Archive for the ‘Svíþjóð’ Category

Umsókn skilað

Þá er maður búinn að afreka það að setja saman umsókn um doktorsnám, skilaði henni af mér í dag. Sænskt einkunnakerfi veldur Mexíkönum nokkru hugarangri. Jafnaðarmannastefnan er svo sterk í Svíþjóð að menn eru ekkert að gera upp á milli manna með óþarfa eins og meðaleinkunn. Gefa bara yfirleitt gott eða mjög gott fyrir kúrsana.

Ég reyndi því að sjóða saman einhverja meðaleinkunn með því að taka miðgildi einkunnanna og reikna svo vegið meðaltal út frá því. En ég man reyndar ekki alveg hvort að VG í meistaranámi í Svíþjóð er 8 og hærra eða 8,5 og hærra. Ef einhverjir Svíar reka inn nefið mega þeir upplýsa mig um þetta.

Svíar eru bestir

Fékk póst núna áðan frá Högskolan Skövde. Kennarinn minn var að velta því fyrir sér hvenær ég ætlaði að klára kúrsinn sem ég hætti í á haustönn 2005. Svíar eru yndislegir.

Flutningar

Yfirleitt eru flutningar eitt það versta sem ég veit um. Það setur lífið algjörlega úr skorðum, pakka þarf hverjum einasta hlut sem maður hefur eignast niður í tösku og dragnast með þá langar vegalengdir. Nú ber hinsvegar við að ég skemmti mér vel yfir því að flytja. Það er ekki á hverjum degi sem maður flytur í nýtt land, hvað þá nýja heimsálfu.

Tók góðan skurk í niðurpökkun áðan, nú þegar ég er víst að yfirgefa Skövde annað kvöld. Eins og góðum neysluglöðum Vesturlandabúa sæmir hef ég fleygt heilmiklu af dóti, aðallega fötum sem sæma ekki lengur hátískumanni eins og mér. Fór einnig með nokkur kíló af námsbókum og lét einn Indverjann hafa þær. Ég veit að indverska samfélagið hér á eftir að nýta þær vel, yfirleitt hafa þeir ekki efni á því að versla sér bækurnar heldur treysta á ljósrit.

Annað kvöld tek ég semsagt lestina til Stokkhólms og þaðan fer ég á Arlanda flugvöllinn. Eldsnemma dags 27. desember flýgur svo British Airways með mig til Lundúna og þaðan fer ég beina leið til Mexíkóborgar. Ég hef einungis einn og hálfan tíma til að skipta um vél á Heathrow, vona að það blessist allt saman. Þarf að skipta um terminal en það ætti ekki að taka svo langan tíma. Síðan þegar klukkan er sex að kveldi í Mexíkó, sem væri þá miðnætti á Íslandi, lendi ég eldhress eftir tólf tíma flug á flugvellinum í Mexíkóborg. Þar ætti hjartkær eiginkona mín að bíða eftir mér. Það er að sjálfsögðu það sem ég bíð hvað spenntastur eftir.

Í aðstæðum eins og þeim sem ég hef búið við undanfarna fjóra mánuði, þá verður manni hugsað til þeirra sem þurfa að dvelja langdvölum fjarri fjölskyldu sinni. Þeir eiga samúð mína alla, þetta er algjört hundalíf að lifa svona. Ekki ætla ég að gera þetta aftur, en það varð í rauninni ekki hjá þessu komist vegna aðstæðna. Það hefði verið sóun ef ég hefði ekki lokið þessu litla í náminu sem ég átti eftir. Einnig gefur verkefnisvinnan manni tækifæri til þess að komast inn í hlutina þarna vestra og hafa eitthvað fyrir stafni næsta hálfa árið, í stað þess að vera eins og áttavilltur vindhani fyrstu mánuðina.

Set inn eina færslu á morgun (sem er eiginlega í dag) sem verður líklega sú síðasta í bili, því nettengingar flokkast undir munað í Mexíkó. Líklega verður blogg, sem og önnur netstarfsemi, í lágmarki þangað til í mars, þegar ég fer í háskólann þar ytra. Eiginlega hlakka ég til þess að vera laus við Netið og sjónvarpið í bili. Ég hef eytt skuggalega miklum tíma á Netinu undanfarið misseri. Sjónvarpsgláp verður líka í miklu lágmarki þar sem ég bannaði konunni að kaupa áskrift að stöðvum sem sýna efni á ensku, en hún hafði áhyggjur af því að spænskt sjónvarp væri ekki nógu gott fyrir mig. Í staðinn ætlum við konan að stunda kvikmyndahús eins og menningarlegu fólki sæmir.

Eins og sjá má þá sé ég fram á bjartari tíma, eins og stjórnmálamennirnir orða það.

Upplausn

Enn einu sinni liðast samfélagið mitt í sundur hér á stúdentaheimilinu, þegar að skiptinemarnir fara aftur til síns heima. Þetta er reyndar ekki svo slæmt núna því ég hef verið afar andfélagslegur allt þetta misseri og hef því ekki svo náin tengsl við fólkið. Samt sem áður eru þarna nokkrir góðir kunningjar sem eftirsjá er að. Sérstaklega fyndni Hollendingurinn og hressi Þjóðverjinn.

En það þýðir líka að það styttist í brottför mína til Mexíkó. Ég er orðinn þreyttur á því að segja fólki hvenær ég fer burt svo ég set það hér. Brottför er áætluð 26. desember frá Skövde og eldsnemma að morgni dags 27. desember fer ég frá Svíþjóð. Þar hafið þið það.

Skráður burt

Fór í dag og tilkynnti sænskum yfirvöldum það að ég er á leið úr landi. Yfirvöldin sögðu mér að hafa það trevligt í Mexíkó. Ég hugsa að ég fari að ráði þeirra.

Hasslum partý

Nú er víst að hefjast jólapartý hér í Hasslum, búið að skreyta húsið óhóflega mikið, setja bláa og rauðar síur yfir öll ljós, hljómflutningstækin komin á sinn stað. Hvað ætli sé verið að spila? Jú, að sjálfsögðu í Svíþjóð er spilað Boten Anna.

Jag känner en bott, hon heter Anna, Anna heter hon Och hon kan banna, banna dig så hårt Hon röjer upp I våran kanal Jag vill berätta för dig, att jag känner en bott Jag känner en bott, hon heter Anna, Anna heter hon Och hon kan banna, banna dig så hårt Hon röjer upp I våran kanal Jag vill berätta för dig, att jag känner en bott

Vandræðagangur hjá Svíum

Það er eins og hægri menn hér í Svíþjóð höndli ekki völdin eftir að hafa loksins náð þeim. Tveir ráðherrar foknir á fyrstu 10 dögunum. Vona að það fari ekki eins fyrir vinstri mönnum heima þegar að stjórnin fellur næsta vor.

Svíþjóð

Kominn aftur til Svíþjóðar og á víst að mæta í skólann í fyrramálið. Allt að gerast bara.

Heim á morgun

Fer heim á morgun eftir viðburðasnauða viku hér í Svíþjóð. Svo virðist sem að pappírarnir sem Svíarnir senda manni á sumrin þar sem maður er beðinn um staðfestingu á kúrsaskráningu hafi alls enga merkingu. Allavega var mér sagt að vera ekkert að stressa mig á því þótt ég hafði ekki staðfest mig. Ruglaðir þessir Svíar.

Hasslum er að fyllast af nýju fólki. Hlutfall þýskra karlmanna er einum of hátt að mínu mati en ég hef ekki tölu á þeirri manntegund sem er að hreiðra þarna um sig. Einnig eru þarna fólk frá frumlegum löndum eins og Grikkir og Ungverjar. Þetta verður örugglega sæmilegt misseri.

Svíar, ó Svíar

Það er ekki þrautalaust að ganga í sænskan háskóla. Núna í vor skráði ég mig í kúrsa fyrir næsta haust. Mér láðist að athuga það að allar skráningar þarf að staðfesta í sumar hjá einhverju ríkisbattaríi sem heldur utan um skráningar í sænska háskóla. Svo held ég að ég þurfi að skrá mig aftur í kúrsana í haust, þ.e. ef ég fæ að halda áfram námi þar sem ég er ekki lengur skráður í neina kúrsa, vegna áðurnefnds ríkisbattarís. Svo þarf maður að sjálfsögðu að skrá sig í prófin fyrir þessa kúrsa þegar að þeim kemur.

Hvers vegna gera þeir sjálfum sér þetta? Lífið gæti verið svo miklu einfaldara ef þeir bara reyndu.