Posts Tagged ‘Anel’

31

Varð 31 árs á sunnudaginn. Finnst það frekar lítilfjörlegt miðað við stórafmælið í fyrra þótt að alltaf sé gaman að eiga afmæli. Fórum öll í skemmtigarðinn Six Flags af þessu tilefni og stefnt er að því að setja inn einhverjar myndir frá því þegar tími gefst.

Annars náðum við því að skrásetja minnsta drenginn lögformlega í dag en það er sérstakt ferli sem þarf að ganga í gegnum til að fá útgefið fæðingarvottorð. Nafnið verður þó ekki gefið upp ennþá því Anel vill fyrst halda nafnaveislu þannig að lesendur verða hér að bíða enn spenntir um stund.

Tags: ,

Sagan af því þegar sá minnsti fæddist

Bloggskortur virðist ætla að vera hér ráðandi þrátt fyrir vonir um að úr myndi rætast þetta árið. Ástæðan er ekki andleysi heldur tímaleysi og misjafn netaðgangur.

Nú þegar færi gefst ætla ég setja hér niður söguna af því þegar þriðji sonurinn fæddist þann 17. janúar síðastliðinn. Sú fæðing er einn eftirminnilegasti dagur ævi minnar þar sem þeim stutta lá svo sannarlega á að sjá heiminn.

Allt byrjaði þetta síðla kvölds á tannlæknastofu okkar hjóna hér í World Trade Center. Þar sem þetta fyrirtæki okkar hefur stækkað síðustu misserin vorum við Anel að fara yfir nokkrar tölur, aðallega til að vita hvað við skulduðum okkar sérfræðingum. Þeir koma tvisvar eða þrisvar í viku til að annast fyrir okkur sérhæfðar skurðaðgerðir, tannréttingar og aðrar slíkar meðferðir.

Klukkan var orðin ansi margt þegar við lukum þessu en við vildum klára þetta áður en haldið væri til Cuautla þar sem fæðingin átti að eiga sér stað. Cuautla er lítil borg í Morelos ríki ekki langt frá Mexíkóborg. Þar býr móðirsystir Aneler ásamt sínum manni en hann er kvensjúkdómalæknir. Ari og Emil fæddust þar í hans umsjá þar sem um keisaraskurð var að ræða í báðum tilfellum. Við höfum farið á einkaspítala þar vegna þess að opinber sjúkrahús hér eru nokkurn veginn á mörkunum að vera boðleg.

En hvað um það. Þegar allar tölur voru komnar á hreint fórum við að tygja okkur til heimfarar. Anel stóð upp til að ganga frá einhverjum áhöldum og þá vildi ekki betur til en svo að legvatnið fór veg allrar veraldar beint á gólfið á okkar fínu tannlæknastofu. Hríðirnar hófust einnig nánast samstundis. Líklega hefur vantað um hálftíma uppá miðnætti þegar þetta átti sér stað.

Nú voru hin títtnefndu góð ráð svo sannarlega dýr. Eftir hálf örvæntingarfull símtöl við okkar ágæta lækni ákváðum við að fara einfaldlega beint til Cuautla. Ekki nokkur tími var til að fara heim til að taka með sér töskur eða farangur. World Trade Center er sunnarlega í Mexíkóborg og Morelos ríki liggur fyrir sunnan borgina þannig að þetta lá ekki svo illa við. Þó var það erfiðasta bílferð sem ég hef farið með Anel æpandi af kvölum við hlið mér, akandi eins hratt og okkar ágæti Renault Clio komst en til að komast þangað þarf að keyra yfir fjallgarð sem skilur Mexíkódalinn frá Morelos.

Vegurinn er þó reyndar góður og ég var á um 150 km/klst mest alla leiðina. Clio er enginn sportbíll en þetta hafðist á um klukkutíma. Venjulega tekur hátt í tvo tíma að keyra þetta en það var á þessum tíma engin umferð.

Læknirinn okkar, Rodolfo, beið eftir okkur á spítalanum og Anel var drifin beint á skurðarborðið. Þar fæddist svo þriðji sonurinn og var hann við bestu heilsu og hefur verið það síðan. Þetta var þó nokkuð óheppilegt, sérstaklega fyrir Anel, þar sem skammt var liðið frá hinum aðgerðunum og því var slæmt að hún skyldi fá hríðir. Tók það því mun lengri tíma fyrir hana að jafna sig og hún er reyndar ekki fullkomnlega komin yfir þessa aðgerð enn. Þetta hefur þó gengið framar vonum og hún er nánast orðin góð á ný.

Sá stutti hefur braggast vel og er nú kominn í 6,6 kíló tveggja mánaða gamall en hann nærist eingöngu á móðurmjólkinni. Fór fljótt að brosa framan í heiminn og sefur mun værar en bræður hans gerðu. Fór strax í annarri viku að sofa allar nætur og rumskar ekki frá 11 á næturnar til 6 eða 7 á morgnanna. Hann er því hið þægilegasta kríli.

Drengurinn hefur þegar fengið sitt nafn og það verður tilkynnt fljótlega. Vegna fyrri reynslu með Emil sem skipti tvisvar um nafn áður en það rétta fékkst vil ég ekki segja til um nafnið fyrr en drengurinn verður skrásettur löglega hér í landi en það er heljar mikill ferill því hér í landi er skrifræðið allt um ráðandi í þessu sem og öðru. Geri ég því ráð fyrir að næsta blogg fjalli um nafn drengsins og hvernig það er tilkomið.

Tags:

Tengdur á ný

Loksins tókst að finna nýtt hleðslutæki fyrir Makka konunnar og ég er því kominn í samband við umheiminn á ný. Reikna má því með margföldum afköstum hér á blogginu þar sem ég er mættur með íslenskt lyklaborð sem ég hef sárlega saknað undanfarið.

Annars er ekki mjög margt í fréttum héðan frá Mexíkóborg. Gerðist svo frægur á sunnudaginn að horfa á heilan fótboltaleik sem gerist ekki oft. Horfði á mína menn Mexíkana bíða lægri hlut fyrir Argentínumönnum sem var að sjálfsögðu óverðskuldað og skrifast tapið á blinda dómara og línuverði sem gáfu Argentínu fyrsta markið þrátt fyrir óskammfeilna rangstöðu. Held samt að héðan í frá verði ég að halda með Argentínu, það er bara svo skemmtilegt að sjá sjálfan Maradona mættan aftur til leiks.

Hér hefur að sjálfsögðu verið vel heitt í maí og júní þar sem hitamælirinn fer hátt upp í fjörtíu gráðurnar á daginn. Yfirleitt slær það á hitann þegar regntímbilið hefst í júní en það hefur ekki komist almennilega af stað ennþá en það ætti að hafa hafist nú um miðjan mánuðinn.

Ari og Emil stækka og þroskast með hverri vikunni. Emil er farinn að tengja saman orð og að sjálfsögðu byrjaði hann á því að segja „nei pabbi“ eða „nei mamí“ eða „nei Ari“. Greinilegt að hann er ættaður af Snæfellsnesinu. Röddin í þeim stutta er einnig nokkuð sérstök miðað við pjakk sem er um eins og hálfs árs. Anel heldur að hann verði með mikla bassarödd þegar hann stækkar því hún er þegar orðin nokkuð karlmannleg. Svo er ég enn að gera það upp við mig hvort að Ari sé græneygður eða bláeygður, verð að viðurkenna að ég er alls ekki viss ennþá.

En hvað er að frétta af ykkur?

Tags: , , , ,

Á leið til Kanada

Nú höfum við Anel hafið mikið umsóknarferli sem miðar að því að flytja fjölskylduna til Kanada á næsta ári. Ferlið tekur um víst um ár þannig að við förum líklega þangað seint a næsta ári. Stefnum að því að búa í Toronto.

Eftir þriggja ára búsetu í Kanada fær maður víst ríkisborgararétt og heldur honum alltaf, sama hvar búið er eftir það. Með honum fylgja víst ýmis fríðindi eins og frí menntun og heilsugæsla.

Ef einhver hefur áhuga á því að flýja kreppuna og fara til Kanada þá getið þið haft samband. Við gerum þetta í samstarfi við lögfræðistofu sem sér um umsóknir frá A til Ö og þá vantar alltaf kúnna. Rétt að taka fram að barnafólk er sérstaklega velkomið til Kanada, skortir víst grislinga þar í landi.

Nú get ég líklega titlað mig vesturfara agent, var ekki löngu tímabært að endurvekja þá starfsgrein?

Tags: ,

Chiapas

Við erum farin í fríið, ætlum á æskuslóðir tengdamömmu sem eru syðst í Mexíkó í ríkinu Chiapas. Förum nálægt landamærunum að Gvatemala. Chiapas er helst þekkt fyrir mikla náttúrufegurð, fátækt og fyrir að vera heimkynni Zapatista uppreisnarhreyfingarinnar. Við erum að fara í útskriftarpartí hjá einum frænda Anelar. Öll systkini tengdamömmu mæta á svæðið en þau eru víst ellefu talsins, þar af þekki ég níu nú þegar. Þau voru tólf en ein systirin lést fyrir um 20 árum.

Verð því líklega netlaus fram á næstu helgi. Förum eftir fjóra tíma í rútuna, áætlaður ferðatími er 16 klukkustundir.(!) Það verður athyglisverð lífsreynsla. Held að fyrra met mitt séu 12 tímar, sett í Kenýa fyrir þremur árum. Vegirnir hér eru sem betur fer betri þannig að ég er enn rólegur yfir þessu.

Mér skilst að það sé mjög heitt þarna syðra, hitabeltisloftslag og regnskógar. Mér líst vel á þetta, get ekki sagt annað.

Tags: , ,

Beinagrindin leiðrétt

Í byrjun mánaðarins fór ég til læknis. Þar sem ég fer afar sjaldan til læknis eru þetta nokkur tíðindi. Þessi læknir ber líklega titilinn bæklunarlæknir á íslensku. Þegar ég mætti til hans skipaði hann mér umsvifalaust að fara úr buxunum og þuklaði mig svo allan ásamt því að sveiga og beygja á mér fæturnar. Svo kvað hann upp úrskurð sinn. Hann sagði að ég væri einkar sveiganlegur maður og meinti það bókstaflega. Því til sannindis sveigði hann mig aðeins fyrir framan Anel, vatt upp á hendurnar á mér eins og ég væri tuskubrúða. Konan rak upp stór augu yfir liðleika eiginmannsins.

Ég varð einnig nokkuð hissa á þessu, læknirinn spurði meira að segja hvort ég stundaði leikfimi. Ég fór næstum því að hlægja en hélt aftur af mér. Ég hef verið sakaður um margt en að vera liðugur íþróttamaður, það slær nú flest út. Hélt um stund að ég hefði loks fundið ofurhetjukrafta mína. Að ég væri kannski Mr. Fantastic II. Rétt er að taka fram að við konan höfum horft mikið á Heroes undanfarið.

Þegar ég rankaði við mér af ofurhetjudraumnum heyrði ég lækninn segja hvernig þessi liðleiki hafði farið með mig. Fæturnir á mér voru það liðlegir að ég hafði fengið nokkurs konar flatfót sem er þó ekki eiginlegur flatfótur skilst mér. Afleiðingarnar af þessu eru þær að ég geng skakkt og er frekar hokinn.

Það rann upp fyrir mér ljós. Skyndilega skildi ég af hverju ég er eins og ég er. Allt frá því ég var barn var ég hokinn í baki en aldrei nokkurn tímann var gerð nein athugasemd við það. Helst var manni kannski skipað að sitja beinn og hætta þessu hengslum, eins og mér þætti það betra að vera svona eins og ég var. Svona eftir á að hyggja skil ég ekki afhverju enginn sagði neitt við þessu, kannski veit fólk almennt ekki afhverju slæm líkamsstaða stafar. Sjálfur vissi ég lítið um þetta.

Ekki eru mörg ár síðan ég heyrði fyrst um t.d. göngugreiningu og hvað það er. Hugsaði þá með mér að líklega ætti ég að láta líta á mig en gerði aldrei neitt í því. Konan rak mig til þessa læknis þar sem hann starfar í sömu læknamiðstöð og hún. Einnig þurftum við að láta líta á Ara en hann virðist ætla að vera eins og ég, sagði læknirinn, eftir að hafa skoðað hann gaumgæfilega.

Góðu fréttirnar eru að hægt er að rétta úr fótnum á Ara. Emil er of ungur enn til að hægt sé að sjá hvort hann sé svona líka. Ari þarf að ganga í sérstökum skóm með innleggjum þar til að fóturinn á honum verður orðinn eðlilegur, veit reyndar ekki hvað það tekur langan tíma. Ég hinsvegar verð að ganga í skóm með innleggjum þar sem eftir er. Læknirinn sagði að líklega gæti ég átt von á því að líkamsstaða mín yrði betri þegar beinagrindin fær réttan stuðning. Mér finnst nokkuð magnað hvernig svona lítið smáatriði getur breytt miklu.

Við fórum í dag í sérstaka skóbúð með snepil frá lækninum. Pöntuðum innlegg og tvenna skó á Ara og stefnum á að fara aftur í næstu viku til að ganga frá minni pöntun. Anel skipaði mér að fleygja öllum skóm sem ég á og ganga þaðan í frá einungis í nýjum skóm með þar til gerðum innleggjum. Að sjálfsögðu mun ég gegna því.

Ég hlakka reyndar nokkuð til að sjá hver árangurinn af þessu verður. Í skóbúðinni sá ég hvernig svona fótagalli getur haft slæm áhrif. Eitt veggspjald taldi upp ótal kvilla eins og bakverki, vöðvaspennu, þreytu og verki í hnjám og ökklum, höfuðverki, verra jafnvægi og það sem mér fannst merkilegast, skortur á einbeitningu.

Hver veit, ef ég hafði ekki haft þennan fótagalla hefði ég ef til vill verið betri námsmaður því skortur á einbeitningu er einmitt krónískt vandamál hjá mér. Kannski hefði ég einnig getað verið mikill íþróttakappi ef ég hafði haft fæturnar í lagi. Þetta hefur háð mér alla mína ævi. Aldrei að vita nema að eftir nokkrar vikur verð ég kannski orðinn nýr og betri maður, uppréttur og einbeittur. Ég mun skrifa um árangurinn af þessari eiflífðarmeðferð þegar reynsla verður kominn á þetta.

Þangað til, ef þið lesendur sjáið krakka sem eru bognir í baki eða ganga skakkt þá skuluð þið skipa foreldrunum að senda þau til bæklunarlæknis. Þið gerið líf þeirra töluvert betra með því.

Tags: , ,

Afmælið

Ég átti afmæli í gær. Anel bakaði pizzu af því tilefni í fyrsta sinn og einnig eplaköku með vanillusósu. Svo fórum við hjónin í bíó, það er sjaldgæfur munaður fyrir okkur nú á dögum.

Var reyndar ekkert sérstakt í bíó þegar ég renndi yfir úrvalið, er af einhverjum ástæðum lítið spenntur fyrir Wolverine þótt mér hafi fundið X-men myndirnar ágætar. Enduðum á því að fara á Una pasión secreta eða The Reader með Kate Winslet í óskarsverðlaunahlutverki. Var ágætis mynd og nokkuð fersk nálgun á vondu nasistana.

Annars átti að frumsýna Star Trek á afmælisdaginn minn en því var frestað vegna þess að H1N1 var með stæla. Hún hefði verið valin annars.

-—-

Tók annars einhver eftir því hvort að ég birtist í Mogganum? Ég sá ekkert á mbl.is. Líklega var mér sleppt þar sem ég var of rólegur í viðtalinu og spar á stóru orðin. Slíkt selur illa.

Tags: , , ,

Flensan geisar áfram

Nú er tala látinna vegna svínaflensunnar komin upp í 150 hér í Mexíkó og á eflaust eftir að hækka mikið. Reyndar eru endanlega staðfest dauðsföll vegna flensunnar mun færri eða einungis um 12, ef ég skil þetta rétt. Ég held þó að töluverðar líkur séu á því að fleiri hafa látist þrátt fyrir að handbærar sannanir fyrir því skorti enn. Samt sem áður er ég rólegri en í byrjun yfir þessu. Get talið upp þrjár ástæður fyrir því.

Í fyrsta lagi virðast mishættulegir stofnar af þessari veiru vera í umferð. Einungis hér í Mexíkó hefur hún valdið manntjóni. Fólk sem sýkst hefur af vægari afbrigðum virðist vera að jafna sig hér og tilfelli í öðrum löndum hafa verið vægari.

Rétt er þó að benda á að þau tilfelli sem komið hafa upp annars staðar eru enn fá og því höfum við ekki nægjanlega góða tölfræði yfir skaðsemi hennar. Jafnvel þótt að flensan sem verður af þessum vægari afbrigðum hafi lága dánartíðni, sem enn er ekki komið í ljós, þá gæti hún valdið alvarlegum faraldri. Ef dauðsföll verða talin í örfáum prósentum þá erum við að tala um tugmilljónir manna sem gætu týnt lífinu í mögulegum heimsfaraldri.

Í öðru lagi virðast tiltæk veirulyf virka vel og eftir allt fuglaflensufárið undanfarin ár eru til miklar birgðir af þeim í heiminum.

Í þriðja lagi eru viðbúnaður almennt góður, a.m.k. í ríkari hluta heimsins, við mögulegum flensufaraldri. Þótt að upptökin nú og staðsetning komi nokkuð á óvart þá hafa mörg lönd undirbúið sig vel við svona faraldri, viðbragðsáætlanir eru tiltækar o.s.frv.

Ég er því þolanlega bjartsýnn eins og stendur.

Mogginn hringdi í mig áðan og Smugan hefur krækt í bloggið. Ég vona að ég hafi komið þessu sæmilega til skila í símanum, er ekki vanur því að teljast svo merkilegur að fjölmiðlar vilja ræða við mig. Sagði eins og er að engin skelfing hefur enn gripið um sig í Mexíkóborg, fólk er varkárt og hefur áhyggjur en það er enginn glundroði á götunum. Þetta á eftir að koma illa við okkur efnahagslega, Anel fær mun færri kúnna á tannlæknastofuna. Við lifum það vonandi af.

Á næstu dögum fara línurnar vonandi að skýrast betur, hvað við er að eiga. Reyni að halda lesendum upplýstum um gang mála.

Tags: , , ,

Fyrsta kvöldmáltíðin

Emil fékk sína fyrstu máltíð í gær, þ.e. sem samanstóð af einhverju öðru en mjólk og meiri mjólk. Honum bauðst að gæða sér á maukuðu chayote. Ég veit ekki hvað það heitir á íslensku, þetta er svokallað grænmeti. Ekki var kappinn sérstaklega hrifinn af þessu þar sem öllu var spýtt út samstundis en eitthvað náðist ofan í hann þó. Þegar Ari fékk sína fyrstu máltíð var hann frekar hrifinn en hann fékk á sínum tíma gulrót. Við ætlum því að reyna að gefa Emil eina gulrót í kvöld.

Báðir drengirnir voru einungis aldir á mjólk fyrstu sex mánuðina þar sem Anel er með mörg ofnæmi. Það á víst að draga úr líkum á ofnæmum síðar meir ef svona er farið að, segir barnalæknirinn þeirra sem einnig er ónæmissérfræðingur.

Núna er Ari að gæða sér á pulsu. Ég fæ alltaf hálfgert samviskubit yfir því að gefa honum pulsur þar sem mér finnst það varla vera matur. En það gerist reyndar sjaldan að gripið er til slíkra örþrifaráða. Hér á þessu heimili kaupum við alltaf kalkúnapulsur og kalkúnaskinku. Okkur finnst það best þótt að kalkúnn sé ekki í sjálfu sér hátt skrifaður hér á þessum bæ. Aldrei dytti manni það í hug á klakanum að kaupa sér kalkúnapulsur, skrítið.

Annars er ég ánægður með hvernig mataruppeldið hefur tekist. Ari borðar allt sem við gefum honum. Stundum á hann það til að biðja um hráa gulrót þegar við erum að sneiða þær niður. Aldrei hafði ég gert það sem krakki að borða hráa gulrót, fannst þær nógu vondar soðnar. Held að þetta sé spurning um vana. Þeir sem eru vanir að borða grænmeti finnst það gott. Ég borða grænmeti nánast eingöngu af skyldurækni því ég veit að það er gott fyrir mann.

Hef þó stórlega aukið ávaxtaát síðan ég fluttist hingað, skiljanlega. Fátt er betra en ferskur mangó af markaðinum.

Tags: , , ,

Nýi síminn

Hann er kannski ekki svo nýr, minnir að ég hafi fengið hann rétt áður en Axel fæddist. Ég nota gemsa annars sáralítið hérna, helst að Anel nenni að hringja í mig stöku sinnum.

Frá því að ég kom hingað notaði ég LG síma frá Iusacell en sá var ekki með neitt kort. Konunni varð svo eitthvað uppsigað við það símafyrirtæki og við skiptum yfir í Telcel. Vegna þess að ekkert kort var í gömlu símunum þurftum við því að fá okkur síma með korti. Þá voru góð ráð dýr því við vorum ansi blönk þarna síðastliðið haust (ástandið hefur skánað mikið síðan). Við splæstum í ágætan síma handa Anel, Nokia 6500 ef ég man rétt. Ég nýtti mér hinsvegar gæðatilboð sem var í gangi og fékk ókeypis síma gegn þvi að ég keypti mér 200 pesóa inneign (u.þ.b. 2000 ISK).

Sá kallast Nokia 1112 og er afar retró. Ekkert óþarfa dót eins og myndavél eða litaskjár. Þó er hann með pólífónískum hringingum sem ég man að þóttu mjög nýmóðins um aldamótin síðustu. Mér finnst þessi sími vera nokkuð töff þrátt fyrir allt, svona eins og það er svolítið töff að eiga Trabant í dag.

Umfjöllunin á Wikipedia fannst mér af einhverjum ástæðum bráðfyndin. Þar segir meðal annars um þennan ágæta síma

With graphical icons and large font sizes the Nokia 1112 is an easy to use mobile phone that aims at first-time mobile phone users in developing countries. #

Ég er kannski ekki alveg í þessum markhóp en er þó sæmilega sáttur. Þó erum við hjónin ásátt um að næstu símar sem verða keyptir á þessu heimili verða iPhone. Eftir að hafa fiktað í svoleiðis furðutæki líkjast aðrir símar helst gömlum mors-tækjum.

Tags: , ,