Archive for the ‘Vinnan’ Category

30

Í gær hafði þessi pláneta sem við búum á farið þrjátíu hringi í kringum sólu frá því að ég fæddist. Merk tímamót vissulega. Mikill munur er á því að vera tuttugu-og-eitthvað eða þrjátíu-og-eitthvað. Alltaf þegar að eitt árið bætist á mann tekur það tíma að venjast því. Held að í þetta skiptið verði aðlögunartíminn sérstaklega langur.

Hef alltaf verið ánægður með það að hafa fæðst á ártali sem stendur á heilum tug. Öll stórafmælin verða því á fallegum ártölum. Tvítugur árið 2000. Nú þrítugur.

Aldrei óraði mig fyrir því að ég ætti eftir að halda upp á þennan afmælisdag í Mexíkóborg. Þetta mun þó vera fjórða afmælið sem ég held hér í bæ. Maí er heitasti mánuður ársins hér í landi og því er alltaf hægt að stóla á gott veður á afmælisdaginn. Hitinn yfir daginn fer upp undir 40 gráðurnar. Þessi hiti er þó alveg hættur að angra mig, er orðinn vanur því að búa á suðlægum slóðum líklega.

Margir halda í kjölfar færslu sem birtist hér í mars að ég sé atvinnulaus. Leiðrétti þann misskilning hér með. Fékk aftur vinnu á sama vinnustað sem er í eigu Carlos Slim. Velti því stundum fyrir mér hvort aðrir Íslendingar vinna fyrir þann mikla kaupsýslumann.

Vinn fyrir mér sem skrifstofublók á kaupi sem fáum þætti boðlegt. Maður lætur sig þó hafa það meðan ég leita að einhverju betra. Það eru víst ekki alltaf jólin, sérstaklega á krepputímum.

Ég er í heildina séð nokkuð ánægður með lífið og tilveruna. Fallega konan mín er alltaf góð við mig og drengirnir einstaklega vel heppnaðir í alla staði. Kátir og heilbrigðir snáðar. Bisnessinn hjá konunni er á svo mikilli uppleið að annað eins hefur ekki sést síðan að útrásarvíkingarnir voru og hétu. Rétt er þó að taka fram að okkar bisness er mun betur rekinn en hjá þeim síðastnefndu.

Sakna þess þó að vera ekki starfandi líffræðingur eins og maður stefndi að. Hef að sjálfsögðu ekki gefist upp á því en það er erfitt í þessu landi að fá störf í þeim geira. Líftækniiðnaðurinn er líka mest í öðrum borgum hér en það er ekki mögulegt fyrir okkur að flytja eins og sakir standa.

Fyrir utan það er ég sáttur við lífið og tilveruna. Eins og ég hef vikið að áður þá er ég afar feginn að hafa ekki lent í óðærinu á Íslandi og sit því ekki uppi með óseljanlega íbúð sem keypt var á yfirverði eða bíl á myntkörfuláni. Valdi líklega rétta tímann til að flytja af landi brott.

Hvað tekur við á næstu árum er auðvitað ekkert sem maður getur spáð um. Kannski verður kreppan svo slæm að við eigum öll eftir að stunda mannát og sjálfsþurftarbúskap næstu árin. Kannski er kreppan í rénum (eins og margt bendir til) og uppsveifla handan við hornið. Veit þó að einhvern daginn munum við flytja héðan og fara aftur til hins vestræna heims. Hvaða land það verður veit nú enginn, sjáum til með það.

Á marga vini og kunningja sem eru að fara yfir 30 ára múrinn þessi misserin. Óska þeim öllum til hamingju með áfangann, þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af.

Tags: ,

Mars

Thetta verdur kannski eina bloggid í mars. Tölvumál enn í ólestri, thrjár tölvur á heimilinu, engin í lagi. Cablevision einnig med staela, ekkert internet á mínu heimili. Mig grunar reyndar ad módemid sé í lamasessi.

Tapadi vinnunni fyrir um tveimur vikum ásamt um 300 félögum mínum, kenni hnattveadingunni um. Er reyndar nokkud sama thar sem um var ad raeda skrifstofuvinnu sem átti ekki ad vera til frambúdar. Er samt svekkjandi ad missa hana, thad var ég sem aetladi ad segja upp, ekki öfugt. Einnig eyddi ég megninu af sídasta ári í ad fá útgefid atvinnuleyfi fyrir starfid, vona ad endurnýjun verdi fljótlegri.

Thykir leitt ad geta ekki bloggad oftar, hef lítid sem ekkert fylgst med fréttum sídustu tvo mánudi. Einnig hef ég ekki séd Facebook, tölvupóst né neitt af viti sídan í byrjun febrúar. Hef sjaldan eda aldrei verid jafn sambandslaus. Vona ad thad standi til bóta fljótlega.

Tags: ,

Við störf

Byrjaði í vinnunni í gær. Hef reyndar gert lítið hingað til nema að rifja upp hvurn skremilinn ég var að gera hér áður en ég fór í fríið. Ég hef augljóslega verið duglegur að fylla tölvuna hans stjóra af ýmsum real-time PCR gögnum sem ég botna ekkert í lengur. Þessi mastersgráða mín hefur lítið gert fyrir heilabúið en þó mun meira fyrir egóið.

Aðeins í Ameríku

Ooh hoo! I got the job. I got the job. Only in America can I get a job. Homer Simpson

Svo virðist sem að ég hafi fengið vinnu hér í Mexíkó á sama stað og ég vann lokaverkefnið mitt. Launin væru frekar léttvæg heima á Íslandi en hér eru þau líklega um tíföld verkamannalaun eða meira. Ég er mjög sáttur við þau, duga allavega fyrir salti í grautinn og til að borga niður skuldirnar.

Starfið felst í hávísindalegum rannsóknum í sameindaerfðafræði tanna, enda er rannsóknarstofan staðsett í tannlæknadeild UNAM. Svo er allavega ein grein í deiglunni út frá niðurstöðum meistaraverkefnisins. Mér líst bara vel á þetta.

Styrkt atvinna

Búinn að fá tvö nokkurs konar tilboð um vinnu í sumar. Þau eru bæði háð því að styrkur fáist til rannsókna, vona að minnsta kosti annað verkefnið fái nú styrk svo ég geti unnið við hávísindalegar rannsóknir næsta sumar. Langar ekkert sérstaklega að endurvekja kynnin við minn innri verkamann, hann má liggja í láginni fyrir mér.

Atvinna

Hvar á maður svo að vinna í sumar? Gamla sumarvinnan mín er víst ekki í boði að sinni.

Skýrslugerðir eru hreinasta hátíð miðað við atvinnuleit, það leiðinlegasta sem ég veit um.

Erlent sælgæti

Einn af kostunum við að vinna í hátæknifyrirtæki er sá að menn fara héðan á ráðstefnur og fundi í útlöndum í tíma og ótíma. Þrátt fyrir að ég sé ekki orðinn nógu stór til að fá að fara með, þá græðum við sem heima sitjum á því að þegar að menn snúa aftur, þá koma þeir alltaf færandi hendi með eðal súkkulaði frá Sviss eða öðrum álíka stöðum.

Þetta liggur svo frammi í kaffistofunni öllum til ánægju. Kemur sér vel þegar maður er að hanga frameftir. Þá er gott að sötra kaffi og kjammsa á súkkulaðinu frá útlöndum.

Fréttayfirlit

Líklega hef ég leyst strætómál mín til frambúðar með því að leggja á mig aðeins meiri göngu. Fyrst að það er sumar þá skiptir það litlu auk þess sem það er heilsusamlegt að ganga.

Einn í vinnunni

Í vinnunni er núna svokallaður dauður tími. Ætlast er til þess að fólk sé í fríi þessa vikuna og tvær næstu. Þar af leiðandi eru aðeins örfáir að vinna núna, sumarstarfsmenn eins og ég hafa þó ekki efni á að taka sér frí enda þarf ég að klára nýsköpunarsjóðsverkefnið mitt.

Núna t.d. er ég aleinn eftir í vinnunni. Þetta væri reyndar gott upphafsatriði í hryllingsmynd. Litli sumarstarfsmaðurinn situr einn eftir í vonda líftæknifyrirtækinu og er að vinna að tilraunum. Skyndilega heyrast undarleg hljóð úr einum kæliskápnum, sem er merktur „Do not open, never“. Sumarstarfmaðurinn sér ekki miðann og kíkir inn í kælinn og er að sjálfsögðu étinn af einhverju skrýmsli sem vísindin hafa búið til með fikti sínum í genunum.

Önnur möguleg byrjun væri sú að ég ætti eftir að opna einhverja veirurækt í ógáti sem ætti eftir að breiðast út um Reykjavík og breyta öllum í zombies. Hmm, kannski maður ætti að fara heim bara áður en eitthvað hryllilegt gerist.

Besti félaginn

Þrátt fyrir að það sé mjög gott fólk í Prokaria kann ég þó best við einn róbótann eða þjarkann. Hann heitir Biomek 2000 og gerir allt sem ég segi honum að gera. Með glöðu geði pípettarar hann sýni í 384 holu bakka á 12 mínútum og hann kann líka að gera margt fleira eins og að hreinsa plasmíð.

Herra Biomek er dugnaðarforkur sem tekur sér aldrei kaffi eða sígópásu heldur vinnur ótrauður áfram, sólarhringum saman ef því er að skipta. Aðeins ef fleiri væru eins og herra Biomek, þá væri framlegðin nú meiri á Íslandi.

Hvað skyldi Marx hafa sagt ef hann hafði kynnst verkafólki á borð við herra Biomek? Ættu róbótar að fá að stofna stéttarfélög? Svona spurningar vakna þegar ég fylgist með herra Biomek strita fyrir mig.

Hátækniiðnaðurinn? Hann gæti alveg virkað held ég.