Posts Tagged ‘inflúensa’

Faraldur í rénum

Betur fór en á horfðist með þessa svínaflensu. Í dag er staðan þannig að þetta virðist ætla að ganga yfir og að þessi nýja flensa sé ekki verri en hefðbundin inflúensa. Síðasta vika var vægast sagt furðuleg sem og þreytandi. Vonandi kemst lífið aftur í samt horf innan tíðar.

Magnaðar samsæriskenningar hafa sprottið upp varðandi þessa flensu. Sumir segja þetta lið í áætlun Obama til að taka yfir olíulindir Mexíkó. Aðrir segja þetta sett á svið til að draga athygli fólks frá nýrri löggjöf þar sem neysla og sala allra fíkniefna er gerð lögleg. Þessi nýju lög eru reyndar ekki til eftir því sem ég best veit.

Aðrir kenna lyfjafyrirtækjum um enda eru þau oft vinsæll skotspónn samsæriskenninga. Þau vildu semsagt selja meira af veirulyfjum og brugðu því á þetta ráð.

Kosningar verða hér í júlí og þetta tengist að sjálfsögðu því. Svona mætti lengi telja.

Þessi faraldur er stundum nefndur „chupacabra“ en það mun vera flökkusaga um dýr sem á íslensku gæti kallast geitasuga. Þetta dýr á samkvæmt sögunum að nærast á dýrablóði og er sérstaklega sólgið í geitur. Hér í Mexíkó halda menn því fram að yfirvöld hafi komið þessari sögu á kreik til að hræða fólk því hrætt fólk er jú viðráðanlegra. Svipað á því að gilda um þessa flensu.

Sjálfum finnst mér að stjórnvöld hér hafi brugðist rétt við. Þegar nýir stofnar flensu verða til með samkrulli flensuveira úr dýrum er alltaf rétt að vera á varðbergi. Betra er að byrgja brunninn og allt það.

Tags: , ,

Flensubók Lárusar

Felipe Calderón, forseti Mexíkó, hvatti okkur til að vera sem mest heima hjá okkur frá 1-5 maí til að hefta útbreiðslu flensunnar. Fram til 6. maí verður lítið um að vera hér í borg, flest allir samkomustaðir lokaðir, allt skólahald liggur niðri og einungis hægt að sækja mat á veitingahúsum. Ekki er leyfilegt að tylla sér niður á slíkum stöðum lengur.

Svo virðist sem að hægt hafi verulega á útbreiðslu veirunnar í bili. Enn er óljóst hvað nákvæmlega er í gangi varðandi þessi dauðsföll sem urðu í tengslum við flensuna. Rétt er að minna á að spænska veikin byrjaði einnig sem væg flensa en breyttist síðar yfir í skaðlegri afbrigði.

Núna stendur yfir heitasta tímabilið hér í Mexíkó, frá apríl fram í júní er vel heitt hérna. Um daginn fór mælirinn í bílnum upp í 38 gráður en hann er kannski ekki alveg marktækur. Við þessar aðstæður er ekkert grín að ganga um með grímur fyrir andlitinu. Manni verður oft vel heitt núna. Við notum þessar grímur þegar við förum út úr húsi þótt ég geri mér grein fyrir því að þær séu ekki fullkomin vörn. En þrátt fyrir að þær gætu t.d. einungis minnkað líkurnar um 10% á smiti þá þigg ég þau prósent með þökkum.

Þessi flensa fer illa með efnahaginn hér í borg. Reiknað er með að um 88 milljón dollarar tapist daglega bara í Mexíkóborg vegna allra þeirra lokana sem flensan hefur valdið. Ferðamannaiðnaðurinn er svo ein rjúkandi rúst skilst manni.  Mexíkó stóð ekki svo illa í þessari fjármálakreppu sem nú herjar á heiminn miðað við mörg önnur lönd þótt að efnahagsleg örlög þess ráðast mikið til af gengi stóra nágrannans í norðri. Nú lítur ástandið mun verr út en áður. Gert er ráð fyrir því að það hægist á hagvexti mun meir en spáð hafði verið áður en þessi óværa byrjaði.

Drengirnir hafa nánast ekkert farið út undanfarna daga, Emil er að ég held sama en Ara leiðist þetta. Hann vill fara út í garð og leika, skilur ekkert í tregðu foreldra sinna undanfarið.

Sjálfur er ég hundleiður á þessu ástandi þótt það hafi einungis varað í eina viku. Vona að þessu fari að linna sem fyrst.

Tags: , , , ,

Flensan geisar áfram

Nú er tala látinna vegna svínaflensunnar komin upp í 150 hér í Mexíkó og á eflaust eftir að hækka mikið. Reyndar eru endanlega staðfest dauðsföll vegna flensunnar mun færri eða einungis um 12, ef ég skil þetta rétt. Ég held þó að töluverðar líkur séu á því að fleiri hafa látist þrátt fyrir að handbærar sannanir fyrir því skorti enn. Samt sem áður er ég rólegri en í byrjun yfir þessu. Get talið upp þrjár ástæður fyrir því.

Í fyrsta lagi virðast mishættulegir stofnar af þessari veiru vera í umferð. Einungis hér í Mexíkó hefur hún valdið manntjóni. Fólk sem sýkst hefur af vægari afbrigðum virðist vera að jafna sig hér og tilfelli í öðrum löndum hafa verið vægari.

Rétt er þó að benda á að þau tilfelli sem komið hafa upp annars staðar eru enn fá og því höfum við ekki nægjanlega góða tölfræði yfir skaðsemi hennar. Jafnvel þótt að flensan sem verður af þessum vægari afbrigðum hafi lága dánartíðni, sem enn er ekki komið í ljós, þá gæti hún valdið alvarlegum faraldri. Ef dauðsföll verða talin í örfáum prósentum þá erum við að tala um tugmilljónir manna sem gætu týnt lífinu í mögulegum heimsfaraldri.

Í öðru lagi virðast tiltæk veirulyf virka vel og eftir allt fuglaflensufárið undanfarin ár eru til miklar birgðir af þeim í heiminum.

Í þriðja lagi eru viðbúnaður almennt góður, a.m.k. í ríkari hluta heimsins, við mögulegum flensufaraldri. Þótt að upptökin nú og staðsetning komi nokkuð á óvart þá hafa mörg lönd undirbúið sig vel við svona faraldri, viðbragðsáætlanir eru tiltækar o.s.frv.

Ég er því þolanlega bjartsýnn eins og stendur.

Mogginn hringdi í mig áðan og Smugan hefur krækt í bloggið. Ég vona að ég hafi komið þessu sæmilega til skila í símanum, er ekki vanur því að teljast svo merkilegur að fjölmiðlar vilja ræða við mig. Sagði eins og er að engin skelfing hefur enn gripið um sig í Mexíkóborg, fólk er varkárt og hefur áhyggjur en það er enginn glundroði á götunum. Þetta á eftir að koma illa við okkur efnahagslega, Anel fær mun færri kúnna á tannlæknastofuna. Við lifum það vonandi af.

Á næstu dögum fara línurnar vonandi að skýrast betur, hvað við er að eiga. Reyni að halda lesendum upplýstum um gang mála.

Tags: , , ,

Svekktur

Nei, ekki yfir kosningunum heima heldur átti ég von á kommentaflóði vegna síðustu færslu minnar. Sjálfum finnst mér staða mín mjög merkileg og jú óheppileg ef út í það er farið. Jæja, Matti nennti þó að setja eina vísun á mig.

Staðan versnar stöðugt. Nú segja yfirvöld hér að 81 hafi látist en sumir segja er að talan sé mun hærri. Kemur í ljós á næstu dögum hvort það tekst að hefta útbreiðslu veirunnar. Allir staðir sem líklegir eru til að draga að fjölmenni s.s. kvikmyndahús, leikhús, íþróttaleikvangar o.s.frv. eru lokaðir. Mjög margir bera andlitsgrímur.

Við erum enn róleg yfir þessu, lítið hægt að gera annað. Allt fer þetta einhvernveginn.

-—-

Er ég annars einn um það að finnast íhaldið hafa unnið stórsigur í kosningunum? Þegar þetta er skrifað hafa um 90% atkvæða verið talin og þeir bláu eru með 23,6% fylgi og 15 þingmenn. Næststærsti flokkurinn. Miðað við allt sem á undan gekk þá mættu þeir teljast góðir að fá 10%. Trygglyndi íslenskra kjósenda er með eindæmum.

Ef vinstristjórninni tekst nú vel upp á næstu fjórum árum þá verða þessi úrslit ekki vera neitt innskot í eilífðina. Frekar má reikna með að þá muni enn frekar fjara undan Sjálfstæðisflokknum, þegar sýnt hefur verið fram á að Ísland geti spjarað sig án hans.

Þetta gæti verið upphafið af valdaferli krata og vinstri manna. Kratar héldu t.d. völdum í Svíþjóð samfleytt frá árinu 1932 til ársins 1976, reyndar ef undanskildir eru þrír mánuðir 1936. Skora á félagshyggjumenn heima að slá þessu við. Þurfa einungis að halda völdum samfleytt allt til 2053. Lítið mál.

Tags: , ,

Við rætur inflúensufaraldurs

Síminn hringdi seint í gærkvöldi. Ein móðirsystir Anelar (ein af mörgum) hafði séð í fréttunum að inflúensufaraldur hafði brotist út hér í Mexíkóborg. Búið sé að loka öllum skólum, allt frá leikskólum upp í háskólana, og fólk hvatt til að vera á varðbergi. Þetta kom nokkuð ónotalega við mann, sérstaklega þar sem ég kann mína veirufræði ágætlega og ný tilfelli af banvænni inflúensu eru alltaf áhyggjuefni. Sérstaklega þegar þau koma upp þar sem ég bý!

Síðan þá hafa fréttir af þessum faraldri ekki beinlínis glatt mig. Þetta virðist vera áður óþekktur stofn sem hefur á undanförnum mánuði lagt 20 manns í gröfina svo óyggjandi sé og mjög líklega 40 aðra sem enn er þó óstaðfest. Um þúsund eru taldir hafa veikst af þessari flensu. Þetta er ný gerð inflúensuveiru A af stofni H1N1 sem olli einmitt faraldrinum 1918. Svo virðist sem þetta sé bræðingur af þremur flensustofnum, þ.e. úr svínum, fuglum og mönnum en þetta á eftir að koma betur í ljós.

Þegar nýir stofnar af inflúensu koma upp þá hafa tiltæk bóluefni yfirleitt engin áhrif og einungis er hægt að hefja framleiðslu á þeim eftir að nýi stofninn hefur verið greindur. WHO hefur þegar ráðlagt Mexíkó að bólusetja ekki gegn þessu en nota þess í stað veirulyf og önnur úrræði.

Ekki þarf að fjölyrða um það þvílík martröð það yrði ef þetta yrði að stórum faraldri í Mexíkóborg. Þetta er ein stærsta borg heims með yfir 25 milljón íbúa og jafnframt þéttbýl. Almenningssamgöngur eru yfirleitt yfirfullar á annatímum og yfirdrifin tækifæri fyrir inflúensuveiruna til að dreifa sér.

Þegar í dag voru margir komnir með grímur fyrir andlitin, sérstaklega fólk sem sinnir mörgum kúnnum daglega t.d. í móttökum og verslunum. Ég er enn ekki orðinn órólegur yfir þessu en ef flensan breiðist út þá eru nú góð ráð dýr. Verið er að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar og vonir standa til að það takist.

Ég man að Halldór Þormar talaði um í veirufræðinni forðum daga í HÍ að það væri alltaf tímaspursmál hvenær nýir inflúensufaraldrar færu af stað. Það koma alltaf þrír til fjórir á hverri öld. Aldrei bjóst ég þó við því að sjá einn í fæðingu og ég vona reyndar að það sé ekki að gerast hér. En maður veit aldrei.

Tags: ,