Posts Tagged ‘heimsendir’

Óttinn er það versta

So, first of all, let me assert my firm belief that the only thing we have to fear is fear itself — nameless, unreasoning, unjustified terror which paralyzes needed efforts to convert retreat into advance. # Franklin D. Roosevelt

Á tímum niðursveiflu og samdráttar kemur yfir marga óöryggi og menn fyllast svartsýni á framtíðina. Ég óttast engan veginn þessa efnahagslægð því ég tel að sagan sanni að allar kreppur endi einhvern daginn. Hins vegar óttast ég hvernig sumt fólk notfærir sér ótta annarra í eiginhagsmunaskyni.

Hér á ég sérstaklega við hina ýmsu trúarsöfnuði sem notfæra sér ástandið og versandi kjör alþýðunnar. Strax er látið í það skína að nú séu hörmungar allra hörmunga að renna upp, dómsdagur gæti verið handan við hornið. Iðrist synda yðar og gefið oss peninga yðar. Það er nú eða aldrei!

Ríkiskirkja Íslands tekur einnig þátt í þessu því hún veit sem er að fátt selur eins vel og óttinn. Búið er að koma upp sérstakri „Krepputíð“ valmöguleika á trú.is svo að fagnaðarerindið fari nú ekki framhjá neinum. Óneitanlega læðist að manni sá grunur að nú sé gósentíð kirkjunnar því erfitt er að selja forneskjulegan boðskap himnafeðganna í landi góðæris og allsnægta. Kreppan gefur því sölumönnum hindurvitnanna ný kærkomin tækifæri til þess að sækja fram.

Fjölskylda konunnar er því miður nokkuð innvinkluð í Votta Jehóva og þar eru nú ekki spöruð stóru orðin, frekar en fyrri daginn. Margir þar boða nú að þetta séu endalokin sjálf og brátt fer Jesú kallinn að skella sér í eitt stykki Harmageddon, svona þegar búið er að hræra nógu mikið upp í hlutunum. Já, þetta á allt eftir að versna, segja þeir. Nánast fullir tilhlökkunar sýnist manni. Ógæfufólk sem lendir í þessum félagsskap. Ef ekki fyrir inngöngu þá eftir hana.

Já ég óttast ekki fall á hlutabréfum eða lækkandi gengi en ástæða er til að varast afleiðingarnar. Óttaslegið fólk getur gert ótrúlegustu hluti. Fyrir nokkrum árum tókst manni nokkrum að sannfæra hóp fólks um að fremja með sér fjöldasjálfsmorð. Ástæðan var sú að halastjarna nokkur sem á þeim tíma var nálægt jörðu átti að hafa á bak við sig geimfar og þeir sem frömdu sjálfsmorð áttu þannig að komast um borð.

Ef að halastjarna getur haft þessi áhrif á fólk þá er augljóst að jarðbundnari hlutir eins og að missa húsnæðið og/eða atvinnuna getur haft jafnvel enn meiri áhrif á fólk. Við verðum öll að vera á varðbergi gagnvart þeim sem notfæra sér þessar aðstæður. Óttinn hefur lamandi áhrif á dómgreind fólks og það verður móttækilegra fyrir alls kyns vitleysu. Það er engin tilviljun að uppgangur fasismans var á kreppuárunum. Óttinn er það versta í núverandi ástandi.

Tags: , , , , ,