Archive for the ‘Umhverfismál’ Category

Ímynd hvalveiða í útlandinu

Stundum held ég að Íslendingar skilji ekki alveg hvað hvalveiðar eru mikið alvörumál hér í útlandinu. Hér er litið á hvalveiðar sem helbera villimennsku og ég geri ráð fyrir því að þannig sé það í flestum löndum. Sá mjög gott dæmi um daginn þegar að Ari var að horfa á sjónvarpið og eftirfarandi myndband sem sjá má hér að neðan kom á skjáinn. Þetta var á stöðinni Discovery Kids í vinsælum þætti um dýralíf sem þessi unga stúlka Bindi Irwin sér um. Athugið að þetta er normið hér úti. Ímyndið ykkur svo hvernig það fer í almenning þegar fréttist að Íslendingar séu byrjaðir aftur að veiða hvali.

Var þetta kannski meðvituð tilraun til að sverta enn frekar mannorð Íslendinga í útlandinu?

Sjálfum finnst mér lítið um hvalveiðar í sjálfu sér en vandamálið er hvernig þær hafa áhrif á orðspor Íslands. Það er eiginlega orðið tómt mál að tala um Ísland sem eitthvað vistvænt land þar sem að risavirkjanir, stóriðja og hvalveiðar eru það helsta sem frétta má þaðan. Fyrir utan náttúrulega fjármálasukkið.

Tags:

Veðurfræðingur um loftslagsbreytingar

Bloggsíða Einars Sveinbjarnarsonar veðurfræðings, Veðurvaktin, er oft með fróðleg innlegg um loftslagsbreytingar. Mæli með henni fyrir þá sem hafa áhuga á málinu.

Held að hann sé ekki í einhverju gróðabraski með kolefniskvóta í samkrulli við Gore, en það er aldrei að vita. Samsærin leynast víða.

Loftslagsbreytingar, taka II

Við síðasta pistil komu tvær nokkuð langar athugasemdir sem voru ósammála því sem ég skrifaði. Sökum lengdar þeirra kýs ég að svara þeim hér.

Ég bar saman sköpunarsinna og þann flokk manna sem hafnar með öllu loftslagsbreytingum af mannavöldum mest til gamans. Undanfarin ár hef ég komist í kynni við nokkra sköpunarsinna og er farinn að þekkja þann hóp vel og þeirra taktík. Þess vegna er það frekar sláandi fyrir mig að sjá sömu taktík vaða uppi hjá þeim sem vilja ekki viðurkenna áhrif mannfólksins á loftslag jarðarinnar. Manni finnst á stundum eins og margt af því sem sagt er þar hafi heyrst oft áður, bara í öðru samhengi.

Skýrasta dæmið er dæmi A. úr fyrri pistli þar sem sumir virðast telja að vísindaheimurinn beiti sömu flokkunaraðferðum og núverandi Bandaríkjaforseti, annað hvort ertu með okkur eða á móti. Ef svo vill til að þú ert á móti okkur þá tökum við af þér styrkina, nemana og gleymdu því að fá birtar greinar kallinn.

En raunveruleikinn er einfaldlega ekki þannig, mönnum er ekki refsað fyrir að fylgja ekki hópnum en þeim gæti verið refsað fyrir að stunda vond og óheiðarleg vísindi.

Friðbjörn Orri sagði eftirfarandi í athugasemd.

Tíminn á eftir að leiða í ljós hvort er rétt. Hitastigið er alltaf að breytast og við getum ekkert gert við því. Það eru leifar af steingerðum hitabeltistrjám á Vestfjörðum svo dæmi sé tekið. Ekki var það hitaskeið af mannavöldum. Breytingar á hitastigi þýða ekki sjálfkrafa verri kjör.

Hitastigið á jörðinni er stöðugt að breytast, rétt er það. Hinsvegar þegar rætt er um hitastigbreytingar af mannavöldum þá er ekki hægt að hafna þeirri tilgátu á þeim grundvelli að hitastigið hafi að meðaltali verið hærra eða lægra hér áður fyrr. Það segir lítið um það hvort að breytingarnar nú séu af mannavöldum, einungis gerir það mögulegt að til séu aðrar náttúrulegar skýringar á breytingunum nú.

Svo tók ég það skýrt fram í fyrri pistli að menn ættu ekki að rugla saman hvort að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu staðreynd eða að loftslagsbreytingar séu slæmar. Þær umræður eru að sjálfsögðu tengdar en þó að hið fyrra sé viðurkennt þá þýðir það ekki að hið seinna sé þá sjálfkrafa satt og rétt. Sjálfur veit ég ekki hvað skal halda um skaðsemi loftslagsbreytinga en þær eru til staðar fyrir því.

Friðbjörn Orri segir einnig:

Consensus í vísindum er þversögn. Vísindi eru í eðli sínu efi.

Ég sé ekki hvernig „consensus“ í vísindum ætti að vera þversögn. Þvert á móti eru menn sammála um ótrúlega margt í vísindum t.d að vatn sé efnasamband vetnis og súrefnis, að hvalir séu spendýr eða að sólin fær orku sína í gegnum ferli kjarnasamruna. Auðvitað er efahyggjan ein grundvallarstoð vísinda en það þýðir þó ekki að efast þurfi um stöðugt um alla mögulega hluti.

Restin af innleggi Friðbjörns flokkast svo undir atriði C. í fyrri pistli, að þetta séu allt einhver konar trúarbrögð.

Það að herma trú upp á þá sem efast er örvæntingarfull tilraun til að svara í sömu mynt, samanber færslu þá sem ég er að veita andsvar við núna.

Málið er að ég var engan veginn að kalla þá trúaða eða fylgjendur trúarbragða sem efast um loftslagsbreytingar, einungis að þeir sjálfir gera það við vísindamenn og aðra sem telja svo vera. Örvæntingin er ekki svo mikil hjá mér.

Af því sem Gulli kemur inná er að þeir vísindamenn sem hafa leyft sér að efast um loftslagsbreytingar eiga að hafa verið rægðir illilega af kollegum sínum fyrir vikið. Mér finnst ekki hægt að alhæfa á þennan hátt og stundum eru það raunin að þeir sem gagnrýna hæst sjálfir eru viðkvæmastir fyrir því að þeirra skoðanir séu aftur gagnrýndar. Í þessari athugasemd frá honum kom eftirfarandi fram.

Þegar þessar umræður fóru af stað hjá almenningi og ansi lengi framan af beittu þeir sem aðhylltust kenninguna um hitastigshækkun af mannavöldum nánast einungis einu vopni í umræðum um þessi mál – ef einhver vísindamaður lýsti yfir efasemdum um kenninguna var hann hiklaust sakaður um að þiggja mútur frá olíufélögum, bílaframleiðendum eða öðrum stórfyrirtækjum og þar með var málið útrætt – enginn vísindamaður sem efaðist mátti teljast marktækur og allar hans rannsóknir voru falsaðar.

Eins og ég sagði einnig áður þá er umræðan um þessi mál oft leiðinleg með upphrópunum og dylgjum á báða bóga. Hins vegar verður ekki framhjá því litið að sumir sem hafa verið hvað mest áberandi í þessari umræðu hafa tengsl við t.d. olíufyrirtækin, mætti þar nefna Christopher Monckton sem er á spenanum hjá ExxonMobil. Svo hafa vinnubrögð gagnrýnendanna stundum ekki verið til fyrirmyndar, sbr. Björn Lomborg og fræg bók hans um hið „sanna“ ástand jarðar.

Síðan fóru að koma fram upplýsingar um að margir af þeim sem höfðu hæst í heimsendaspánum (yfirleitt ekki vísindamenn) voru komnir af stað með fyrirtæki sem seldu „koldíoxíðsjöfnun“ og voru því farnir að hafa beinan fjárhagslegan ávinning af því að halda þessari kenningu á lofti. Margir fóru að benda á þessa hræsni og þá hófst söngurinn frá þeim sem telja manninn ástæðu hækkandi hita um að verið væri að reyna að ófrægja þessa menn og saka þá um gróðabrask.

Hvar sem gróðavon er að finna eru alltaf einhverjir tilbúnir að grípa gæsina. Mér finnst þessi iðnaður oft hálf-kjánalegur, sbr. kolefnisjöfnun og annað slíkt, en samt sem áður leiðir eitthvað gott af þessu eins og aukin skógrækt. Auðvitað er þetta friðun samviskunnar en það þarf ekki að vera slæmt í sjálfu sér. Mikið fé kemur til hjálparstarfsemi af ýmsu tagi eins og Rauða Krossins og SOS barnaþorpanna í gegnum fjárframlög sem upphaflega eru gefin af ríku fólki á Vesturlöndum til að friða samviskuna yfir því hvað það hefur það nú gott.

Ég get ekki neitað því að einhverjir hafi spilað á ástandið til að græða á því, þekki það sem vísað er til ekki nóg til þess. Hinsvegar ef þessi koldíoxíð-iðnaður er borinn saman við þá hagsmuni sem ýmis stórfyrirtæki hafa af því að bátnum sé ekki ruggað þá er ljóst hjá hvorri hliðinni er meira í húfi.

Gulli segir ennfremur:

Ef maðurinn er einn ábyrgur fyrir þessari síðustu hitasveiflu með koldíoxíðútblæstri ætti að vera tiltölulega einfalt mál að smíða módel sem getur spáð fyrir um hitastigsbreytingar næstu áratuga. Enn sem komið er hefur ekki einu sinni tekist að smíða módel sem komast nærri því að spá fyrir um þekktar hitastigsbreytingar síðustu áratuga útfrá gögnum fram að þeim tímum.

Á hreinu er að koldíoxíð er gróðurhúsalofttegund og öll veruleg aukning á styrk þess í andrúmsloftinu ætti að valda breytingum. Hvernig þær breytingar nákvæmlega koma fram er annað atriði en flestir hallast að því að hækkandi hitastig í heiminum undanfarna áratugi og aldir megi rekja til aukins styrks koldíoxíðs auk annarra gróðurhúsalofttegunda sem frá mannfólkinu berast.

Loftslagsbreytinar eru skaðlegar lífverum sem ekki geta lagað sig að breyttum aðstæðum eða ná ekki að breyta sér nógu hratt, slíkt hefur gerst mörgum sinnum í stórum skala í jarðsögunni, maðurinn mun ekkert breyta því. Dómsdagsspárnar ganga meira og minna út frá því að engin lífvera geti lagað sig að aðstæðum og standa þar með í mótsögn við þróunarkenningu Darwins!

Lífið á jörðinni hefur gengið í gegnum nokkur skeið þar sem fjöldaútrýming lífvera varð, yfirleitt er talað um þau fimm stóru og mikill meirihluti líffræðinga telur að við séum í raun stödd á því sjötta, þar sem maðurinn er sökudólgurinn hvort sem okkur líkar betur eða verr. Vissulega er það rétt ef til lengri tíma litið, jarðsögulega, þá er þetta lítið vandamál. En við lifum ekki á jarðsögulegum tímaskala heldur mannlegum. Hröð og mikil röskun á vistkerfum náttúrunnar leiðir til hraðrar útrýmingar sem gæti orðið okkur erfitt að aðlagast. Hratt og mikið tap á líffræðilegum fjölbreytileika leiðir til þess að við verðum í afar vondri stöðu eftirá, að ekki sé talað um annað líf sem á eftir að lifa ósköpin af.

Mér finnst það vottur um ótrúlega þröngsýni að halda því fram að maðurinn einn sé ástæða breytinga á hitastigi jarðar sem eru ekki einu sinni stórar í jarðsögunni. Þær eru bara stórar síðan við byrjuðum að mæla og skrá hitann kerfisbundið fyrir rétt um 400 árum síðan. Eða eins og æðsti maður NASA benti á: „Hvað þykjumst við vita um hvert er rétt hitastig á jörðinni?“

Það kannski væri vert að spyrja þeirrar spurningar: „Hvert á meðalhitastig jarðarinnar að vera?“

Þetta eru góðar spurningar en vandamálið er í raun ekki hitastigið sjálft heldur breytingar á því. Ef þær eru of hraðar verða þær mjög skaðlegar því það eru takmörk fyrir því hvað lífið getur aðlagast skjótt breytingum á umhverfinu. Mér finnst það ekki þröngsýni að áætla sem svo að 33% aukning á koldíoxíði í andrúmsloftinu frá því að iðnvæðingin hófst (sem að viðbættum öðrum gróðurhúsalofttegundum jafngildir 50% aukningu á koldíoxíði) hafi líklega haft þau áhrif að hitastig jarðar hefur hækkað. Frekar er um eðlilega ályktun að ræða.

Kannski ég ítreki enn og aftur að erfitt er að spá fyrir um framtíðina og ég veit ekki hvort að þessar breytingar verða slæmar eða ekki. Fer allt eftir hraða þeirra og umfangi. Sjálfum finnst mér of mikið púður fara í þessar umræður á kostnað annarra umhverfisvandamála sem betur mætti huga að, líkt og mengun grunnvatns, eyðing skóga í hitabeltinu, súrt regn og svona mætti lengi telja.

Sköpunarsinnar vs þeir ágætu menn sem afneita loftlagsbreytingum

Fróðlegt er að bera saman þann hóp sem mótmælir hástöfum þróunarkenningu Darwins og þeirra sem telja gróðurhúsaáhrifin bara eitthvað plat og svikamyllu. Rétt er það að þessir hópar skarast, ekki þarf að fara lengra en á Moggabloggið til að sjá þann samslátt. En hér er ég að tala um orðræðuna hjá báðum þessum hópum, hún er ótrúlega svipuð.

Tökum nokkur dæmi til að glöggva okkur á þessu.

A. Vísindamenn sem fylgja ekki hópnum eru sagðir ekki fá styrki og eiga samkvæmt sögunni að vera almennt úthýst í vísindasamfélaginu. Svokallaðir sköpunarsinnar telja fræðaheiminn halda niðri þeim sem trúa á guðlega sköpun lífsins og hampa þeim sem aðhyllast náttúrulega tilurð lífsins. Sama hjalið má sjá hjá þeim sem trúa því að hlýnun jarðar sé vafasamur tilbúningur styrkþyrstra vísindamanna. Þeir vísindamenn sem efast fá víst ekki birtar greinar og öll framlög til þeirra eru skorin niður við nögl.

B. Þrátt fyrir að yfirgnæfandi magn gagna bendi til þess að andstöðuhópurinn hafi rangt fyrir sér þá láta þeir sér ekki segjast. Þróunarafneitarar gera það vegna bjargfastrar trúar sinnar á guð. Ekki er auðvelt að festa hendi á hvað það er sem fær hinn hópinn til að andæfa svo kröftuglega vísindalegum niðurstöðum manna varðandi loftlagsbreytingar. Líklega er það einhvers konar íhaldssemi, þeir vilja ekki að lífstíl sínum sé haggað. Eða þá að þeir trúa því ekki að nokkuð það sem maðurinn aðhefst, sem ekki er beint ólöglegt, geti verið skaðlegt á nokkurn hátt. Ég á frekar erfitt með að átta mig á hvar hnífurinn stendur í kúnni í því tilfelli.

C. Andstæðingnum er líkt við fylgjendum trúarbragða. Í tilfelli sköpunarsinna er það ekkert nema grátbroslegt, þar sem andstaða þeirra við hugmyndir um þróun eiga jú rætur sínar í bókstafstrú. Í tilfelli þeirra sem halda að loftlagsbreytingar séu bull þá er oft dregin upp mynd af þeim sem eru á annarri skoðun sem heilaþvegnum fylgendum sértrúarsöfnuðar. Þar er m.a. Al Gore sýndur sem einn af dýrlingunum, ef ekki hreinlega guð sjálfur. Sala á kolefniskvóta er líkt við sölu aflátsbréfa páfans hér áður fyrr og svona mætti lengi telja. Hægt er að sjá þetta viðhorf víða. T.d. á skopmyndunum hér hjá Hirti Guðmundssyni og athugasemdinni þar fyrir neðan. Egill Helgason er einnig duglegur við þessa iðju sbr. eftirfarandi.

Al Gore fer um heiminn eins og farandtrúboði með tjald sitt. Eins og títt er um slíka prédíkara [sic] snýst þetta dálítið um peninga líka. #

Einnig eru menn í þessum bransa kallaðir heimsendaspámenn sem starfa í einhverri trúarhefð þar sem mannkynið þarf á efsta degi að gjalda fyrir syndir sínar. Reyndar tel ég að hluti umhverfisverndarsinna sé á einhverri þannig línu í sínum þankagangi en það er mikill minnihluti að mínu mati.

D. Ekki má gagnrýna fræðin. Í tilfelli sköpunarsinna telja þeir það vera gagnrýni að nota Biblíuna sem vísindalega heimild um uppruna jarðar og lífs eða þá að telja ævintýri um dreka óyggjandi sannanir fyrir því að risaeðlur og menn hafi verið uppi á sama tíma. Slík gagnrýni er auðvitað ekki pappírsins virði en samt sem áður telja sköpunarsinnar það mikla móðgun við sig að slík gagnrýni sé ekki tekin alvarlega. Þó að gagnrýni andstæðinga loftslagsbreytinga sé ekki á jafn lágu plani þá er hún oft á tíðum ekki mikið skárri. Mikið er gert úr því að þetta sé allt saman einhver gróðamylla illkvittinna manna en á sama tíma er litið fram hjá því hverjir hafa mestan hag af því að engar mótvægisaðgerðir fari fram.

Þetta voru þau atriði sem mér datt í hug í fljótu bragði, eflaust væri hægt að týna fleira til. Fyrir þremur árum síðan minnist ég á svipuð atriði sem sjá má í þessu bloggi hér. Þar leitaðist ég við að færa rök fyrir því hvers vegna þau fræði sem rembast við að sanna að loftslagsbreytingar séu ekki til eru í raun gervivísindi.

Reyndar er umræðan um þessi mál föst í frekar leiðinlegum gír, svipað og umræðan heima um Evrópusambandið. Áróður á báða bóga þar sem kostir og gallar hvorrar hliðar eru ýktir fram úr hófi. Mér finnst að gera þurfi greinarmun á tveimur deiluefnum í þessari umræðu.

I. Loftlagsbreytingar eru staðreynd og eru af mannavöldum.

II. Loftlagsbreytingar eru skaðlegar.

Fyrir mér er atriði I í raun útrætt og einungis þeir þverustu sem enn þvertaka fyrir það. Hitt er svo annað mál hverjar afleiðingarnar verða og hvað umfangsmiklar. Kannski hefur þetta lítil áhrif, kannski mikil. Mun erfiðara er að spá fyrir um framtíðina heldur en að mæla hitastigið úti og bera saman við eldri gögn. Menn verða ávallt að stíga gætilega til jarðar þegar rætt er um hvað gerist í framtíðinni, sérstaklega vísindamenn. Ekki gengur að hrópa stöðugt „úlfur úlfur“, við vitum hvernig sú saga endaði.

Meiri veiðar auka stofnstærð

Einhvern veginn þannig virðast fjölmargir heima á Íslandi hugsa varðandi þorskveiðar, því meira sem veitt er því betra. Þorskurinn er horaður, vannærður og stofnstærð hans er bara brot af því sem hún var fyrir nokkrum áratugum.

Lausnin? Veiða meiri þorsk!

Ég hef tjáð mig um þetta áður, ótrúlegastu menn verða skyndilega fiskifræðingar þegar þessi mál eru rædd. Víla jafnvel ekki fyrir sér að skrifa blaðagreinar um málið. Ég er ekki hlynntur því að fræðimenn einoki umræður en í þessu tilfelli sé ég sjaldnast eitthvað frá fræðimönnunum sjálfum.

Einar K. Guðfinnsson fær sjaldgæft hrós fyrir að standa upp á móti LÍÚ mafíunni og skera niður þorsk- og loðnuveiðar eins og þörf var á. Frjáls sókn í þessar auðlindir hefði endað eins og hver annar námugröftur, mokað út meðan eitthvað er upp úr því að hafa og svo ekki söguna meir.

Sjálfskipaðir fiskifræðingar

Hún fer alltaf í gang með reglulegu millibili, umræðan um hvað mikið sé nú af fiski í sjónum og hvað ætti að veiða mikið af honum. Alltaf eru fjölmargir sem finna tillögum Hafró flest til foráttu, þeir vilja ekki veiða minna heldur meira. Rökin sem þeir týna til fyrir þessu eru yfirleitt hláleg, þ.e. ef þessir menn koma með einhver rök.

Oft er vísað til „tilfinningu“ sjómanna fyrir miðunum en þeir virðast geta fundið það á sér hvað mikið er af þorski í sjónum. Ekki veit ég um önnur vísindi þar sem notast er við sjötta skilningarvitið nema kannski þá guðfræðina. Ég vil ekki gera lítið úr þekkingu sjómanna á fiskimiðunum en að vísa til tilfinninga í svona umræðum er óneitanlega broslegt.

Andríkismenn fóru á kostum um daginn þar sem þeir bentu (réttilega) á að aflinn hafði verið meiri þegar að veiðarnar voru frjálsar. Einhvern veginn held ég að þeir séu á þeirri skoðun að ef veiðarnar hefðu áfram verið frjálsar þá væri meira af fiski í sjónum. Líklega kann þorskurinn svo vel að meta frelsið að hann fjölgar sér meira þegar hann er veiddur meira.

Margir segja líka að þorskurinn sé horaður og því eigi að veiða meira af honum svo að þeir þorskar sem eftir standa (synda) fái meiri fæðu. Þeir telja semsagt að besta ráðið gegn minnkandi stofni, sem er að auki vannærður, sé að auka veiðarnar til að sjá hvort að þetta reddist nú ekki.

Fiskifræði er ein af undirgreinum líffræðinnar en ég þykist þó ekki hafa neitt vit á henni. Ég skil því ekki hvernig menn hafa náð svo undurgóðu skynbragði á þessi fræði að þeir telja sig fremri sérfræðingum Hafró, sem þó hafa eytt ævinni í að ná tökum á þessum vísindum. Skýringin er þó einföld, þeir hafa ekki hundsvit á fiskifræði. Þeir vilja bara veiða meira til að græða meira.

Ég og Þorsteinn

Svona í framhaldi af síðustu færslu þá sé ég í dag að Þorsteinn Pálsson er sammála mér að mörgu leiti.

Skammt er nú til þess að Kárahnjúkavirkjun verði að fullu lokið. Löngu er búið að semja til langs tíma um sölu á raforku þaðan fyrir ákveðið verð. Ríkisvaldið hefur hins vegar ekki enn náð samningum við þá sem eiga hluta vatnsréttindanna. Ólíklegt er að einkafyrirtæki hefði hafið framkvæmdir án samninga um vatnsréttindi. Fullvíst er að einkafyrirtæki hefði ekki gengið frá langtíma orkusölusamningi án vitundar um verð vatnsréttindanna. Þennan vanda leysir ríkið með sjálfvirku eignarnámi sér til handa. Það er aðstaða sem engir aðrir njóta í samningum á frjálsum markaði. Úrskurðarnefnd á síðan að meta vatnsréttindin eftir að orkuframleiðslan er hafin og löngu eftir að verð á framleiðslunni hefur verið samningsbundið áratugi fram í tímann. Við slíkar nauðungaraðstæður er lítil von til þess að eðlilegt markaðsverð finnist.

Prósentur

Það er hægt að leika sér með prósentureikning fram og aftur. Nær væri hjá Vefþjóðviljanum að gefa upp tölur, eins og magn og hver aukningin í Bandaríkjunum er í hlutfalli við íbúa sem dæmi. Einhvern veginn grunar mig að þessi samanburður verði óhagstæðari þá.

Annars skil ég ekki hvernig þessar tölur skipta þá máli því þetta vefrit hefur oft haldið því fram að gróðurhúsaáhrifin séu ekki til, eða í besta falli þá eru þau bara gott mál.

Enn einni tegundinni útrýmt

Svo virðist vera sem að kínverska vatnahöfrunginum hafi verið með öllu útrýmt á þessu ári, samkvæmt þessari frétt frá BBC. Þessi tegund var undir miklu álagi síðastliðna áratugi vegna aukinnar rányrkju mannsins, skjótri iðnvæðingu Kína auk mengunar. Líklega hafa framkvæmdir við Þriggja Gljúfra Stífluna flýtt fyrir útrýmingu hans en Yangtze fljótið var eina búsvæði hans.

Það er afar sorglegt að heyra þessi tíðindi. Ferskvatnshöfrungar eru sjaldgæfir en þessi tegund var ein af fjórum, hinar finnast í Indlandi og Amazon fljótinu. Líffræðilegur fjölbreytileiki jarðar minnkar með hverju árinu sem líður. Að lokum verður ekkert eftir nema menn, húsdýr þeirra, rottur og kakkalakkar. Mikið verður það dásamlegur heimur.

Samtal við Svía

Ég átti hálf-vandræðalegt samtal við sænskan samstúdent minn á labbanum fyrir nokkrum dögum. Samtalið var vandræðalegt vegna þess að ég þurfti að útskýra fyrir honum hvernig ástandið er heima á Íslandi í menntamálum. Jú, jú flott er, íslenska ríkið stendur sig betur en það króatíska í útgjöldum til menntamála, klöppum fyrir því. En það væri nú hægt að gera eitthvað betur.

Svíinn byrjaði á því að spyrja mig hvað mér þætti um sænskt menntakerfi, hvort að háskólinn í Skövde stæðist væntingar og þar fram eftir götunum. Ég sagði eins og er að ég væri ánægður með námið og skólann, nánast að öllu leiti. Sagðist telja að gæði námsins væri góð og það ætti eftir að nýtast manni vel í framtíðinni. Svo fór að versna í því.

Aftur spurði Svíinn hvort að á Íslandi væri svipað skólakerfi, hvort að það væri opinbert og ókeypis að mestu eða hvort að það væru einungis einkaskólar þar nyrðra. Ég sagði að það væri bæði, en raunvísindanám færi einungis fram í Háskóla Íslands sem er rekinn af ríkinu og er eiginlega ekki ókeypis þar sem innritunargjöldin eru komin upp í u.þ.b. 500 evrur á ári. Svíanum fannst það undarlegur ríkisskóli með svo há skólagjöld. Ekki bætti það úr skák þegar ég sagði honum að námsmenn geta einungis tekið lán en styrkir eru ekki fáanlegir, minnsta kosti ekki á lægri skólastigum.

Hann fór þá að spyrja út í stefnu stjórnvalda, því algengt er að ríkisstjórnir þróaðra landa leitist við að styðja og hvetja ungt fólk til háskólanáms. Ég sagði honum að mín ríkisstjórn hefur meiri áhuga á stóriðjuframkvæmdum og þungaiðnaði. Þetta fannst honum agalegt að heyra, stórar verksmiðjur á Íslandi, afhverju? Hvað um ferðamannaiðnaðinn og þess háttar? Hin víðfræga náttúra landsins, reyna menn ekki að færa sér hana í nyt?

Ég hafði eiginlega ekki geð í mér til að segja frá því að nú er að ljúka stærstu manngerðu náttúruröskun Íslandssögunnar. Þarna varð mér það endanlega ljóst að ég skammast mín fyrir stjórnvöld heima, fyrir skammsýni þeirra, gerræðislega stjórnarhætti og hreint út sagt heimsku þeirra. Sem betur fer var komið að mér að nota pH mælinn þannig að ég gat eytt þessu tali.

Ó, leyf mér, Drottinn, að deyja dapurt er mannfólkið því Fósturlandsins Freyja er farin í álverið