Posts Tagged ‘gagnrýn hugsun’

Skortur á gagnrýnni sjálfstæðri hugsun

Í kjölfar efnahagslægðar um víða veröld eru margir í leit að blóraböggli. Margir benda á frjálshyggju sem sökudólginn í þessu máli, aðrir bregðast hinir verstu við og segja skort á frjálshyggju vera vandamálið. Sú frjálshyggja sem hefur verið stunduð undanfarið, t.a.m. á Íslandi, var ekki sönn og tær frjálshyggja að þeirra mati.

Óhjákvæmlega vakna minningar um fall kommúnismans og gömlu Sovétríkjanna. Margir sögðu þá að alvöru kommúnismi var ekki stundaður þar eystra og því ekki marktækt hvernig allt fór þar norður og niður. Skortur á alvöru kommúnisma var vandamálið.

Í raun og veru get ég alveg tekið undir með þessum báðum sjónarhornum. Rétt er að aldrei hefur verið til þjóðfélag grundvallað á hreinræktuðum kommúnisma né frjálshyggju. En það er ekki hægt að neita því að gömlu Sovét kommarnir kenndu sig við kommúnisma og að minnsta kosti á upphafsárum Sovétríkjanna var reynt að fylgja kenningunum. Sama má segja um frjálshyggjuna. Efnahagsstefna margra Vesturlanda tók mið af henni og fylgdi henni eftir. Margir þökkuðu aukinni frjálshyggju efnahagsframfarir á Íslandi síðustu 15 árin og nægir þar að nefna höfðuðskáldið Hannes Hólmstein.

Nú þegar blekkingarleiknum er lokið og í ljós hefur komið að íslenska efnahagsundrið var aldrei neitt annað en viðundur þá bakka menn og segja frjálshyggju hafa skort. Sá t.d. eitt komment hér hjá Guðmundi á Eyjunni þar sem því er harðlega mótmælt að til sé eitthvað sem heitir öfga-frjálshyggja því sú stefna er svo hrein og fögur að hún verður aldrei að öfgum.

Ég held að þetta gæti verið kjarni málsins, algjör skortur á gagnrýnni hugsun um þau hugmyndakerfi eða hagfræðikenningar sem þetta lið aðhyllist. Einhvern veginn er búið að fastsetja kenninguna sem algilda og ávallt rétta. Allri gagnrýni er sjálfkrafa vísað á bug, umræðum um þetta er lokið.

Mér leiðast oft samlíkingar við trúarbrögð en í þessu tilfelli verður varla hægt að líta fram hjá þeim. Líkt og í trúarbrögðum kemur allt gott frá því sem aðhyllst er en það vonda er öðrum að kenna. Þegar flugvél nauðlendir og farþegar bjargast var guð þar að verki, þegar flugvél ferst með manni og mús kemur guð hvergi þar nálægt. Þegar uppgangur er í þjóðfélaginu er það kenningunni að þakka, þegar kreppan kemur eru það andstæðar kenningar sem skemma fyrir hinni tæru lífssýn.

Ég verð að segja það að mér hundleiðist fólk sem virðist hafa fest sig í einhvers konar hugmyndafræðilegum ramma og allt sem viðkemur hagfræðilegum eða þjóðfélagslegum málum er skoðað innan þess ramma. Fólk sem heldur að finna megi einhvers konar algildan sannleika um efnahagsmál í bókum eftir Marx eða Friedman. Kreddupólitíkusar, fólk sem stundum virðist vera ófært um sjálfstæða hugsun, hvað þá gagnrýna. Fer bara eftir formúlunni.

Kannski er það leiðinlegra að vera pragmatískur en ég held að meira kommon sens hafi átakanlega skort heima á Íslandi undanfarin ár og áratugi. Maður les sögur um hvernig útrásarvíkingarnir höguðu sér og maður er eiginlega orðlaus, þeir voru í raun eins og fíklar í hegðun. Algjörlega stjórnlausir auk þess að vera siðlausir. Hvað sem segja má um frjálshyggju í sjálfu sér þá held ég að áhrif hennar í íslenskri pólitík hafi opnað leiðina fyrir sukkið og síðar meir hrunið þarna heima.

Fyrst og fremst er þó fólki um að kenna, heimsku gráðugu fólki sem ofmetnaðist og rann á rassinn með allt saman. Hugmyndafræði gerir ekki neitt af sér ein og sér, það þarf fólk til að framfylgja henni og að því ætti gagnrýnin helst að beinast. Ekki að hvaða útóbíukenningum það hefur valið sér sem kennisetningu.

Tags: , , ,