Archive for the ‘Skólinn’ Category

Teningnum var aldrei kastað

Fyrir forvitnar boltabullur eins og Árna og Gulla þá var ég í nemandafyrirlestri í morgun þar sem kastað er teningi upp á það hvaða hópur á að halda fyrirlestur þann daginn. Kerfið er einfalt, tekin eru fyrir sex umfjöllunarefni úr kennslubókinni, eitt fyrir hvern fyrirlestur og nemandahópnum hefur verið skipt niður í sex hópa. Allir hóparnir eiga að undirbúa sig fyrir að halda fyrirlestur en síðan byrjar hver fyrirlestur á því að kastað er upp á það hvaða hópur á að halda fyrirlesturinn. Með þessu kerfi er það alveg mögulegt að sami hópurinn haldi alla fyrirlestrana eða að enginn hópur þurfi að ómaka sig upp að ræðupúltinu.

Þessir fyrirlestrar eru 90 mínútur og því ekki heiglum hent að undirbúa þetta. Sjálfur var ég í sjö manna hópi þar sem saman komu þrír Indverjar, einn Spánverji, einn Þjóðverji og einn frá El Salvador, auk mín.

Síðan sat ég klukkan 8:15 í morgun, hálfslæptur og hafði ekki snætt morgunskatt, og vonaði heitt og innilega að hópur eitt yrði nú ekki dreginn úr pottinum. Kennarinn gleymdi víst teningnum og því var dregið um þennan vafasama heiður. Að sjálfsögðu var hópur eitt dreginn úr pottinum og því þurfti ykkar einlægur að fræða samnemendur sína um kosti þess að brúka einstofna mótefni til meðferðar á ýmsum sjúkdómum sem hrella mannkynið. Auðvitað hafði ég steingleymt að taka með mér minnispunkta fyrir fyrirlesturinn þannig að ég þurfti að styðjast við mitt gloppótta minni, en þetta hafðist af að lokum.

Einhvern veginn býst ég fastlega við því að hópur eitt verði dreginn út aftur í næstu viku, miðað við mína heppni. Við skulum bíða og sjá hvað setur. Augnablikið áður en kennarinn tilkynnti hópanúmerið telst vera einhver sú magnþrungnasta stund sem ég man eftir á mínum akademíska ferli. Veit ekki hvort ég þoli fimm slíkar í viðbót.

Teningur dauðans

Í fyrramálið klukkan 8.15 verður teningnum kastað í bókstaflegri merkingu. Ef upp kemur 1 þá er ég í vondum málum. Úr tönnum mínum berst hávært glamur.

Næsta mál á dagskrá

Í gær tók ég próf í krabbameinsfræðum og er nokkuð öruggur um að það hafi gengið stóráfallalaust fyrir sig. Eftir það einbeitti ég mér að því að gera ekki neitt enda hef ég lítið gert undanfarið en að lesa fyrir það. Næsta mál er svo próf í erfðatækni næstkomandi föstudag. Af því hef ég minni áhyggjur heldur en prófinu í gær, það er þó eitthvað sem ég hef áhuga á og skil sæmilega.

Prófatörn

Enn ein prófatörnin í gangi, próf í sameindalíffræði krabbameina á fimmtudaginn og svo er það erfðatæknin 3. nóvember. Ég er ekki að höndla vel fyrri kúrsinn, hann er mjög þungur og ég hef engan sérstakan áhuga á krabbameinsfræðum. Hinu prófinu hef ég litlar áhyggjur af enda áhugavert efni sem ég kann alveg sæmilega vel. Auk þess hef ég góðan tíma til að lesa fyrir það.

Annars er ég alveg á síðasta snúning í þessu námi mínu, hlakka mikið til í desember þegar þessu kúrsastandi lýkur og ég get farið til Mexíkó til minnar heittelskuðu.

Fyrirlestur

Þessa dagana glími ég við fyrirlestur um hagnýta þekkingu á krabbameinum sem fengist hefur í gegnum rannsóknir á eftirlætis flugu erfðafræðinnar Drosophila melanogaster. Hann skal fluttur á fimmtudaginn, fyrsti fyrirlestur minn sem ég flyt á ensku.

Ég er ekki stressaður fyrir þetta enda vel upp alinn í HÍ. Hins vegar kvíðir mig fyrir því að sitja yfir fyrirlestrum félaga minna frá Indlandi, sem tala sína sérstöku ensku mállýsku sem oft er erfitt að botna í. Sérstaklega er það slæmt því allir fyrirlestrarnir eru til prófs og þeir eru 35 talsins. Kannski tek ég með mér diktafón og spila svo upptökuna hægt heima hjá mér til að sjá hvort ég skilji eitthvað.

Verkefnið mitt

Fékk í gær lýsingu á lokaverkefninu mínu sem ég held að gæti verið nokkuð spennandi. Það er hluti af stærri rannsókn sem miðar að því að finna út hvaða ferlar liggja að baki myndun stoðvefjar í tönnum manna. Mitt verkefni snýst um nýlega uppgötvað prótein, CEMP1, en ég á að ákvarða hlutverk þess í myndun steinungs (cementum) sem er ysta lag rótarinnar í tönnum. Ég mun þar notast við hina nýlegu siRNA tækni til að bæla tjáningu þess í frumuræktum.

Þetta mun allt fara fram á rannsóknarstofu í frumulíffræði við tannlæknadeild UNAM sem mun vera stærsti háskólinn í Mexíkóborg. Hann var stofnaður 1551 og mun því vera næst elsti háskóli Rómönsku Ameríku. Samkvæmt Wikipedia voru núna í ágúst skráðir 290.000 nemendur í honum sem gerir hann að tíunda stærsta háskóla í heimi. Tímaritið The Times segir að þetta sé besti háskóli Rómönsku Ameríku þannig að gæðin á náminu ættu að vera í fínu lagi.

Herlegheitin hefjast opinberlega 1. febrúar á næsta ári og ég reikna með 6-8 mánuðum í þetta verkefni. Þetta verður án efa stuð.

Geislavirkni

Það er alltaf gaman að lesa öryggisbæklinga varðandi vinnu á tilraunastofum. Ég hef undir höndum einn bækling sem leggur manni lífsreglurnar ef svo kynni að fara að maður ætti eftir að gleypa geislavirk efni af slysni. Undir hvaða kringumstæðum gleypir maður geislavirkt efni af misgáningi?

Annars er ég orðinn sannfærður um af öllum þessum öryggisbæklingalestri að starfsaldur sameindalíffræðinga er líklega að meðaltali ca. 12 ár. Eftir það eru þeir allir snúnir aftur til móður náttúru vegna allra þeirra eitraðra-ætandi-ofnæmisvaldandi-ertandi-krabbameinsvaldandi efna sem þeir eru í snertingu við daglega, að ógleymdum þeim efnum sem geta sprungið í höndunum á manni. Ekki má heldur gleyma veirunum, sveppunum, sníkjudýrunum og bakteríunum sem menn vaða í alla daga.

Þetta valdi ég mér af fúsum og frjálsum vilja. Maður er náttúrulega klikk.

Universidad Nacional Autónoma de México

Þá er það ljóst að eftir áramót mun ég mæta galvaskur til leiks á rannsóknarstofu í frumulíffræði í UNAM, Mexíkóborg. Þar mun ég eyða hálfu ári í rannsóknir og ritgerðarskrif, kannski læra spænsku í leiðinni. Mun búa þar frítt hjá konunni, þetta verður lúxus.

Segi nánar frá þessu seinna, klukkan orðin alltof margt.

Einn einum áfanganum lokið

Í dag er ég óvenju kátur því leiðindakúrsinn sem spillti sumarfríinu mínu því ég þurfti að taka sumarpróf steinlá í morgun með Godkänd og jaðraði við að ég næði Väl Godkänd. Þetta þýðir fjármagnstreymi frá Lín til mín, minnkaðar áhyggjur og almenna uppsveiflu.

Nýju kúrsarnir líta ekki svo illa út og þessi leiðinlegi ofangreindi. Krabbameinslíffræði og genatækni, maður sansar það áreiðanlega án vandkvæða.

Prófi lokið

Var að ljúka prófi. Árangur óviss en ég er nokkuð bjartsýnn um að hafa seiglast þetta.

Þetta mun vera fyrsta sumarprófið sem ég hef tekið. Þau verða líklega (vonandi) ekki fleiri og reyndar á ég ekki mörg próf eftir á háskólastigi. Ekki á maður eftir að sakna þeirra, það er nokkuð ljóst.

Nú getur maður snúið sér að þarfari hlutum það sem eftir lifir sumars. Fer aftur á klakann á miðvikudaginn og sný svo aftur 3. september til Svíþjóðar þar sem ég á eitt misseri eftir í kúrsum. Lokaverkefnið verður svo tekið eftir áramót og það eru stigvaxandi líkur á því að það eigi eftir að eiga sér stað í Mexíkóborg, af öllum stöðum. Nánar um það síðar.