Posts Tagged ‘Ari Snær’

Nintendo fyrr og nú

Líklega var það í október þegar ég og frúin sáum á uppgjöri einu kreditkortanna að punktastaðan var orðin ískyggilega há. Þar sem umrætt kort er alltaf notað þegar fjárfest er í einhverju stóru fyrir bisnessinn þá hafði það gefið vel af sér í punktum. Þar sem þeir úreldast hér á fimm árum og þeir elstu höfðu þegar kvatt þennan heim þótti ekki annað viðeigandi en að koma nú þessum náðargjöfum kortafyrirtækjanna í góð not.

Við athuguðum því á netinu hvað væri í boði og viti menn, við gátum fengið Nintendo Wii gefins fyrir punktana.

Ég var reyndar mjög efins um að taka Wii gripinn. Minnugur eigin reynslu af tölvuleikjum og einnig höfðu nokkrir ungir karlar haft það á orði að réttast væri að láta það eiga sig að kaupa leikjatölvu handa strákunum.

Sjálfur átti ég elstu gerðina af Nintendo þegar ég var polli, líklega kom hún á heimilið þegar ég var sjö ára (1987). Þetta var náttúrulega bylting á sínum tíma og hvað maður gatt eytt tímanum í þetta. Var reyndar galli að ekki var hægt að vista leikina man ég og því var það alltaf allt eða ekkert sem gilti. Maður þurfti að klára leikina frá byrjun í einum rykk og það var stundum ekkert áhlaupaverk.

Eftir á að hyggja veit ég ekki hversu hollt þetta var fyrir mann, ekkert sérstaklega skaðlegt kannski en maður veit aldrei. Það dempaði reyndar minn spilatíma að aðeins eitt sjónvarp var á heimilinu þannig að ég gat lítið spilað á kvöldin, fréttir og Derrick höfðu þar forgang.

Ég eignaðist aldrei PC tölvu fyrr en ég var orðinn tvítugur þannig êg datt aldrei inn í þann leikjaheim. Gömlu Nintendo var skipt út fyrir Sony Playstation árið 1995 sem var að sjálfsögðu önnur bylting en eftir að hóf háskólanám 2001 hef ég varla snert á tölvuleik fyrr en nú. Hafði einfaldlega ekki tíma fyrir slíkt dútl.

Þar sem þetta var mikill tímaþjófur fyrir mig hafði ég eins og áður sagði efasemdir um Wii. Einnig rifjuðust upp gamlar minningar um skaðsemi tölvuleikjanna. Ég man eftir einum sveitunga mínum sem var samtíða mér á heimavist Fjölbrautaskóla Akraness. Hann datt svo innilega inn í þennan heim, gott ef það voru ekki Final Fantasy leikirnir sem áttu hug hans allan. Einn góðan veðurdag vaknaði hann upp við vondan draum, búinn að skrópa sig út úr skólanum, heimavistinni og öllu saman. Foreldrarnir mættir í dyragættinni rauðir í framan til að draga hann heim, líklega skýrasta dæmið sem ég man eftir.

Fleiri sem ég þekki eyddu of miklum tíma í ýmis tölvuspil, bitnaði á þeirra námi veit ég fyrir víst.

Ég lét þó til leiðast á endanum og við fengum Wii í hendurnar nokkrum dögum síðar. Settum þó reglur um spilunartíma, einungis er hér spilað um helgar og eftir að allri heimavinnu hefur verið sinnt. Gripurinn kom með Mario Kart Wii sem er kappakstursleikur og höfum við keypt tvo leiki í viðbót síðan þá.

Man reyndar eftir forvera þessa kappakstursleiks á Nintendo 64 sem var stundum leigð á heimvist FVA af vídeóleigunni Ás. Ætli krakkar leigi ennþá svona leikjatölvur? Eru vídeóleigur ennþá til á Íslandi? kæmi mér ekki á óvart ef þær hefðu dagað uppi.

Hvað um það, Wii er hin besta skemmtun fyrir alla fjölskylduna og ég hef staðið sjálfan mig að því að vera eftir miðnætti í brjáluðum kappakstri á regnboga út í geimnum eða vera að bjarga heilu vetrarbrautunum með gamla góða Maríó, pípara með meiru. Skemmtilegt að sjá gömlu persónurnar enn í fullu fjöri, strákarnir eru að leika með sömu kallana og ég fyrir aldarfjórðung í ehm… eilítið betri grafík.

Ég sé ekki eftir því að hafa eignast Wii en hef lofað sjálfum mér því að myndarlegu drengirnir mínir fá ekki að enda sem niðurlútir tölvunirðir. Ég gæti aldrei fyrirgefið sjálfum mér, allt er best í hófi.

Tags: , , ,

Þreytti bloggarinn og leikskólinn

Nei, ekki þreyttur á blogginu heldur frekar svona almennt þreyttur. Hef nóg til að blogga um en þegar ég blogga þreyttur þá hef ég tekið eftir því að leiðindi bloggsins stefna í óendanlegt, sbr færsluna um Kína hér að neðan. Ég er eins og Björn Bjarna og Hannes Hólmsteinn samanlagðir í leiðindum í þessum gír. Stend við allt sem segir í Kínafærslunni en ég kom þessu ákaflega illa frá mér. Mun því einungis reyna að blogga óþreyttur héðan í frá.

Annars eru helstu tíðindi héðan að Ari og Emil eru komnir á leikskóla sem kallast Fransisco Zarco og er í næstu götu við okkur. Þetta er opinber skóli og því engin skólagjöld eða neitt slíkt. Kostnaðurinn mun vera 50 cent á dag (um 5 krónur) fyrir morgunverðinn og kaupa þarf skólabúninga, það kalla ég vel sloppið. Þarna munu þeir vera frá 9-2 alla virka daga þannig að það verður eilítið rólegra á heimilinu við þessar breytingar, vonandi.

Tags: ,

Frí

Við hjónin kunnum ekki að taka okkur frí. Hér er aldrei stoppað, botnlaus vinna og uppbygging. Árangur, áfram ekkert stopp á þessum bæ.

Nú verður ekkert unnið fram á mánudag eftir páska. Tilfinningin er dálítið skrítin. Helst erum við að spá í að keyra til Hidalgo ríkis á morgun og skreppa þar í sund en þar munu vera heitar laugar, svona til að gera eitthvað.

Er að myndast við að mála barnaherbergið blátt fyrir Ara og Emil þessa stundina, hér er komið fram yfir miðnætti en svefn er jú einungis fyrir dugleysinga.

Höfum fest kaup á þriðja tannlæknastólnum og bisnessinn blómstrar sem aldrei fyrr. Vorið er gengið í garð hér í Mexíkó sem þýðir að hér er alltaf vel heitt, dag sem nætur.

Sá minnsti er orðinn nokkuð stór og pattaralegur og dafnar vel.

Annars er allt ágætt að frétta héðan.

Tags: ,

Ari fjögurra ára

Nú er hann Ari Snær orðinn fjögurra ára. Fæddur 11. janúar 2007. Hátíðarhöld voru í lágmarki að þessu sinni þar sem móðir hans er ansi hreint ólétt og nóg að gera við að undirbúa tannlæknastofuna fyrir væntanlegt brotthvarf hennar í nokkurn tíma. Þó var splæst í tertu með myndum af Spiderman en hann er einhverra hluta vegna í miklu uppáhaldi hjá Ara.

Verður að viðurkennast að enn hefur ekki verið keypt afmælisgjöf en það verður vonandi gert í dag. Þá þarf að gefa Emil eitthvað einnig svo að hann verði ekki miður sín yfir því að bróðir hans fái pakka en hann enga.

Mínar fyrstu minningar eru frá því að ég var fjögurra ára og einnig lærði ég að lesa á þessum aldri. Er því eins gott að vanda sig nú við uppeldið þar sem drengurinn gæti átt eftir að muna allt héðan í frá. Vantar nú ekki mikið upp á að hann verði læs, allavega á spænsku en ég læt það duga að sinni.

Ég er ekki einn af þeim sem býsnast yfir því hvað tíminn líði hratt við svona tímamót. Mér finnst vera ógnarlangt síðan Ari fæddist, kannski er líf mitt leiðinlegra en annarra og því líður tíminn hægar? Nei, ég held reyndar að þetta sé eitthvað persónulegt hvernig fólk skynjar tímann.

Mér finnst það reyndar skrítin tilhugsun að eftir fjögur ár í viðbót mun ég enn sitja uppi með kríli á þessum aldri. Þetta barnauppeldi tekur víst seint enda!

Tags: , ,

Enskunám Ara

Nú hefur komið á daginn eftir frumsýningu myndarinnar Marcelino Pan y Vino að senurnar með Ara voru klipptar burt. Voru frekar mikil vonbrigði en þar sem myndin sjálf er óttalegt drasl þá grætur maður það ekki mikið. Kannski verður hægt að sjá hann í DVD útgáfunni, hvur veit.

Annars gengur Ara vel í skólanum. Hann hefur lært heilmikið en það merkilegasta fyrir mér er hvernig hann hefur lært þónokkuð í ensku. Um daginn sönglaði hann í baði, „My name is Ari, would you like to play?“ þegar hann var rétt byrjaður í skólanum. Nokkru síðar taldi hann fyrir okkur upp að tíu á ensku án þess að blikna. Nú um helgina söng hann eftirfarandi kvæði fyrir okkur, hann kann líka spænsku útgáfuna.

Four little monkeys jumping on a bed

one jumped up and bumped his head.

Mom called the Doctor and the Doctor said

no more monkeys jumping on a bed.

Mér finnst þetta nokkuð merkilegt miðað við að hann er enn þriggja ára. Framburðurinn hjá honum er líka stórgóður.

Hann hefur líka lært margt fleira t.d. í stærðfræði, lestri, föndri ásamt fleiru. Hann hefur alltaf einhver heimaverkefni, m.a. er ein bók einungis fyrir lífsgildi. Á sérhverjum degi eigum við að ræða við Ara um ákveðna hluti, t.d. um að bera virðingu fyrir öðru fólki, stunda náttúruvernd og hvernig koma skal fram við skólafélagana. Svo verðum við að tjá það einhvern veginn, höfum yfirleitt farið ódýru leiðina og klippt út myndir úr tímaritum og límt inn. Eitthvað sem er gert mikið af í leikskólum hér ytra.

Nú vantar mig allan samanburð við íslenska leikskóla en ég hef það á tilfinningunni að leikskólabörn hér ytra læri meira í skólanum. Plús að prestar eru ekki velkomnir hér inn á gafl með fagnaðarerindið, nema að um kaþólska skóla sé að ræða. Ég er því enn sem komið er mjög sáttur við skólann hans og ég vona að það breytist ekkert.

Tags: , ,

Verðandi afmælisstrákur

Emil á tveggja ára afmæli næsta föstudag. Hann hefur þegar beðið um að afmælistertan verði skreytt með Lighting McQueen sem ég verð að viðurkenna að ég hef ekki hugmynd um hvað sá kappi heitir upp á íslensku. Á spænsku gengur hann undir nafninu Rayo McQueen sem Emil ber fram sem Læjó. Myndin Cars er í miklu uppáhaldi hjá þeim bræðrum sem skiljanlegt er.

Ari hefur þegar tilkynnt að hans afmælisterta verði skreytt með Spiderman en af einhverjum ástæðum er Spiderman það heitasta í dag í hans heimi. Vildi fá skólatösku með Köngulóarmanninum en endaði með Buzz Lightyear í staðinn þar sem Spiderman töskurnar voru ekki að gera sig. Nýjustu rúmfötin hans eru hinsvegar myndskreytt með Spiderman, Iron man og Wolverine.

Líklega verður að passa upp á það ef Emil fær einhverja pakka þá verður Ari að fá einn eða tvo í sárabætur fyrir að eiga ekki afmæli fyrr en í janúar. Eignarétturinn er mikið til umræðu hjá þeim þessa dagana, hver á hvaða dót. Ég reyni að koma með sósíalískar lausnir á þeirra deilumálum en þær falla í grýttan jarðveg.

Ari fær daglega heimaverkefni úr skólanum sem yfirleitt snúast um að lita mynd, klippa og líma myndir og þess háttar föndur. Emil þurfti því að sjálfsögðu að fá sín heimaverkefni eins og almennilegur maður og litar því með Ara daglega.

Þeir bræður eru góðir vinir yfirleitt og leika sér fallega saman. Við gætum ekki verið hamingjusamari með þessa gutta á heimilinu.

Tags: ,

Ari á leið í skóla

Ari Snær var skráður í skóla nú í vikunni. Hann hefur eins og Emil verið í pössun heimavið eða hjá frænkum sínum hér í borg fram til þessa. Nú verður aldeilis breyting þar á þar sem hann er á leið í fínan einkaskóla, Colegio Williams. Sá skóli var stofnaður 1928 og er í gömlu virðulegu húsi spölkorn frá þar sem við búum. Þegar gengið er í gegnum skólahliðið liggur leiðin í gegnum fallegan garð þar sem mikið er af skrautlegum blómum. Skólabyggingin sjálf er í klassískum stíl þar sem lofthæðin er mikil, líklega í kringum 5 metrar innandyra.

Hér í Mexíkó notast flestir við skólabúninga og það verður að segjast eins og er að búningurinn sem Williams notast við er nokkuð reffilegur. Ari hefur þegar fengið peysu og vesti auk fata sem notast er við í leikfimi. Allt er þetta skreytt með skjaldarmerki skólans en við eigum eftir að kaupa skyrtur og buxur. Fínast er þó blazer jakki sem krakkarnir klæðast á mánudagsmorgnum, dimmblár jakki með gylltum hnöppum. Á hverjum mánudegi hefst skólavikan hér í Mexíkó á hátíðlegri athöfn þar sem fáninn er heiðraður, þjóðsöngurinn sunginn og þessháttar skemmtilegheit. Besti nemandinn fær þann heiður að bera fánann við þessa athöfn og þá verða allir að vera í blazernum. Hljómar allt svona semi-fasískt en svona er þetta hér vestra.

Í þessum skóla fer kennslan að helmingi til fram á ensku, allt niður í yngsta leikskólastigið en kennt er til 18 ára aldurs í þessum skóla. Mér skilst líka að það sé ætlast til að hann læri heima frá byrjun. Fyrir þá sem ekki vita er Ari þriggja ára þannig að þetta kemur manni nokkuð spánskt fyrir sjónir. Samkeppnin hér í þessu landi er svo mikil að hún hefst strax við leikskólaaldurinn. Stundum velti ég því fyrir mér hvað orðið hefði um mig í svona umhverfi, hvort að maður hefði náð á toppinn eða endað sem skóburstari á götunni.

Þetta mun hafa áhrif á daglega rútínu hér á heimilinu, Ari þarf að vera mættur í skólann 7.50 á morgnanna. Engum er hleypt inn eftir 8.00. Verður víst lítið um næturgöltur héðan í frá hjá mér nema kannski um helgar.

Sjálfur er Ari spenntur fyrir þessum nýheitum. Var vonsvikinn nú á þriðjudaginn þegar við fórum að skrá hann, hélt að hann gæti byrjað strax en skólinn hefst 23. ágúst. Man þegar að ég átti að byrja í Laugargerðisskóla 6 ára gamall í því sem þá hét forskóli 6 ára barna. Þverneitaði að fara og þurfti tiltal og nokkrar vikur þar til ég fékkst til að fara og kunni því svo vel að ég var í skóla til 27 ára aldurs og er enn að spá í frekara námi. Bæði Ari og Emil eru félagslyndari en ég var nokkurn tímann, tengist kannski því að alast upp í 27 milljóna manna borg.

Set inn mynd af Ara þegar hann verður kominn í dressið fyrir skólann í þarnæstu viku. Þetta verður bara gaman hjá honum.

Tags: ,

Emil í bleyjuauglýsingu/Ari í kvikmynd

Ferðin til Tabasco verður víst að bíða um sinn þar sem Emil litli fékk sína fyrstu vinnu í dag. Hann verður einn af þremur börnum í bleyjuauglýsingu fyrir Huggies og munu tökur fara fram á miðvikudaginn og fimmtudaginn. Ég vona að þessi auglýsing endi á Youtube svo ég geti smellt henni hérna inn.

Minnir mig einnig á það að ég hef enn ekki sett neitt á bloggið um fyrsta hlutverk Ara en hann lék í kvikmynd fyrr á þessu ári sem verður frumsýnd í nóvember. Mun sú mynd bera titilinn Marcelino pan y vino og er endurgerð af frægri spænskri mynd sem kom út 1955.

Aðalsöguhetja myndarinnar er drengurinn Marcelino sem er munaðarlaus og elst upp í munkaklaustri. Söguþráðurinn er eitthvað á þá leið að hann verður vitni af kraftaverki þegar hann býður kristlíkneski brauð að snæða og við það lifnar líkneskið við, fær sér brauðbita og kynnir drenginn svo fyrir móður sinni. Þessi mynd er víst afar vinsæl í spænskumælandi löndum.

Ari fer með hlutverk Marcelino þegar hann er um tveggja ára. Minnir að fjögur börn fari með hlutverk Marcelinos en aðalhlutverkið er í höndum fimm ára drengs. Ari mun birtast í tveimur eða þremur senum í upphafi myndarinnar en önnur tvö börn leika Marcelino þegar hann er enn yngri.

Minnir að tökurnar hafi farið fram í apríl en ég komst ekki sjálfur þar sem ég þurfti að vinna eins og þægur launaþræll. Anel fór með drengjunum og það var víst spes upplifun, Ari fékk m.a. sitt eigið hjólhýsi meðan á tökum stóð. Að sjálfsögðu var allt uppihald frítt en tökur fóru fram í þorpi einu um tveggja tíma akstur frá Mexíkóborg skammt frá Toluca í Estado de México.

Við bíðum spennt eftir frumsýningardeginum, verður áhugavert að sjá Ara á hvíta tjaldinu og líklega verður hans getið á imdb.com. Vona að strákarnir verði frægir og ríkir einn daginn þannig að ég geti tekið því rólega í ellinni.

Tags: , ,

Tengdur á ný

Loksins tókst að finna nýtt hleðslutæki fyrir Makka konunnar og ég er því kominn í samband við umheiminn á ný. Reikna má því með margföldum afköstum hér á blogginu þar sem ég er mættur með íslenskt lyklaborð sem ég hef sárlega saknað undanfarið.

Annars er ekki mjög margt í fréttum héðan frá Mexíkóborg. Gerðist svo frægur á sunnudaginn að horfa á heilan fótboltaleik sem gerist ekki oft. Horfði á mína menn Mexíkana bíða lægri hlut fyrir Argentínumönnum sem var að sjálfsögðu óverðskuldað og skrifast tapið á blinda dómara og línuverði sem gáfu Argentínu fyrsta markið þrátt fyrir óskammfeilna rangstöðu. Held samt að héðan í frá verði ég að halda með Argentínu, það er bara svo skemmtilegt að sjá sjálfan Maradona mættan aftur til leiks.

Hér hefur að sjálfsögðu verið vel heitt í maí og júní þar sem hitamælirinn fer hátt upp í fjörtíu gráðurnar á daginn. Yfirleitt slær það á hitann þegar regntímbilið hefst í júní en það hefur ekki komist almennilega af stað ennþá en það ætti að hafa hafist nú um miðjan mánuðinn.

Ari og Emil stækka og þroskast með hverri vikunni. Emil er farinn að tengja saman orð og að sjálfsögðu byrjaði hann á því að segja „nei pabbi“ eða „nei mamí“ eða „nei Ari“. Greinilegt að hann er ættaður af Snæfellsnesinu. Röddin í þeim stutta er einnig nokkuð sérstök miðað við pjakk sem er um eins og hálfs árs. Anel heldur að hann verði með mikla bassarödd þegar hann stækkar því hún er þegar orðin nokkuð karlmannleg. Svo er ég enn að gera það upp við mig hvort að Ari sé græneygður eða bláeygður, verð að viðurkenna að ég er alls ekki viss ennþá.

En hvað er að frétta af ykkur?

Tags: , , , ,

Ari þriggja ára

Þrátt fyrir að það séu næstum tvær vikur liðnar þá vil ég ekki sleppa því að minnast á afmæli Ara þann 11. janúar síðastliðinn. Drengurinn er orðinn þriggja ára og er nokkuð stoltur af þvi. Smelli inn einni mynd af kappanum svona til hátíðabrigða.

Fór vel á því að á afmælisdeginum skundaði ég niður á pósthús til að sækja jólapakkann frá Íslandi fullan af góðum gjöfum.

Annars gengur eitthvað hægt að blogga undanfarið. Ætla þó mér ekki að enda sem Facebook-vesalingur eins og hafa orðið örlög svo margra fyrrverandi bloggara.

Tags: