Posts Tagged ‘Emil Sær’

Flensubók Lárusar

Felipe Calderón, forseti Mexíkó, hvatti okkur til að vera sem mest heima hjá okkur frá 1-5 maí til að hefta útbreiðslu flensunnar. Fram til 6. maí verður lítið um að vera hér í borg, flest allir samkomustaðir lokaðir, allt skólahald liggur niðri og einungis hægt að sækja mat á veitingahúsum. Ekki er leyfilegt að tylla sér niður á slíkum stöðum lengur.

Svo virðist sem að hægt hafi verulega á útbreiðslu veirunnar í bili. Enn er óljóst hvað nákvæmlega er í gangi varðandi þessi dauðsföll sem urðu í tengslum við flensuna. Rétt er að minna á að spænska veikin byrjaði einnig sem væg flensa en breyttist síðar yfir í skaðlegri afbrigði.

Núna stendur yfir heitasta tímabilið hér í Mexíkó, frá apríl fram í júní er vel heitt hérna. Um daginn fór mælirinn í bílnum upp í 38 gráður en hann er kannski ekki alveg marktækur. Við þessar aðstæður er ekkert grín að ganga um með grímur fyrir andlitinu. Manni verður oft vel heitt núna. Við notum þessar grímur þegar við förum út úr húsi þótt ég geri mér grein fyrir því að þær séu ekki fullkomin vörn. En þrátt fyrir að þær gætu t.d. einungis minnkað líkurnar um 10% á smiti þá þigg ég þau prósent með þökkum.

Þessi flensa fer illa með efnahaginn hér í borg. Reiknað er með að um 88 milljón dollarar tapist daglega bara í Mexíkóborg vegna allra þeirra lokana sem flensan hefur valdið. Ferðamannaiðnaðurinn er svo ein rjúkandi rúst skilst manni.  Mexíkó stóð ekki svo illa í þessari fjármálakreppu sem nú herjar á heiminn miðað við mörg önnur lönd þótt að efnahagsleg örlög þess ráðast mikið til af gengi stóra nágrannans í norðri. Nú lítur ástandið mun verr út en áður. Gert er ráð fyrir því að það hægist á hagvexti mun meir en spáð hafði verið áður en þessi óværa byrjaði.

Drengirnir hafa nánast ekkert farið út undanfarna daga, Emil er að ég held sama en Ara leiðist þetta. Hann vill fara út í garð og leika, skilur ekkert í tregðu foreldra sinna undanfarið.

Sjálfur er ég hundleiður á þessu ástandi þótt það hafi einungis varað í eina viku. Vona að þessu fari að linna sem fyrst.

Tags: , , , ,

Fyrsta kvöldmáltíðin

Emil fékk sína fyrstu máltíð í gær, þ.e. sem samanstóð af einhverju öðru en mjólk og meiri mjólk. Honum bauðst að gæða sér á maukuðu chayote. Ég veit ekki hvað það heitir á íslensku, þetta er svokallað grænmeti. Ekki var kappinn sérstaklega hrifinn af þessu þar sem öllu var spýtt út samstundis en eitthvað náðist ofan í hann þó. Þegar Ari fékk sína fyrstu máltíð var hann frekar hrifinn en hann fékk á sínum tíma gulrót. Við ætlum því að reyna að gefa Emil eina gulrót í kvöld.

Báðir drengirnir voru einungis aldir á mjólk fyrstu sex mánuðina þar sem Anel er með mörg ofnæmi. Það á víst að draga úr líkum á ofnæmum síðar meir ef svona er farið að, segir barnalæknirinn þeirra sem einnig er ónæmissérfræðingur.

Núna er Ari að gæða sér á pulsu. Ég fæ alltaf hálfgert samviskubit yfir því að gefa honum pulsur þar sem mér finnst það varla vera matur. En það gerist reyndar sjaldan að gripið er til slíkra örþrifaráða. Hér á þessu heimili kaupum við alltaf kalkúnapulsur og kalkúnaskinku. Okkur finnst það best þótt að kalkúnn sé ekki í sjálfu sér hátt skrifaður hér á þessum bæ. Aldrei dytti manni það í hug á klakanum að kaupa sér kalkúnapulsur, skrítið.

Annars er ég ánægður með hvernig mataruppeldið hefur tekist. Ari borðar allt sem við gefum honum. Stundum á hann það til að biðja um hráa gulrót þegar við erum að sneiða þær niður. Aldrei hafði ég gert það sem krakki að borða hráa gulrót, fannst þær nógu vondar soðnar. Held að þetta sé spurning um vana. Þeir sem eru vanir að borða grænmeti finnst það gott. Ég borða grænmeti nánast eingöngu af skyldurækni því ég veit að það er gott fyrir mann.

Hef þó stórlega aukið ávaxtaát síðan ég fluttist hingað, skiljanlega. Fátt er betra en ferskur mangó af markaðinum.

Tags: , , ,

Emil Sær

Höfðum það loksins af að skrá yngri strákinn en hér þurfa foreldrarnir að skrá börnin sérstaklega á þar til gerðri stofnun til að fá útgefið fæðingarvottorð. Hann heitir Emil Sær og það er endanleg ákvörðun, nú er ekki hægt að breyta því.

Tags: