Archive for the ‘Vísindi’ Category

Darwin og trúleysið

Nýverið átti merkisbókin Uppruni tegundanna eftir Darwin gamla afmæli en 150 ár eru víst síðan að bókin kom út. Sjálfur á ég þessa bók, minnir að ég pantaði hana í jólagjöf þegar að íslenska þýðingin kom út.

Þessi bók er afar sérstök. Þarna var ný heimsýn í burðarliðnum, fersk kenning sem kollvarpaði ekki einungis náttúruvísindum þess tíma heldur hafði mikil áhrif á öll vísindi og fræði og hefur að sjálfsögðu enn. Bók sem breytti þankagangi fólks um alla framtíð.

Lífið sem eitt sinn var töfrað fram úr hendi guðanna varð skyndilega einfaldur hluti af náttúrunni, líkt og fjöll og stöðuvötn. Náttúrulegir ferlar voru eftir allt saman hönnuðir lífríkisins og mannkynið var einungis ein greinin á hinu gríðarmikla lífsins tré.

Til að gæta allrar sanngirni þá kom verk Darwins ekki alveg eins og skrattinn úr sauðarleggnum forðum, ýmislegt hafði gerst í lok 18. aldar og á þeirri 19. sem hafði þegar breytt sýn manna á náttúruna. En Darwin náði að vefa saman þá miklu þekkingu á hinni lifandi náttúru, sem tiltæk var á þeim tíma, saman við kenningu sína um náttúrulegt val sem gangverk þróunarinnar á þann hátt að fáir gátu andmælt. Að minnsta kosti ekki af miklu viti.

Trúarbrögð urðu fyrir miklum áhrifum af verkum Darwins og segja má að hann hafi gengið af bókstafstrú dauðri. Örvænting bókstafstrúaðra manna af öllum trúarbrögðum gagnvart þróunarkenningunni er enn þann dag í dag hlálegt fyrirbæri og sorglegt í senn. Harðlínumenn sem hafna því alfarið að eitthvað geti ekki verið bókstaflega satt í sínum trúarskruddum gera sig sífellt að fíflum í umræðum um þróun með gaspri sínu og vanþekkingu. Það er reyndar merkilegt að bókstafstrú skuli enn vera við lýði í upplýstum löndum, vísindin hefðu með réttu átt að ganga frá henni fyrir löngu. Sýnir vel ítök trúarbragða í samfélaginu.

Annars langar mig að játa það hér og nú að mér leiðist alltaf þegar Darwin, þróun o.s.frv. er stillt upp gegn trúarbrögðum sem einhverjum andstæðum. Jú, eins og ég hef sagt hér að ofan þá tel ég vísindin hafa drepið bókstafstrú. En það nær ekki mikið lengra en það. Þeir sem trúa á óljósari hugmyndir um guði eins og deistar eru lítt snortnir af uppgötvunum Darwins, þær falla alveg að þeirra hugmyndum því hægt er að beygja þær eftir þörfum.

Gagnvart þessum mýkri trúarbrögðum finnst mér sjálfum mun vænlegra til árangurs að nota heimspekileg rök því þau sýna fram á fáránleika trúarbragða betur en nokkuð annað. Margir hafa aldrei nokkurn tímann velt fyrir sér inntaki sinna trúarbragða heldur fylgja einhverjum fornum hefðum sem þeim var innrætt sem börn. Í mörgum tilvikum er nægjanlegt að ræða á gagnrýninn hátt um trú þeirra til að fólk sjái að sér.

Í umræðum við slíkt fólk leiðist mér að sjá Darwin dreginn á flot eins og allsherjarskýringu á öllu og öllum. Trúarbrögð hafa mörg aðlagast þessari heimsmynd, meira að segja kaþólska kirkjan hefur samþykkt þróunarkenningu Darwins. Þeir segja eingöngu að hún skýri ekki tilurð sálarinnar en allt hitt er gott og blessað. Í rökræðum við þessa tegund trúmanna er heimspekin beittara vopn.

Allavega þá er ekki hægt að setja samasem merki milli Darwins og trúleysis, ég þurfti svona mikinn texta til að koma því á framfæri.

Tags: , ,

Sjálfskipaðir sérfræðingar

Frábær grein í Morgunblaðinu í dag um vísindi eftir Eirík Sigurðsson líffræðing. Eftirfarandi ummæli hitta vel í mark, þetta er einungis hluti af greininni.

Sjálfskipaðir sérfræðingar um erfðabreytt bygg

Annað dæmi um hversu afvega umræða um vísindaleg málefni á það til að fara, er umræða um ræktun á erfðabreyttu byggi hér á landi í vor. Þar var enginn skortur á sjálfskipuðum sérfræðingum sem vöruðu almenning við þeirri stórkostlegu hættu sem fælist í því að »sleppa erfðabreyttum lífverum í íslenskri náttúru«. Í fjölmiðlum var það áberandi að vísindaleg og tilfinningaleg sjónarmið voru lögð að jöfnu. Sjálfskipuðum sérfræðingum var gefið sama vægi og raunverulegum vísindamönnum á þessu sviði. Þannig tókst um tíma að sá fræjum efasemda meðal almennings, þó engin raunveruleg hætta sé fólgin í því að rækta erfðabreytt bygg á Íslandi, hvorki fyrir umhverfið né menn. Þessi umræða hefur nú leitt til þess að óprúttnir einstaklingar hafa eyðilagt mikilvæga tilraunaræktun nýsköpunarfyrirtækisins ORF Líftækni í Gunnarsholti. Það er mikið áhyggjuefni fyrir íslenskt vísindasamfélag að umræðan hér sé orðin svo afvegaleidd að hópur fólks, sem neitar að taka vísindaleg rök gild, skuli vera tilbúinn að styðja aðgerðir að fyrirmynd erlendra öfgahópa.

Tags: ,

Fáfræði og heimska veldur milljónatjóni

Svo að ég haldi áfram með þemað frá síðustu bloggfærslu þá ákvað hópur manna sem gengur undir nafninu Illgresi að ráðast til atlögu gegn ORF Líftækni í gær. Tilraunareitur þeirra í Gunnarsholti var eyðilagður og allt byggið er ónýtt.

Þegar að heimskan og firringin er komin á þetta stig á litla Íslandi að ráðist sé gegn fyrirtækjum fyrir það eitt að stunda rannsóknir í líftækni þá er ljóst að stórt vandamál er á ferðinni. Það verður að auka fræðslu og þekkingu almennings á líftækni og erfðabreyttum lífverum til að svona rugl nái ekki fótfestu.

Allt sem gagnrýnendur þessarar tækni hafa haft fram að færa má flokka í þrennt; misskilningur, blekkingar og/eða kjaftæði. Afhverju er verið að hlusta á þetta fólk sem ekkert vitrænt hefur haft fram að færa?

Skrifa kannski meira um þetta síðar þegar ég er ekki hálfsofandi við skjáinn. Á meðan má lesa nýja frétt hér um þessa stórhættulegu líftækni.

Tags: ,

Umhverfisráðherra á villigötum

Ég var fluttur af landi brott þegar Svandís Svavarsdóttir varð pólitísk stjarna í sveitarstjórnarkosningunum 2006. Hef því lítið lesið  eða heyrt frá henni hér í útlandinu. Nú á hún víst að heita umhverfisráðherrra og svona hefst ferillinn hjá henni.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir að Ísland muni slást í hóp ríkja sem lagst hafa gegn erfðabreyttri ræktun matvæla innan ESB verði landið aðili að Evrópusambandinu. #

Það er satt best að segja ömurlegt að heyra svona tal. Erfðabreytt matvæli eru helsta von okkar í baráttunni við hungurvofuna sem sífellt vofir yfir fátækari löndum. Skammsýnir og fáfróðir stjórnmálamenn sem hafa lagst gegn þessari tækni vegna einhverra tilfinningaraka eða trúarbragða hafa valdið ómældu tjóni nú þegar og seinkað nauðsynlegri framþróun í þessum málum.

Almenn samstaða er um það meðal vísindamanna að engin hætta stafi af erfðabreyttum matvælum sé vissum varúðarráðstöfunum fylgt. Ég vona að einhver menntaður á þessu sviði sé starfandi í umhverfisráðuneytinu sem getur frætt ráðherrann um þessi mál áður en það verður um seinan.

Tags: ,

Raus um erfðabreyttar lífverur

Leitt að sjá hversu margir halda að nóg sé að slá um sig með innihaldslausum frösum þegar rætt er um erfðabreyttar lífverur. Held að mest öll þeirra þekking á líftækni og erfðafræði komi frá Hollywood. Skrifaði einhvern tímann um ORF málið, sjá hér. Er of syfjaður til að rausa meira um þetta núna.

Tags: ,

„Febrúar tvenna fjórtán ber…

…frekar einn þá hlaupár er.“

Ég held að fólk almennt geri sér ekki grein fyrir því hvað 2000 var merkilegt ár. Það ár var hlaupár en aldamótaár eru almennt ekki hlaupár nema að talan 400 gangi upp í ártalinu. Þannig verður 2100, 2200 og 2300 ekki hlaupár en 2400 verður eitt slíkt. Þessi sérstaka hlaupársregla gildir í gregoríanska tímatalinu sem var tekið upp í kaþólskum löndum árið 1582 og því hefur það einungis gerst tvisvar síðan þá að aldamótaár hafi verið hlaupár, 1600 og 2000.

Eldra tímatalið sem stuðst var við í Evrópu, júlíanska tímatalið sem sjálfur Sesar kom á, hafði alltaf fjórða hvert ár sem hlaupár en það tímatal er síður nákvæmara og skekkjan í því nemur einum degi á u.þ.b. 134 ára fresti. Því þurftu menn að hlaupa yfir 11-12 daga þegar skipt var um tímatal því á 16-17 öldum hafði skekkjan hlaðið utan á sig. Skekkjan í gregoríanska tímatalinu nemur hins vegar einungis um 1 degi á u.þ.b. 3000 ára fresti.

Þess má svo geta að tímatal Mayanna hefur líklega verið nákvæmara en okkar, almanaksárið hjá þeim er talið hafa verið 365,242036 dagar að meðaltali meðan að almanaksárið í hinu gregoríanska tímatali er 365,2425 dagar. Hvarfárið hinsvegar er um 365,2422 sólarhringar sem er örlítið nær tímatali Mayanna. Menn hér í Mexíkó voru semsagt komnir með þetta á hreint fyrir löngu síðan.

Datt þetta svona í hug í tilefni þess að hlaupársdagur er væntanlegur í lok mánaðarins.

Eggjahvítuefni

Mér leiðist óskaplega þegar orðið eggjahvítuefni er notað yfir prótein. Þegar ég var krakki hélt ég að þetta væri eitthvað efni úr hænueggjum. Mjög villandi og ógagnsætt orð.

Litningur 16 loksins fundinn

Umfjöllun íslenskra fjölmiðla um raunvísindi er oft spaugilega vitlaus en þó er aðallega sorglegt að sjá hvernig farið er með þessi fræði. Ég tek sérstaklega eftir þessu þegar fjallað er um lífvísindi, skiljanlega. Rúv.is á setningu dagsins hvað þetta varðar þegar hann rembist við að skýra niðurstöður krabbameinsrannsóknar sem DeCode gerði.

Einn erfðavísir hefði fundist í báðum rannsóknunum, litningur sextán. #

Ég held að allir í þessum bransa gleðjist yfir því að litningur sextán sé loksins kominn í leitirnar eftir langa leit.

Hvaða prótein?

Nú liggur fyrir verkefni í lífefnafræði próteina þar sem ég á að taka fyrir prótein og skrifa margar margar blaðsíður um það. Tillögur óskast um hvaða prótein ég á að taka fyrir.

RNA truflun

Mér sýnist að Nóbelsverðlaunin í ár í læknisfræði tengist aðferðafræðinni í lokaverkefninu mínu, það er ekki amalegt.