Posts Tagged ‘grænmeti’

Fyrsta kvöldmáltíðin

Emil fékk sína fyrstu máltíð í gær, þ.e. sem samanstóð af einhverju öðru en mjólk og meiri mjólk. Honum bauðst að gæða sér á maukuðu chayote. Ég veit ekki hvað það heitir á íslensku, þetta er svokallað grænmeti. Ekki var kappinn sérstaklega hrifinn af þessu þar sem öllu var spýtt út samstundis en eitthvað náðist ofan í hann þó. Þegar Ari fékk sína fyrstu máltíð var hann frekar hrifinn en hann fékk á sínum tíma gulrót. Við ætlum því að reyna að gefa Emil eina gulrót í kvöld.

Báðir drengirnir voru einungis aldir á mjólk fyrstu sex mánuðina þar sem Anel er með mörg ofnæmi. Það á víst að draga úr líkum á ofnæmum síðar meir ef svona er farið að, segir barnalæknirinn þeirra sem einnig er ónæmissérfræðingur.

Núna er Ari að gæða sér á pulsu. Ég fæ alltaf hálfgert samviskubit yfir því að gefa honum pulsur þar sem mér finnst það varla vera matur. En það gerist reyndar sjaldan að gripið er til slíkra örþrifaráða. Hér á þessu heimili kaupum við alltaf kalkúnapulsur og kalkúnaskinku. Okkur finnst það best þótt að kalkúnn sé ekki í sjálfu sér hátt skrifaður hér á þessum bæ. Aldrei dytti manni það í hug á klakanum að kaupa sér kalkúnapulsur, skrítið.

Annars er ég ánægður með hvernig mataruppeldið hefur tekist. Ari borðar allt sem við gefum honum. Stundum á hann það til að biðja um hráa gulrót þegar við erum að sneiða þær niður. Aldrei hafði ég gert það sem krakki að borða hráa gulrót, fannst þær nógu vondar soðnar. Held að þetta sé spurning um vana. Þeir sem eru vanir að borða grænmeti finnst það gott. Ég borða grænmeti nánast eingöngu af skyldurækni því ég veit að það er gott fyrir mann.

Hef þó stórlega aukið ávaxtaát síðan ég fluttist hingað, skiljanlega. Fátt er betra en ferskur mangó af markaðinum.

Tags: , , ,