Archive for the ‘Skólinn’ Category

Áfangi

Uppkast af meistararitgerðinni er á leiðinni til Svíþjóðar í gegnum Netið. Það er ekki eins langt komið og ég hafði kosið sjálfur. Við höfum lent í þvílíkum vandræðum með real-time PCR sem sér varla fyrir endann á. Annars hefur það gerst hér í þessari rannsókn að ég er virkilega að fá áhugaverðar og jákvæðar niðurstöður, sem gerist nú ekki á hverjum degi. Það sem við ætluðum okkur að gera virðist ætla að ganga fullkomnlega upp.

Verst er að niðurstöðurnar úr real-time PCR (rauntímakjarnsýrumögnun?) áttu að vera aðalatriðið í lokaritgerðinni en ég veit ekki á þessari stundu hvort það ætlar að hafast að ná þeim með. Við ætlum að halda áfram að reyna eins lengi og löglegt er í þessu verkefni.

Allavega þá er um 80% af ritgerðinni tilbúið sem þýðir að ég er kominn langleiðina að meistaragráðunni. Skrítið að sjá fram á námslokin en mjög ánægjulegt á sama tíma.

Hlakka til að senda nöldurgreinar í Moggann og hafa undirskriftina: „Höfundur er M.Sc. í sameindalíffræði og líftækni“. Menn geta vart annað en tekið mark á mínum greinarskrifum með slíkri undirskrift.

Í dag

Í dag mun ég framkvæma risavaxið real-time PCR með fullt af sýnum. Ef niðurstöðurnar verða jákvæðar er kominn ágætis grunnur fyrir birtingarhæfa grein í ritrýndu vísindariti. Ef ekki þá verður meistaraprófsfyrirlestur minn frekar bragðdaufur.

Annars er farið að sjá fyrir endann á þessu meistaranámi. Ég á að skila af mér einni ritgerð á fimmtudaginn í næstu viku. Þá er ekkert eftir nema vörn og leiðrétta ritgerðina ef þess gerist þörf.

Ég verð afar feginn þegar að þetta er búið. Ein ábending til þeirra sem hyggjast stunda meistaranám, ekki gera það samhliða því að annast ungbarn. Það er bara ekki sniðugt.

Labbinn

Klukkan er að verða sex og ég er enn á labbanum. Frumurnar þurfa sína þjónustu víst. Reikna ekki með því að komast heim fyrir klukkan átta í kvöld. Ég er svangur.

Áfangasigur

Fékk síðustu einkunnina í dag úr prófinu sem ég tók hér í Mexíkó. Það steinlá og ég hef því lokið þessum átta kúrsum sem ég þurfti að taka í meistaranáminu. Það lítur út fyrir það í augnablikinu að ég eigi aldrei aftur að taka fleiri kúrsa eða fleiri próf. Húrra fyrir því!

Biðstaða

Nú er biðstaða í verkefninu mínu, er að bíða eftir niðurstöðum DNA raðgreininga áður en ég get haldið áfram. Ég mæti samt á labbann og reyni að sanka að mér heimildum fyrir meistararitgerðina. Það gengur samt frekar hægt, það er ekki kominn tími til að skrifa. Ég hef því hangið ótæpilega mikið á Netinu undanfarið. Það er ekki hollt fyrir mann, of mikið framboð af misáhugaverðu efni.

Ég hef annars lært það undanfarið að taka því passlega trúanlega þegar framsóknarmaður segist hafa öruggar heimildir fyrir einhverju.

Fyrstu drög af upphafsorðum ritgerðarinnar:

Because of higher life expectancy and better dental care in recent times, resulting in preservation of the dental structures to an older age, periodontal diseases are gradually becoming the most prevalent disease in dental healthcare and constitute a global health problem (Barmes, 2000).

Kominn í UNAM

Byrjaði í dag hér í UNAM og eins og sannur græningi tók ég neðanjarðarlestina hingað. Það höfðu margir varað mig við þeim samgönguhætti en það var fyrir mér mjög þægileg og fljótleg leið. Mun betra en að sitja fastur í bílateppunni hér auk þess sem ég rata ekki í skólann hvort eð er. Það kostar tólf íslenskar krónur að taka neðanjarðarlestina og hægt er að fara hvert sem er og skipta um lest fyrir þann pening.

Fyrstu tvær vikurnar í verkefninu eiga að fara í skipulagningu og áætlunagerð að hætti Svía. Mér hefur verið úthlutað borði og nettengingu hér á labbanum og nú sit ég og reyni að plana eitthvað stórfenglegt.

Síðasta próf ævinnar?

Í dag fór ég og tók próf frá Háskólanum í Skövde hér í Mexíkóborg. Þrátt fyrir slakan undirbúning vegna svefnleysis og anna vegna barneigna þá komst ég stórslysalaust frá þessu. Þetta próf var upphaflega sett á 3. janúar en ég hafði ekki nennu í mér til að bíða eftir því í kuldanum og kvenmannsleysinu í Svíþjóð.

Það er mikill léttir að vera búinn með þetta próf. Ég hugsa að þetta verði síðasta prófið sem ég tek það sem eftir er og feginn er ég. Ef djöfullinn væri til þá væru próf ein af uppfinningum hans.

Svo er ég á leiðinni á labbann í UNAM 1. mars. Það verður nú eitthvað.

Litið á nýja skólann

Fór í dag með Anel og Ara til að líta á nýja skólann minn, rannsóknardeild tannlækninga við UNAM, einn stærsta háskóla í heimi. Háskólinn sjálfur er bæjarfélag út af fyrir sig og umhverfið þar er mjög notalegt. Allt í kringum háskólann er skógi vaxið, það er eins og maður sé kominn út úr borginni þegar komið er inn í háskólabæinn. Allt er rólegra, húsin líta mun betur út en gerist og gengur í borginni og loftið er frískara. Ólympíuleikvangurinn er einnig á þessu svæði.

Hitti prófessorinn og tvo aðstoðarmenn hans, þeir reyndust vera eiturhressir og ætla að redda öllu fyrir mig að eigin sögn. Þarf að taka eitt próf frá Skövde í næstu viku og svo byrjar ballið. Meistaraverkefnið mun ekki taka svo langan tíma, ég á að vera búinn að skila af mér ritgerðinni í byrjun júlí. Það er eins gott að það klúðrist ekki margt á labbanum, annars fell ég á tíma.

Annars er ég í engu stuði til að læra fyrir síðasta prófið, vona að það reddist einhvern veginn.

Sjúkur

Lenti í þeirri lífsreynslu áðan að kennarinn sendi mig heim út tíma. Ég var ekki óþekkur heldur lít ég frekar veiklulega út í dag, einhver uppköst og læti. Líklega hef ég smitast af því sama og Gulli, en ég leit við heima hjá honum í gær. Það er einhver pest dauðans að ganga hér yfir, heyrði það áðan að fleiri en ég liggja heima.

Í dag átti ég að halda part úr fyrirlestri auk þess að gera qPCR en það verður lítið úr því. Ég man ekki hvenær ég var veikur síðast, held að það hafi verið smá kvef í apríl og svo Afríkuveikin ógurlega í janúar. Vona að þetta gangi yfir fljótt.

Fyrirlesarinn veikur

Reif mig á fætur áðan til að mæta í fyrirlestur en nú brá svo við að kennarinn var veikur. Kannski er það góðu heilbrigðiskerfi að þakka en ég man ekki eftir því að þetta hafi komið fyrir mig áður í þessum skóla hér í Svíþjóð.

Núna er of snemmt til að fara að læra eða snæða hádegismat og ég bý of langt frá skólanum til að ég geti farið aftur heim og lagt mig. Ætli maður dundi sér ekki á Netinu þangað til að ég get fengið einhvern mat hérna á svæðinu.