Archive for the ‘Músík’ Category

Radiohead settir á ís

Í kreppunni er allur óþarfi skorinn við nögl. Radiohead ætla að halda tónleika hér í borg þann 15. og ég hefði ekkert á móti því að mæta. En það verður líklega að bíða betri tíma.

Mér dettur varla í hug sú grúppa sem ég vildi sjá á sviði frekar en Radiohead. En lífið er tík eins og máltækið segir. Konan ætlaði að splæsa í miða þótt hún sé ekki aðdáandi en ég þvertók fyrir það. Hef verið ótrúlega hagsýnn á þessum síðustu og verstu.

Þeir koma örugglega aftur hingað einhvern daginn. Nú eða við eltum þá uppi hvar sem þeir verða.

Tags: ,

Bisnessinn og mexíkanskir tónar

Ég er eiginlega strax farinn að bíða eftir sumarfríinu, hef haft meira en nóg að gera undanfarið og það virðist bara eiga eftir að aukast. Konan mín er orðin svo djúpt sokkin í bisnessinn að við verðum með okkar eigin bás á ráðstefnu hér í bæ frá fimmtudegi til sunnudags. Hef víst látið plata mig út í að vera á staðnum í jakkafötum og dreifa bæklingum. Hvað gerir maður ekki fyrir arðsemi tannlæknastofu konunnar?

Ráðstefnan snýst um börn og verðandi mæður og þangað koma ýmsir framleiðendur með sínar vörur og kynna. Að meðaltali fá svona ráðstefnur um 65 þúsund gesti og við erum eina tannlæknastofan á svæðinu þannig að við gerum okkur vonir um að geta bætt ríflega við kúnnahópinn. En undirbúningur fyrir kynningu af þessari stærðargráðu er töluverður og því erum við frekar lúin þessa dagana.

Þetta kemur á sama tíma og ég er í hraðferð í þriðja spænskuáfanga mínum í CEPE. Hraðferðin þýðir að ég læri spænsku sex tíma á dag frá 9-3 og þarf svo yfirleitt að kíkja eitthvað til málamynda á vinnustaðinn. Því er lítil orka eftir í manni þegar staulast er heim á kvöldin.

Þriðji spænskuáfanginn er annars skemmtilegur, kennararnir betri en í nr. 2. Er með einn fyrir hádegi og annan síðdegis. Sú fyrri hef ég grunaða um að vera yngri en ég. Því finnst mér ég hafa elst mikið þegar ég er í tímum hjá henni. Sú síðari er óhemju áhugasöm um kennsluna, svo mjög að manni finnst nánast nóg um en hún er ágæt engu að síður.

Um daginn horfðum við á þetta tónlistarmyndband í kennslustund og við áttum að lýsa því sem fyrir bar. Lagið heitir „Me voy“ og er með Julieta Venegas. Sú mun vera fyrrverandi rokksöngkona sem fór yfir í poppið og spilar oft á harmónikku í lögum sínum. Einhverjir gætu sagt sem svo að hún væri búin að missa það en þetta eru engu að síður hugljúfir tónar.

Hún hefur einnig átt þennan hittara hér „Eres para mi“, þetta heyrðist mikið á síðasta ári og heyrist reyndar enn enda dúndur stöff hér á ferðinni. Fyrir mér er þetta venjuleg útvarpsmúsík, velti því fyrir mér hvort lesendur kannist eitthvað við hana Julietu eða hvort að hún sé einungis fræg í Ameríku.

Besta við að búa utan Evrópu er…

…að hér er ekkert fokkins Júróvísíon.

Hiti og sviti

Fyrir um 3-4 vikum síðan tók hitastigið góðan kipp upp á við.

Hér í Mexíkóborg er nefnilega ekki svækjuhiti alla daga eins og margir gætu haldið því við erum í um 2400 metra hæð yfir sjávarmáli. Á veturnar er loftslagið þægilegt og mátulega passlegt. Yfirleitt þarf maður ekki peysu og yfirhafnir, bolaveður alla daga. Vorin eru hér heitasti árstíminn, á sumrin rignir duglega daglega sem kælir aftur loftslagið niður.

Nú er semsagt vor í lofti, hitinn fer vel yfir 30°C á hverjum degi sem aftur þýðir það að ég hef fengið að svitna daglega í nokkrar vikur. Samt sem áður verður lítil breyting á klæðaburði borgarbúa. Þar sem ég vil ekki líta út eins og áttavilltur túristi þá geri ég slíkt hið sama með þeim afleiðingum sem að ofan er lýst.

Kannski ég ætti að gera eins og gringóarnir í spænskuskólanum, finna mér hvítar stuttbuxur, hlýrabol og sólhatt. Þótt það væri kannski þægilegra þá vill enginn líta út eins og gringó, það segir sig sjálft.

Aldur?

Var að horfa á heimildamynd um sögu R&B tónlistar þar sem spiluð voru mörg myndbönd sem þóttu móðins þegar ég var í fjölbrautaskóla. Ég hef sjaldan verið jafn gamall og í dag.

Við störf

Byrjaði í vinnunni í gær. Hef reyndar gert lítið hingað til nema að rifja upp hvurn skremilinn ég var að gera hér áður en ég fór í fríið. Ég hef augljóslega verið duglegur að fylla tölvuna hans stjóra af ýmsum real-time PCR gögnum sem ég botna ekkert í lengur. Þessi mastersgráða mín hefur lítið gert fyrir heilabúið en þó mun meira fyrir egóið.

Búmm Tsjagga Búmm Búmm Búmm

Árið 1993 gáfu Skriðjöklar út plötuna Búmm Tsjagga Búmm sem innihélt m.a. lagið „Bíllinn minn og ég“. Það lag var mikið raulað á sínum tíma enda grípandi melódía þar á ferð. Nú hef ég gert þá merku uppgötvun að þetta lag má líka heyra hér í Mexíkó og fólk hér þekkir það vel. Ég stóð alltaf í þeirri meiningu að Skriðjöklarnir höfðu samið þetta lag en þá fengu þeir þetta bara að láni. Veit reyndar ekki nákvæmlega hver uppruni lagsins er, fróðir menn geta sett athugasemd þess efnis í kerfið.

Tsjagga Tsjagga Tsjagga Tsjagga Tsjagga Ta! Tsjagga Tsjagga Tsjagga Tsjagga Tsjagga Ta! o.s.frv.

Ég vona að Teitur skilji þessa færslu.

Bítlarnir blastaðir

Ég mætti í fyrra fallinu á labbann og hér var enginn nema ræstitæknir og svo prófessorinn sjálfur. Hann var að blasta Bítlana á fullu, Let it be plötuna líklega. Þessi prófessor er bara nokkuð töff miðað við aðra miðaldra viðutan prófessora sem ég hef haft kynni af.

Hasslum partý

Nú er víst að hefjast jólapartý hér í Hasslum, búið að skreyta húsið óhóflega mikið, setja bláa og rauðar síur yfir öll ljós, hljómflutningstækin komin á sinn stað. Hvað ætli sé verið að spila? Jú, að sjálfsögðu í Svíþjóð er spilað Boten Anna.

Jag känner en bott, hon heter Anna, Anna heter hon Och hon kan banna, banna dig så hårt Hon röjer upp I våran kanal Jag vill berätta för dig, att jag känner en bott Jag känner en bott, hon heter Anna, Anna heter hon Och hon kan banna, banna dig så hårt Hon röjer upp I våran kanal Jag vill berätta för dig, att jag känner en bott

Úgasaga

Ekki vissi ég að úgasaga-lagið væri með Tom Jones. Það þótti nú skemmtilegt í den.