Posts Tagged ‘Icesave’

Mín skoðun á Icesave

Hvernig er hægt að kjósa um Icesave aftur ef ekki liggja fyrir öll gögn fyrir í málinu? Hvað er t.d. þrotabú gamla Landsbankans mikils virði? Í haust verða liðin þrjú ár síðan hann féll og enn er það ekki komið á hreint. Með þjóðaratkvæðagreiðslu um málið er verið að biðja kjósendur að skrifa undir ávísun þar sem upphæðin er enn á huldu.

Annars er ég farinn að efast um gildi þjóðaratkvæðagreiðsla, amk um mál af þessum toga. Þetta er eins og að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort greiða eigi skatta. Líklega ættu flestir eftir að segja nei, eða hvað?

Tags:

Þegar ég tók þátt í útrásinni

Allar götur síðan að íslenska efnahagsundrið snérist upp í andhverfu sína haustið 2008 og varð að íslenska efnahagsviðundrinu hefur mikið gengið á heima á Fróni. Síðustu misserin hefur allt snúist um hverjum var þetta að kenna og að sjálfsögðu sýnist þar sitt hverjum. Nýverið kom út mikil skýrsla um hrunið frá rannsóknarnefnd Alþingis sem mér skilst að hafi vakið mikla lukku hjá mörgum þar sem margir fyrrverandi góðborgarar fengu orð í eyra. Það er dálítið sérstakt að fylgjast með þessu öllu saman utan frá hér í Ameríku. Til dæmis frá því í febrúar hef ég ekki mikið verið í netsambandi og því hef ég heyrt stopular fréttir af þessum ósköpum sem virðist engan endi ætla að taka.

En til að komast út úr þessu ástandi er nauðsynlegt að uppgjör við þessa tíma fari fram og ég ætla mér því að fara fram með góðu fordæmi og skýra frá mínum þætti í útrásinni.

Mín þátttaka var bundinn við ákveðinn atburð einn fagran og sólríkan vordag hér í Mexíkóborg í mars 2008. Þá kom forseti Íslands í opinbera heimsókn ásamt miklu föruneyti og sendiherra Íslands í Bandaríkjunum hélt móttöku og bauð öllum Íslendingum búsettum hér í kokteil boð. Þarna voru meðferðis bisness fólk frá íslensku bönkunum ásamt fleirum. Merkilegast var fyrir okkur að hitta Magnús Scheving sem var að kynna Latabæ.

Eitt af því sem maður ætti aldrei að gera er að reyna að rifja upp hugsanir og tilfinningar frá löngu liðnum atburðum. Held að það sé óhjákvæmilegt að bankahrunið liti eitthvað minningar mínar af þessum degi en ég held að ég ljúgi engu þegar ég segi að mér kom þetta allt undarlega fyrir sjónir. Þegar forsetinn kom hingað til Mexíkó var ég við hávísindaleg störf við UNAM háskóla en sá skóli hefur um 300 þús nemendur sem er u.þ.b. íbúafjöldi Íslands. Nefni þetta sem dæmi til að bera saman þessi tvö lönd.

Kokteilboðið var haldið á einu fínasta hóteli borgarinnar í Oaxaca-salnum, man ég. Þar hitti ég sjálfan Ólaf Ragnar ásamt sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. Verð að viðurkenna að ég man ekki alveg hvur það var en það var einhver innvígður í Flokknum. Þarna hitti maður nokkra bankamenn en á þessum tíma var Ari við það að stíga fyrstu skrefin og fór mikill tími í að hjálpa honum að ganga um sem á þessum tíma var það eina sem hann vildi gera. Missti því dálítið af þessum viðburði en hafði þó tíma til að tala við nokkra bankamenn og spjallaði við nokkra frá Landsbankanum. Man ég var að hugsa hvað Landsbankinn ætlaði sér nú að gera í Mexíkó. Reyndar eru góð fjárfestingartækifæri í þessum heimshluta enda er þetta land víst skilgreint sem „emerging market“. Kannski ætluðu þeir að bjóða Mexíkönum upp á Icesave, hver veit.

Þáverandi menntamálaráðherra var líka með í för sem eftir hrun hefur löngum verið kennd við kúlulán. Man hún blikkaði Ara aðeins þegar þau tvö fóru á sama tíma í snakk skálina. Dorrit forsetafrú var þarna líka og hún talaði einna mest við okkur enda ágætis kerling. Fleiri nafnkunna menn þekkti ég ekki enda ekki mikið inn í málunum á Íslandi og langt um liðið síðan ég hafði skoðað Séð og Heyrt. Kannski voru einhverjir frægir bindiskarlar þarna sem nú bíða eftir kærum frá sérstökum saksóknara.

Á þessum tíma var farið að hrikta aðeins í stoðum íslensks efnahags, krónan var eitthvað farin að lækka þótt að það hafi þá ekki verið neitt til að tala um miðað við það sem á eftir fór. Verðbólgan var á uppleið og stöðugt komu einhverjar vondar fréttir um bankana. Eitthvað sem kallast tryggingarálag var mikill höfuðverkur á þessum tíma en var fyrir mér hugtak sem ég hafði aldrei heyrt áður.

Í minningunni var ég því skeptískur á þetta allt saman en kannski er það fölsk minning eftir allan gauraganginn í kringum hrun bankanna um hálfu ári síðar. Þetta var víst eitt af þessum kokteilboðum sem ritstjóri Morgunblaðsins talaði um síðar að forsetinn hafði verið marenaður í af útrásarvíkingum. Held reyndar að þetta boð hafi verið í boði íslenska ríkisins en hvað veit maður svo sem?

Þarna át maður snittur og drakk gos í góðu yfirlæti rétt fyrir ragnarök íslenska góðærisins. Jafnvel þótt ég ætti eftir að búa hér í Mexíkó allt til æviloka þá býst ég ekki við því að sjá forseta Íslands hér aftur með viðskiptaföruneyti sér við hlið. Reyndar voru þetta mjög abúrd tímar og ég er helst feginn að þeir séu liðnir og vonandi koma þeir aldrei aftur. Árin þegar nokkrir Íslendingar ætluðu sér að vera stórir kallar og gera litlu krúttlegu bankana heima að einhverjum alþjóðlegum tröllabönkum og mistókst það svo herfilega að það tekur amk áratug fyrir íslensku þjóðina að rétta sig af eftir það rugl.

Þetta er mitt uppgjör við íslensku útrásina, eina skiptið sem hægt er að segja að ég hafi tekið beinan þátt í því ævintýri. Mér líður betur að hafa játað þetta fyrir ykkur og hvet nú alla til að gera upp við sinn hlut í útrásinni og hruninu svo að íslenskt samfélag geti rétt sig við sem fyrst, bæði efnahagslega og andlega.

Tags: , , , , , ,

Á nýju ári

Gaman væri að hafa tíma til að blogga eitthvað. Margt að gerast hér sem og á föðurlandinu.

Svo ég segi eitthvað um mál málanna á Íslandi þessa stundina þá vonast ég til þess að vinstristjórnin láti ekki tiktúrur forsetans á sig fá. Hann hefur jú rétt til þess að skrifa ekki undir hvað sem er. Látið málið hafa sinn eðlilega gang og setjið þetta í þjóðaratkvæði. Samstaða vinstri flokkana er síðasta haldreipi Íslands, aðrir flokkar eru ekki stjórntækir og verða það ekki á næstunni.

Svona hefst bloggárið 2010, geypilega fallegt ártal.

Tags:

Ísbjörg

Nú er mikið skrifað um Icesave samningana heima sem væri nú betri íslenska að nefna Ísbjörg. Ég hef hreinlega ekki tíma til að fara yfir öll þessi skrif en hallast helst að því þessa dagana að íslensk stjórnvöld hafi rétt fyrir sér. Hef þó lítið vit á svona fjármálagjörningum eins og fyrri daginn.

Sé það líka að helstu andstæðingar þessa samninga snúa umræðunni oft upp í persónuárásir á fjármálaráðherra og ríkisstjórnina. Tala um landráðamenn og ég veit ekki hvað. Yfirleitt er það ágætur mælikvarði á ómerkinga, þegar landráðastimpillinn er notaður er yfirleitt ekkert að marka þá sem honum beita.

Tags: , ,

Flókinn heimur

Enn og aftur sannast fáfræði mín í peningamálum. Ég skil hreinlega ekki alveg þessa atburðarrás með Icesave draslið. Einhverjir gúbbar, sem héldu að þeir gætu rekið banka, byrjuðu að bjóða fólki í útlandinu að leggja inn peninga hjá þeim á svaka vöxtum. Síðan eyddu þeir öllum peningunum sem þeir fengu í vitleysu. Landsbankinn fer á hausinn og ríkið tók yfir leifarnar og stendur uppi með 640 milljarða (!) skuld frá áðurnefndum gúbbum við breska (fyrrverandi) sparifjáreigendur.

Ríkið þarf semsagt, samkvæmt drögum að samkomulagi, að standa í því næstu 15 árin að borga Bretum peninga sem nokkrir fávitar sviku þá um. Vegna þess að fávitarnir fæddust á Íslandi, illu heilli, þá eru samborgarar þeirra skyldugir til að borga skuldir þeirra. Það toppar þetta svo alveg að títtnefndir fávitar séu flestir með eignir sínar í einhverjum skattaskjólum í útlandinu svo að þeir þurfi ekki að borga skatta á Íslandi eins og einhverjir bjánar. Skattarnir fara jú núna í að borga skuldir þeirra, ekki séns að þeir taki þátt í svoleiðis rugli.

Held að það sé rétt sem einhver sagði að best hefði verið í ljósi aðstæðna að láta bankaræflana fara á hausinn síðastliðið haust og láta lánadrottna þeirra um að bítast um leifarnar. Varla hefði það getað orðið verra?

Tags: ,