Archive for the ‘Uncategorized’ Category

Engar áhyggjur

Kannski var síðasta færsla full dramatísk, ég var orðinn frekar áhyggjufullur þegar ég skrifaði eitthvað hér síðast. Við erum að mestu komin út úr öllum vandræðum og er bara bjart framundan.

Er dálítið leiðinlegt að hér skuli hafa orðið messufall því það sem ég met mest við bloggið eru minningarnar sem það geymir. Ég ætla að reyna að halda þessu við svo ég geti átt mína dagbók hér.

Núna er komið páskafrí hjá drengjunum. Líklega munum við fara á ströndina með vinafólki. Leiðin liggur til Acapulco sem er vinsæll áfangastaður fyrir þá sem búa í Mexíkóborg þar sem hægt er að keyra þangað á um fimm klukkustundum.

Líklega er hægt að finna enn betri sólarstrendur en þar sem fjarlægðir eru miklar í þessu landi þá látum við Acapulco duga að sinni.

Efahyggja

blame.jpg

Jól og áramót á sólarströnd

Umhverfið er eins lítið jólalegt og það gerist. Hvítar strendur, túrkís blátt haf, pálmatré og ferðamenn af öllum þjóðernum í stuttbuxum og bikini hvert sem litið er. VIð erum við karabíska hafið og verðum fram yfir áramót, nánar tiltekið í Cancún sem er líklega þekktasti ferðamannastaðurinn hér. Við vorum boðin í giftingu sem fór fram á vetrarsólstöðum í gær og þar sem við erum komin hingað ákváðum við að vera ekkert að flýta okkur til baka og nýta flugfarið almennilega.

Ég tók upp á því nú í ár í fyrsta sinn að gefa í skóinn, einhvern veginn var það ekki við hæfi þar sem við bjuggum áður en eftir flutningana í nýtt húsnæði þá einhvern veginn byrjuðu jólasveinarnir að streyma alla leið til Mexíkóborgar. Þeir leggja líka leið sína til Cancún. Úti á svölum hótelherbergisins þar sem sjá má öldurnar leika í fjöruborðinu má finna litla skó sem bíða eftir Ketkrók, þeir koma víða við kallarnir.

Hér verðum við að sulla á sundlaugarbakka og við leik á ströndinni fram á nýja árið. Þetta ár sem er að líða hefur verið það klikkað að við eigum inni smá frí frá öllu stressinu.

Ég óska öllum gleðilegra jóla og að hamingjan megi finna ykkur og þið hana á nýja árinu.

Tags: ,

Sumarfrí

Þessi síða er komin í sumarfrí ásamt eiganda sínum þótt ótrúlegt sé. Á Íslandi er gott að vera eins og alltaf, ætli ferðasagan af sumarfríinu langa komi hér ekki inn með haustinu.

Tags:

Nintendo fyrr og nú

Líklega var það í október þegar ég og frúin sáum á uppgjöri einu kreditkortanna að punktastaðan var orðin ískyggilega há. Þar sem umrætt kort er alltaf notað þegar fjárfest er í einhverju stóru fyrir bisnessinn þá hafði það gefið vel af sér í punktum. Þar sem þeir úreldast hér á fimm árum og þeir elstu höfðu þegar kvatt þennan heim þótti ekki annað viðeigandi en að koma nú þessum náðargjöfum kortafyrirtækjanna í góð not.

Við athuguðum því á netinu hvað væri í boði og viti menn, við gátum fengið Nintendo Wii gefins fyrir punktana.

Ég var reyndar mjög efins um að taka Wii gripinn. Minnugur eigin reynslu af tölvuleikjum og einnig höfðu nokkrir ungir karlar haft það á orði að réttast væri að láta það eiga sig að kaupa leikjatölvu handa strákunum.

Sjálfur átti ég elstu gerðina af Nintendo þegar ég var polli, líklega kom hún á heimilið þegar ég var sjö ára (1987). Þetta var náttúrulega bylting á sínum tíma og hvað maður gatt eytt tímanum í þetta. Var reyndar galli að ekki var hægt að vista leikina man ég og því var það alltaf allt eða ekkert sem gilti. Maður þurfti að klára leikina frá byrjun í einum rykk og það var stundum ekkert áhlaupaverk.

Eftir á að hyggja veit ég ekki hversu hollt þetta var fyrir mann, ekkert sérstaklega skaðlegt kannski en maður veit aldrei. Það dempaði reyndar minn spilatíma að aðeins eitt sjónvarp var á heimilinu þannig að ég gat lítið spilað á kvöldin, fréttir og Derrick höfðu þar forgang.

Ég eignaðist aldrei PC tölvu fyrr en ég var orðinn tvítugur þannig êg datt aldrei inn í þann leikjaheim. Gömlu Nintendo var skipt út fyrir Sony Playstation árið 1995 sem var að sjálfsögðu önnur bylting en eftir að hóf háskólanám 2001 hef ég varla snert á tölvuleik fyrr en nú. Hafði einfaldlega ekki tíma fyrir slíkt dútl.

Þar sem þetta var mikill tímaþjófur fyrir mig hafði ég eins og áður sagði efasemdir um Wii. Einnig rifjuðust upp gamlar minningar um skaðsemi tölvuleikjanna. Ég man eftir einum sveitunga mínum sem var samtíða mér á heimavist Fjölbrautaskóla Akraness. Hann datt svo innilega inn í þennan heim, gott ef það voru ekki Final Fantasy leikirnir sem áttu hug hans allan. Einn góðan veðurdag vaknaði hann upp við vondan draum, búinn að skrópa sig út úr skólanum, heimavistinni og öllu saman. Foreldrarnir mættir í dyragættinni rauðir í framan til að draga hann heim, líklega skýrasta dæmið sem ég man eftir.

Fleiri sem ég þekki eyddu of miklum tíma í ýmis tölvuspil, bitnaði á þeirra námi veit ég fyrir víst.

Ég lét þó til leiðast á endanum og við fengum Wii í hendurnar nokkrum dögum síðar. Settum þó reglur um spilunartíma, einungis er hér spilað um helgar og eftir að allri heimavinnu hefur verið sinnt. Gripurinn kom með Mario Kart Wii sem er kappakstursleikur og höfum við keypt tvo leiki í viðbót síðan þá.

Man reyndar eftir forvera þessa kappakstursleiks á Nintendo 64 sem var stundum leigð á heimvist FVA af vídeóleigunni Ás. Ætli krakkar leigi ennþá svona leikjatölvur? Eru vídeóleigur ennþá til á Íslandi? kæmi mér ekki á óvart ef þær hefðu dagað uppi.

Hvað um það, Wii er hin besta skemmtun fyrir alla fjölskylduna og ég hef staðið sjálfan mig að því að vera eftir miðnætti í brjáluðum kappakstri á regnboga út í geimnum eða vera að bjarga heilu vetrarbrautunum með gamla góða Maríó, pípara með meiru. Skemmtilegt að sjá gömlu persónurnar enn í fullu fjöri, strákarnir eru að leika með sömu kallana og ég fyrir aldarfjórðung í ehm… eilítið betri grafík.

Ég sé ekki eftir því að hafa eignast Wii en hef lofað sjálfum mér því að myndarlegu drengirnir mínir fá ekki að enda sem niðurlútir tölvunirðir. Ég gæti aldrei fyrirgefið sjálfum mér, allt er best í hófi.

Tags: , , ,

Ían Magni

Ég var alveg viss um að ég hefði sett það niður hér að sá minnsti fékk nafnið Ían Magni en það virðist vera rugl í mér. Setti það inn á Facebook en það kerfi er alveg ómögulegt og til einskis nýtt þegar að ævisaga mín verður skráð. Tilkynni það semsagt hér formlega.

Ían þekkist hér í landi og Anel var búin að fá hugmyndina að þessu nafni áður en hann fæddist. Mér leist svona sæmilega á þetta nafn í fyrstu og nefndi að fyrst að bræður hans hétu íslenskum nöfnum ætti það sama að gilda fyrir hann. En svo kom í ljós við leit í mannanafnaskrá að Ían er gott og gilt íslenskt nafn samkvæmt dómi stjórnvalda og ég samþykkti það því. Núna finnst mér nafnið mjög gott, gengur vel upp á spænsku og íslensku.

Anel stakk einnig upp á seinna nafninu Magni en ég held að hún hafi munað það nafn síðan Magni Ásgeirs var upp á sitt besta í þáttunum Rockstar Supernova en þeir voru einmitt í gagni þegar við bjuggum á Íslandi sumarið 2006. Hvað um það þá finnst mér tvínefnið Ían Magni vera mjög gott, mjög karlmannlegt nafn. Anel leist einnig vel á nafnið Míó en það segir sig sjálft að karlar með slíkt nafn eiga aldrei eftir að verða mjög karlmannlegir.

Ían kemur frá Skotlandi og er sama nafnið og Jón eða Jóhannes á gelísku. Magni er ævafornt norrænt nafn en sonur Þórs hét Magni. Merkir hinn sterki eða öflugi en Ían merkir guðsgjöf sem kann að virka öfugsnúið fyrir mann eins og mig en jæja.

Íslendingabók segir að fyrsta skráða heimildin um nafnið Magni er frá byrjun 13. aldar en sá var félagi Kolbeins á Flugumýri segir í Sturlungu. Ían er hins vegar nýrra en elsti Íslendingurinn með það nafn fæddist 1999. Hagstofa Íslands heldur því fram að einungis séu 7 Íslendingar sem bera þetta nafn, 4 sem fyrra nafn en 3 sem seinna nafn. Magni er að sjálfsögðu mun algengara en 97 eru skráðir með það sem fyrra nafn en 87 hafa það að seinna nafni eins og Ían Magni. Vart þarf að taka það fram að enginn er skráður undir nafninu Ían Magni, hef enn ekki skráð drenginn og fengið fyrir hann kennitölu en það verður bætt úr því fljótlega.

Ég er afar ánægður með nafnið en það hefur reynst þrautin þyngri að finna nöfn á drengina sem ganga upp á spænsku og íslensku. Að gefa barni nafn er óhemju mikil ábyrgð en ég held að okkur hafi tekist vel upp með þá þrjá.

Emil kominn á leikskóla (loksins)

Í gær fór Emil loksins á leikskólann en einhver barningur var að finna kennara fyrir hans aldurshóp. Hann virðist vera hæstánægður með þetta allt saman. Ari byrjaði í lok ágúst og hefur það gott, hefur eignast marga vini.

Munkaklaustur á fjöllum

Við skruppum í dag í bíltúr yfir í þjóðgarð sem kallast Desierto de los Leones eða Ljónaeyðimörkin. Þetta er þó engin eyðimörk heldur skógur í nokkurri hæð, finna má þar allnokkuð af grenitrjám því þar efra er svalt í veðri. Með í för voru móðursystir Anelar, Lulu ásamt Wendy dóttur hennar og Eduardo pabba Wendyar.

Þarna stendur gamalt munkaklaustur sem Karmelítar stofnuðu í kringum aldamótin 1600 og eyðimerkurnafnið kemur víst frá þeim en þeim fannst þetta vera svo friðsæll staður, langt frá erli og syndum hversdagsins að þeir kölluðu þennan skóg eyðimörk. Á spænsku er kannski aðeins meira vit í þessari nafngift en þetta er samt sérstakt. En við hverju er svo sem að búast af hópi karla sem taka sig saman um að loka sig af til æviloka svo þeir geti beðið og lesið Biblíuna daglega?

Við Anel höfum reyndar farið þetta áður en ég man ekki nákvæmlega hvenær, líklega haustið 2009. Það var reyndar ágætt að komast út þessari ofvöxnu borg og fá sér örlítið af fersku lofti.

Á bakaleiðinni rigndi svo mikið að rétt sást út þrátt fyrir að rúðuþurrkurnar væru settar í botn, alltaf gaman þegar regntímabilið kemst á skrið.

Yfirbót

Verð að viðurkenna að síðustu færslur hafa helst verið til að halda sjálfum mér í flokki virkra bloggara. Þ.e. þeir sem blogga a.m.k. einu sinni á mánuði, skilyrði samin af mér þannig að ég þurfti að standa við þau.

Þessi síða hefur annars verið frekar sorgleg undanfarið. Enn eru blogg frá síðasta ári á forsíðunni, frammistaðan fyrir neðan allar hellur. Markið verður sett hærra fyrir næstu mánuði, það er nokkuð ljóst.

Ísland sett á ís

Verður víst ekkert úr fyrirhuguðu jólafríi á Íslandi þessi jólin. Það fær víst að bíða betri tíma.

Tags: