Posts Tagged ‘Ísland’

Á heimleið

Hér eru að verða mikil tíðindi. Eftir tæp fjögur ár fjarri heimahögum hefur verið sett upp mikil ferðaáætlun og munum við lenda á Fróni í júní.

Þetta hefst 2. júní þegar að Ane fer til Boston en hún á bókaðan kúrs í tannígræðslum þar dagana 4-8. júní. Ég fer með Ara, Emil og Ían ásamt Becky tengdamömmu þann 8. júní til Boston og svo verður farið til Íslands þann 10. júní sem mun vera sunnudagur.

Ég var síðast á Íslandi í ágúst 2008. Þá átti ég eitt barn og ekkert hrun hafði orðið á gamla landinu. Sjálfstæðisflokkurinn réð landi og borg og íslensku bankarnir virtust standa vel. Vægast sagt hefur ýmislegt breyst síðan þá. Synirnir orðnir þrír og Ísland búið að ganga í gegnum algjört hrun fjármálakerfisins, búsáhaldabyltingu og hefur svo haft hreina vinstri stjórn í rúm þrjú ár. Ég missti semsagt að einhverjum viðburðaríkustu árum sem ég man eftir. Hér áður fyrr gerðist aldrei neitt á Íslandi, allavega ekki í samanburði við hrunið. Er að sumu leiti svekkjandi að hafa ekki upplifað þetta en einnig hefur það haft óneitanlega nokkra kosti að hafa staðið fyrir utan á meðan að þessu stóð.

Annars verður það skemmtilegt að sjá fjölskyldu og vini á nýjan leik sem og að sjá hvernig Ísland hefur breyst síðan sumarið 2008. Ég vona að þessi dvöl verði til þess að strákarnir læri meiri íslensku en ég hef alltaf rembst til að kenna þeim eitthvað en þeir hafa ekki hingað til haft mikinn áhuga á bablinu í pabba.

Langtímamarkmiðið hjá okkur er að flytja til Íslands alfarið einn góðan veðurdag. Ég lít á þessa för sem skref í þeirri áætlun, ef maður býr á einum stað í þrjá mánuði á ári þá er hægt að segja að sá búi á tveimur stöðum, ekki rétt? Við stefnum að því að vera á Íslandi í þrjá mánuði ár hvert þangað til við flytjum alfarið. Þetta verður einnig prófraun á bisnessinn okkar góða, hvort að við getum fjarstýrt honum frá annarri heimsálfu og hvort að einhver ágóði verður af rekstrinum fyrir okkur til að lifa af sumarið.

Ef reynslan verður góð þá má búast við því að við getum flutt heim skjótt fyrir fullt og allt en sjáum til hvernig þetta fer allt saman.

Þetta verður gott sumar, engin hætta á öðru.

Tags:

Þegar ég tók þátt í útrásinni

Allar götur síðan að íslenska efnahagsundrið snérist upp í andhverfu sína haustið 2008 og varð að íslenska efnahagsviðundrinu hefur mikið gengið á heima á Fróni. Síðustu misserin hefur allt snúist um hverjum var þetta að kenna og að sjálfsögðu sýnist þar sitt hverjum. Nýverið kom út mikil skýrsla um hrunið frá rannsóknarnefnd Alþingis sem mér skilst að hafi vakið mikla lukku hjá mörgum þar sem margir fyrrverandi góðborgarar fengu orð í eyra. Það er dálítið sérstakt að fylgjast með þessu öllu saman utan frá hér í Ameríku. Til dæmis frá því í febrúar hef ég ekki mikið verið í netsambandi og því hef ég heyrt stopular fréttir af þessum ósköpum sem virðist engan endi ætla að taka.

En til að komast út úr þessu ástandi er nauðsynlegt að uppgjör við þessa tíma fari fram og ég ætla mér því að fara fram með góðu fordæmi og skýra frá mínum þætti í útrásinni.

Mín þátttaka var bundinn við ákveðinn atburð einn fagran og sólríkan vordag hér í Mexíkóborg í mars 2008. Þá kom forseti Íslands í opinbera heimsókn ásamt miklu föruneyti og sendiherra Íslands í Bandaríkjunum hélt móttöku og bauð öllum Íslendingum búsettum hér í kokteil boð. Þarna voru meðferðis bisness fólk frá íslensku bönkunum ásamt fleirum. Merkilegast var fyrir okkur að hitta Magnús Scheving sem var að kynna Latabæ.

Eitt af því sem maður ætti aldrei að gera er að reyna að rifja upp hugsanir og tilfinningar frá löngu liðnum atburðum. Held að það sé óhjákvæmilegt að bankahrunið liti eitthvað minningar mínar af þessum degi en ég held að ég ljúgi engu þegar ég segi að mér kom þetta allt undarlega fyrir sjónir. Þegar forsetinn kom hingað til Mexíkó var ég við hávísindaleg störf við UNAM háskóla en sá skóli hefur um 300 þús nemendur sem er u.þ.b. íbúafjöldi Íslands. Nefni þetta sem dæmi til að bera saman þessi tvö lönd.

Kokteilboðið var haldið á einu fínasta hóteli borgarinnar í Oaxaca-salnum, man ég. Þar hitti ég sjálfan Ólaf Ragnar ásamt sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. Verð að viðurkenna að ég man ekki alveg hvur það var en það var einhver innvígður í Flokknum. Þarna hitti maður nokkra bankamenn en á þessum tíma var Ari við það að stíga fyrstu skrefin og fór mikill tími í að hjálpa honum að ganga um sem á þessum tíma var það eina sem hann vildi gera. Missti því dálítið af þessum viðburði en hafði þó tíma til að tala við nokkra bankamenn og spjallaði við nokkra frá Landsbankanum. Man ég var að hugsa hvað Landsbankinn ætlaði sér nú að gera í Mexíkó. Reyndar eru góð fjárfestingartækifæri í þessum heimshluta enda er þetta land víst skilgreint sem „emerging market“. Kannski ætluðu þeir að bjóða Mexíkönum upp á Icesave, hver veit.

Þáverandi menntamálaráðherra var líka með í för sem eftir hrun hefur löngum verið kennd við kúlulán. Man hún blikkaði Ara aðeins þegar þau tvö fóru á sama tíma í snakk skálina. Dorrit forsetafrú var þarna líka og hún talaði einna mest við okkur enda ágætis kerling. Fleiri nafnkunna menn þekkti ég ekki enda ekki mikið inn í málunum á Íslandi og langt um liðið síðan ég hafði skoðað Séð og Heyrt. Kannski voru einhverjir frægir bindiskarlar þarna sem nú bíða eftir kærum frá sérstökum saksóknara.

Á þessum tíma var farið að hrikta aðeins í stoðum íslensks efnahags, krónan var eitthvað farin að lækka þótt að það hafi þá ekki verið neitt til að tala um miðað við það sem á eftir fór. Verðbólgan var á uppleið og stöðugt komu einhverjar vondar fréttir um bankana. Eitthvað sem kallast tryggingarálag var mikill höfuðverkur á þessum tíma en var fyrir mér hugtak sem ég hafði aldrei heyrt áður.

Í minningunni var ég því skeptískur á þetta allt saman en kannski er það fölsk minning eftir allan gauraganginn í kringum hrun bankanna um hálfu ári síðar. Þetta var víst eitt af þessum kokteilboðum sem ritstjóri Morgunblaðsins talaði um síðar að forsetinn hafði verið marenaður í af útrásarvíkingum. Held reyndar að þetta boð hafi verið í boði íslenska ríkisins en hvað veit maður svo sem?

Þarna át maður snittur og drakk gos í góðu yfirlæti rétt fyrir ragnarök íslenska góðærisins. Jafnvel þótt ég ætti eftir að búa hér í Mexíkó allt til æviloka þá býst ég ekki við því að sjá forseta Íslands hér aftur með viðskiptaföruneyti sér við hlið. Reyndar voru þetta mjög abúrd tímar og ég er helst feginn að þeir séu liðnir og vonandi koma þeir aldrei aftur. Árin þegar nokkrir Íslendingar ætluðu sér að vera stórir kallar og gera litlu krúttlegu bankana heima að einhverjum alþjóðlegum tröllabönkum og mistókst það svo herfilega að það tekur amk áratug fyrir íslensku þjóðina að rétta sig af eftir það rugl.

Þetta er mitt uppgjör við íslensku útrásina, eina skiptið sem hægt er að segja að ég hafi tekið beinan þátt í því ævintýri. Mér líður betur að hafa játað þetta fyrir ykkur og hvet nú alla til að gera upp við sinn hlut í útrásinni og hruninu svo að íslenskt samfélag geti rétt sig við sem fyrst, bæði efnahagslega og andlega.

Tags: , , , , , ,

Ísland sett á ís

Verður víst ekkert úr fyrirhuguðu jólafríi á Íslandi þessi jólin. Það fær víst að bíða betri tíma.

Tags:

Leitin mikla

Er þessa stundina að skoða flug til Íslands. Það er flóknara nú en nokkru sinni þar sem í fyrsta lagi er ég alltof seinn í þessu og í öðru lagi þá megum við ekki snerta bandaríska grund á leið okkar. Emil litli er ekki með vegabréfsáritun og bandarísk yfirvöld leyfa slíku fólki ekki einu sinni að millilenda hjá sér. Að kría slíka áritun út úr kerfinu getur tekið nokkra mánuði og því ekki mögulegt í bili.

Hann fær vonandi bráðlega íslenskt vegabréf eins og bróðir sinn svo svona vandamál verða ekki að angra okkur framar.

Við stefndum að því að fara í gegnum Kanada í staðinn en uppgötvaði það þá að Icelandair flýgur einungis beint til Toronto og Halifax yfir sumarið. Einnig hafa Kanadamenn tekið upp þann ósið að rukka fólk frá minna ríkum löndum um vegabréfsáritanir síðan í júlí á þessu ári. Þeir afgreiða víst slíkar umsóknir á örfáum dögum en þetta er samt frekar þreytandi.

Því er eina færa leiðin að fara í gegnum Evrópu en það er ekki hlaupið að því að finna eitthvað á viðráðanlegu verði fyrir þá leið. Sýnist í augnablikinu að helst sé séns að finna eitthvað í gegnum London eða París. Sem betur fer er efnahagurinn hjá okkur hjónum kominn á blússandi siglingu aftur eftir kreppuárið mikla 2009 og við getum kannski leyft okkur að splæsa í flug til Íslands. Ætla þó ekki að lofa mér í nein áramótapartý strax, þetta er allt í skoðun.

Tags: , , ,

Auðvitað er fæðingarorlof skorið niður

Sé að það er allt vitlaust heima á klakanum yfir niðurskurði á fæðingarorlofinu. Held að menn ættu bara að prísa sig sæla yfir því að allt fæðingarorlofskerfið var ekki lagt niður eins og það lagði sig. Ríkissjóður er jú á hvínandi kúpunni og fæðingarorlof er ákveðinn lúxus sem einungis ríkar þjóðir geta leyft sér. Vita lesendur annars hvort svona kerfi fyrirfinnast í öðrum löndum?

Það er alltaf leiðinlegt að sjá á bak ýmsum þægindum sem fólk hefur vanið sig á. En svona er Ísland í dag víst og ekkert hægt að gera í því lengur. Leita verður allra leiða til að skera niður í opinberum rekstri og auðvitað er alltaf einhver sem tapar á því.

Menn verða einfaldlega að horfast í augu við þá staðreynd að Ísland er nokkrum klössum neðar eftir bankahrunið. Þakkið fyrir að Ísland fer ekki niður á mexíkanska stigið en á því stigi eru engar barnabætur, atvinnuleysisbætur, örorkubætur, vaxtabætur, fæðingarorlof, ellilífeyrir o.s.frv. Hér í landi er hlegið að svona lúxusvandamálum eins og að einn mánuður verði klipinn af fæðingarorlofi.

Tags: , ,

Heimferð?

Nú fer að styttast í að við hjónin þurfum að ákveða hvort við kíkjum á klakann um jólin eður ei. Væri óneitalega gaman að fá alvöru jól og áramót en hvorugt hef ég séð síðan 2004. Þetta ræðst víst allt af efnahaginum sem er reyndar á uppleið eftir erfið misseri.

Það er nokkuð áhugavert fyrir mig að sjá Ísland eftir hrun en við vorum síðast á landinu í ágúst á síðasta ári. Rétt áður en allt fór á hliðina. Ég er því í nokkuð góðri aðstöðu til að sjá hvað hefur breyst við hrakfarirnar.

En þetta kemur víst allt í ljós, ef við komum ekki um þessi jól þá verður það bara síðar. Heimskreppan er víst enn í fullum gangi og því ekki fyrir hvern sem er að fljúga á milli heimsálfna.

Tags: ,

Fyrsta skrefið

Ég held að engan hefði grunað fyrir ári síðan að Ísland ætti eftir að sækja um aðild að ESB. Sjálfur átti ég von á því að íhaldið og aðrir aðskilnaðarsinnar ættu eftir að ákvarða stöðu Íslands til eilífðarnóns. Sorglegt þó að sækja um við þessar aðstæður. Ísland kemur ekki til leiks sem sterkt ríkt lýðveldi heldur frekar á sömu forsendum og A-Evrópuþjóðirnar.

Talað er um að Ísland gæti sett nýtt hraðamet við inngöngu í ESB. Ég held að það sé alveg rétt. Þetta á eftir að ganga hratt og vel fyrir sig, aðildarviðræðurnar þ.e. En að Ísland samþykki svo inngöngu í þjóðaratkvæðagreiðslu er eitthvað sem ég er ekki svo bjartsýnn á þótt ég sé bjartsýnismaður í eðli mínu.

Tags: ,