Archive for the ‘Pólitík’ Category

Kosningar

Ég er svekktur yfir því að ræðismaður Íslands í Mexíkó skyldi hafa látist í fyrra og enn höfum við ekki fengið annan ræðismann. Þetta tók af mér kosningaréttinn fyrir þessar kosningar, kannski réttast að kæra bara og fá hæstarétt til að ógilda úrslitin?

Tags:

Forsetakosningar 2012

Ekki get ég látið þetta bloggtækifæri framhjá mér fara. Forsetakosningar á laugardaginn á Íslandi og á sunnudaginn í Mexíkó. Þar sem kjörtímabilið í Mexíkó eru sex ár á móti hinu fjögurra ára íslenska tímabili gerist þetta ekki oft en þó á 12 ára fresti.

Gerðist síðast árið 2000 þegar Ólafur Ragnar tók því rólega á Fróni og var sjálfkjörinn í embættið. Þetta kosningaár í Mexíkó varð aftur á móti hið sögulegusta en þá urðu mikil valdaskipti í Mexíkó. Frambjóðandi PAN flokksins (Partido Acción Nacional) Vicente Fox sigraði þá og varð fyrsti forsetinn í 70 ár sem kom ekki úr röðum hins þaulsætna PRI flokks (Partido Revolucionario Institucional). Ef snara ætti þessum flokksnöfnum yfir á íslensku gæti PAN heitið Þjóðvaki og PRI Stofnana-Byltingarflokkurinn. Fox sat til 2006 og eftirmaður hans og núverandi forseti Felipe Calderón kemur einnig úr PAN flokknum.

Sá síðarnefndi hefur orðið umdeildur í Mexíkó vegna hinnar hörðu stefnu hans í fíkniefnamálum. Hann sigaði hernum á dópgengin með þeim árangri að frá 2006 hefur tala fallinna farið yfir 50 þúsund manns. Í raun ríkir einhverskonar borgarastríð í Mexíkó þrátt fyrir að það sé minna sýnilegt en hefðbundin átök. Þrátt fyrir að Calderón hafi í raun ekki staðið sig svo illa í öðrum málaflokkum líkt og ágætur árangur í efnahagsmálum gefur til kynna þá verður þetta arfleið hans í mexíkanskri stjórnmálasögu, forsetinn sem lagði allt undir og tapaði í þessu endalausa „stríði gegn eiturlyfjum“.

Fjórir frambjóðendur eru í framboði í Mexíkó. Núverandi valdaflokkur PAN sýndi lit og bauð fram konu í embættið en kona hefur aldrei vermt forsetastólinn þar vestra. Hún Josefina Vázquez Mota hefur þó ekki hitt á réttu nóturnar í þessari baráttu og hún virðist ætla að enda í þriðja sæti ef marka má skoðanakannanir. Skömmu áður en við fórum frá Mexíkó lýsti hún því yfir í fjölmiðlum að hún tryði enn á kraftaverk en sjaldnast er gott að stóla á þau í pólitík.

Litli maðurinn í þessum kosningum og sá sem mælist með minnst fylgi heitir Gabriel Quadri en hann býður sig fram fyrir Nueva Alianza (PANAL) eða Nýfylkinguna. Þessi flokkur er að bjóða fram í annað sinn, bauð fram fyrst 2006 og er enn að mótast. Reyndar líst mér ágætlega á Gabríel þrátt fyrir að hann líti út eins og illmenni úr Austin Powers mynd með sitt fjallmyndarlega yfirvaraskegg í gamla stílnum. Held ef hann myndi raka sig ætti fylgið eftir að stíga því af því sem ég hef séð af honum var margt ágætt og ætti alveg skilið meira en Ástþórs-fylgi í kosningunum.

Sá sem virðist ætla að hafna í öðru sæti gerði það einnig 2006 en Andrés Manuel López Obrador eða AMLO eins og hann er oft kallaður er fyrrverandi borgarstjóri Mexíkóborgar og tapaði naumlega 2006 fyrir Calderón. Einungis munaði um hálfu prósentustigi eða um 250 þúsund atkvæðum. Hann býður sig fram fyrir kosningabandalag sem leitt er af hans flokki PRD (Partido de la Revolución Democrática) og gæti útlagst Lýðræðissinnaði Byltingarflokkurinn. Aðrir flokkar í bandalaginu eru PT (Partido del Trabajo) eða Verkamannaflokkurinn og Movimiento Ciudadano sem ágætt er að þýða sem Borgarahreyfinguna, flokkur sem stofnaður var á síðasta ári úr eldri flokki, krataflokkur sem berst fyrir kerfisbreytingum í mexíkönsku stjórnkerfi. Verkamannaflokkurinn eru á pari við VG í stjórnmálum og jafnvel til vinstri við þá meðan PRD eru sósíaldemókratar.

Eins og menn kannski muna þá voru úrslit þessara kosninga dregin í efa af stuðningsmönnum Andrésar og reyndar fleirum. Múrinn birti þessa grein skömmu eftir að úrslitin lágu fyrir. Margir ásökuðu PAN um að hafa stolið sigrinum og falsað kjörseðla og lengi á eftir voru mikil mótmæli í gangi um allt land. Andrés var dubbaður upp sem „réttkjörinn forseti“ og Calderón kallaður „ólögmæti forsetinn“ og er reyndar enn kallaður svo af mörgum.

Karlinn sem mun þó líklega sigra á sunnudaginn ber nafnið Enrique Peña Nieto og yfirleitt kallaður báðum eftirnöfnum sínum. Sá er fulltrúi gamla valdaflokksins PRI sem býður fram í bandalagi við Partido Verde, Græningja eða Græna flokksins sem leggur áherslu á umhverfisvernd og baráttu gegn skipulögðum glæpum.

Peña Nieto þykir með myndarlegri mönnum sem hefur kannski skilað honum eitthvað áfram í pólitík. Hann var ríkisstjóri fjölmennasta ríkis Mexíkó sem kallast Estado de México og fyrir mörlandann er hægt að líkja því ríki við Kragann. Semsagt ríkið sem liggur í kringum höfuðborgina sjálfa, Distrito Federal eða alríkisumdæmið sem er kjarni Mexíkóborgar og saman mynda DF og Estado de México stórborgarsvæðið.

Það hljómar kannski skringilega að Mexíkanar vilji hleypa PRI aftur að kjötkötlunum eftir 12 ára útlegð en þeir sátu eins og áður sagði að völdum í um 70 ár og hafa ýmislegt á samviskunni. Flokkurinn virðist síðan þá hafa unnið eitthvað í ímynd sinni, segjast nú vera flokkur 21. aldar og séu nýr PRI og ég veit ekki hvað. Peña Nieto hefur kjörþokka með sér en virðist ekki vera með þeim sleipustu þrátt fyrir það. Frægt var í Mexíkó fyrir skömmu þegar hann sótti heim bókaráðstefnu og var spurður af fréttamanni hvort hann gæti nefnt þrjár bækur sem höfðu haft áhrif á hann á sínum ferli. Skemmst er frá því að segja að hann gat það ómögulega, tafsaði eitthvað og umlaði og náði að lokum eftir drykklangt hlé að segja Biblían en mundi þó ekki eftir fleiri bókum. Þessi uppákoma og fleira í þessum dúr hefur orðið til að draga andlegt atgervi forsetaframbjóðendans í efa.

Sjálfur hef ég ekki kosningarétt í Mexíkó en ég veit í sjálfu sér ekki hvað ég ætti eftir að kjósa. Líklega er AMLO illskásti kosturinn en mér hefur þó fundist hann koma frekar illa út í umræðuþættum. Leggur yfirleitt höfuðáherslu á að rægja Peña Nieto í stað þess að koma sínum málstað á framfæri. Reyndar er nokkuð furðulegt að í landi þar sem yfir 100 milljónir búa að ekki sé hægt að finna betri forsetaframbjóðendur, mér líst frekar illa á öll fjögur.

Heldur mun ég ekki kjósa í þeim íslensku vegna smá klúðurs, hefði kosið Ara en það verður bara að hafa það. Þrátt fyrir að mér líki í raun ekki illa við Ólaf en hann bauð mér í kokkteilboð fyrir nokkrum árum úti í Mexíkóborg, geri aðrir betur. Held að það væri ágætt að breyta til á Bessastöðum en ég mun ekki gráta þótt Ólafur sitji eitthvað áfram þar.

Svona hljóðaði nú fréttaskýring dagsins.

Tags: , , , , , , , , ,

Of ungur

Ég get víst enn ekki gefið kost á mér til embættis forseta Íslands. Er enn ekki orðinn 35 ára.

Annars væri ég upplagður í þetta, á erlenda konu, tala útlensku og fíla koteilboð í ræmur. Á þrenn jakkaföt og nokkur góð bindi.

Framboð mitt verður líklega að bíða betri tíma.

Tags:

Kína

Sé í fréttum að kommarnir í Kína eru að halda upp á 90 ára afmæli Flokksins. Á þessu ári náðu Kínverjar líka víst öðru sætinu af grönnum sínum Japönum hvað stærð hagkerfa þeirra varðar þannig að allt er að gerast þar eystra.

Margir lofa dugnað Kínverja og mikinn vöxt undanfarna áratugi. Ég segi þó fyrir mig að ég kann illa við það að Kínverjar séu að ná auknum áhrifum og völdum meðan stjórnmálaástandið er jafn bágborið þar eystra og raun ber vitni. Kína er ógeðfellt alræðisríki þar sem spilling er mikil og virðing fyrir mannréttindum er lítil sem engin. Engin þjóð er öðrum fremri í að sálga eigin þegnum með dauðarefsingum. Venjulegt fólk lifir í ótta við stjórnvöld og engin gagnrýni er leyfð á sæluríki alræðisherranna.

Hvernig fer þegar svona þjóð verður valdameiri með hverju árinu sem líður? Fara þeir að hafa aukin afskipti af stjórnarfari annarra landa? Verður kommúnismi að þeirra hætti einnig útflutningsvara til t.d. Afríku, þar sem Kínverjar eru óðum að hasla sér völl?

Mér finnst það yfirleitt ekki gæfulegt að sjá fólk renna hýru auga til Kína, sérstaklega stjórnmálamenn. Stundum sér maður á Íslandi því haldið fram að betra sé að standa utan ESB því þá er betra að eiga viðskipti við aðrar þjóðir eins og Kína. Nær væri að draga úr samskiptum við þetta land frekar en að auka þau á kostnað Evrópu.

Tags:

Mín skoðun á Icesave

Hvernig er hægt að kjósa um Icesave aftur ef ekki liggja fyrir öll gögn fyrir í málinu? Hvað er t.d. þrotabú gamla Landsbankans mikils virði? Í haust verða liðin þrjú ár síðan hann féll og enn er það ekki komið á hreint. Með þjóðaratkvæðagreiðslu um málið er verið að biðja kjósendur að skrifa undir ávísun þar sem upphæðin er enn á huldu.

Annars er ég farinn að efast um gildi þjóðaratkvæðagreiðsla, amk um mál af þessum toga. Þetta er eins og að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort greiða eigi skatta. Líklega ættu flestir eftir að segja nei, eða hvað?

Tags:

Sitthvað um stjórnlagaþing

Held að eitt það besta sem kom út úr Hruninu hafi verið fyrirhugað stjórnlagaþing. Stjórnarskrá Íslands sem gilt hefur frá lýðveldisstofnun endaði því miður þannig að ekki er farið eftir henni nákvæmlega, sérstaklega í greinum sem snúa að forsetaembættinu. Löngu er tímabært að endurskoða stjórnarskránna í heild sinni og ég vona að stjórnlagaþinginu takist vel til. Niðurstöður þjóðfundar eru mér að skapi og ég vona að flestar þær endi í endurbættri eða nýrri stjórnarskrá.

Sjálfur kemst ég ekki á kjörstað að sinni þar sem ég nenni ekki að eiga við ræðismann Íslands hér í borg. Ef einhver háttsettur í utanríkisráðuneytinu les þetta þá vantar okkur Íslendinga hér í Mexíkóborg skárri ræðismann, ég býð mig fram ef enginn annar fæst.

Eitt það merkilegasta við þetta allt saman finnst mér þó vera hvernig Netið getur nýst í þágu lýðræðis. Persónukjör er nú orðið miklu raunhæfari kostur þar sem hægt er að nota tól á Netinu til að greina mörg hundruð frambjóðendur á nokkrum mínútum. Sigtið er besta dæmið úr þessum kosningum. Án þess að ég sé sérstakur áhugamaður um persónukjör þá finnst manni að hér hafi þetta fræga blað verið brotið í sögu íslenskra stjórnmála.

Held reyndar að þegar öllu sé á botninn hvolft og þrátt fyrir nútímatækni muni flestir setja kunningja eða vini efst á sinn kjörseðil. Þegar yfir 500 manns eru í framboði þá held ég flest allir þekkja einhvern sem hefur boðið sig fram. Sjálfur þekki ég nokkra frambjóðendur þó ég hafi búið erlendis meira og minna í 5 ár.

Var að hugsa um að setja saman minn atkvæðaseðil en fyrst ég kem honum ekki til skila þá vil ég ekki svekkja þá sem hefðu lent efst á blaði.

Eitt af því sem ég vonast eftir er að ákvæði um ríkiskirkju verði felld burt með öllu. Vil vara fólk við því að kjósa frambjóðendur sem eru titlaðir séra eitthvað, þar eru fulltrúar forréttindastéttar mættir til að verja hagsmuni sína og ofurlaun. Þeim gæti tekist með málþófi og kjaftagangi að halda ríkiskirkjuákvæðum inni í nýrri stjórnarskrá. Það yrði þvílíkt áfall fyrir baráttuna fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju ef þetta ákvæði fengi að halda sér í óbreyttri mynd og ætti eftir að seinka aðskilnaði um mörg ókomin ár og jafnvel áratugi.

Gerið það allavega fyrir mig að kjósa ekki meirihlutafasistann séra Örn Bárð á þetta þing. Slíkur maður á ekkert erindi á slíkt þing þar sem teknar verða mikilvægar ákvarðanir um mannréttindi. Prestar Íslands virðast telja réttindi þeirra til að boða fagnaðarerindið í opinberum skólum allt niður í leikskólaaldur vera mikilvægara en eitthvað mannréttindatuð. Ég vona innilega að enginn stuðningsmaður ríkiskirkjunnar komist á stjórnlagaþing. Kannski er það bjartsýni en ég er þó hóflega bjartsýnn á að það gangi eftir. Sjáum hvað setur.

Tags:

Þegar ég tók þátt í útrásinni

Allar götur síðan að íslenska efnahagsundrið snérist upp í andhverfu sína haustið 2008 og varð að íslenska efnahagsviðundrinu hefur mikið gengið á heima á Fróni. Síðustu misserin hefur allt snúist um hverjum var þetta að kenna og að sjálfsögðu sýnist þar sitt hverjum. Nýverið kom út mikil skýrsla um hrunið frá rannsóknarnefnd Alþingis sem mér skilst að hafi vakið mikla lukku hjá mörgum þar sem margir fyrrverandi góðborgarar fengu orð í eyra. Það er dálítið sérstakt að fylgjast með þessu öllu saman utan frá hér í Ameríku. Til dæmis frá því í febrúar hef ég ekki mikið verið í netsambandi og því hef ég heyrt stopular fréttir af þessum ósköpum sem virðist engan endi ætla að taka.

En til að komast út úr þessu ástandi er nauðsynlegt að uppgjör við þessa tíma fari fram og ég ætla mér því að fara fram með góðu fordæmi og skýra frá mínum þætti í útrásinni.

Mín þátttaka var bundinn við ákveðinn atburð einn fagran og sólríkan vordag hér í Mexíkóborg í mars 2008. Þá kom forseti Íslands í opinbera heimsókn ásamt miklu föruneyti og sendiherra Íslands í Bandaríkjunum hélt móttöku og bauð öllum Íslendingum búsettum hér í kokteil boð. Þarna voru meðferðis bisness fólk frá íslensku bönkunum ásamt fleirum. Merkilegast var fyrir okkur að hitta Magnús Scheving sem var að kynna Latabæ.

Eitt af því sem maður ætti aldrei að gera er að reyna að rifja upp hugsanir og tilfinningar frá löngu liðnum atburðum. Held að það sé óhjákvæmilegt að bankahrunið liti eitthvað minningar mínar af þessum degi en ég held að ég ljúgi engu þegar ég segi að mér kom þetta allt undarlega fyrir sjónir. Þegar forsetinn kom hingað til Mexíkó var ég við hávísindaleg störf við UNAM háskóla en sá skóli hefur um 300 þús nemendur sem er u.þ.b. íbúafjöldi Íslands. Nefni þetta sem dæmi til að bera saman þessi tvö lönd.

Kokteilboðið var haldið á einu fínasta hóteli borgarinnar í Oaxaca-salnum, man ég. Þar hitti ég sjálfan Ólaf Ragnar ásamt sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. Verð að viðurkenna að ég man ekki alveg hvur það var en það var einhver innvígður í Flokknum. Þarna hitti maður nokkra bankamenn en á þessum tíma var Ari við það að stíga fyrstu skrefin og fór mikill tími í að hjálpa honum að ganga um sem á þessum tíma var það eina sem hann vildi gera. Missti því dálítið af þessum viðburði en hafði þó tíma til að tala við nokkra bankamenn og spjallaði við nokkra frá Landsbankanum. Man ég var að hugsa hvað Landsbankinn ætlaði sér nú að gera í Mexíkó. Reyndar eru góð fjárfestingartækifæri í þessum heimshluta enda er þetta land víst skilgreint sem „emerging market“. Kannski ætluðu þeir að bjóða Mexíkönum upp á Icesave, hver veit.

Þáverandi menntamálaráðherra var líka með í för sem eftir hrun hefur löngum verið kennd við kúlulán. Man hún blikkaði Ara aðeins þegar þau tvö fóru á sama tíma í snakk skálina. Dorrit forsetafrú var þarna líka og hún talaði einna mest við okkur enda ágætis kerling. Fleiri nafnkunna menn þekkti ég ekki enda ekki mikið inn í málunum á Íslandi og langt um liðið síðan ég hafði skoðað Séð og Heyrt. Kannski voru einhverjir frægir bindiskarlar þarna sem nú bíða eftir kærum frá sérstökum saksóknara.

Á þessum tíma var farið að hrikta aðeins í stoðum íslensks efnahags, krónan var eitthvað farin að lækka þótt að það hafi þá ekki verið neitt til að tala um miðað við það sem á eftir fór. Verðbólgan var á uppleið og stöðugt komu einhverjar vondar fréttir um bankana. Eitthvað sem kallast tryggingarálag var mikill höfuðverkur á þessum tíma en var fyrir mér hugtak sem ég hafði aldrei heyrt áður.

Í minningunni var ég því skeptískur á þetta allt saman en kannski er það fölsk minning eftir allan gauraganginn í kringum hrun bankanna um hálfu ári síðar. Þetta var víst eitt af þessum kokteilboðum sem ritstjóri Morgunblaðsins talaði um síðar að forsetinn hafði verið marenaður í af útrásarvíkingum. Held reyndar að þetta boð hafi verið í boði íslenska ríkisins en hvað veit maður svo sem?

Þarna át maður snittur og drakk gos í góðu yfirlæti rétt fyrir ragnarök íslenska góðærisins. Jafnvel þótt ég ætti eftir að búa hér í Mexíkó allt til æviloka þá býst ég ekki við því að sjá forseta Íslands hér aftur með viðskiptaföruneyti sér við hlið. Reyndar voru þetta mjög abúrd tímar og ég er helst feginn að þeir séu liðnir og vonandi koma þeir aldrei aftur. Árin þegar nokkrir Íslendingar ætluðu sér að vera stórir kallar og gera litlu krúttlegu bankana heima að einhverjum alþjóðlegum tröllabönkum og mistókst það svo herfilega að það tekur amk áratug fyrir íslensku þjóðina að rétta sig af eftir það rugl.

Þetta er mitt uppgjör við íslensku útrásina, eina skiptið sem hægt er að segja að ég hafi tekið beinan þátt í því ævintýri. Mér líður betur að hafa játað þetta fyrir ykkur og hvet nú alla til að gera upp við sinn hlut í útrásinni og hruninu svo að íslenskt samfélag geti rétt sig við sem fyrst, bæði efnahagslega og andlega.

Tags: , , , , , ,

Á nýju ári

Gaman væri að hafa tíma til að blogga eitthvað. Margt að gerast hér sem og á föðurlandinu.

Svo ég segi eitthvað um mál málanna á Íslandi þessa stundina þá vonast ég til þess að vinstristjórnin láti ekki tiktúrur forsetans á sig fá. Hann hefur jú rétt til þess að skrifa ekki undir hvað sem er. Látið málið hafa sinn eðlilega gang og setjið þetta í þjóðaratkvæði. Samstaða vinstri flokkana er síðasta haldreipi Íslands, aðrir flokkar eru ekki stjórntækir og verða það ekki á næstunni.

Svona hefst bloggárið 2010, geypilega fallegt ártal.

Tags:

Greinargóð skrif um hrunið

Á bloggi Egils Helgasonar er ágæt grein um hrunið og ástæður þess eftir Andra Helgason. Er sjálfur sammála öllu því sem þar kemur fram. Held þessum hluta hér til haga þar sem hann hittir svo rækilega í mark.

Á Íslandi voru varla bankar fyrir 30 árum.  Þetta voru eiginlega bara sparisjóðir eftir rússneskum fyrirmyndum.  En svo vorum við komin með bankakerfi sem var 10 sinnum stærra en hagkerfi landsins — á rétt rúmlega 5 árum.  Og rökin eru þau að seðlabankinn gat ekki stoppað þetta?  Bara svona rétt til að setja þetta í samhengi.  Ef bankakerfið í Póllandi, sem fyrir 30 árum var með sömu bankahefð og Ísland, hefði verið hlutfallslega jafnstórt miðað við höfðatölu, þá hefði það dugað til að sjá allri Evrópu fyrir bankastarfsemi.

En þetta verður svo miklu verra og svo miklu vitlausara því meira sem maður hugsar um það.  Og um allt Ísland er fólk sem er alveg stórhlessa á því að “ríkið sé að ábyrgjast Icesave.”  Bankakerfið sem hrundi var 20-30 sinnum stærra heldur en Icesave, lang mest af því tapi fellur utan Íslands.  Kostnaður ríkisins við að taka á sig Landsbankann gæti orðið stærri en Icesave, sérstaklega ef enginn er að passa kassann.  Kostnaður ríkisins af ástarbréfunum er áætlaður um 300 milljarðar króna.  En við skulum eyða öllum tímanum í að kvarta yfir Hollandi og Bretum.  Þetta er allt þeim að kenna, þeir áttu að stoppa okkur.  Og ef það er ekki þeim að kenna, þá er það ESB að kenna að leyfa okkur að taka þátt í Evrópumarkaðnum en gefa okkur ekki barnaútgáfuna af lögunum þeirra sem skýra út hvernig innistæðutryggingar virka alls staðar í heiminum síðan í heimskreppunni 1929.

Það trúir því enginn (amk. ekki utan Íslands) að ein þjóð geti verið svona vitlaus, svona ábyrgðarlaus.  Það dettur engum erlendum, eða heilvita, manni í hug að þetta hafi ekki verið ein risastór svikamylla.  Og hvað gera svo Íslendingar?  Eitt ár liðið frá hruni og tveir piltar varla með pungapróf eru dæmdir fyrir smásvik.  Nefnd á vegum þingsins gefur litlar sem engar skýringar á af hverju dregst að skila skýrslu um málið.  Engir erlendir aðilar hafa verið fengnir til að rannsaka málin, utan ein góðhjörtuð kona sem kom hingað til að tala við sjónvarpsmann.  Hún fékk við illan leik og eftir svolítið japl líka skrifstofu.  Utan Íslands vill fólk fá svör og það vill ekki fá þau svör á íslensku.  Það vill fá þau á mannamáli.  Hreinskipt svör.  Heiðarleg svör.  Greinagóð svör.  Ekki “þetta er flókið.”  Ekki, “þetta tekur tíma.”  Ekki, “ekki benda á mig.”  Svör sem sýna nákvæmlega hvort að það var heimska eða glæpsamlegur ásetningur sem orsakaði einhverja stærstu gripdeild á sparifé sem heimurinn hefur nokkurn tímann séð.

Tags: , ,

Auðvitað er fæðingarorlof skorið niður

Sé að það er allt vitlaust heima á klakanum yfir niðurskurði á fæðingarorlofinu. Held að menn ættu bara að prísa sig sæla yfir því að allt fæðingarorlofskerfið var ekki lagt niður eins og það lagði sig. Ríkissjóður er jú á hvínandi kúpunni og fæðingarorlof er ákveðinn lúxus sem einungis ríkar þjóðir geta leyft sér. Vita lesendur annars hvort svona kerfi fyrirfinnast í öðrum löndum?

Það er alltaf leiðinlegt að sjá á bak ýmsum þægindum sem fólk hefur vanið sig á. En svona er Ísland í dag víst og ekkert hægt að gera í því lengur. Leita verður allra leiða til að skera niður í opinberum rekstri og auðvitað er alltaf einhver sem tapar á því.

Menn verða einfaldlega að horfast í augu við þá staðreynd að Ísland er nokkrum klössum neðar eftir bankahrunið. Þakkið fyrir að Ísland fer ekki niður á mexíkanska stigið en á því stigi eru engar barnabætur, atvinnuleysisbætur, örorkubætur, vaxtabætur, fæðingarorlof, ellilífeyrir o.s.frv. Hér í landi er hlegið að svona lúxusvandamálum eins og að einn mánuður verði klipinn af fæðingarorlofi.

Tags: , ,