Posts Tagged ‘Cancún’

Jól og áramót á sólarströnd

Umhverfið er eins lítið jólalegt og það gerist. Hvítar strendur, túrkís blátt haf, pálmatré og ferðamenn af öllum þjóðernum í stuttbuxum og bikini hvert sem litið er. VIð erum við karabíska hafið og verðum fram yfir áramót, nánar tiltekið í Cancún sem er líklega þekktasti ferðamannastaðurinn hér. Við vorum boðin í giftingu sem fór fram á vetrarsólstöðum í gær og þar sem við erum komin hingað ákváðum við að vera ekkert að flýta okkur til baka og nýta flugfarið almennilega.

Ég tók upp á því nú í ár í fyrsta sinn að gefa í skóinn, einhvern veginn var það ekki við hæfi þar sem við bjuggum áður en eftir flutningana í nýtt húsnæði þá einhvern veginn byrjuðu jólasveinarnir að streyma alla leið til Mexíkóborgar. Þeir leggja líka leið sína til Cancún. Úti á svölum hótelherbergisins þar sem sjá má öldurnar leika í fjöruborðinu má finna litla skó sem bíða eftir Ketkrók, þeir koma víða við kallarnir.

Hér verðum við að sulla á sundlaugarbakka og við leik á ströndinni fram á nýja árið. Þetta ár sem er að líða hefur verið það klikkað að við eigum inni smá frí frá öllu stressinu.

Ég óska öllum gleðilegra jóla og að hamingjan megi finna ykkur og þið hana á nýja árinu.

Tags: ,