Posts Tagged ‘kaþólska’

Golgata-Móri snýr aftur

Enn og aftur hafa páskarnir liðið hjá. Hér í Mexíkó er enginn munaður eins og annar í páskum enda skilst mér að það sé uppfinning verkalýðsfélaga á klakanum. Páskaegg eru ekki hefð hér en þó er hægt að finna þau í ýmsum nýlenduvöruverslunum. Við splæstum í einn súkkulaðiunga með pípuhatt þar sem eggin sjálf voru í dýrari kantinum, svona til að halda í hefðina. Konan vill koma á þeirri hefð á okkar heimili að drengirnir fái að hakka í sig súkkulaðiegg á páskadag að hætti Íslendinga. Ekki kvarta ég yfir því.

Páskarnir sjálfir verða annars alltaf undarlegri finnst manni þótt boðskapurinn sjálfur breytist náttúrulega ekki. Einkasonur guðs var að sögn tekinn af lífi fyrir u.þ.b. 20 öldum á ferlega viðbjóðslegan hátt til að guð gæti fyrirgefið mönnum syndir sínar. Þessi sonur er í ýmsum túlkunum kristinna trúflokka einnig guð þannig að guð framdi sjálfsmorð til að hann gæti fyrirgefið mannfólkinu. Meintur dauðdagi var svo bara allt í plati því síðar reis þessi einkasonur guðs, sem var hann sjálfur, upp frá dauðum alveg sprellfjörugur. Þetta finnst kristnum mönnum alveg ótrúleg fórnfýsi og örlæti.

Í kaþólsku landi eins og Mexíkó hafa menn mikla skreytiþörf. Fyrir utan kirkjuna í götunni minni hafa þeir sett líkneski af Jesú hangandi á krossinum með skælandi Maríu mey fyrir neðan. Rómverska hermenn og lærisveina má þar einnig sjá og svo er Júdas hangandi í snörunni í einu tré með sjálfan Satan haldandi á þríforknum fyrir neðan. Þetta er reyndar árlegur viðburður að sjá þessa sýningu og alltaf er hún jafn ósmekkleg eins og svo margt sem tengist kaþólskunni.

Já páskarnir eru skrítin skepna. Sjálfur kýs ég að halda þá sem vorhátíð og hátíð súkkulaðis. Meint upprisa Golgata-Móra og allur sá draugagangur á ekki við mig. Reyndar held ég að flest skynsamt fólk trúi engu af þessum sögum. Læt Helga Hós eiga lokaorðið um þetta.

Krosslafshræ við láð varð laust
ljótt með kauna aman
til himna eins og skrugga skaust
með skít og öllu saman.

Tags: , , , ,