Posts Tagged ‘Ari Snær’

Beinagrindin leiðrétt

Í byrjun mánaðarins fór ég til læknis. Þar sem ég fer afar sjaldan til læknis eru þetta nokkur tíðindi. Þessi læknir ber líklega titilinn bæklunarlæknir á íslensku. Þegar ég mætti til hans skipaði hann mér umsvifalaust að fara úr buxunum og þuklaði mig svo allan ásamt því að sveiga og beygja á mér fæturnar. Svo kvað hann upp úrskurð sinn. Hann sagði að ég væri einkar sveiganlegur maður og meinti það bókstaflega. Því til sannindis sveigði hann mig aðeins fyrir framan Anel, vatt upp á hendurnar á mér eins og ég væri tuskubrúða. Konan rak upp stór augu yfir liðleika eiginmannsins.

Ég varð einnig nokkuð hissa á þessu, læknirinn spurði meira að segja hvort ég stundaði leikfimi. Ég fór næstum því að hlægja en hélt aftur af mér. Ég hef verið sakaður um margt en að vera liðugur íþróttamaður, það slær nú flest út. Hélt um stund að ég hefði loks fundið ofurhetjukrafta mína. Að ég væri kannski Mr. Fantastic II. Rétt er að taka fram að við konan höfum horft mikið á Heroes undanfarið.

Þegar ég rankaði við mér af ofurhetjudraumnum heyrði ég lækninn segja hvernig þessi liðleiki hafði farið með mig. Fæturnir á mér voru það liðlegir að ég hafði fengið nokkurs konar flatfót sem er þó ekki eiginlegur flatfótur skilst mér. Afleiðingarnar af þessu eru þær að ég geng skakkt og er frekar hokinn.

Það rann upp fyrir mér ljós. Skyndilega skildi ég af hverju ég er eins og ég er. Allt frá því ég var barn var ég hokinn í baki en aldrei nokkurn tímann var gerð nein athugasemd við það. Helst var manni kannski skipað að sitja beinn og hætta þessu hengslum, eins og mér þætti það betra að vera svona eins og ég var. Svona eftir á að hyggja skil ég ekki afhverju enginn sagði neitt við þessu, kannski veit fólk almennt ekki afhverju slæm líkamsstaða stafar. Sjálfur vissi ég lítið um þetta.

Ekki eru mörg ár síðan ég heyrði fyrst um t.d. göngugreiningu og hvað það er. Hugsaði þá með mér að líklega ætti ég að láta líta á mig en gerði aldrei neitt í því. Konan rak mig til þessa læknis þar sem hann starfar í sömu læknamiðstöð og hún. Einnig þurftum við að láta líta á Ara en hann virðist ætla að vera eins og ég, sagði læknirinn, eftir að hafa skoðað hann gaumgæfilega.

Góðu fréttirnar eru að hægt er að rétta úr fótnum á Ara. Emil er of ungur enn til að hægt sé að sjá hvort hann sé svona líka. Ari þarf að ganga í sérstökum skóm með innleggjum þar til að fóturinn á honum verður orðinn eðlilegur, veit reyndar ekki hvað það tekur langan tíma. Ég hinsvegar verð að ganga í skóm með innleggjum þar sem eftir er. Læknirinn sagði að líklega gæti ég átt von á því að líkamsstaða mín yrði betri þegar beinagrindin fær réttan stuðning. Mér finnst nokkuð magnað hvernig svona lítið smáatriði getur breytt miklu.

Við fórum í dag í sérstaka skóbúð með snepil frá lækninum. Pöntuðum innlegg og tvenna skó á Ara og stefnum á að fara aftur í næstu viku til að ganga frá minni pöntun. Anel skipaði mér að fleygja öllum skóm sem ég á og ganga þaðan í frá einungis í nýjum skóm með þar til gerðum innleggjum. Að sjálfsögðu mun ég gegna því.

Ég hlakka reyndar nokkuð til að sjá hver árangurinn af þessu verður. Í skóbúðinni sá ég hvernig svona fótagalli getur haft slæm áhrif. Eitt veggspjald taldi upp ótal kvilla eins og bakverki, vöðvaspennu, þreytu og verki í hnjám og ökklum, höfuðverki, verra jafnvægi og það sem mér fannst merkilegast, skortur á einbeitningu.

Hver veit, ef ég hafði ekki haft þennan fótagalla hefði ég ef til vill verið betri námsmaður því skortur á einbeitningu er einmitt krónískt vandamál hjá mér. Kannski hefði ég einnig getað verið mikill íþróttakappi ef ég hafði haft fæturnar í lagi. Þetta hefur háð mér alla mína ævi. Aldrei að vita nema að eftir nokkrar vikur verð ég kannski orðinn nýr og betri maður, uppréttur og einbeittur. Ég mun skrifa um árangurinn af þessari eiflífðarmeðferð þegar reynsla verður kominn á þetta.

Þangað til, ef þið lesendur sjáið krakka sem eru bognir í baki eða ganga skakkt þá skuluð þið skipa foreldrunum að senda þau til bæklunarlæknis. Þið gerið líf þeirra töluvert betra með því.

Tags: , ,

Flensubók Lárusar

Felipe Calderón, forseti Mexíkó, hvatti okkur til að vera sem mest heima hjá okkur frá 1-5 maí til að hefta útbreiðslu flensunnar. Fram til 6. maí verður lítið um að vera hér í borg, flest allir samkomustaðir lokaðir, allt skólahald liggur niðri og einungis hægt að sækja mat á veitingahúsum. Ekki er leyfilegt að tylla sér niður á slíkum stöðum lengur.

Svo virðist sem að hægt hafi verulega á útbreiðslu veirunnar í bili. Enn er óljóst hvað nákvæmlega er í gangi varðandi þessi dauðsföll sem urðu í tengslum við flensuna. Rétt er að minna á að spænska veikin byrjaði einnig sem væg flensa en breyttist síðar yfir í skaðlegri afbrigði.

Núna stendur yfir heitasta tímabilið hér í Mexíkó, frá apríl fram í júní er vel heitt hérna. Um daginn fór mælirinn í bílnum upp í 38 gráður en hann er kannski ekki alveg marktækur. Við þessar aðstæður er ekkert grín að ganga um með grímur fyrir andlitinu. Manni verður oft vel heitt núna. Við notum þessar grímur þegar við förum út úr húsi þótt ég geri mér grein fyrir því að þær séu ekki fullkomin vörn. En þrátt fyrir að þær gætu t.d. einungis minnkað líkurnar um 10% á smiti þá þigg ég þau prósent með þökkum.

Þessi flensa fer illa með efnahaginn hér í borg. Reiknað er með að um 88 milljón dollarar tapist daglega bara í Mexíkóborg vegna allra þeirra lokana sem flensan hefur valdið. Ferðamannaiðnaðurinn er svo ein rjúkandi rúst skilst manni.  Mexíkó stóð ekki svo illa í þessari fjármálakreppu sem nú herjar á heiminn miðað við mörg önnur lönd þótt að efnahagsleg örlög þess ráðast mikið til af gengi stóra nágrannans í norðri. Nú lítur ástandið mun verr út en áður. Gert er ráð fyrir því að það hægist á hagvexti mun meir en spáð hafði verið áður en þessi óværa byrjaði.

Drengirnir hafa nánast ekkert farið út undanfarna daga, Emil er að ég held sama en Ara leiðist þetta. Hann vill fara út í garð og leika, skilur ekkert í tregðu foreldra sinna undanfarið.

Sjálfur er ég hundleiður á þessu ástandi þótt það hafi einungis varað í eina viku. Vona að þessu fari að linna sem fyrst.

Tags: , , , ,

Fyrsta kvöldmáltíðin

Emil fékk sína fyrstu máltíð í gær, þ.e. sem samanstóð af einhverju öðru en mjólk og meiri mjólk. Honum bauðst að gæða sér á maukuðu chayote. Ég veit ekki hvað það heitir á íslensku, þetta er svokallað grænmeti. Ekki var kappinn sérstaklega hrifinn af þessu þar sem öllu var spýtt út samstundis en eitthvað náðist ofan í hann þó. Þegar Ari fékk sína fyrstu máltíð var hann frekar hrifinn en hann fékk á sínum tíma gulrót. Við ætlum því að reyna að gefa Emil eina gulrót í kvöld.

Báðir drengirnir voru einungis aldir á mjólk fyrstu sex mánuðina þar sem Anel er með mörg ofnæmi. Það á víst að draga úr líkum á ofnæmum síðar meir ef svona er farið að, segir barnalæknirinn þeirra sem einnig er ónæmissérfræðingur.

Núna er Ari að gæða sér á pulsu. Ég fæ alltaf hálfgert samviskubit yfir því að gefa honum pulsur þar sem mér finnst það varla vera matur. En það gerist reyndar sjaldan að gripið er til slíkra örþrifaráða. Hér á þessu heimili kaupum við alltaf kalkúnapulsur og kalkúnaskinku. Okkur finnst það best þótt að kalkúnn sé ekki í sjálfu sér hátt skrifaður hér á þessum bæ. Aldrei dytti manni það í hug á klakanum að kaupa sér kalkúnapulsur, skrítið.

Annars er ég ánægður með hvernig mataruppeldið hefur tekist. Ari borðar allt sem við gefum honum. Stundum á hann það til að biðja um hráa gulrót þegar við erum að sneiða þær niður. Aldrei hafði ég gert það sem krakki að borða hráa gulrót, fannst þær nógu vondar soðnar. Held að þetta sé spurning um vana. Þeir sem eru vanir að borða grænmeti finnst það gott. Ég borða grænmeti nánast eingöngu af skyldurækni því ég veit að það er gott fyrir mann.

Hef þó stórlega aukið ávaxtaát síðan ég fluttist hingað, skiljanlega. Fátt er betra en ferskur mangó af markaðinum.

Tags: , , ,

Síðasti bleyjupakkinn?

Við erum líklega komin á síðasta bleyjupakkann með hann Ara okkar. Hann er farinn að nota koppinn samviskusamlega og þótt hann sofi enn með bleyju þá eru þær þurrar að morgni. Þetta er ótrúlegur munur að hafa einungis eitt bleyjubarn á heimilinu.

Ari varð tveggja ára í janúar, ég geri mér ekki grein fyrir því hvort að hann sé snemmþroska eða seinn til í koppamálum. Allavega er bleyjupakkinn sem hann er núna á ætlaður fjögurra ára börnum þannig að við erum nokkuð sátt með árangurinn (og stærðina á drengnum). Nú þarf bara að skipta á Emil í u.þ.b. eitt og hálft ár í viðbót….. gisp.

Tags:

Talnaglöggur

Ari hefur lært að telja upp að tíu á spænsku. Mér finnst það nokkuð gott hjá kríli sem nýorðið er tveggja ára.

Tags:

Málfræði Ara

Ari bað mig um vatn fyrir svefninn með eftirfarandi orðum í kvöld.

Pabbi, aqua please.

Fólk er að segja mér að með tímanum læri hann að greina á milli tungumála. Ég vona að það hafi rétt fyrir sér. Dálítið mikið að slá saman þremur tungumálum í þriggja orða málsgrein.

Tags: ,

Tvítyngt barn

Að ala upp tvítyngt barn er nokkuð sérstök lífsreynsla. Líklega hef ég staðið mig með sóma í að tala við Ara Snæ þar sem hann virðist skilja allt sem ég segi á íslensku. Hann er farinn að tala meira með hverjum deginum og hann segir flest á spænsku en þó leynast innan um íslensk orð eins og „meira“, „núna“, „já“ o.s.frv.

Ég held að það verði tvímælalaust mikill kostur fyrir hann og Axel í framtíðinni að hafa tvö móðurmál, sama hvar við búum. Við hjónin ræðumst enn mikið við á ensku og svo virðist sem hann skilji einnig eitthvað úr því máli því stundum bregst hann við því sem við erum að tala um. Þrátt fyrir að hafa gætt okkur á því að ræða einungis við hann á okkar máli.

Kannski er því hægt að tala um þrítyngt barn!

Á sambýlinu sem ég bjó á í Skövde var þar stúlka að nafni Aline. Hún átti finnska mömmu og úrúgvæskan pabba, alin upp í Svíþjóð og talaði að sjálfsögðu reiprennandi ensku eins og Norðurlandabúum er títt. Hún var því fullfær í finnsku, spænsku, sænsku og ensku. Mér fannst það aðdáunarvert því fátt er líkt með þessum tungumálum nema helst þeim tveimur síðastnefndu.

Mínir synir verða e.t.v. eitthvað á þessa leið þegar þeir komast til manns. Þá verð ég nú stoltur.

Tags: , , ,