Posts Tagged ‘Chiapas’

Biðstaða

Hér gerast góðir hlutir hægt. Líklega erum við að losa okkur við íbúðarkytruna okkar á morgun, þá seinni sem við seljum á þessu ári. Getum líklega hangið þar eitthvað enn meðan skrifræðið töltir sinn gang. Nýja húsið á víst að vera tilbúið á morgun en þá tekur við matsferli og vesin í kringum veðlán. En vonandi getum við flutt sem fyrst því við erum orðin frekar þreytt á núverandi stöðu.

Í öðrum fréttum þá stendur víst til að fara í óvænta ferð til Chiapas á morgun, sjáum til hvernig það fer.

Tags: ,

Fríið II

Eftir gistinguna hjá Horacio var víst kominn miðvikudagur. Var þá ákveðið að fara upp í fjöllin til að skoða friðlýst svæði sem kallast Porvenir og heimsækja dóttir Orlandos, Cendy, sem býr þar skammt hjá með manni og lítilli dóttur. Aftur var farið upp í pallbílinn og brunað upp í Sierra Madre fjallgarðinn. Strákarnir fengu þó að vera í einkabíl hjá Amöndu frænku sinni ásamt Anel.

Þetta ferðalag tók töluvert á bílana sem voru báðir drekkhlaðnir fólki og allt var uppí mót, á góðum vegum þó. Byrjaði að sjóða á bíl Amöndu og dekkin á pallbílnum fóru víst illa út úr þessari ferð. En þetta hafðist allt fyrir rest. Var orðið dimmt þegar við náðum heim til Cendy og við gistum um nóttina á hóteli þar sem hús frænkunnar var yfirfullt af fólki.

Þar um nóttina tel ég að ég hafi verið bitinn af einhverju kvikindi, líklega könguló, í ökklann því eftir þetta byrjaði hann að bólgna upp og var orðinn stokkbólginn nokkrum dögum síðar. Sýklalyf og bólgueyðandi náðu þó að redda því, alltaf má búast við einhverju svona í hitabeltinu þar sem lífríkið er gróskumikið.

Skoðuðum okkur um í Porvenir daginn eftir. Við vorum komin í það mikla hæð að þarna var mikið af barrtrjám og frekar svalt í veðri, miðað við að vorum syðst í Mexíkó. Síðan var haldið aftur heim til Orlandos, hópurinn tvístraðist eitthvað á leiðinni þar sem sumir fóru til Tapachula aftur en við fórum til Triunfo. Þar um kvöldið át ég tacos á einhverjum stað sem gerði mér ekkert sérstaklega gott. En maður kvartar ekki yfir smá magakveisu á svona stöðum.

Á föstudeginum fórum við til Tapachula aftur og ákváðum þar að fara norður til höfuðborgar Chiapas sem kallast Tuxtla og skoða þar einnig bæinn San Cristóbal sem er frægur ferðamannastaður. Segi nánar frá því síðar.

Tags: , , , , ,

Fríið I

Fórum til Chiapas í rútu á sunnudagskvöldi og náðum þangað á mánudagsmorgni. Chiapas er syðsti hluti Mexíkó og að auki fórum við mjög sunnarlega þar til stærstu borgar þess ríkis, Tabachula. Einungis eru um 25 mín. akstur til Gvatemala þaðan. Þar eiga heima ættingjar Anelar en við fórum í útskriftarveislu Williams, eins frænda hennar sem er nýútskrifaður lögfræðingur.

Við héldum að veislan ætti að vera á þriðjudeginum en hún átti víst að vera strax þá um kvöldið. Því fór mánudagurinn í að undirbúa herlegheitin, blása upp blöðrur og þess háttar. Líklega var hátt í 40 stiga hiti þarna syðra en maður kippir sér lítið upp við slíkt í þessu landi.

Veislan fór vel fram, lambakjöt á boðstólum og mikið dansað. Þó gátum við ekki verið þarna lengi frameftir þar sem að drengirnir voru þreyttir eftir rútuferðina og sofnuðu fljótt. Við fórum því heim til Elizabet frænku, systir tengdamömmu og móðir Williams, til að sofa en það gekk ekki áfallalaust þar sem Emil ákvað að vera með tanntökuverki og græt eitthvað frameftir nóttu. Það er líka frekar óþægilegt að sofa í svona hita þar sem húsin hér eru yfirleitt ekki loftkæld.

Daginn eftir var ákveðið að fara heim til Orlando frænda, bróðir tengdamömmu, sem býr í þorpinu Triunfo um þriggja tíma akstur frá Tapachula. Fjölskylda tengdamömmu er þaðan og þar ólst hún upp. Þetta þorp er svo lítið að ég finn það hvorki á Wikipedia né Goggle Maps en hef þó ekki leitað af mér allan grun. Vandamálið með Mexíkó er að margir staðir heita nákvæmlega það sama og því stundum erfitt að leita að ákveðnum stöðum.

Öll fjölskyldan fór til Triunfo, þar af flestir á pallinum á pallbíl Orlandos að hætti dreifara. Ég sólbrann á leiðinni á pallinum frekar illa og hef enn ekki beðið þess bætur þegar þetta er skrifað. Skömmu eftir komuna þangað skelltum við okkur í sund í á einni sem rennur þarna niður hæðarnar. Triunfo er staðsett á miklum hæðum við rætur Sierra Madre fjallgarðsins og þar er geysifallegt um að litast. Allt er iðjagrænt, skógar og hæðir allt í kringum ásamt ám og lækjum sem liðast um eftir landslaginu. Við syntum í stórum hyl í á sem lá nokkuð hátt uppi í hæðunum og lítill foss steypist þar ofan í, mesta sportið var að komast á bak við hann og dýfa sér ofan í hylinn. Strákunum fannst þó vatnið heldur kalt en mér fannst það gott eftir sólbrunann.

Nokkuð skondið var að rölta um með Anel í þessum bæ því þetta er smábær og allir þekktu fjölskyldu hennar þar sem hún var eitt sinn sú ríkasta í bænum. Fullt af fólki sem kom að tala við okkur. Hittum líka á nokkra fjarskyldari ættingja sem búa þarna sem voru afar glaðir að hitta Anel og bláeygðu syni hennar. Fórum og heimsóttum elsta bróðir tengdamömmu þar um kvöldið sem heitir Horacio og hann bauð okkur gistingu sem við þáðum með þökkum þar sem heimili Orlando var yfirfullt af gestum.

Meira síðar.

Tags: , ,

Aftur heim

Fríið endaði með því að vera eitt af þessum þar sem að sýklalyf og verkjatöflur komu mér í gegnum síðustu dagana. En ef maður fer á fjarlægar slóðir þá verður maður að vera undirbúinn fyrir slíkt. Þeir sem fara í mesta lagi til Danmerkur í fríið lenda eflaust sjaldan í svona erfiðleikum en sögurnar mínar eru eflaust betri svona eftir á.

Chiapas er annars fallegasta ríki Mexíkó sem ég hef séð hingað til, slær jafnvel út Quintana Roo. Skrifa einhverja frásögn af þessu einhvern daginn. Set jafnvel inn myndir líka en það er orðið langt síðan að ég hef getað gefið mér tíma í slíkt.

Tags: ,

Chiapas

Við erum farin í fríið, ætlum á æskuslóðir tengdamömmu sem eru syðst í Mexíkó í ríkinu Chiapas. Förum nálægt landamærunum að Gvatemala. Chiapas er helst þekkt fyrir mikla náttúrufegurð, fátækt og fyrir að vera heimkynni Zapatista uppreisnarhreyfingarinnar. Við erum að fara í útskriftarpartí hjá einum frænda Anelar. Öll systkini tengdamömmu mæta á svæðið en þau eru víst ellefu talsins, þar af þekki ég níu nú þegar. Þau voru tólf en ein systirin lést fyrir um 20 árum.

Verð því líklega netlaus fram á næstu helgi. Förum eftir fjóra tíma í rútuna, áætlaður ferðatími er 16 klukkustundir.(!) Það verður athyglisverð lífsreynsla. Held að fyrra met mitt séu 12 tímar, sett í Kenýa fyrir þremur árum. Vegirnir hér eru sem betur fer betri þannig að ég er enn rólegur yfir þessu.

Mér skilst að það sé mjög heitt þarna syðra, hitabeltisloftslag og regnskógar. Mér líst vel á þetta, get ekki sagt annað.

Tags: , ,