Archive for the ‘Netið’ Category

Sorglega heimskulegt lögbann

Kaupþingi hefur verið stjórnað af hálfvitum síðustu árin og enn bæta þeir gráu ofan á svart í sorgarsögu sinni. Nýjasta er að þeir setja lögbann á birtingu efnis í ríkisútvarpinu sem er öllum aðgengilegt á Wikileaks. Með þessu hafa þeir líklega komið í veg fyrir tímabundið að nokkur prósent þjóðarinnar sem hefur ekki aðgang að netinu og skilur illa ensku komist að því hvað þessir drulluhalar voru að braska rétt fyrir hrunið. En fyrir flesta er þetta að sjálfsögðu of seint sem betur fer.

Mikið er maður annars þakklátur fyrir Netið á þessum síðustu og verstu tímum. Held að fátt hafi hjálpað lýðræðinu og frjálsri fjölmiðlum meira en Netið, kannski í gjörvallri sögu mannkyns. Hér áður fyrr gátu valdaklíkurnar ginið yfir gömlu fjölmiðlunum og sagt þeim fyrir verkum en sá tími er sem betur fer liðinn.

Tags: ,

Fyrsta skrefið

Ég held að engan hefði grunað fyrir ári síðan að Ísland ætti eftir að sækja um aðild að ESB. Sjálfur átti ég von á því að íhaldið og aðrir aðskilnaðarsinnar ættu eftir að ákvarða stöðu Íslands til eilífðarnóns. Sorglegt þó að sækja um við þessar aðstæður. Ísland kemur ekki til leiks sem sterkt ríkt lýðveldi heldur frekar á sömu forsendum og A-Evrópuþjóðirnar.

Talað er um að Ísland gæti sett nýtt hraðamet við inngöngu í ESB. Ég held að það sé alveg rétt. Þetta á eftir að ganga hratt og vel fyrir sig, aðildarviðræðurnar þ.e. En að Ísland samþykki svo inngöngu í þjóðaratkvæðagreiðslu er eitthvað sem ég er ekki svo bjartsýnn á þótt ég sé bjartsýnismaður í eðli mínu.

Tags: ,

Feisbúkk

Lét undan félagslegum þrýstingi og skráði mig á Feisbúkk síðastliðinn nýársdag. Bætið mér við þeir sem mig þekkja. Annars er þessi vefur svakalegur, ég held að ég gæti eytt ævinni yfir þessu en ekki náð að skoða allt saman.

Svo biðst ég afsökunar á því að hafa sent eitthvað bleikt hryllilegt kort á marga vini mína í gær. Tæknin var eitthvað að stríða mér, Facebook skilur ekki að Skip þýðir Skip.

Fylgst með pakkanum

Við sendum pakka til Íslands með jólagjöfum nú á þriðjudaginn með UPS en það fyrirtæki býður upp á þá þjónustu að sendandinn getur fylgst með ferðum pakkans á Netinu. Þessi pakki er búinn að fara víða. Fyrst fór hann héðan til Louisville í Kentucky ríki, Bandaríkjunum. Það tók reyndar tvo daga fyrir pakkann að ná þangað, var þar kominn á fimmtudeginum. Eftir það tók hann góðan sprett til Köln* í Þýskalandi og þaðan til Keflavíkur, náði þangað núna í morgun.

Ég hef því ágæta von um að hann nái út á Snæfellsnes fyrir eða á 24. desember. Við sjáum hvað gerist.

*Á maður að skrifa Kölnar?

Hreinsað til

Líklega telst ég frekar ófélagslyndur maður, mér er hálfilla við alla félagastarfsemi. Ég er með sterka fóbíu fyrir stjórnmálaflokkum t.d. og get varla hugsað mér að skrá mig í slíkt fyrirbæri. Þetta ófélagslyndi birtist einnig á Netinu þar sem ég vil helst ekki skrá mig á svona vefi þar sem menn safna vinum og kynna sig fyrir heiminum. Reyndar lét ég plata mig til þess að skrá mig á hi5.com og wayn.com en ég sá strax eftir því.

Það fylgja þessu bara leiðindi. Endalausir tölvupóstar um að vinur vinar vinar þíns hafi verið að blogga og viðra hundinn sinn, um að eitthvað fólk frá Cleveland er að koma í heimsókn til Mexíkóborgar og að eitthvað hyski hafi verið að skoða síðuna þína og litist alveg ljómandi vel á. Hverjum er ekki sama?

Í dag tók ég mig til og eyddi þessum skráningum auk þess að riddarinn minn á knightfight.co.uk fékk að fjúka líka. Hann varð til við skýrslugerðir einhvern tímann í Skövde þegar þýskur félagi minn vildi endilega skrá mig svo að hann fengi 300 gullpeninga í bónus.

Það kemur ekki til greina af minni hálfu að skrá mig á mæspeisið en ég verð að viðurkenna að feisbúkk lítur dálítið skemmtilega út. Konan mín er þegar skráð, bætið henni við þeir sem hana þekkja. Kannski læt ég undan gríðarlegum félagslegum þrýstingi bráðum þar sem ég er alltaf að fá tölvupósta frá fólki sem vill verða vinur minn ef ég skrái mig. Hver vill ekki eiga vini?

Kynþáttasvikari og júðakerling

Sumum er illa við íslensku forsetahjónin. Annars alltaf skemmtilegt með þessa rasista sem dásama norrænt kyn, stafsetning þeirra og málnotkun er á við meðalgreindan 6 ára krakka. Líklega er þroski þeirra á svipuðum slóðum. Aldrei þora þessir vesalingar heldur að skrifa undir nafni.

Björn.is

Mér finnst þessi vefur nokkuð skondinn. Ég gæti trúað því að þetta gæti haft áhrif á reglur um lén með séríslenskum stöfum. Það er jú verið að snuða sjálfan dómsmálaráðherrann!

Konungur Moggabloggsins

Sagan um það hvernig Bolur Bolsson vann konungsríki Moggabloggins á einni viku er fyndin lesning. Það er einnig skondið að lesa kommentin undir afhjúpuninni, sumir virðast vera reiðir yfir þessu uppátæki. Húmorsleysi er reyndar útbreidd plága.

Vald.org og spádómarnir

Stundum kom það fyrir að ég kíkti á Vald.org og las pistla í spádómsstíl um kreppuna framundan, upptök hennar og ástæður. Sá vefur hefur verið í fríi undanfarna mánuði en á víst að snúa aftur í september.

Mér fannst þessi vefur áhugaverður en ég tók alltaf mátulega mark á þessum spádómum. Kenningin var semsagt sú að eftir að sápukúlan á bandaríska fasteignamarkaðinum ætti eftir að springja eða hjaðna og það ætti eftir að draga fjárfesta og fjármálafyrirtæki niður vegna óhóflegra lánveitinga til aðila sem stæði ekki undir þeim. Allavega var ófullkomin skilningur minn á þessum spádómum þannig. Einnig ætti hátt olíuverð eftir að kynda undir verðbólgu og draga efnahagskerfi heimsins niður.

Undanfarnar vikur hafa því verið áhugaverðar og einnig örlítið hrollvekjandi í ljósi þessara spádóma. Það sem hefur verið haldið fram á vald.org er einmitt að gerast á mörkuðunum í dag. Allir fjármálamarkaðir eru í mikilli niðursveiflu sem rakin er til slæmrar stöðu fjármálastofnanna sem lánað hafa fé til fasteignakaupa í Bandaríkjunum. Einhverjir ónefndir „sérfræðingar“ segja alheimskreppu hugsanlega.

Þótt ég hafi minna en ekkert vit á svona málum þá finnst mér óþarfi að byrja á krepputalinu strax. Alltaf eru einhverjar sveiflur í gangi, núna er ein góð niðursveifla í gangi. Spurning um hversu alvarleg hún verður. En ef Jóhannes Björn sem heldur úti vald.org hefur rétt fyrir sér með framhaldið á þessu þá er eins gott að hefja söfnun á dósamat.

Langstæðstir

Á heimasíðu Ungra Framsóknarmanna í Skagafirði má lesa eftirfarandi lýsingu á félaginu.

Félag ungra Framsóknarmanna í Skagafirði er stæðsta hreyfing ungs fólks á Norðurlandi vestra.

Einhvern veginn fer þessi lýsing vel saman við þá fordómafullu mynd sem ég hef af Framsóknarmönnum.