Archive for the ‘Skólinn’ Category

Svíar eru bestir

Fékk póst núna áðan frá Högskolan Skövde. Kennarinn minn var að velta því fyrir sér hvenær ég ætlaði að klára kúrsinn sem ég hætti í á haustönn 2005. Svíar eru yndislegir.

Aftur á skólabekk

Ætla mætti að eftir nokkurra ára háskólanám hefði ég fengið mig fullsaddan af lærdómnum, sem er í sjálfu sér rétt. Þrátt fyrir það settist ég á ný á hinn margrómaða skólabekk í dag og hóf spænskunám hér í UNAM í Centro de Enseñanza para Extranjeros. Ég er fegin að hafa loksins haft þetta af, hef stefnt á þetta lengi en hafði engan tíma á síðasta ári með nýfætt barn og meistaraverkefni til að missa svefn yfir.

Til að komast í þennan skóla þurfti ég að taka stöðupróf. Fyrst var munnlegt próf sem gekk glimrandi vel og ég átti að sleppa við fyrsta kúrsinn, bàsico 1, í ljósi kunnáttu minnar. En ég þurfti líka að taka skriflegt próf sem gekk víst hörmulega því eftir að kennarinn sá niðurstöðurnar var ég snarlega felldur niður í byrjunarkúrsinn með skömm. Ég kann nefnilega ekki að skrifa neitt á spænsku og ruglaði meira að segja frönskunni úr fjölbraut saman við spænskuna. Einnig veit ég ekkert um spænska málfræði. Samt sem áður er það kannski fyrir bestu að byrja frá byrjun, enda tek ég þetta með vinnu þannig að ég hef ekki tíma til að leggja mjög mikið á mig.

Í þessum kúrsi eru 14 manneskjur og byrjað er algjörlega frá byrjun. Við vorum láta kynna okkur og segja hvaðan við erum. Soy de Islandia. Fyrsti Íslendingurinn sem lærir þarna svo vitað sé og vakti það vitaskuld gamalkunnug viðbrögð sem landar mínir í útlöndum kannast við. Ef ég man rétt er þarna einnig Norðmaður, Skoti, Pólverji, tveir Þjóðverjar, Ítali, tveir frá Haíti, þrír frá S-Kóreu, Kínverji og Egypti.

Þessir tímar eru nokkuð skondnir. Kennarinn, eldhress mexíkönsk kona, leikur með leikrænum tilþrifum flest orðin og það sem gerist í tímanum. Við þurfum að tala við sessunauta okkar á spænsku og vorum t.d. tekin upp að töflu í dag til að teikna þjóðfána okkar og túlka litina í þeim.

Þannig að nú byrja ég alla virka daga fram til 27. febrúar á því að læra spænsku frá 9 til 12. Eftir það tek ég líklega næsta kúrs og svo koll af kolli þar til ég verð orðinn frambærilegur í spænsku.

Meistari Lárus

Í gær fékk ég póst frá Högskolan Skövde, þykkt pappaumslag sem innihélt prófskírteinið mitt eða „Examensbevis“. Þar kemur fram að ég: >

uppfyller kraven för följande examen i enlighet med högskoleförordningen (1993:100)

FILOSOFIE MAGISTEREXAMEN
med huvudämnet molekylärbiologi

Ég hef því formlega lokið meistaranáminu. Á þessu ári hef ég því eignast barn og meistaragráðu. Því ríkir endalaus gleði á mínu heimili þessa dagana.

Án titils

Stundum sér maður einhverja tölfræði á síðum anti-ESB sinna þar sem dregin er upp sú mynd að BNA sé betra á öllum sviðum heldur en hið hræðilega bákn Evrópusambandið. Ég veit ekki, ætli nýjustu aðildarlönd ESB dragi tölfræðina ekki dálítið niður? ESB er mjög fjölbreytt ríkjasamband, þarna eru forrík lönd eins og Danmörk og Lúxemburg ásamt fyrrverandi komma-löndum sem eru sorglega nálægt þriðja heiminum eins og Lettland og Búlgaría.

Hvað um það.

Ég er þessa dagana að gera viðeigandi úrbætur á lokaritgerðinni. Það er reyndar skemmtilegt því ég veit að þetta eru síðustu dagarnir sem ég eyði í meistarastykkið.

Mig langar að sjá Simpsons bíómyndina en við höfum ekki haft tíma til að fara í bíó nýlega.

Kominn með flugmiða í hendurnar héðan til New York. Af því að Ari er svo smár þá þurftum við gamaldags pappírsmiða í flugið, ég man ekki hvenær ég fékk svoleiðis síðast.

Maður veit að Ísland hljóti að vera gott land miðað við allt röflið sem ég les í fjölmiðlum þaðan um að fólk sé drukkið um helgar í miðbæ Reykjavíkur. Land þar sem að fólk fer í minningarathöfn um dauðan hund og ég las einnig frétt um daginn þar sem maður var kærður fyrir að ræna ánamöðkum úr garði nágrannans. Ef þetta eru stærstu vandamálin á klakanum þá geta Íslendingar verið sáttir með sitt.

Hér í Mexíkó er oft á forsíðum blaðanna fólk sem hefur verið myrt í skotárásum. Smáræði eins og umferðarslys, mannrán og þjófnaðir fara ekki í fjölmiðla, það er bara daglegt brauð.

Meistaraprófsfyrirlestur búinn

Búið og gert. Gekk glimrandi vel og ég gat svarað flestum þeim spurningum sem prófdómarinn lagði fyrir mig varðandi áhrif þess að bæla tjáningu CEMP1 í steinungsfrumum úr mönnum. Þetta stefnir víst í väl godkändt samkvæmt Svíunum, ekki er það amalegt.

Mér líður eins og ég sé 20 kílóum léttari. Mikið er gott að vera búinn með þetta, eða gott sem. Þarf eitthvað að snurfusa lokaritgerðina en það eru einungis nokkur smáatriði víst.

Til hamingju ég!

Meistaraprófsfyrirlestur nálgast

Eftir um hálftíma mun ég halda fyrirlestur um lokaverkefnið mitt fyrir prófessora í Skövde. Að gera það klukkan þrjú að nóttu til er ekki það sem ég hefði óskað mér en það verður gott að vera búinn að þessu loksins. Stefni að því að blogga um árangurinn.

Uppfært: ég sé að klukkan á blogginu er vitlaus, hún á að vera um hálf þrjú.

Allt að gerast

Við fengum loks í hendurnar vegabréfsáritun til Bandaríkjanna fyrir Ara Snæ í dag. Ég tek allt aftur sem ég hef sagt um BNA, þetta er örugglega langbesta land í geimi. Í gær pantaði ég miða til Íslands frá New York þann 8. september og flug til baka þann 5. október. Nú er bara að bóka flug héðan til Nýju Jórvíkur sem við stefnum á að gera í kvöld.

Ég er nokkurn veginn búinn að setja saman kynningu á verkefninu með hjálp PowerPoint. Hinsvegar er svo mikið að gera í Svíþjóð að ég komst ekki að á morgun né hinn eins og stefnt var að. Fyrirlesturinn verður þó ekki síðar en 28. ágúst, vonandi fyrr. Annars er ég nokkuð rólegur yfir þessu, stærsti hjallinn var að skila af sér ritgerðinni. Ég held að fyrirlesturinn verði bara nettur.

Svo óska ég Stínu systir til hamingju með afmælið. Ja visst ska hon leva, ja visst ska hon leva, ja visst ska hon leva uti hundrade år!

Lokasprettur

Fékk meistararitgerðina til baka í gær frá Svíþjóð eftir fyrstu yfirferð. Kennarinn er sammála mér í því að þetta á eftir að hafast hjá mér. Þarf reyndar að bæta miklu við umræðukaflann enda var ég ekki búinn með hann þegar ég sendi uppkastið. Annars hef ég ekki miklar áhyggjur af þessu, ég er kominn svo langt á veg með stykkið að ég fell ekki úr þessu.

Tvær vikur í fyrirlestur sem ég er varla byrjaður að undirbúa. Ég hlakka mikið til 21. ágúst, þegar þessu verður öllu saman lokið. Það sem af er þessu ári hefur verið mikið puð, bæði með Ara og þetta lokaverkefni. Þegar þessu verður lokið á ég eftir að svífa á rósrauðum skýjum í einhvern tíma, kannski það sem eftir er.

Þekki marga sem hafa staðnað í sínu námi og aldrei lokið því, yfirleitt er ritgerðin eftir. Ég er feginn að hafa haft þetta af hér í Mexíkó, það var ekki svo auðvelt að ganga inn í hlutina hér.

Meistaraprófsfyrirlestur

Langt orð í fyrirsögn, mjög alvöruþrungið. Líklega mun þessi gjörningur fara fram 21. ágúst næstkomandi. Sá mun vera í beinni útsendingu frá Mexíkóborg til Skövde og ég var að átta mig á því að sökum tímamismunar mun ég hefja mál mitt klukkan þrjú að morgni til. Einhvern veginn efast ég um að ég muni hljóma gáfulega í þessum fyrirlestri.

Birtir til

Það er þungu fargi af manni létt eftir að ég skilaði af mér uppkastinu að lokaritgerðinni. Verkefnið sem slíkt er því mjög langt komið. Núna þarf ég að klára einn þátt rannsóknanna og bæta þeim niðurstöðum við meistarstykkið. Snurfusa ritgerðina hér og þar og halda einn fyrirlestur í gegnum Netið í ágúst.

Ég er því kátur þessa dagana. Get farið að eyða tíma mínum í vitleysu á ný eins og blogg.