Archive for the ‘Trúarbrögð’ Category

Darwin og trúleysið

Nýverið átti merkisbókin Uppruni tegundanna eftir Darwin gamla afmæli en 150 ár eru víst síðan að bókin kom út. Sjálfur á ég þessa bók, minnir að ég pantaði hana í jólagjöf þegar að íslenska þýðingin kom út.

Þessi bók er afar sérstök. Þarna var ný heimsýn í burðarliðnum, fersk kenning sem kollvarpaði ekki einungis náttúruvísindum þess tíma heldur hafði mikil áhrif á öll vísindi og fræði og hefur að sjálfsögðu enn. Bók sem breytti þankagangi fólks um alla framtíð.

Lífið sem eitt sinn var töfrað fram úr hendi guðanna varð skyndilega einfaldur hluti af náttúrunni, líkt og fjöll og stöðuvötn. Náttúrulegir ferlar voru eftir allt saman hönnuðir lífríkisins og mannkynið var einungis ein greinin á hinu gríðarmikla lífsins tré.

Til að gæta allrar sanngirni þá kom verk Darwins ekki alveg eins og skrattinn úr sauðarleggnum forðum, ýmislegt hafði gerst í lok 18. aldar og á þeirri 19. sem hafði þegar breytt sýn manna á náttúruna. En Darwin náði að vefa saman þá miklu þekkingu á hinni lifandi náttúru, sem tiltæk var á þeim tíma, saman við kenningu sína um náttúrulegt val sem gangverk þróunarinnar á þann hátt að fáir gátu andmælt. Að minnsta kosti ekki af miklu viti.

Trúarbrögð urðu fyrir miklum áhrifum af verkum Darwins og segja má að hann hafi gengið af bókstafstrú dauðri. Örvænting bókstafstrúaðra manna af öllum trúarbrögðum gagnvart þróunarkenningunni er enn þann dag í dag hlálegt fyrirbæri og sorglegt í senn. Harðlínumenn sem hafna því alfarið að eitthvað geti ekki verið bókstaflega satt í sínum trúarskruddum gera sig sífellt að fíflum í umræðum um þróun með gaspri sínu og vanþekkingu. Það er reyndar merkilegt að bókstafstrú skuli enn vera við lýði í upplýstum löndum, vísindin hefðu með réttu átt að ganga frá henni fyrir löngu. Sýnir vel ítök trúarbragða í samfélaginu.

Annars langar mig að játa það hér og nú að mér leiðist alltaf þegar Darwin, þróun o.s.frv. er stillt upp gegn trúarbrögðum sem einhverjum andstæðum. Jú, eins og ég hef sagt hér að ofan þá tel ég vísindin hafa drepið bókstafstrú. En það nær ekki mikið lengra en það. Þeir sem trúa á óljósari hugmyndir um guði eins og deistar eru lítt snortnir af uppgötvunum Darwins, þær falla alveg að þeirra hugmyndum því hægt er að beygja þær eftir þörfum.

Gagnvart þessum mýkri trúarbrögðum finnst mér sjálfum mun vænlegra til árangurs að nota heimspekileg rök því þau sýna fram á fáránleika trúarbragða betur en nokkuð annað. Margir hafa aldrei nokkurn tímann velt fyrir sér inntaki sinna trúarbragða heldur fylgja einhverjum fornum hefðum sem þeim var innrætt sem börn. Í mörgum tilvikum er nægjanlegt að ræða á gagnrýninn hátt um trú þeirra til að fólk sjái að sér.

Í umræðum við slíkt fólk leiðist mér að sjá Darwin dreginn á flot eins og allsherjarskýringu á öllu og öllum. Trúarbrögð hafa mörg aðlagast þessari heimsmynd, meira að segja kaþólska kirkjan hefur samþykkt þróunarkenningu Darwins. Þeir segja eingöngu að hún skýri ekki tilurð sálarinnar en allt hitt er gott og blessað. Í rökræðum við þessa tegund trúmanna er heimspekin beittara vopn.

Allavega þá er ekki hægt að setja samasem merki milli Darwins og trúleysis, ég þurfti svona mikinn texta til að koma því á framfæri.

Tags: , ,

Flokkun trúmanna á öðru fólki

Eftir að hafa fylgst með og tekið þátt í umræðum um trúmál í nokkur ár þá hef ég tekið eftir ákveðnu mynstri í þankagangi trúmanna varðandi viðhorf þeirra til annarra manna. Gróft á litið má skilgreina álit trúmanna á öðru fólki í fjóra flokka.

Fyrsti flokkurinn og sá besti að sjálfsögðu eru trúbræðurnir, þeir sem deila sömu trú og hafa svipaðan skilning á trúarbrögðunum og helgiritum þeirra. Oft má sjá fólk rísa upp til varnar trúbræðrum sínum í deilumálum jafnvel þótt að um engin persónuleg tengsl sé að ræða. Nóg er að ef trúað er á sömu vitleysuna þá er það strax ákveðinn gæðastimpill í hugum margra.

Annar flokkurinn eru þeir sem eru í sömu trúarbrögðum en öðrum afbrigðum. Hér vísa ég aðallega til reynslu minnar af margþættustu trúarbrögðum nútímans sem er kristni. Ef trúarbrögðin eru hlutmengi í menginu kristni þá finnst það mörgum gott og blessað þrátt fyrir að þeir séu staddir í öðru hlutmengi. Dettur t.d. í hug ákveðinn kaþólikki sem fer mikinn á Moggablogginu og lofar oft hvítasunnumenn fyrir trúfestu þeirra. Ég hef ekki reynslu af öðrum trúarbrögðum hvað þetta varðar. Gæti þó trúað því að svipað gildi þar. T.d. að sjítar telji súnníta skömminni skárri en villutrúarmenn.

Til þriðja flokksins teljast einmitt villutrúarmenn eða fylgjendur annarra trúarbragða. Þetta er reyndar áhugaverðasti flokkurinn að mínu mati því svo virðist að nánast allir trúmenn telji það betra að trúa einhverju heldur en engu. Skiptir engu máli þótt að hin trúarbrögðin stangist algjörlega á við þeirra eigin. Þetta er merkileg söguleg þróun því áður fyrr voru villutrúarmenn í öllum heimshornum ofsóttir ef trú þeirra var ekki rétt. Svo virðist sem að einhvers konar þvertrúarleg samstaða sé að myndast gegn þeim sem taka ekki þátt í trúarbrjálæðinu. Gott dæmi um þetta er nýleg heimsókn Dalai Lama til Íslands þar sem biskupinn í lúthersku ríkiskirkjunni tók vel á móti kollega sínum og hélt einhverja trúarlega samkomu þar sem m.a. múslimi tók til máls auk búddistans. Þetta er í raun nokkuð furðulegt þar sem biskupinn og DL eiga fátt sameiginlegt eins og lesa má dæmi um hér.

Fjórði flokkurinn og sá lakasti eru svo auðvitað trúleysingjarnir. Vont er fyrir margan trúmanninn ef fólk deilir ekki með þeim hinni réttu og sönnu trú. En það er þó lítið böl miðað við þann hóp sem trúir hreinlega ekki á neitt yfirnáttúrulegt. Andstaðan við skynsemishyggjuna er auðskilin því hún er stærsta ógnin við trúarbrögð í dag. Í nútímanum stafar trúarbrögðum ekki svo mikil hætta af öðrum trúarbrögðum, a.m.k. ekki eins og það var hér áður fyrr þegar kristnum trúboðum var gefið opið veiðileyfi á önnur menningarsvæði. Hins vegar fjölgar þeim stöðugt sem lifa lífi sínu án allra hindurvitna og leiðsagnar heimsendabullara. Í upplýstum heimi vísinda og fræða er það eina leiðin fyrir skynsamt fólk til að lifa lífinu.

Þetta tel ég vera ástæðuna fyrir auknu þvertrúarlegu krulli sem mér finnst ég sjá í auknum mæli. Svo virðist sem sameiginleg andúð trúarnöttara á trúleysi þjappi þeim saman jafnvel þótt að þeirra lífsskoðanir innbyrðis séu oft ósamræmanlegar. Ég reikna reyndar með því að í framtíðinni eigi þessi pólun eftir að verða meira áberandi og hafa meiri áhrif. Þið lásuð það fyrst hér.

Tags: , , , , ,

Golgata-Móri snýr aftur

Enn og aftur hafa páskarnir liðið hjá. Hér í Mexíkó er enginn munaður eins og annar í páskum enda skilst mér að það sé uppfinning verkalýðsfélaga á klakanum. Páskaegg eru ekki hefð hér en þó er hægt að finna þau í ýmsum nýlenduvöruverslunum. Við splæstum í einn súkkulaðiunga með pípuhatt þar sem eggin sjálf voru í dýrari kantinum, svona til að halda í hefðina. Konan vill koma á þeirri hefð á okkar heimili að drengirnir fái að hakka í sig súkkulaðiegg á páskadag að hætti Íslendinga. Ekki kvarta ég yfir því.

Páskarnir sjálfir verða annars alltaf undarlegri finnst manni þótt boðskapurinn sjálfur breytist náttúrulega ekki. Einkasonur guðs var að sögn tekinn af lífi fyrir u.þ.b. 20 öldum á ferlega viðbjóðslegan hátt til að guð gæti fyrirgefið mönnum syndir sínar. Þessi sonur er í ýmsum túlkunum kristinna trúflokka einnig guð þannig að guð framdi sjálfsmorð til að hann gæti fyrirgefið mannfólkinu. Meintur dauðdagi var svo bara allt í plati því síðar reis þessi einkasonur guðs, sem var hann sjálfur, upp frá dauðum alveg sprellfjörugur. Þetta finnst kristnum mönnum alveg ótrúleg fórnfýsi og örlæti.

Í kaþólsku landi eins og Mexíkó hafa menn mikla skreytiþörf. Fyrir utan kirkjuna í götunni minni hafa þeir sett líkneski af Jesú hangandi á krossinum með skælandi Maríu mey fyrir neðan. Rómverska hermenn og lærisveina má þar einnig sjá og svo er Júdas hangandi í snörunni í einu tré með sjálfan Satan haldandi á þríforknum fyrir neðan. Þetta er reyndar árlegur viðburður að sjá þessa sýningu og alltaf er hún jafn ósmekkleg eins og svo margt sem tengist kaþólskunni.

Já páskarnir eru skrítin skepna. Sjálfur kýs ég að halda þá sem vorhátíð og hátíð súkkulaðis. Meint upprisa Golgata-Móra og allur sá draugagangur á ekki við mig. Reyndar held ég að flest skynsamt fólk trúi engu af þessum sögum. Læt Helga Hós eiga lokaorðið um þetta.

Krosslafshræ við láð varð laust
ljótt með kauna aman
til himna eins og skrugga skaust
með skít og öllu saman.

Tags: , , , ,

Sameinuðu Þjóðirnar á móti guðlasti?

Helsti gallinn við Sameinuðu Þjóðirnar er að allir fá að vera með og segja sína skoðun. Þótt að við fyrstu sýn virðist það ekki vera galli heldur kostur þá verður að hafa í huga að mörg lönd á okkar fögru plánetu eru afar aftarlega á merinni í mörgum málaflokkum. Nú hefur það semsagt gerst að 57 lönd múslima hafa myndað blokk innan S.Þ. til að þrýsta á um að ályktun gegn guðlasti nái fram að ganga.

Ef þetta rugl nær einhverri framgöngu innan S.Þ. þá er nú fokið í flest skjól. Þetta gengur þvert á hefðir lýðræðisríkja um málfrelsi og trúfrelsi. Flest þessara landa í múslima-blokkinni eru einræðisríki þar sem orðið lýðræði er eins og hvert annað klámyrði. Að slíkt afturhald fái að grassera í sjálfum S.Þ. er ekkert annað en hneyksli.

Sjá myndbandið hér að neðan þar sem m.a. er rætt við Christopher Hitchens um málið.

Tags: , , ,

Hversu marga guðfræðinga…

.. þarf til að skrifa góða blaðagrein?

Svar: Þeir mega ekki vera færri en níu.

Tags:

Óttinn er það versta

So, first of all, let me assert my firm belief that the only thing we have to fear is fear itself — nameless, unreasoning, unjustified terror which paralyzes needed efforts to convert retreat into advance. # Franklin D. Roosevelt

Á tímum niðursveiflu og samdráttar kemur yfir marga óöryggi og menn fyllast svartsýni á framtíðina. Ég óttast engan veginn þessa efnahagslægð því ég tel að sagan sanni að allar kreppur endi einhvern daginn. Hins vegar óttast ég hvernig sumt fólk notfærir sér ótta annarra í eiginhagsmunaskyni.

Hér á ég sérstaklega við hina ýmsu trúarsöfnuði sem notfæra sér ástandið og versandi kjör alþýðunnar. Strax er látið í það skína að nú séu hörmungar allra hörmunga að renna upp, dómsdagur gæti verið handan við hornið. Iðrist synda yðar og gefið oss peninga yðar. Það er nú eða aldrei!

Ríkiskirkja Íslands tekur einnig þátt í þessu því hún veit sem er að fátt selur eins vel og óttinn. Búið er að koma upp sérstakri „Krepputíð“ valmöguleika á trú.is svo að fagnaðarerindið fari nú ekki framhjá neinum. Óneitanlega læðist að manni sá grunur að nú sé gósentíð kirkjunnar því erfitt er að selja forneskjulegan boðskap himnafeðganna í landi góðæris og allsnægta. Kreppan gefur því sölumönnum hindurvitnanna ný kærkomin tækifæri til þess að sækja fram.

Fjölskylda konunnar er því miður nokkuð innvinkluð í Votta Jehóva og þar eru nú ekki spöruð stóru orðin, frekar en fyrri daginn. Margir þar boða nú að þetta séu endalokin sjálf og brátt fer Jesú kallinn að skella sér í eitt stykki Harmageddon, svona þegar búið er að hræra nógu mikið upp í hlutunum. Já, þetta á allt eftir að versna, segja þeir. Nánast fullir tilhlökkunar sýnist manni. Ógæfufólk sem lendir í þessum félagsskap. Ef ekki fyrir inngöngu þá eftir hana.

Já ég óttast ekki fall á hlutabréfum eða lækkandi gengi en ástæða er til að varast afleiðingarnar. Óttaslegið fólk getur gert ótrúlegustu hluti. Fyrir nokkrum árum tókst manni nokkrum að sannfæra hóp fólks um að fremja með sér fjöldasjálfsmorð. Ástæðan var sú að halastjarna nokkur sem á þeim tíma var nálægt jörðu átti að hafa á bak við sig geimfar og þeir sem frömdu sjálfsmorð áttu þannig að komast um borð.

Ef að halastjarna getur haft þessi áhrif á fólk þá er augljóst að jarðbundnari hlutir eins og að missa húsnæðið og/eða atvinnuna getur haft jafnvel enn meiri áhrif á fólk. Við verðum öll að vera á varðbergi gagnvart þeim sem notfæra sér þessar aðstæður. Óttinn hefur lamandi áhrif á dómgreind fólks og það verður móttækilegra fyrir alls kyns vitleysu. Það er engin tilviljun að uppgangur fasismans var á kreppuárunum. Óttinn er það versta í núverandi ástandi.

Tags: , , , , ,

Gróðrarstía öfgatrúar

Einhverjir halda því fram að moskur séu gróðrarstíur fyrir öfgatrú og því sé rétt að leyfa ekki slíkar byggingar á Íslandi. Til að allrar sanngirni sé gætt þá legg ég til að Moggabloggið verði einnig sett í bann.

Góðu ævistarfi lokið

Sigurbjörn Einarson var góður biskup í þeim skilningi að hann leiddi fjölmörgum það fyrir sjónir að þeir eiga enga samleið með kristinni trú né ríkiskirkjunni. Sonur hans og arftaki á biskupstól virðist ætla að halda minningu föðurs síns á lofti með verkum sínum. Saman hafa þeir feðgar flýtt fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju hraðar en nokkur annar maður. Fyrir þetta eitt er rétt að minnast fyrrverandi biskups með hlýhug.

Horton, Cholula og heil. Homobono

Í gær keyrðum við yfir til Puebla til bæjarins Cholula sem á sér merkilega sögu. Fyrir nýlendutímann var þetta mikill helgistaður og þarna stóðu 365 pýramídar á sínum tíma. Enginn þeirra er eftirstandandi í dag fyrir utan þann stærsta sem var líklega byggður til heiðurs guðsins Quetzalcoatl. Þegar Spánverjarnir komu hingað til Mexíkó á 16. öld létu þeir brjóta niður alla pýramídana og settu sér það markmið að kirkja skyldi rísa fyrir hvern pýramída sem var eyðilagður.

Sá stærsti stendur ekki í upphaflegri mynd heldur er hann hulinn að mestu með jarðvegi. Ekki er ljóst hvort að Spánverjarnir hafi mokað yfir þennan pýramída sjálfir því líklega var það of stór biti að brjóta hann niður. Ein sagan segir að fólkið hér hafi gert það áður en þeir spænsku ráku augun í pýramídann til að bjarga honum. Ekki veit ég hvort er satt en þessi pýramídi er að mestu hulinn í dag og lítur í raun út eins og stór hóll. Spánverjarnir settu þar eina kirkju á toppinn ásamt fjöldamörgum öðrum í kring. Þeir náðu þó ekki upphaflega markmiðinu að byggja 365 kirkjur á staðnum en margar eru þær, líklega nálægt 100.

Þessi pýramídi er sá stærsti í heimi að rúmmáli, nánast þriðjungi stærri en sá stóri í Egyptalandi sem mun þó vera hærri. Mér fannst mjög áhugavert að sjá þennan bæ og pýramídann, ég minntist einmitt á þetta nýverið á Vantrú en hafði ekki komið þangað áður.

Í kirkjunni á toppi fannst mér merkilegast að rekast á dýrling klæðskera og fatahönnuða, heil. Homobono. Líkneski hans var með málband um hálsinn og hann hélt á skærum. Við fætur hans stóðu saumavél og straujárn. Staðfastir dýrkendur hans höfðu svo fórnað til hans tveimur málböndum sem lágu fyrir framan hann. Margt er skrítið í útlöndum.

-—-

Í kvöld fórum við í bíó með Ara í fyrsta sinn. Sáum teiknimyndina Horton Hears a Who! Ágætis mynd en ég náði ekki alveg öllu því sem fram fór þar sem herlegheitin voru á spænsku. Ari virtist ekkert sérstaklega áhugasamur um myndina en því meiri áhuga hafði hann á poppinu og fólkinu sem sat fyrir aftan okkur. Ég held að ég hafi verið 12 ára þegar ég fór fyrst í bíó og sá þá Bodyguard sællar minningar með bekknum mínum í Laugargerðisskóla. Ari er 14 mánaða, svona breytast tímarnir líklega.

Bingó!

Fyrir landa mína sem staddir eru á Íslandi þá vil ég minna á Bingó Vantrúar á Austurvelli á föstudaginn langa sem hefst klukkan eitt. Boðið verður upp á heitt kakó og kleinur, ekkert rukkað fyrir spjöldin en veglegir vinningar verða í boði.

Þessu bingói er teflt fram gegn hinni mjög svo fornaldarlegri helgidagalöggjöf ríkiskirkjunnar sem bannar allt óguðlegt bingóspil á þessum degi.