Archive for the ‘Pólitík’ Category

Borðið það sem ég segi

Nokkuð undarlegt er að fylgjast með umræðunni um landbúnaðarmál heima í tengslum við væntanlega ESB aðild Íslands. Margir sem vilja ákveða fyrir fólk hvað það á að setja ofan í sig. Neytendur eiga ekki að hafa val um hvað þeir kaupa heldur eiga þeir að sætta sig við það sem íslenskir bændur framleiða. Talað er af megnri fyrirlitningu um erlend matvæli, þau kölluð menguð og þar fram eftir götunum.

Magnað að þessir sjö milljarðar af fólki sem fær ekki að njóta íslenskra matvæla geti yfirhöfuð lifað af.

Næsta rökrétta skref væri líklega að banna unglingum að spila aðra tölvuleiki en EVE-online þar sem íslenskir tölvuleikir eru mestir og bestir og tryggja þarf afkomu íslenskra forritara.

Í alvöru talað, það þarf að breyta íslensku landbúnaðarkerfi. Þeir sem verja það eru að verja mjög vondan málstað. Núverandi kerfi hefur ekkert gert nema fest bændur í fátæktargildru, gert þá háða ríkisstyrkjum, er mjög dýrt í rekstri fyrir íslenska ríkið og íslenskir neytendur borga margfalt hærra verð fyrir sína matarkörfu. ESB-aðild leysir ekki vandann en væri ágæt byrjun á því að brjóta upp kerfið.

Tags: , ,

Óhefðbundnar lækningar eru kreddur

Mér hefur alltaf fundist þetta orðasamband „óhefðbundnar lækningar“ vera villandi. Sjálfur tengi ég óhefðbundið við eitthvað ferskt og nýtt, eitthvað sem fer út fyrir rammann.

Sumar þessara óhefðbundnu lækninga eru ævafornt fyrirbrigði eins og t.d. nálastungur og jurtalækningar. Nálastungur hafa verið stundaðar í einhver þúsund ár og hafa ekkert breyst í tímans rás. Erfitt er að finna dæmi um hefðbundnara fyrirbrigði í nútímanum.

Nær væri í sögulegu samhengi að tala um nútíma læknavísindi sem óhefðbundnar lækningar, sé litið til langs tíma.

Best væri þó að nota hið góða íslenska orð skottulækningar og/eða kukl yfir það sem nú kallast óhefðbundnar lækningar. Vafasamt er að tengja orðið lækningar við margt það sem fram fyrir undir merkjum græðara og annara skottulækna.

Tags: , ,

Nýr heilbrigðisráðherra er vanhæfur

Álfheiður Ingadóttir er ekki heppilegur heilbrigðisráðherra. Reyndar er leitun á verri valkosti úr þeim þingmönnum sem stjórnin samanstendur af. Sjá t.d. þessi ummæli á Alþingi fyrir um ári síðan.

Ég tel ástæðu til að minna á nauðsyn þess að óhefðbundnar lækningar fái viðurkenningu í heilbrigðisþjónustu okkar og sérstaklega hvatning til að breyta líferni og bæta mataræði og hreyfingu. Það er mikilvægt að við leggjum meiri áherslu á þessa hluti en verið hefur og meiri áherslu en á lyf og læknisaðgerðir. #

Á nú að mylja meira undir bölvað kuklið í íslenskri heilbrigðisþjónustu? Þetta er ömurlegt vægast sagt. Slær út Svandísi í ruglinu. Ég vil fá Ögmund aftur!

Tags:

Sagan endalausa

Frábært. Svo virðist sem það hafi verið gulltryggt á Íslandi í síðustu viku að pólitísk umræða á áfram eftir að snúast í kringum orð Davíðs Oddssonar. Áður fyrr voru það drottningarviðtöl í sjónvarpi, hér eftir verða það leiðarar Morgunblaðsins.

Nýja Ísland féll undraskjótt í far hins gamla.

Tags:

Hægrimenn elska Jóhönnu

Fæ ekki betur séð af umræðunni heima en að Jóhanna Sig sé vinsæl í starfi. Einnig hjá hægri mönnum þar sem helsta umkvörtunarefni þeirra er að hún sjáist ekki nóg í fjölmiðlum.

Tags:

Umhverfisráðherra á villigötum

Ég var fluttur af landi brott þegar Svandís Svavarsdóttir varð pólitísk stjarna í sveitarstjórnarkosningunum 2006. Hef því lítið lesið  eða heyrt frá henni hér í útlandinu. Nú á hún víst að heita umhverfisráðherrra og svona hefst ferillinn hjá henni.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir að Ísland muni slást í hóp ríkja sem lagst hafa gegn erfðabreyttri ræktun matvæla innan ESB verði landið aðili að Evrópusambandinu. #

Það er satt best að segja ömurlegt að heyra svona tal. Erfðabreytt matvæli eru helsta von okkar í baráttunni við hungurvofuna sem sífellt vofir yfir fátækari löndum. Skammsýnir og fáfróðir stjórnmálamenn sem hafa lagst gegn þessari tækni vegna einhverra tilfinningaraka eða trúarbragða hafa valdið ómældu tjóni nú þegar og seinkað nauðsynlegri framþróun í þessum málum.

Almenn samstaða er um það meðal vísindamanna að engin hætta stafi af erfðabreyttum matvælum sé vissum varúðarráðstöfunum fylgt. Ég vona að einhver menntaður á þessu sviði sé starfandi í umhverfisráðuneytinu sem getur frætt ráðherrann um þessi mál áður en það verður um seinan.

Tags: ,

Sorglega heimskulegt lögbann

Kaupþingi hefur verið stjórnað af hálfvitum síðustu árin og enn bæta þeir gráu ofan á svart í sorgarsögu sinni. Nýjasta er að þeir setja lögbann á birtingu efnis í ríkisútvarpinu sem er öllum aðgengilegt á Wikileaks. Með þessu hafa þeir líklega komið í veg fyrir tímabundið að nokkur prósent þjóðarinnar sem hefur ekki aðgang að netinu og skilur illa ensku komist að því hvað þessir drulluhalar voru að braska rétt fyrir hrunið. En fyrir flesta er þetta að sjálfsögðu of seint sem betur fer.

Mikið er maður annars þakklátur fyrir Netið á þessum síðustu og verstu tímum. Held að fátt hafi hjálpað lýðræðinu og frjálsri fjölmiðlum meira en Netið, kannski í gjörvallri sögu mannkyns. Hér áður fyrr gátu valdaklíkurnar ginið yfir gömlu fjölmiðlunum og sagt þeim fyrir verkum en sá tími er sem betur fer liðinn.

Tags: ,

Ummæli dagsins

Magnús G. Eyólfsson orðar þetta vel hér á Pressunni. Sjálfur er ég frá Borgarbyggð og þetta er allt saman satt og rétt. Nauðsynlegt er að brjóta upp landbúnaðarkerfið, bæði fyrir bændur og neytendur. Það kerfi sem nú er við lýði er ekkert annað en hörmung.

Ég myndi kannski kaupa rök samtakanna ef landbúnaður hér á landi stæði í fullum blóma. Er það svo? Ekki samkvæmt samtökunum sjálfum sem segja horfur í íslenskum landbúnaði mjög slæmar. Þrátt fyrir það kerfi sem samtökin standa svo mikinn vörð um. Raunar er það þannig að flest það jákvæða sem gerst hefur í íslenskum landbúnaði hefur gerst þrátt fyrir kerfið, en ekki vegna þess. Það er í gegnum einkaframtak bændanna sjálfra. Ég nefni kornrækt, ferðaþjónustu, beint frá býli svo eitthvað sé nefnt.

Og að halda því fram að landbúnaður leggist af innan ESB er hreint og beint súrrealískt. Halda þessir menn virkilega að bændur hætti bara að rækta landið? Eru samtökin að segja að skjólstæðingar séu duglausar liðleskjur?

Gott dæmi um hnignun landbúnaðar undir núverandi kerfi eru heimaslóðir mínar, Borgarfjörðurinn. Þar var starfrækt eitt blómlegasta mjólkursamlag landsins og kjötvinnsla í miklum blóma. Á innan við tíu árum hefur þetta allt horfið. Meðal annars vegna þessa er atvinnulíf í Borgarnesi og nágrenni í rjúkandi rúst. Ekki kom ESB þar við sögu. Borgarnes er langt frá því að vera einsdæmi.

Séð hjá Agli Helga.

Tags: , , ,

Fyrsta skrefið

Ég held að engan hefði grunað fyrir ári síðan að Ísland ætti eftir að sækja um aðild að ESB. Sjálfur átti ég von á því að íhaldið og aðrir aðskilnaðarsinnar ættu eftir að ákvarða stöðu Íslands til eilífðarnóns. Sorglegt þó að sækja um við þessar aðstæður. Ísland kemur ekki til leiks sem sterkt ríkt lýðveldi heldur frekar á sömu forsendum og A-Evrópuþjóðirnar.

Talað er um að Ísland gæti sett nýtt hraðamet við inngöngu í ESB. Ég held að það sé alveg rétt. Þetta á eftir að ganga hratt og vel fyrir sig, aðildarviðræðurnar þ.e. En að Ísland samþykki svo inngöngu í þjóðaratkvæðagreiðslu er eitthvað sem ég er ekki svo bjartsýnn á þótt ég sé bjartsýnismaður í eðli mínu.

Tags: ,

Ísbjörg

Nú er mikið skrifað um Icesave samningana heima sem væri nú betri íslenska að nefna Ísbjörg. Ég hef hreinlega ekki tíma til að fara yfir öll þessi skrif en hallast helst að því þessa dagana að íslensk stjórnvöld hafi rétt fyrir sér. Hef þó lítið vit á svona fjármálagjörningum eins og fyrri daginn.

Sé það líka að helstu andstæðingar þessa samninga snúa umræðunni oft upp í persónuárásir á fjármálaráðherra og ríkisstjórnina. Tala um landráðamenn og ég veit ekki hvað. Yfirleitt er það ágætur mælikvarði á ómerkinga, þegar landráðastimpillinn er notaður er yfirleitt ekkert að marka þá sem honum beita.

Tags: , ,