Posts Tagged ‘bankahrunið’

Þegar ég tók þátt í útrásinni

Allar götur síðan að íslenska efnahagsundrið snérist upp í andhverfu sína haustið 2008 og varð að íslenska efnahagsviðundrinu hefur mikið gengið á heima á Fróni. Síðustu misserin hefur allt snúist um hverjum var þetta að kenna og að sjálfsögðu sýnist þar sitt hverjum. Nýverið kom út mikil skýrsla um hrunið frá rannsóknarnefnd Alþingis sem mér skilst að hafi vakið mikla lukku hjá mörgum þar sem margir fyrrverandi góðborgarar fengu orð í eyra. Það er dálítið sérstakt að fylgjast með þessu öllu saman utan frá hér í Ameríku. Til dæmis frá því í febrúar hef ég ekki mikið verið í netsambandi og því hef ég heyrt stopular fréttir af þessum ósköpum sem virðist engan endi ætla að taka.

En til að komast út úr þessu ástandi er nauðsynlegt að uppgjör við þessa tíma fari fram og ég ætla mér því að fara fram með góðu fordæmi og skýra frá mínum þætti í útrásinni.

Mín þátttaka var bundinn við ákveðinn atburð einn fagran og sólríkan vordag hér í Mexíkóborg í mars 2008. Þá kom forseti Íslands í opinbera heimsókn ásamt miklu föruneyti og sendiherra Íslands í Bandaríkjunum hélt móttöku og bauð öllum Íslendingum búsettum hér í kokteil boð. Þarna voru meðferðis bisness fólk frá íslensku bönkunum ásamt fleirum. Merkilegast var fyrir okkur að hitta Magnús Scheving sem var að kynna Latabæ.

Eitt af því sem maður ætti aldrei að gera er að reyna að rifja upp hugsanir og tilfinningar frá löngu liðnum atburðum. Held að það sé óhjákvæmilegt að bankahrunið liti eitthvað minningar mínar af þessum degi en ég held að ég ljúgi engu þegar ég segi að mér kom þetta allt undarlega fyrir sjónir. Þegar forsetinn kom hingað til Mexíkó var ég við hávísindaleg störf við UNAM háskóla en sá skóli hefur um 300 þús nemendur sem er u.þ.b. íbúafjöldi Íslands. Nefni þetta sem dæmi til að bera saman þessi tvö lönd.

Kokteilboðið var haldið á einu fínasta hóteli borgarinnar í Oaxaca-salnum, man ég. Þar hitti ég sjálfan Ólaf Ragnar ásamt sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. Verð að viðurkenna að ég man ekki alveg hvur það var en það var einhver innvígður í Flokknum. Þarna hitti maður nokkra bankamenn en á þessum tíma var Ari við það að stíga fyrstu skrefin og fór mikill tími í að hjálpa honum að ganga um sem á þessum tíma var það eina sem hann vildi gera. Missti því dálítið af þessum viðburði en hafði þó tíma til að tala við nokkra bankamenn og spjallaði við nokkra frá Landsbankanum. Man ég var að hugsa hvað Landsbankinn ætlaði sér nú að gera í Mexíkó. Reyndar eru góð fjárfestingartækifæri í þessum heimshluta enda er þetta land víst skilgreint sem „emerging market“. Kannski ætluðu þeir að bjóða Mexíkönum upp á Icesave, hver veit.

Þáverandi menntamálaráðherra var líka með í för sem eftir hrun hefur löngum verið kennd við kúlulán. Man hún blikkaði Ara aðeins þegar þau tvö fóru á sama tíma í snakk skálina. Dorrit forsetafrú var þarna líka og hún talaði einna mest við okkur enda ágætis kerling. Fleiri nafnkunna menn þekkti ég ekki enda ekki mikið inn í málunum á Íslandi og langt um liðið síðan ég hafði skoðað Séð og Heyrt. Kannski voru einhverjir frægir bindiskarlar þarna sem nú bíða eftir kærum frá sérstökum saksóknara.

Á þessum tíma var farið að hrikta aðeins í stoðum íslensks efnahags, krónan var eitthvað farin að lækka þótt að það hafi þá ekki verið neitt til að tala um miðað við það sem á eftir fór. Verðbólgan var á uppleið og stöðugt komu einhverjar vondar fréttir um bankana. Eitthvað sem kallast tryggingarálag var mikill höfuðverkur á þessum tíma en var fyrir mér hugtak sem ég hafði aldrei heyrt áður.

Í minningunni var ég því skeptískur á þetta allt saman en kannski er það fölsk minning eftir allan gauraganginn í kringum hrun bankanna um hálfu ári síðar. Þetta var víst eitt af þessum kokteilboðum sem ritstjóri Morgunblaðsins talaði um síðar að forsetinn hafði verið marenaður í af útrásarvíkingum. Held reyndar að þetta boð hafi verið í boði íslenska ríkisins en hvað veit maður svo sem?

Þarna át maður snittur og drakk gos í góðu yfirlæti rétt fyrir ragnarök íslenska góðærisins. Jafnvel þótt ég ætti eftir að búa hér í Mexíkó allt til æviloka þá býst ég ekki við því að sjá forseta Íslands hér aftur með viðskiptaföruneyti sér við hlið. Reyndar voru þetta mjög abúrd tímar og ég er helst feginn að þeir séu liðnir og vonandi koma þeir aldrei aftur. Árin þegar nokkrir Íslendingar ætluðu sér að vera stórir kallar og gera litlu krúttlegu bankana heima að einhverjum alþjóðlegum tröllabönkum og mistókst það svo herfilega að það tekur amk áratug fyrir íslensku þjóðina að rétta sig af eftir það rugl.

Þetta er mitt uppgjör við íslensku útrásina, eina skiptið sem hægt er að segja að ég hafi tekið beinan þátt í því ævintýri. Mér líður betur að hafa játað þetta fyrir ykkur og hvet nú alla til að gera upp við sinn hlut í útrásinni og hruninu svo að íslenskt samfélag geti rétt sig við sem fyrst, bæði efnahagslega og andlega.

Tags: , , , , , ,

Greinargóð skrif um hrunið

Á bloggi Egils Helgasonar er ágæt grein um hrunið og ástæður þess eftir Andra Helgason. Er sjálfur sammála öllu því sem þar kemur fram. Held þessum hluta hér til haga þar sem hann hittir svo rækilega í mark.

Á Íslandi voru varla bankar fyrir 30 árum.  Þetta voru eiginlega bara sparisjóðir eftir rússneskum fyrirmyndum.  En svo vorum við komin með bankakerfi sem var 10 sinnum stærra en hagkerfi landsins — á rétt rúmlega 5 árum.  Og rökin eru þau að seðlabankinn gat ekki stoppað þetta?  Bara svona rétt til að setja þetta í samhengi.  Ef bankakerfið í Póllandi, sem fyrir 30 árum var með sömu bankahefð og Ísland, hefði verið hlutfallslega jafnstórt miðað við höfðatölu, þá hefði það dugað til að sjá allri Evrópu fyrir bankastarfsemi.

En þetta verður svo miklu verra og svo miklu vitlausara því meira sem maður hugsar um það.  Og um allt Ísland er fólk sem er alveg stórhlessa á því að “ríkið sé að ábyrgjast Icesave.”  Bankakerfið sem hrundi var 20-30 sinnum stærra heldur en Icesave, lang mest af því tapi fellur utan Íslands.  Kostnaður ríkisins við að taka á sig Landsbankann gæti orðið stærri en Icesave, sérstaklega ef enginn er að passa kassann.  Kostnaður ríkisins af ástarbréfunum er áætlaður um 300 milljarðar króna.  En við skulum eyða öllum tímanum í að kvarta yfir Hollandi og Bretum.  Þetta er allt þeim að kenna, þeir áttu að stoppa okkur.  Og ef það er ekki þeim að kenna, þá er það ESB að kenna að leyfa okkur að taka þátt í Evrópumarkaðnum en gefa okkur ekki barnaútgáfuna af lögunum þeirra sem skýra út hvernig innistæðutryggingar virka alls staðar í heiminum síðan í heimskreppunni 1929.

Það trúir því enginn (amk. ekki utan Íslands) að ein þjóð geti verið svona vitlaus, svona ábyrgðarlaus.  Það dettur engum erlendum, eða heilvita, manni í hug að þetta hafi ekki verið ein risastór svikamylla.  Og hvað gera svo Íslendingar?  Eitt ár liðið frá hruni og tveir piltar varla með pungapróf eru dæmdir fyrir smásvik.  Nefnd á vegum þingsins gefur litlar sem engar skýringar á af hverju dregst að skila skýrslu um málið.  Engir erlendir aðilar hafa verið fengnir til að rannsaka málin, utan ein góðhjörtuð kona sem kom hingað til að tala við sjónvarpsmann.  Hún fékk við illan leik og eftir svolítið japl líka skrifstofu.  Utan Íslands vill fólk fá svör og það vill ekki fá þau svör á íslensku.  Það vill fá þau á mannamáli.  Hreinskipt svör.  Heiðarleg svör.  Greinagóð svör.  Ekki “þetta er flókið.”  Ekki, “þetta tekur tíma.”  Ekki, “ekki benda á mig.”  Svör sem sýna nákvæmlega hvort að það var heimska eða glæpsamlegur ásetningur sem orsakaði einhverja stærstu gripdeild á sparifé sem heimurinn hefur nokkurn tímann séð.

Tags: , ,

Auðvitað er fæðingarorlof skorið niður

Sé að það er allt vitlaust heima á klakanum yfir niðurskurði á fæðingarorlofinu. Held að menn ættu bara að prísa sig sæla yfir því að allt fæðingarorlofskerfið var ekki lagt niður eins og það lagði sig. Ríkissjóður er jú á hvínandi kúpunni og fæðingarorlof er ákveðinn lúxus sem einungis ríkar þjóðir geta leyft sér. Vita lesendur annars hvort svona kerfi fyrirfinnast í öðrum löndum?

Það er alltaf leiðinlegt að sjá á bak ýmsum þægindum sem fólk hefur vanið sig á. En svona er Ísland í dag víst og ekkert hægt að gera í því lengur. Leita verður allra leiða til að skera niður í opinberum rekstri og auðvitað er alltaf einhver sem tapar á því.

Menn verða einfaldlega að horfast í augu við þá staðreynd að Ísland er nokkrum klössum neðar eftir bankahrunið. Þakkið fyrir að Ísland fer ekki niður á mexíkanska stigið en á því stigi eru engar barnabætur, atvinnuleysisbætur, örorkubætur, vaxtabætur, fæðingarorlof, ellilífeyrir o.s.frv. Hér í landi er hlegið að svona lúxusvandamálum eins og að einn mánuður verði klipinn af fæðingarorlofi.

Tags: , ,

Heimferð?

Nú fer að styttast í að við hjónin þurfum að ákveða hvort við kíkjum á klakann um jólin eður ei. Væri óneitalega gaman að fá alvöru jól og áramót en hvorugt hef ég séð síðan 2004. Þetta ræðst víst allt af efnahaginum sem er reyndar á uppleið eftir erfið misseri.

Það er nokkuð áhugavert fyrir mig að sjá Ísland eftir hrun en við vorum síðast á landinu í ágúst á síðasta ári. Rétt áður en allt fór á hliðina. Ég er því í nokkuð góðri aðstöðu til að sjá hvað hefur breyst við hrakfarirnar.

En þetta kemur víst allt í ljós, ef við komum ekki um þessi jól þá verður það bara síðar. Heimskreppan er víst enn í fullum gangi og því ekki fyrir hvern sem er að fljúga á milli heimsálfna.

Tags: ,

Þráðurinn tapast

Ég er fyrir löngu búinn að tapa áttum í bankahruninu mikla á Íslandi. Hverjir voru að tapa peningum, koma undan peningum, offjárfesta, sóa, kasta á glæ peningum. Hvaða pólitíkusum er helst um að kenna o.s.frv. Vonast bara til þess nú að einhver góður sagnfræðingur skrifi greinargóða og upplýsandi bók um málið þegar allt er um garð gengið. Þá get ég lesið mér til um þetta og hneykslast á því ósnotra fólki sem kom klakanum á enn kaldari klaka.

Rifjast reyndar upp fyrir mér að ég tók upp sömu stefnu varðandi upplausn gömlu Júgóslavíu. Var orðinn frekar áttavilltur í þeim deilum öllum, hver var að skjóta á hvern og afhverju. Líklega er búið að skrifa góðar bækur um það allt saman en ég hef ekki komist í þær enn. Kannski var því öllu fyrst að ljúka á síðasta ári með sjálfstæðisyfirlýsingu Kosovo þannig að ég get farið að svipast um í bókaverslunum.

Tags: , ,