Archive for the ‘Stríð’ Category

Þegar fólk er notað sem skildir

Segir sig sjálft að það er óverjanlegt að nota konur og börn sem skildi. En er það þá í lagi að skjóta og sprengja þessi skildi?

Les svo mikið af moggabloggi um brjálaða Hamas liða sem fela sig bakvið konur og börn. Aldrei hreyfa þó þessir ágætu menn andmælum við því að Ísraelsher sprengi téðar konur og börn í litla búta.

Árás á Íran yfirvofandi?

Ljótt er ef satt er. Það verður fagnað á mínu heimili þegar W fer úr forsetastóli. Sama þótt að kartöflupoki yrði settur í staðinn, það væri strax skárra.

Á siglingu með brjálæðingum

Hjá Jónasi.is rakst ég á þessa grein frá The Independent sem segir frá breskum blaðamanni sem fer í skemmtisiglingu með íhaldssömum Bandaríkjamönnum. Þessi grein er svo ótrúleg að manni gæti dottið í hug að hún sé uppspuni. Um borð í þessu skipi eru gróðurhúsaáhrifin ekki til, múslimar eru að taka yfir Evrópu, guði er þakkað fyrir Fox News, menn óska sér þess að hús Sameinuðu Þjóðanna í New York verði sprengt í loft upp, Pinochet er titlaður bjargvættur Chile og Íraksstríðinu er lýst sem „an amazing success“.

The panel nods, but it doesn’t want to stray from Iraq. Robert Bork, Ronald Reagan’s one-time nominee to the Supreme Court, mumbles from beneath low-hanging jowls: „The coverage of this war is unbelievable. Even Fox News is unbelievable. You’d think we’re the only ones dying. Enemy casualties aren’t covered. We’re doing an excellent job killing them.“

Þetta er líklega það fólk sem kaus Bush og sér enn ekki eftir því.

Minnimáttarkennd forsætisráðherrans

Ég sá svo furðulega klausu á mbl.is í dag að ég verð að skella henni inn í heild sinni. Fréttin fjallaði um ræðu formanns Framsóknar um ummæli hans um að stuðningur Íslands við þjóðarmorðið í Írak hafi verið feilspor.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði sérkennilegt þegar talað væri eins og Ísland hafi verið beinn aðili að innrásinni í Írak. Geir sagði, að ákvarðanir stjórnvalda á sínum tíma hefðu verið, að leyfða lendingar og flug í íslenskri lofthelgi í tengslum við hernaðaraðgerðirnar eins og oft hefur verið gert áður við svipaðar aðstæður. Þá hefði verið ákveðið að veita 300 milljónum króna til mannúðaraðstoðar og enduruppbyggingar í Írak og þá fjárveitingu hefði Alþingi veitt. Síðan hefði ríkisstjórnin tekið ákvörðun um, að amast ekki við því, að Ísland væri á lista yfir hinar svokölluðu staðföstu þjóðir. Sagði Geir það vera furðulegt stærilæti í fólki, að halda að Íslendingar skipti einhverju máli í alþjóðasamhengi; að afstaða þeirra hafi skipt einhverju máli í tengslum við Íraksmálið.

Ég skil varla hvernig Geir nennir að mæta í vinnuna á morgnanna, stýrandi jafn ómerkilegu landi og litla Íslandi. Það er líka hægt að snúa orðum hans við, ef Ísland er svona lítilmótlegt í augum alþjóðasamfélagsins, afhverju bitu stjórnvöld þá í skjaldarrendur til að byrja með? Var ekki hægt að láta lítið fyrir sér fara, þar sem Ísland er nánast ósýnilegt í alþjóðasamfélaginu?

Þetta er nánast jafn aum afsökun eins og hjá Sjálfstæðiskellingunni sem sagði að ekki væri hægt að hugsa til framtíðar þegar ákvarðanir væru teknar. Kannski er rétt að koma þessari djúpu heimspeki á framfæri víðar svo að fólk hætti þeirri firru að hugsa sífellt til framtíðar við áætlanagerðir sínar.

Sami aumi kattarþvotturinn og vesaldómurinn kemur fram í skrifum Björns Bjarnasonar þar sem hans afsökun er sú að Íraksstríðið hafði átt sér stað, sama hvað Íslendingar hefðu gert. Það kemur mér eiginlega á óvart hvað sjálfsálit og sjálfsvirðing þessara stjórnmálamanna er á lágu stigi. Auðvitað skiptir það máli hvað sjálfstæð þjóð sem er aðili að NATO og Sameinuðu Þjóðunum hefur að segja um ákvarðanir á borð við skipulögð þjóðarmorð í þriðja heiminum. Látið engann segja ykkur annað.

Innrásin í Írak var mannanna verk, skipulögð og framkvæmd af mönnum. Hún var ekki einhver óhjákvæmilegur atburður, eins og sólarupprásin, né heldur fyrirfram ákveðin af örlögunum eða goðunum. Hún var verk veruleikafirrtra manna sem telja að vopnavald geti leyst öll vandamál heimsins. Það er okkar ábyrgð að koma í veg fyrir að þeir haldi áfram uppteknum hætti við myrkraverk sín.

Einu sinni var

Fyrir ekki svo löngu síðan talaði ég mikið um það hversu óhemju vitlaust það væri að reisa Kárahnjúkastíflu og hvað það væri siðlaust að ráðast inn í Írak. Flestir voru á annarri skoðun þá og sumir töldu jafnvel menn með mínar skoðanir kjána.

Núna virðast flestir á því að Kárahnjúkavirkjun hafi verið glapræði og Íraksstríðið ógeðslegt. Hins vegar er búið að reisa þessa virkjun og mörg hundruð þúsund manns liggja í valnum í viðbjóðslegu árásarstríði hinna staðföstu þjóða. Lærdómurinn af þessu ætti að vera sá að fólk á að hlusta á mig þegar ég held einhverju fram.

Til hamingju Ísland

Herinn er farinn!

Ástarkveðjur frá Ísrael

Vésteinn bendir á myndir frá Ísrael sem sýna börn skrifandi kveðjur á sprengjur sem síðan eru sendar yfir landamærin til Líbanon. Þegar maður sér eitthvað svona fyllist maður grunsemdum um að þetta hljóti að vera sett á svið. Samt sem áður ef hugsað er út í það, ef menn hafa geð í sér til að sprengja fólk í öðrum löndum þá er það lítill glæpur í samanburði að skrifa kveðjur á sprengjurnar.

Viðbjóður allt saman. Niður með Ísrael!

Líbanon

Ég óttast að innrás Ísraela í Líbanon gæti hafa verið hið þekkta korn sem fyllir mælinn. Hef enga trú á því að Sameinuðu Þjóðirnar eigi eftir að geta beitt sér þegar að öflugsta aðildarlandið beitir sér á móti öllum aðgerðum sem gæti styggt heilaga ríkið. Ísraelar fara sínu fram í krafti auðs, herstyrks og stuðnings Bandaríkjanna. Brjálæðingar sitja á valdastóli í Íran, öfgasinnuð samtök vaxa í M-Austurlöndum sem eðlilegt andsvar við árásum Vesturveldanna á þetta svæði. Jafnvel er farið að tala um möguleika á kjarnorkuárásum, bölvað rugl er þetta alltaf hreint.

Úr sögubókum framtíðarinnar

Ekki fékkst fram friðsamleg lausn á deilunni milli Ísraelsríkis og nágrannaþjóða þeirra fyrr en árið 2006 þegar bandarísk leikkona, Sharon Stone að nafni, fór á vettvang og kyssti alla deiluaðila.„(*)

Það væri reyndar góður endir á þessu valdabrölti.

Væl í fólki

Hvað er fólk að gera sér rellu yfir nokkrum föngum sem W er að senda í gúlögin í A-Evrópu? Fínt að nota þau í eitthvað fyrst að kommarnir eru hættir því. Íslendingar eru í hópi hinna staðföstu og viljugu þjóða sem ólíkt veimiltítluþjóðum á borð við Þýskaland og Frakkland, styðja baráttunna gegn illsku og hryðjuverkum.

Ekki getum við notið þeirra forréttinda að hafa glæsilega ameríska herstöð á Fróni okkur til varnar og sáluhjálpar án þess að láta eitthvað koma á móti. Að leyfa nokkrum þotum að millilenda hér er það minnsta sem við getum gert. Vilja menn kannski leyfa þessum hryðjuverkamönnum að leika lausum hala og sprengja sig í loft upp eftir hentisemi?

Hinn glæsilegi nýkjörni formaður Sjálfstæðisflokksins hitti svo sannarlega naglann á höfuðið í ræðu sinni um daginn, þegar hann afhjúpaði rækilega hina svokölluðu friðarsinna. Auðvitað voru friðarhreyfingar skilgetin afkvæmi Sovétríkjanna og alheimssamsæri kommúnista um að leggja undir sig heiminn en með guðs blessun tókst að koma í veg fyrir að illa færi.

Enn þurfa frjálsir menn að þola þessar hreyfingar með sífelldan áróður gegn eðlilegri þjóðfélagsskipan og viðskiptaháttum. Vilja þeir jafnvel slíta hinu stórpólitíska sambandi og sátt sem ríkt hefur um Herstöðina í Keflavík eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Svona fólk sem setur sig á fóti öllu mögulegu og ómögulegu er að sjálfsögðu ekki marktækt. Menn ættu að finna til stolts þegar að Bandaríkjamenn selflytja hryðjuverkamenn með því að notfæra sér þá aðstöðu sem þeir sjálfir hafa byggt upp hér á landi. Þannig leggjum við okkar lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn hryðjuverkum og búum til betri heim.

Vilja þessar sjálfskipuðu friðarsinnar kannski fá Saddam aftur við stjórnvölinn í Írak eða talibanana í Afganistan? Það kæmi mér ekki á óvart miðað við andstöðu þeirra við frelsisbaráttuna sem á sér stað í heiminum um þessar mundir.

Stétt með stétt gegn forræðishyggju og kommúnisma! Lifi frelsið!