Posts Tagged ‘þyngdin’

Sex kíló fokin

Ég brá mér á vigt nú fyrir skömmu og sá að massi minn hefur minnkað um sex kíló síðan að ég fluttist til Mexíkó. Mun það væntanlega skrifast á mun minni neyslu á rauðu kjöti en hér er kjúklingur oft snæddur. Einnig hef ég nánast hætt að éta brauð en gæði mér þess í stað á maískökum þeim sem hér nefnast tortillas. Skyndibitaát hefur minnkað um ca. 90% frá því sem áður var þar sem við hjónin erum dugleg að elda. Auk þess sem tengdamamma færir okkur stundum heilu máltíðirnar af einskærri góðmennsku. Sælgætisneysla hefur fallið nánast niður í ekki neitt en það útskýrist að hluta til af því að innlent kruðerí er yfirleitt með chili sem mér finnst ekkert varið í þótt að mér finnist það virka vel með mat. Svo hef ég ekki drukkið einn einasta bjór í tvo og hálft ár, né annað áfengi, sem hefur haft mjög skaðleg áhrif á bjórvömbina.

Þessi massabreyting skrifast að öllu leiti á breyttar neysluvenjur þar sem að ég hef ekki stundað neina líkamsrækt hér vegna tímaskorts. Ég er nokkuð ánægður með þetta en betur þarf ef duga skal því ég þarf að missa sjö kíló í viðbót svo að hinn frægi BMI stuðull verði í lagi. Væri gott að geta skokkað aðeins á morgnana en það er á mörkunum að ég þori því. Vil ekki vera rænt hér en mannrán sem og önnur rán eru nokkuð tíð hér í borg.

Ég er semsagt sáttur við þetta en hef þó ekki roð við konunni minni sem hefur lést um 18 kíló á tæpum fjórum mánuðum. Þar koma þó inní myndina barneignir sem skekkja samkeppnisstöðu mína verulega.

Tags: ,