Archive for the ‘Skólinn’ Category

Með leyniþjónustunni í tíma

Þessa dagana eru níu manns í hópnum mínum í spænskuskólanum, þrír frá S-Kóreu, ein frá Kína, einn Breti, Frakki, Ástrali og ein stúlka frá Japan. Mér fannst það nokkuð magnað þegar kom á daginn að í hópnum eru tveir leyniþjónustumenn. Bretinn er reyndar fyrrverandi starfsmaður bresku leyniþjónustunnar í útibúi þess í Þýskalandi en einn þeirra frá Kóreu er í fullu starfi hjá leyniþjónustu hersins í S-Kóreu. Spurðum hann um daginn hvort að þeir hefðu einhverja útsendara í N-Kóreu og hann játti því en við kunnum ekki við að fara með samtalið lengra. Maður hefði kannski endað í skottinu á svörtum Hyundai.

Ekki er þó hægt að segja annað en að maður sé ágætlega tengdur hér í Mexíkó.

Stöðnun og hamfarir

Ég er álíka staðnaður í minni vinnu og íslenskur húsnæðismarkaður. Á víst að kokka upp einhverja stutta lýsingu á því hvað ég ætli mér að gera í doktorsverkefninu ógurlega en mér dettur fátt í hug því til viðbótar sem áætlað er að gera. Hef verið að berja saman lýsingu undanfarna daga en mér sækist verkið seint og illa.

Kannski er það hitinn hér úti sem hægir á manni en maí er með heitari mánuðum í Mexíkó. Hitamælirinn á bílnum hefur undanfarið sýnt allt upp í 39°C en ég veit ekki hvort honum sé fyllilega treystandi. Skólinn minn er ekki loftkældur þannig að hitinn hér inni getur verið leiðinlega hár.

-—-

Mikið er talað um náttúruhamfarir þessa dagana en mér finnst vanta meiri umfjöllun um enn verri hamfarir sem eru að verða. Miklar verðhækkanir á ýmsum undirstöðumatvælum eru verstu hamfarir sem fátækari hluti heimsins getur lent í. Í löndum þar sem allt snýst um að hafa í sig og á fer meirihluti tekna fólks í mat. Segir sig sjálft að þegar maturinn hækkar svo skyndilega um tugi prósenta þá er hungurvofan komin á kreik.

Eðlilegt viðbragð markaðsins væri að auka framleiðslu en slík viðbrögð geta tekið tíma þar sem fjárfestingar í landbúnaði skila sér ekki fyrr en að einhverjum tíma liðnum. Einnig hefur hækkað olíuverð mikil áhrif þar sem megnið af nútíma matvælaframleiðslu er knúið áfram með þeim orkugjafa.

Bættur háskóli

Nú hef ég verið í þremur háskólum við nám og ætti því að hafa smá reynslu af þeim stofnunum. Ég sé að einu sinni sem oftar er verið að kvarta heima yfir HÍ og hvernig hann á eftir að verða æðislegur ef sett verða skólagjöld á nemendur. Að sjálfsögðu er ég ósammála því kjaftæði.

Nú stunda ég nám í besta háskóla í Rómönsku Ameríku sem er settur á topp 200 yfir bestu háskóla heims (sæti 151-200). Þessi skóli er algjörlega ókeypis fyrir nemendur en ströng inntökupróf bíða þó þeirra sem sækja hér um. Fjölmargir einkaskólar eru hér í Mexíkó, sumir yfirgengilega flottir, en samt sem áður hefur enginn þeirra roð við UNAM þegar kemur að gæðunum.

Hvernig á að meta gæði háskóla? Í samanburði við hina háskólana tvo sem ég hef stundað nám við kemur HÍ sæmilega út. Ég held að standardinn sé nokkuð hár allavega í minni gömlu líffræðiskor. Reyndar svo hár að ég átti í mesta basli við B.Sc. gráðuna á sínum tíma en ég fór nokkuð léttilega í gegnum masterinn eftir það þar sem grunnur minn var mjög góður.

Annars er ég með eitt ráð til að hækka HÍ á þessum samanburðarlistum yfir alþjóðlega háskóla sem ég vildi koma að. Fræðimenn þar þurfa að birta meira af ritrýndum fræðigreinum, því mér skilst að það sé eitt af því sem notað er til að bera saman háskóla. Fyrrverandi félagar í líffræðinni geta athugað á PubMed hvernig gamlir kennarar þeirra eru að standa sig í þessum málum. Sumir þeirra eru ekki í góðum málum, eru kannski að birta að meðaltali eina grein á ári eða minna. Ég held að þeir gætu gert mun betur þar, vantar kannski eitthvað hvetjandi kerfi til að efla menn til dáða.

Vandi HÍ er reyndar margþættur og mun fleira þarf til en þetta gæti kannski verið eitt skref til bóta.

Umsókn skilað

Þá er maður búinn að afreka það að setja saman umsókn um doktorsnám, skilaði henni af mér í dag. Sænskt einkunnakerfi veldur Mexíkönum nokkru hugarangri. Jafnaðarmannastefnan er svo sterk í Svíþjóð að menn eru ekkert að gera upp á milli manna með óþarfa eins og meðaleinkunn. Gefa bara yfirleitt gott eða mjög gott fyrir kúrsana.

Ég reyndi því að sjóða saman einhverja meðaleinkunn með því að taka miðgildi einkunnanna og reikna svo vegið meðaltal út frá því. En ég man reyndar ekki alveg hvort að VG í meistaranámi í Svíþjóð er 8 og hærra eða 8,5 og hærra. Ef einhverjir Svíar reka inn nefið mega þeir upplýsa mig um þetta.

TOEFL próf

Eitt af því sem ég verð að gera fyrir umsókn mína um doktorsnám er að taka þetta fræga TOEFL próf, sem á víst að sýna færni mína í enskri tungu. Þarf að ná 500 stigum, er mér sagt.

Þarf maður eitthvað að læra fyrir svoleiðis próf eða er þetta erfitt?

Tungubrjótur

Skora á þá sem kunna eitthvað í spænsku að lesa eftirfarandi texta úr kennslubók vorri upphátt. Þetta er einfaldlega ekki hægt.

Sobre la jiba gigante de la jarifa jirafa, Jimena la jacarera, la Gitana jaranera, jubilosa jugueteaba gorjeando la jácara, jamando la jícama, juergueando la jícara, jalando la jáquima; jalaba, gorjeaba, juergueaba, jamaba, jáquima, jícara, jácara y jícama.

Nýi spænskukennarinn er mun eldri en sá fyrri og strangari eftir því en þetta er samt ágætt enn sem komið er. Í nýja hópnum mínum telst mér til að séu þrír Þjóðverjar, tveir Norðmenn, þrír Japanir, tveir Kanar, einn Slóvaki, einn Frakki, einn frá Haíti og ein frá Kanada.

Í fyrri hópnum var ein norsk stúlka, sem er reyndar með mér í hóp núna, en við ræddum alltaf saman á ensku. Um daginn rakst ég á hinn Norðmanninn sem ég hafði ekki rætt við áður, höfðum einungis verið í sama hóp í tvo-þrjá daga þá. Hann byrjaði án málalenginga að ræða við mig á norsku og það sem meira var, ég skildi hann alveg ágætlega. Við kjöftuðum eitthvað saman þannig, hann á norsku og ég á minni slöku sænsku sem hann skildi þó einnig fullkomlega.

Þetta fannst mér magnað, ég sem hef aldrei komið til Noregs. Dálítið heimilislegt að geta talað við aðra Norðurlandabúa hér í Ameríku á okkar eigin máli.

Efst á baugi

Ari fékk svona göngugrind (eða hvað sem þetta dót heitir nú) í gær frá frænku sinni. Reyndar er það kannski dálítið með seinni skipunum þar sem hann er næstum því farinn að ganga. Anel vildi ekki kaupa svona dót fyrr en drengurinn var farinn að skríða almennilega. Hér í Mexíkó er sagt að þeir sem læra ekki að skríða séu þeir sem keyra illa í umferðinni þar sem þá skortir nauðsynlega samhæfingu hugar og handar. Samkvæmt minni reynslu skríður því einungis annar hver mexíkani í barnæsku.

-—-

Útlit er fyrir að við komum í heimsókn til Íslands næsta sumar en þetta er allt í vinnslu ennþá.

-—-

Í gær kom ein stúlka, ítölsk að uppruna, úr spænskuskólanum til mín og spurði hvort ég gæti ekki vísað henni á góðan kvensjúkdómalækni. Í dag mætti ég í skólann og afhenti henni nafnspjald frá einum góðum. Fátt sem vefst fyrir manni hér í Mexíkó.

-—-

Ég gleðst yfir lækkun krónunnar undanfarið þar sem skuldirnar hafa eitthvað rýrnað í hamaganginum. Þið sem heima sitjið og þurfið núna að punga út 100 kalli fyrir evruna, góðar stundir.

Svekkt maestra

Spænskukennarinn var svekkt í morgun vegna bágrar frammistöðu hópsins míns í spænskuprófinu. Niðurstöður berast þó ekki fyrr en á morgun.

Í tímanum í dag var rætt um mat, spurt var hvaða matur er einkennandi fyrir hin og þessi lönd. Einfalt var að finna svör fyrir lönd eins og Japan, Bandaríkin og Ítalía. Málið vandaðist nokkuð þegar röðin kom að Norðmanninum en hann bjargaði sér fyrir horn með saltfiskinum en norskur saltfiskur er vinsæll hér.

Íslendingurinn sagðist hinsvegar éta hvalket með bestu lyst. Ég er hér með orðinn óvinsælasti nemandinn í hópnum mínum.

Spænskupróf

Í tilefni þess að Español básico 1 er hálfnaður var skriflegt próf í dag og munnlegt próf í gær. Held að munnlega prófið hafi verið þokkalegt en skriflega prófið kom dálítið á óvart. Níðþungt og mjög snúið, líklega er gert ráð fyrir því að við höfum lært eitthvað á undanförnum vikum.

Spænskukennsla í þrívídd

Í spænskutímanum í dag fórum við í aðra byggingu hér í UNAM til að æfa framburðinn. Þar sem háskólasvæðið er ógnarstórt þá tók það 10 mínútur í einkarútu tungumálaskólans. Þar var okkur boðið inn í bíósal og við fengum svokölluð þrívíddargleraugu í hendurnar. Síðan voru ljósið deyfð, við setjum upp gleraugun og á hvíta tjaldinu birtist kona nokkur tölvugerð. Hún byrjaði á því að rymja einhver hljóð sem við áttum svo að endurtaka. Síðan byrjaði hún að segja nokkur orð á spænsku og við fengum greinargóða mynd í þrívídd af því hvernig munnhreyfingar hennar voru.

Þar næst hreyfði hún höfuðið aðeins til hliðar og vangi hennar varð gagnsær. Áfram hélt æfingin og nú sáum við stöðu tungunnar og kjálka þegar hún sagði nokkra vel valda spænska tungubrjóta. Aldeilis hátæknilegur spænskutími.

Svo á milli þess sem tölvugerða konan mælti á spænsku þurftum við að endurtaka undir ströngu eftirliti kennarans. Ég er enn að hlæja að því þegar Kínverjinn þurfti að segja „ferrocarril“. Svona er maður illa innrættur.