Archive for the ‘Vantrú’ Category

Trúfrjáls hægrimaður stingur niður penna

Ef þið viljið lesa eitthvað uppbyggilegt í dag þá er fátt betur til þess fallið en þessi pistill hér.

Góðum félagsskap rústað

Nú eru rétt rúm fjögur ár síðan ég gekk í Vantrú og síðan þá hefur gengið á ýmsu. Ég var mjög ánægður með þennan félagsskap og fannst við hafa áorkað einhverju með þessu stappi. Núna hefur þessu góða starfi verið stefnt í hættu með klofningi nokkurra manna sem fannst Vantrú vera orðin of mjúk og lin í sinni umfjöllun.

Reyndar er það rétt að eftir síðustu formannskipti hafa margar greinar verið ritskoðaðar af ritstjórn, sumar hafa jafnvel ekki fengið að fara í loftið því þær þóttu of harðar og jafnvel dónalegar. T.d. hefur einn besti penni Vantrúar, Frelsarinn, hefur nánast verið útilokaður síðustu mánuðina vegna síns beitta stíls. Allt átti þetta að vera til að mýkja ímynd Vantrúar og gefa málflutningnum meira vægi en í stað þess held ég að við höfum misst allan brodd í okkar ádeilu.

Ég mun þó ekki fylgja hinum nýja hópi Andkristinna þar sem margt í þeirra málflutningi á eflaust eftir að vera mjög einfeldningslegt í hálfgerðum hollívúdd stíl þar sem menn eru annað hvort gáfaðir og góðir eða trúgjarnir og heimskir. Þ.e. ef ég þekki þá rétt sem stofnuðu þetta nýja vefrit.

Núna er ég því staddur á nokkurs konar krossgötum og ég fíla í raun hvorugt félagið. Því hef ég ákveðið að ganga úr Vantrú og standa fyrir utan þetta þras. Líklega hafði verið betra ef menn hefðu getað hert stefnuna aðeins hjá félaginu og koma þannig til móts við hina, sem hafa sumir verið burðarásar í félaginu. En fyrst þetta fór svona þá nenni ég ekki að skipa mér í hóp með öðrum hvorum deiluaðilanum.

Nokkuð fúll yfir þessu, verð að viðurkenna það.

Kárahnjúkavirkjun nær að standa undir kostnaði við Þjóðkirkjuna

Athyglisverður pistill birtist á Vantrú í dag í kjölfar tilkynningar um aukna arðsemi af Kárahnjúkavirkjun. Vegna hækkunar á álverði er árleg arðsemi virkjunarinnar nú metin á 4,2 milljarða sem er mjög nálægt því sem eitt stykki ríkiskirkja kostar árlega.

Semsagt, það kostar eina Kárahnjúkavirkjun að reka þjóðkirkju á Íslandi.

Páskakanínan grilluð

Í gær snæddi ég kanínu í fyrsta sinn, grillaða. Að sjálfsögðu með salsa og sítrónu í tortilla. Það var herramannsmatur, mæli með því. Var ágætis uppbót fyrir að fá ekkert páskaegg.

Á ráðstefnu

Það er gaman hjá mér núna á ráðstefnunni Jákvæðar raddir trúleysis. Búinn að sjá Richard Dawkins og Dan Barker tala. Mikill innblástur og uppörvandi að taka þátt í þessu.

Jón Baldvin hefur tekið hátt stökk á vinsældalistanum hjá mér en hann opnaði ráðstefnuna með góðri ræðu. Kýs hann í hvaðeina sem hann býður sig fram í héðan í frá.

H-listinn vs. Íhald.is

Það virðast vera örlög H-listafólks að deila á vefritið Íhald.is, sbr ritdeilu Hildar Eddu við þá kumpána fyrr á þessu ári. Nú er röðin komin að mér en ég gat ekki á mér setið þegar birt var frámunalega vond grein um þróunarkenningu Darwins fyrir nokkru. Svarið birtist á Vantrú í dag.

Föstudagurinn góði

Hef lengi velt því fyrir mér hvers vegna föstudagurinn langi heitir föstudagurinn góði á enskri tungu. Gúglun leiðir ekkert öruggt í ljós, helst að um einhvers konar orðavíxl sé að ræða. Gods Friday hafi með tímanum orðið að Good Friday, ef einhver kann betri skýringu þá ber honum skylda til að tilkynna hana.

Annars skil ég ekki alla þá sorg sem umlykur þennan dag í kristinni trú. Jesú kallinn dó nú bara í þrjá daga og var svo sprellandi hress eftir það. Svo var það líka guðs vilji að hengja sjálfan sig upp á spýtukross og lafa þar í nokkra tíma til að bæta upp fyrir eplastuldinn forðum daga.

Hvet alla til að mæta á ólöglega kvikmyndasýningu Vantrúar í dag í Snarrót. Held að það sé kominn tími til að breyta þessum forneskjulegu lögum um helgidagafrið. T.d. væri ágæt lausn að hver gæti fengið nokkra sérstaka helgifrídaga til að ráðstafa sínum helgidögum eftir trúarbrögðum. Það ætti ekki að vera svo erfitt í framkvæmd.

Smáskammtalækningar

Hvað fær mann sem er talinn sæmilega heill á geði til að setjast niður og þýða heljarlanga grein um smáskammtalækingar eða hómópatíu? Ég hreinlega veit það ekki sjálfur. Líklega er þetta einhver blanda af uppsöfnuðum pirringi á skottulækningum og gervivísindum saman við þörfina fyrir að koma fróðleik á framfæri. Ef leitað er á Goggle að hómópatíu eða smáskammtalækningum þá finnur maður lítið nema síður frá nýaldarnötturum sem lofsyngja þá fræðimennsku að selja fólki vatn í flöskum til að lækna öll þeirra mein. Hjá Vísindavef HÍ kemur maður líka að tómum kofanum.

Til að eitthvað gerist verður maður oft að taka málin í sínar hendur. Núna er allavega komin ein samantekt á íslensku um smáskammtalækningar og kannski maður noti þennan grunn til að skrifa sérstaklega um hómópatíu á Íslandi.

Tvær þýðingar

Ég var að birta tvær þýðingar á Vantrú sem ég er búinn að bögglast með síðan um jólin, um vísindi og gervivísindi af The Skeptic’s Dictionary. Að þýða svona texta getur tekið nokkuð á en ég er nokkuð sáttur við útkomuna. Þurfti að smíða nokkur nýyrði fyrir þá seinni, fyrir ýmis furðufræði eins og ennishrukkufræði (e. metoposcopy) og andlitslestur (e. physiognomy).

Spurning hvort að maður fái á sig gagnrýni núna fyrir níðast á fólki sem aðhyllist höfuðlagsfræði og svæðanudd.

Helgarrokk

Boðinn í partý í kvöld og annað kvöld, svona á þetta að vera! Reyndar er partýið í kvöld heima hjá mér þannig að engin þurfti að bjóða mér en hvað um það. Ég er kátur.