Posts Tagged ‘dóp’

Hefðarréttur vímuefna

Hugsum okkur heiminn augnablik án áfengis. Uppfinning þess átti sér aldrei stað af einhverjum orsökum. Ímyndum okkur svo ef einhverjum dyttti það í hug á 21. öldinni að hefja framleiðslu gleðidrykkja sem innihalda etanól. Neytendur þess njóta aukinnar hamingju við neysluna en einnig veldur það skyntruflunum og ótæpilegri sönggleði. Langvarandi neysla veldur skemmdum á miðtaugakerfinu og breytingum á persónuleika neytanda. Ofbeldi fylgir einnig stundum neyslunni, einkum meðal karla.

Hvað skyldi líða langur tími þar til þetta nýja vímuefni yrði bannað af yfirvöldum um allan heim? Nokkrir dagar?

Framleiðsla þess og sala ætti þá eftir að færast neðanjarðar. Við fengum án efa tíðar fréttir í fjölmiðlum af brugghúsum sem lögreglan á Íslandi hefur lokað. Kannski yrði Frakkland einhvers konar Kólumbía Evrópu í þessum hliðstæða veruleika þar sem Frakkar verða þekktir sem mestu áfengisframleiðendur heims, sérstaklega sólgnir í rauða fixið. Aldrei að vita nema fréttir yrðu fluttar af Ædol dómara á Íslandi sem reyndi að kaupa sér sjúss af einhverjum díler.

Fáránlegt? Vissulega en afhverju?

Ég bý í Mexíkó, landi sem eiturlyfjabarónar halda í heljargreipum. Ástandið er komið á það stig að herinn var nýverið kallaður út til að taka við löggæslunni í Ciudad Juárez, borg sem liggur rétt við landamæri Bandaríkjanna, vegna ofríkis dópsalanna. Fjárhæðir sem erfitt er að gera sér í hugarlund streyma frá dópistum til framleiðandanna, frá Bandaríkjunum til Mexíkó. Þessir peningar færa svo eiturlyfjahringjunum nánast ótakmörkuð völd. Stjórnmálamönnum er mútað sem og lögreglunni til að sleppa við allt vesen. Fátækt fólk er notað sem burðardýr til að koma efninu yfir landamærin á meðan barónarnir sjálfir lifa í fáheyrðum lúxus. Stjórnvöld reyna að stemma við stigum með því að lýsa yfir stríði við vímuefnin og eyða óheyrilegum upphæðum í baráttu sem litlu skilar.

Er ekki kominn tími til að skoða málin í samhengi og reyna jafnvel að læra eitthvað af sögunni? Einu sinni reyndu nokkur lönd að banna framleiðslu og neyslu áfengis. Afleiðingin varð t.d. í Bandaríkjunum mikil glæpaalda í kringum ólöglega áfengissölu. Vissulega atvinnuskapandi fyrir löggæsluna en er það þess virði?

Á BBC News sá ég um daginn umfjöllum um dópstríðið við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna. Þar var rætt við einn mann sem stendur í þessu stappi, man reyndar ekki hvaða embætti hann hafði með höndum. En ég man skýrt hvað hann sagði. Talið er með nokkurri vissu að tekjur dópsalanna hér í Mexíkó koma að mestu frá sölu á marijúana, um 65% af heildartekjum þeirra. Ef banni við sölu á því yrði aflétt væri það gríðarlegt klofspark fyrir þá sem selja það ólöglega á uppsprengdu verði. Veldi þeirra ætti eftir að verða svipur hjá sjón, miðað við núverandi ástand.

Ég held að einhvern daginn verði að minnsta kosti banni við sölu á marijúana aflétt. Sjálfur er ég fylgjandi því en ég tel að önnur sterkari efni, sem eru beinlínis lífshættuleg neytendum, verði áfram á svörtum lista hjá yfirvöldum.

Nú er ég í sjálfu sér ekki hlynntur því að fólk fái sér jónur en maður getur ekki endalaust hlutast til um ákvarðanir annarra. Rétt eins og ég vil ekki að fólk kjósi Framsóknarflokkinn en ég get ekki stutt lagasetningu til að banna það, þó ég telji flokkinn skaðlegan íslensku samfélagi.

Áfengi hefur unnið sér sess á Vesturlöndum sem viðurkennt vímuefni á meðan grasið er úthrópað sem dóp. Mætti segja að vínið hafi áunnið sér einhvers konar hefðarrétt á meðan önnur vímuefni hafa verið svo óheppin að koma seinna til sögunnar. Kannski er tóbak undantekningin en mér finnst alltaf skrítið að kalla það vímuefni þar sem víman er engin í því tilfelli. Fellur þó í hóp fíkniefna því fíknin er greinilega til staðar.

Ég er fylgjandi þeirri stefnu heima um að sala á löglegum fíkniefnum eigi heima í sérreknum ríkisbúðum. Bæði til að takmarka aðgengi að þeim og hámarka gróða yfirvalda af sölu þeirra, því kostnaður samfélagsins vegna þeirra er mikill. Ef marijúana ætti eftir að bætast í þennan hóp þá væri salan á því að sjálfsögðu best kominn í Ríkinu.

Allavega þá vonast ég eftir einhverri stefnubreytingu í þessum málum áður en það gerir núverandi heimalandi mínu enn frekari skaða en þegar er orðinn. Vandamálið er að stjórnmálamenn veigra sér við að styðja við bakið á svona róttækum tillögum því fáir vilja rugga bátnum sem þeir hafa komið sér svo þægilega fyrir í.

Tags: , , ,

Hafið þið tekið eftir því að helsta stefnumál ungra hægra manna snúast yfirleitt um fíkniefni og nauðsyn þess að leyfa þau……. eða svo að ég vitni í þá sjálfa

„Það er jafn óréttlætanlegt að banna neyslu ólöglegu fíkniefnanna og það er að banna áfengi og tóbak. Hvað sem hættunni af neyslunni líður gilda sömu grundvallarsjónarmið. Um er að ræða hættuleg efni sem draga fólk til dauða. Þau draga þó engan til dauða nema þann sem þeirra neytir. Þess vegna er óheimilt að banna neysluna.“

meira af svona rugli á frjálshyggju.is

Tags: ,