Archive for the ‘Veðrið’ Category

Kuldi

Yfirleitt er kuldi ekki vandamál hér í borg. Í stuttu máli þá er heitt hér á vorin frá mars fram í júní, örlítið minna heitt á sumrin vegna rigninga fram í október og svo er sæmilega heitt restina af árinu. Hitastigið tekur þó alltaf ákveðna dýfu í desember-janúar. Þá kemur fyrir að maður fer í peysu og jafnvel jakka því að það getur verið svalt í morgunsárið. Hér hreyfir varla vind að heita má þannig að þetta er allt vel bærilegt.

Eins og sjá má í fréttum virðist allt norðurhvel jarðar vera í miklum vetrarham þessa dagana og þessi kuldi virðist hafa að einhverju leiti náð að smjúga hingað. Undanfarna daga hefur verið vel svalt svo ég var tilneyddur til að fara í sænska vetrarjakkann minn sem hefur legið að mestu ónotaður upp í skáp síðan ég flutti hingað. Nú er víst spáð því að hitinn gæti farið niður í frostmark sem er fáheyrt á þessum slóðum. Einnig er einhver möguleiki á snjókomu sem hefur ekki gerst hér í um þrjátíu ár er mér sagt.

Hér í Mexíkóborg erum við svo sunnarlega á hnettinum að við erum á samsvarandi breiddargráðu og norðurhluti Súdan svo dæmi sé tekið. Menn hafa því litlar áhyggjur af kulda hér og húsin eru byggð eftir því enda óþarfi að spandera í einangrun fyrir stuttan hluta ársins. Því hefur mér verið hálf kalt undanfarið á morgnanna því eini rafmagnsofninn sem við eigum þessa stundina er hafður í barnaherberginu. Er dálítið freistandi þessa dagana að kaupa annan en samt, það tekur því varla.

Ég er nú þegar farinn að hlakka til vorsins, reyndar fer samkvæmt reynslu minni strax hlýnandi um næstu mánaðarmót og jafnvel fyrr. Nenni ekki svona kuldaskeiði í illa einangruðu húsi.

Tags: ,

Hiti og sviti

Fyrir um 3-4 vikum síðan tók hitastigið góðan kipp upp á við.

Hér í Mexíkóborg er nefnilega ekki svækjuhiti alla daga eins og margir gætu haldið því við erum í um 2400 metra hæð yfir sjávarmáli. Á veturnar er loftslagið þægilegt og mátulega passlegt. Yfirleitt þarf maður ekki peysu og yfirhafnir, bolaveður alla daga. Vorin eru hér heitasti árstíminn, á sumrin rignir duglega daglega sem kælir aftur loftslagið niður.

Nú er semsagt vor í lofti, hitinn fer vel yfir 30°C á hverjum degi sem aftur þýðir það að ég hef fengið að svitna daglega í nokkrar vikur. Samt sem áður verður lítil breyting á klæðaburði borgarbúa. Þar sem ég vil ekki líta út eins og áttavilltur túristi þá geri ég slíkt hið sama með þeim afleiðingum sem að ofan er lýst.

Kannski ég ætti að gera eins og gringóarnir í spænskuskólanum, finna mér hvítar stuttbuxur, hlýrabol og sólhatt. Þótt það væri kannski þægilegra þá vill enginn líta út eins og gringó, það segir sig sjálft.

Dean

Ég hef verið spurður hvort að fellibylurinn Dean sé að angra okkur. Í Mexíkóborg eru fellibylir lítið til vandræða þar sem að við erum svo langt frá ströndinni og lengst upp á fjöllum í ofanálag. Þó hefur verið rigning hér í allan dag sem kannski er hægt að rekja til áhrifa frá Dean, ég veit það ekki.

Hitinn

Það er oft verið að spyrja mig hvort að ég sé ekki að kafna úr hita hér í Mexíkó. Því fer reyndar fjarri. Staðreyndin er sú að Mexíkóborg er í um 2240 metra hæð yfir sjávarmáli og væri því undir jökli heima á Íslandi. Hitinn hérna er því vel þolanlegur, t.d. í dag er 18°C hiti og í gær var hann um 16°C. Það er reyndar í lægri kantinum því stundum rýkur hann yfir 30°C en það gerist ekki oft. Líka hefur rignt mikið síðustu daga sem lækkar skiljanlega hitatölurnar.

Hinsvegar niðri á sléttunum og við ströndina er hitinn oft mikill, fer upp í 40°C af og til. Ég er feginn að búa á fjöllum í þessu loftslagi.

Eilíf sól

Líklega ræða Mexíkanar um veðrið á annan hátt en Íslendingar. Hér er alltaf sól og u.þ.b. 25°-30°C, tek það fram að hér er hávetur. Breytingar eru fátíðar og því ekkert til að tala um. Ég spurði Anel hvort að það rigndi aldrei hérna í þessu landi. Jú það rignir í júlí var svarið, stundum í febrúar og kannski í mars. Þar sem ég er núna er allt iðjagrænt, pálmatrén svigna í golunni undir bláum himni. Í fjarska rísa tignarleg fjöll, ég saknaði fjallana þegar ég var í flatneskjunni Svíþjóð. Hér er ástandið mun betra.

Þórsdrunur

Hér í Svíþjóð rignir með eldingum og þrumum. Ég hef ekki séð þrumur og eldingar síðan ég var í Tælandi 2003, ekki laust við að það komi smá órói í mann þegar þetta ríður yfir. Maður er ekki vanur þessu.

Firn

Eitthvað undarlegt er að gerast í Reykjavík. Það er gott veður úti.

Engan plebbahátt

Þar sem ég er andsnúinn öllum plebbaskap ætla ég ekki að blogga um hvað veðrið í Svíþjóð sé nú gott.

Mars

Mars byrjar ágætlega að þessu sinni. Gott veður og svona.

Hitabylgjan nálgast

Rölti í búðina áðan og það var ekki mjög íslenskt veður úti. Það var heitt og mollulegt úti, algert logn og frekar rakt. Spáð var hitabylgju og ég held að hún sé á leiðinni.

Það verður mikill sviti í vinnunni/þrældómnum á morgun.