frá árinu 1932 til ársins 1976, reyndar ef undanskildir eru þrír mánuðir 1936. Skora á félagshyggjumenn heima að slá þessu við. Þurfa einungis að halda völdum samfleytt allt til 2053. Lítið mál.

Tags: , ,

Ákall til kjósenda Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi

Nú ætla ég ekki að ræða um þá ákvörðun ykkar né annara um að kjósa íhaldið eftir undangegna atburði. Slíkt er efni í aðra umræðu. En hins vegar ef þið munið setja X við D á kjördag gerið þá sjálfum ykkur og öðrum greiða. Strikið út nafn Árna Johnsen.

Alþingi þar sem slíkur maður á sæti hefur nákvæmlega engan trúverðugleika í mínum huga og ég veit að margir eru sammála mér í þvi. Þessi maður sem brást algjörlega öllu trausti sem þingmaður, rændi fjármunum frá þjóðinni og hefur aldrei nokkurn tímann sýnt nokkur merki þess að hann sjái eftir því sem hann gerði, á ekkert erindi í stjórnmál.

Til að endurreisa traust Íslendinga á Alþingi og lýðræðinu þá verður þessi maður að víkja á laugardaginn. Síðustu kannanir sýna að íhaldið fái þrjá menn kjörna í þessu kjördæmi þannig að hæpið er að það náist að setja Árna niður um tvo sæti og út af þingi. En það tókst að lækka hann síðast um eitt og ég held að margir hafi ekki verið meðvitaðir um þennan útstrikunar möguleika og áhrif hans. Ég var það ekki allavega ekki sjálfur.

Reyndar held ég að útstrikanir verði mikið notaðar í þessum kosningum eftir að máttur þeirra kom í ljós fyrir tveimur árum. Annars lítur þetta allt ljómandi vel út í könnunum, verður góð ástæða til að fagna á laugardaginn.

Tags: ,

Kompásinn tekinn

Svona kem ég út í Kosningakompás Moggans. Kemur nokkuð á óvart þetta með Borgarahreyfinguna en ég kýs hana þó ekki þrátt fyrir þetta. Annað kemur lítið á óvart.

Flokkur Samsvörun
Borgarahreyfingin (O) 84%
Vinstrihreyfingin – grænt framboð (V) 76%
Samfylkingin (S) 73%
Lýðræðishreyfingin (P) 66%
Framsóknarflokkur (B) 63%
Frjálslyndi flokkurinn (F) 59%
Sjálfstæðisflokkur (D) 46%

Tags:

Nýir flokkar

Sé það á fréttum heima að nýir flokkar hafa skotið upp kollinum nú þegar styttist í kosningar. Lýðskrumið loðir við þessi framboð, fólk sem reynir að fiska út á óánægju kjósenda með ástandið til að krækja sér í vel launaða innivinnu. Ef það væri nokkur alvara í spilunum hjá þessu fólki þá ætti það að stofna stjórnmálaflokk daginn eftir kosningar til að sýna að hugsjónirnar réðu för hjá því. Þá væri fyrst hægt að trúa því að þetta fólk væri ekki að þessu brölti eingöngu sjálfu sér til framdráttar.

Tags: