Archive for the ‘Mexíkó’ Category

Mexíkanska byltingin 100 ára

Dagurinn í dag (gær) 20. nóvember er dagur mexíkönsku byltingarinnar en sú bylting hófst 1910 og stóð reyndar í töluverðan tíma eftir það. Sú bylting byrjaði sem andóf gegn hinum þaulsætna forseta Porfirio Díaz sem sat í meira en þrjátíu ár á valdastóli og því þjóðfélagi misskiptingar og óréttlætis sem stjórn hans lét eftir sig. Síðar þróaðist byltingin út í allsherjarátök milli stríðandi fylkinga og henni lauk ekki fyllilega fyrr en uppúr 1930 þegar helstu öfl byltingarinnar sameinuðust í einum stjórnmálaflokki sem síðar er þekktur undir skammstöfuninni PRI en sá flokkur hélt völdum allar götur eftir það fram til ársins 2000.

Eins og ég hef áður minnst á þá markar þetta ár einnig þau tímamót að 200 ár eru liðin síðan uppreisnin gegn yfirráðum Spánar hófst hér í Mexíkó þannig að þetta ártal er mikilvægur áfangi hér í landi.

Sum dagblöðin hér í landi hafa bent á að litlu sé hér að fagna. Mexíkanskt þjóðfélag er þjakað af misskiptingu auðs, félagslegu óréttlæti og mikilli spillingu auk þess sem að átök á milli glæpagengja færast í aukana með hverju árinu. Sjálfur tel ég þó að framtíð Mexíkó geti orðið nokkuð björt, sérstaklega ef tekst að koma einhverjum böndum á þessa smákónga í dópinu. Þrátt fyrir allt þá virðist hér vera töluverð viðleitni til að bæta ástandið og landið sjálft er mjög auðugt frá náttúrunnar hendi.

Fór ekki á neinar hátíðasamkundur þetta skiptið, var upptekinn að vinna og endaði með því þegar ég loks slapp út seint um kvöldið þá var metró stöðin mín lokuð. Því þurfti ég að ganga töluvert lengra til að komast á aðra stöð og bölvaði ég því öllum hátíðahöldum og þjóðernishyggju af því tilefni.

Tags:

Spænsk ættarnöfn og dr. Duran Duran

Hér í Mexíkó sem og í hinum spænskumælandi hluta heimsins bera flest allir tvöföld ættarnöfn. Fyrra ættarnafnið er ættarnafn föðurs og hið síðara er ættarnafn móðurinnar. Sem dæmi heita synir mínir Lárusson Carpio og elskulega konan mín heitir Anel Carpio Morales. Carpio nafnið er þá síðara ættarnafn drengjanna.

Stundum kemur það fyrir að bæði fyrra og seinna ættarnafnið er það sama, sérstaklega ef um algeng ættarnöfn er um að ræða. Einn spænskukennarinn minn heitir Maria Helena Sánchez Sánchez en það ættarnafn er eitt hið algengasta.

Ég uppgötvaði um daginn að einn vinnufélaginn ber ættarnafnið Duran og því er það mögulegt að heita hér Duran Duran. Ef viðkomandi ætti eftir næla sér í doktorsgráðu væri dr. Duran Duran ekki lengur eitt furðulegasta nafn kvikmyndasögunnar heldur hversdagslegt nafn hér ytra.

Sjóndeildarhringurinn víkkar svo sannarlega við það að búa erlendis.

PS. Veit að í Barbarella hét hann víst dr. Durand Durand en ég held að flestir tengja Duran nafnið frekar við hann.

Tags:

Mexíkó 200 ára

Hér í Mexíkóborg hafa gífurleg hátíðahöld staðið yfir þar sem þess er nú minnst að 200 ár eru síðan að sjálfstæðisbarátta Mexíkó, sem þá hét Nýi Spánn, hófst gegn spænsku nýlenduherrunum. Nú er orðið svo framorðið að ég hef ekki orku í að skrifa meira um þessa merkilegu daga en vonandi gefst mér tími til þess síðar.

¡Viva México!

Tags:

Arnþór tvítugur

Arnþór litli bróðir varð tvítugur í gær og sendi ég honum hamingjuóskir með þann áfanga. Veit að honum á eftir að farnast vel sama hvað á gengur heima. Vona að þau verði ekki mörg afmælin í viðbót þar sem við verðum erlendis, held að við eigum nú inni ófáar tertusneiðar.

Innilegar heillaóskir til þín kallinn, vona að þú eigir eftir að lesa þetta. Anel, Ari og Emil senda þér kveðju.

Tags:

Ari á leið í skóla

Ari Snær var skráður í skóla nú í vikunni. Hann hefur eins og Emil verið í pössun heimavið eða hjá frænkum sínum hér í borg fram til þessa. Nú verður aldeilis breyting þar á þar sem hann er á leið í fínan einkaskóla, Colegio Williams. Sá skóli var stofnaður 1928 og er í gömlu virðulegu húsi spölkorn frá þar sem við búum. Þegar gengið er í gegnum skólahliðið liggur leiðin í gegnum fallegan garð þar sem mikið er af skrautlegum blómum. Skólabyggingin sjálf er í klassískum stíl þar sem lofthæðin er mikil, líklega í kringum 5 metrar innandyra.

Hér í Mexíkó notast flestir við skólabúninga og það verður að segjast eins og er að búningurinn sem Williams notast við er nokkuð reffilegur. Ari hefur þegar fengið peysu og vesti auk fata sem notast er við í leikfimi. Allt er þetta skreytt með skjaldarmerki skólans en við eigum eftir að kaupa skyrtur og buxur. Fínast er þó blazer jakki sem krakkarnir klæðast á mánudagsmorgnum, dimmblár jakki með gylltum hnöppum. Á hverjum mánudegi hefst skólavikan hér í Mexíkó á hátíðlegri athöfn þar sem fáninn er heiðraður, þjóðsöngurinn sunginn og þessháttar skemmtilegheit. Besti nemandinn fær þann heiður að bera fánann við þessa athöfn og þá verða allir að vera í blazernum. Hljómar allt svona semi-fasískt en svona er þetta hér vestra.

Í þessum skóla fer kennslan að helmingi til fram á ensku, allt niður í yngsta leikskólastigið en kennt er til 18 ára aldurs í þessum skóla. Mér skilst líka að það sé ætlast til að hann læri heima frá byrjun. Fyrir þá sem ekki vita er Ari þriggja ára þannig að þetta kemur manni nokkuð spánskt fyrir sjónir. Samkeppnin hér í þessu landi er svo mikil að hún hefst strax við leikskólaaldurinn. Stundum velti ég því fyrir mér hvað orðið hefði um mig í svona umhverfi, hvort að maður hefði náð á toppinn eða endað sem skóburstari á götunni.

Þetta mun hafa áhrif á daglega rútínu hér á heimilinu, Ari þarf að vera mættur í skólann 7.50 á morgnanna. Engum er hleypt inn eftir 8.00. Verður víst lítið um næturgöltur héðan í frá hjá mér nema kannski um helgar.

Sjálfur er Ari spenntur fyrir þessum nýheitum. Var vonsvikinn nú á þriðjudaginn þegar við fórum að skrá hann, hélt að hann gæti byrjað strax en skólinn hefst 23. ágúst. Man þegar að ég átti að byrja í Laugargerðisskóla 6 ára gamall í því sem þá hét forskóli 6 ára barna. Þverneitaði að fara og þurfti tiltal og nokkrar vikur þar til ég fékkst til að fara og kunni því svo vel að ég var í skóla til 27 ára aldurs og er enn að spá í frekara námi. Bæði Ari og Emil eru félagslyndari en ég var nokkurn tímann, tengist kannski því að alast upp í 27 milljóna manna borg.

Set inn mynd af Ara þegar hann verður kominn í dressið fyrir skólann í þarnæstu viku. Þetta verður bara gaman hjá honum.

Tags: ,

Tabasco

Á miðvikudaginn förum við fjölskyldan í bíltúr til Tabasco sem er eitt af ríkjum Mexíkó. Þar munum við fara í útskriftarveislu hjá einum ættingja Anelar. Ég hef aldrei komið til Tabasco áður en Íslendingar munu kannast við þetta nafn af litlum flöskum sem innhalda vinsælan kryddlög en sá er bandarískur að uppruna. Tabasco sósan heitir einmitt eftir þessu ríki Mexíkó.

Gaman verður að bæta einu ríki við í safnið en markmiðið hefur verið sett á að sækja heim öll þau ríki sem mynda Bandaríki Mexíkó sem er í raun opinbert heiti þessa lands. Mexíkó er sambandsríki 31 ríkja auk þess sem höfuðborgin þar sem við búum myndar sérstakt alríkisumdæmi, Distrito Federal.

Þar sem þetta land er vel stórt mun það taka langan tíma að heimsækja öll ríkin en ég næ því vonandi einn daginn.

Tags:

Þegar ég tók þátt í útrásinni

Allar götur síðan að íslenska efnahagsundrið snérist upp í andhverfu sína haustið 2008 og varð að íslenska efnahagsviðundrinu hefur mikið gengið á heima á Fróni. Síðustu misserin hefur allt snúist um hverjum var þetta að kenna og að sjálfsögðu sýnist þar sitt hverjum. Nýverið kom út mikil skýrsla um hrunið frá rannsóknarnefnd Alþingis sem mér skilst að hafi vakið mikla lukku hjá mörgum þar sem margir fyrrverandi góðborgarar fengu orð í eyra. Það er dálítið sérstakt að fylgjast með þessu öllu saman utan frá hér í Ameríku. Til dæmis frá því í febrúar hef ég ekki mikið verið í netsambandi og því hef ég heyrt stopular fréttir af þessum ósköpum sem virðist engan endi ætla að taka.

En til að komast út úr þessu ástandi er nauðsynlegt að uppgjör við þessa tíma fari fram og ég ætla mér því að fara fram með góðu fordæmi og skýra frá mínum þætti í útrásinni.

Mín þátttaka var bundinn við ákveðinn atburð einn fagran og sólríkan vordag hér í Mexíkóborg í mars 2008. Þá kom forseti Íslands í opinbera heimsókn ásamt miklu föruneyti og sendiherra Íslands í Bandaríkjunum hélt móttöku og bauð öllum Íslendingum búsettum hér í kokteil boð. Þarna voru meðferðis bisness fólk frá íslensku bönkunum ásamt fleirum. Merkilegast var fyrir okkur að hitta Magnús Scheving sem var að kynna Latabæ.

Eitt af því sem maður ætti aldrei að gera er að reyna að rifja upp hugsanir og tilfinningar frá löngu liðnum atburðum. Held að það sé óhjákvæmilegt að bankahrunið liti eitthvað minningar mínar af þessum degi en ég held að ég ljúgi engu þegar ég segi að mér kom þetta allt undarlega fyrir sjónir. Þegar forsetinn kom hingað til Mexíkó var ég við hávísindaleg störf við UNAM háskóla en sá skóli hefur um 300 þús nemendur sem er u.þ.b. íbúafjöldi Íslands. Nefni þetta sem dæmi til að bera saman þessi tvö lönd.

Kokteilboðið var haldið á einu fínasta hóteli borgarinnar í Oaxaca-salnum, man ég. Þar hitti ég sjálfan Ólaf Ragnar ásamt sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. Verð að viðurkenna að ég man ekki alveg hvur það var en það var einhver innvígður í Flokknum. Þarna hitti maður nokkra bankamenn en á þessum tíma var Ari við það að stíga fyrstu skrefin og fór mikill tími í að hjálpa honum að ganga um sem á þessum tíma var það eina sem hann vildi gera. Missti því dálítið af þessum viðburði en hafði þó tíma til að tala við nokkra bankamenn og spjallaði við nokkra frá Landsbankanum. Man ég var að hugsa hvað Landsbankinn ætlaði sér nú að gera í Mexíkó. Reyndar eru góð fjárfestingartækifæri í þessum heimshluta enda er þetta land víst skilgreint sem „emerging market“. Kannski ætluðu þeir að bjóða Mexíkönum upp á Icesave, hver veit.

Þáverandi menntamálaráðherra var líka með í för sem eftir hrun hefur löngum verið kennd við kúlulán. Man hún blikkaði Ara aðeins þegar þau tvö fóru á sama tíma í snakk skálina. Dorrit forsetafrú var þarna líka og hún talaði einna mest við okkur enda ágætis kerling. Fleiri nafnkunna menn þekkti ég ekki enda ekki mikið inn í málunum á Íslandi og langt um liðið síðan ég hafði skoðað Séð og Heyrt. Kannski voru einhverjir frægir bindiskarlar þarna sem nú bíða eftir kærum frá sérstökum saksóknara.

Á þessum tíma var farið að hrikta aðeins í stoðum íslensks efnahags, krónan var eitthvað farin að lækka þótt að það hafi þá ekki verið neitt til að tala um miðað við það sem á eftir fór. Verðbólgan var á uppleið og stöðugt komu einhverjar vondar fréttir um bankana. Eitthvað sem kallast tryggingarálag var mikill höfuðverkur á þessum tíma en var fyrir mér hugtak sem ég hafði aldrei heyrt áður.

Í minningunni var ég því skeptískur á þetta allt saman en kannski er það fölsk minning eftir allan gauraganginn í kringum hrun bankanna um hálfu ári síðar. Þetta var víst eitt af þessum kokteilboðum sem ritstjóri Morgunblaðsins talaði um síðar að forsetinn hafði verið marenaður í af útrásarvíkingum. Held reyndar að þetta boð hafi verið í boði íslenska ríkisins en hvað veit maður svo sem?

Þarna át maður snittur og drakk gos í góðu yfirlæti rétt fyrir ragnarök íslenska góðærisins. Jafnvel þótt ég ætti eftir að búa hér í Mexíkó allt til æviloka þá býst ég ekki við því að sjá forseta Íslands hér aftur með viðskiptaföruneyti sér við hlið. Reyndar voru þetta mjög abúrd tímar og ég er helst feginn að þeir séu liðnir og vonandi koma þeir aldrei aftur. Árin þegar nokkrir Íslendingar ætluðu sér að vera stórir kallar og gera litlu krúttlegu bankana heima að einhverjum alþjóðlegum tröllabönkum og mistókst það svo herfilega að það tekur amk áratug fyrir íslensku þjóðina að rétta sig af eftir það rugl.

Þetta er mitt uppgjör við íslensku útrásina, eina skiptið sem hægt er að segja að ég hafi tekið beinan þátt í því ævintýri. Mér líður betur að hafa játað þetta fyrir ykkur og hvet nú alla til að gera upp við sinn hlut í útrásinni og hruninu svo að íslenskt samfélag geti rétt sig við sem fyrst, bæði efnahagslega og andlega.

Tags: , , , , , ,

30

Í gær hafði þessi pláneta sem við búum á farið þrjátíu hringi í kringum sólu frá því að ég fæddist. Merk tímamót vissulega. Mikill munur er á því að vera tuttugu-og-eitthvað eða þrjátíu-og-eitthvað. Alltaf þegar að eitt árið bætist á mann tekur það tíma að venjast því. Held að í þetta skiptið verði aðlögunartíminn sérstaklega langur.

Hef alltaf verið ánægður með það að hafa fæðst á ártali sem stendur á heilum tug. Öll stórafmælin verða því á fallegum ártölum. Tvítugur árið 2000. Nú þrítugur.

Aldrei óraði mig fyrir því að ég ætti eftir að halda upp á þennan afmælisdag í Mexíkóborg. Þetta mun þó vera fjórða afmælið sem ég held hér í bæ. Maí er heitasti mánuður ársins hér í landi og því er alltaf hægt að stóla á gott veður á afmælisdaginn. Hitinn yfir daginn fer upp undir 40 gráðurnar. Þessi hiti er þó alveg hættur að angra mig, er orðinn vanur því að búa á suðlægum slóðum líklega.

Margir halda í kjölfar færslu sem birtist hér í mars að ég sé atvinnulaus. Leiðrétti þann misskilning hér með. Fékk aftur vinnu á sama vinnustað sem er í eigu Carlos Slim. Velti því stundum fyrir mér hvort aðrir Íslendingar vinna fyrir þann mikla kaupsýslumann.

Vinn fyrir mér sem skrifstofublók á kaupi sem fáum þætti boðlegt. Maður lætur sig þó hafa það meðan ég leita að einhverju betra. Það eru víst ekki alltaf jólin, sérstaklega á krepputímum.

Ég er í heildina séð nokkuð ánægður með lífið og tilveruna. Fallega konan mín er alltaf góð við mig og drengirnir einstaklega vel heppnaðir í alla staði. Kátir og heilbrigðir snáðar. Bisnessinn hjá konunni er á svo mikilli uppleið að annað eins hefur ekki sést síðan að útrásarvíkingarnir voru og hétu. Rétt er þó að taka fram að okkar bisness er mun betur rekinn en hjá þeim síðastnefndu.

Sakna þess þó að vera ekki starfandi líffræðingur eins og maður stefndi að. Hef að sjálfsögðu ekki gefist upp á því en það er erfitt í þessu landi að fá störf í þeim geira. Líftækniiðnaðurinn er líka mest í öðrum borgum hér en það er ekki mögulegt fyrir okkur að flytja eins og sakir standa.

Fyrir utan það er ég sáttur við lífið og tilveruna. Eins og ég hef vikið að áður þá er ég afar feginn að hafa ekki lent í óðærinu á Íslandi og sit því ekki uppi með óseljanlega íbúð sem keypt var á yfirverði eða bíl á myntkörfuláni. Valdi líklega rétta tímann til að flytja af landi brott.

Hvað tekur við á næstu árum er auðvitað ekkert sem maður getur spáð um. Kannski verður kreppan svo slæm að við eigum öll eftir að stunda mannát og sjálfsþurftarbúskap næstu árin. Kannski er kreppan í rénum (eins og margt bendir til) og uppsveifla handan við hornið. Veit þó að einhvern daginn munum við flytja héðan og fara aftur til hins vestræna heims. Hvaða land það verður veit nú enginn, sjáum til með það.

Á marga vini og kunningja sem eru að fara yfir 30 ára múrinn þessi misserin. Óska þeim öllum til hamingju með áfangann, þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af.

Tags: ,

Mars

Thetta verdur kannski eina bloggid í mars. Tölvumál enn í ólestri, thrjár tölvur á heimilinu, engin í lagi. Cablevision einnig med staela, ekkert internet á mínu heimili. Mig grunar reyndar ad módemid sé í lamasessi.

Tapadi vinnunni fyrir um tveimur vikum ásamt um 300 félögum mínum, kenni hnattveadingunni um. Er reyndar nokkud sama thar sem um var ad raeda skrifstofuvinnu sem átti ekki ad vera til frambúdar. Er samt svekkjandi ad missa hana, thad var ég sem aetladi ad segja upp, ekki öfugt. Einnig eyddi ég megninu af sídasta ári í ad fá útgefid atvinnuleyfi fyrir starfid, vona ad endurnýjun verdi fljótlegri.

Thykir leitt ad geta ekki bloggad oftar, hef lítid sem ekkert fylgst med fréttum sídustu tvo mánudi. Einnig hef ég ekki séd Facebook, tölvupóst né neitt af viti sídan í byrjun febrúar. Hef sjaldan eda aldrei verid jafn sambandslaus. Vona ad thad standi til bóta fljótlega.

Tags: ,

Ari þriggja ára

Þrátt fyrir að það séu næstum tvær vikur liðnar þá vil ég ekki sleppa því að minnast á afmæli Ara þann 11. janúar síðastliðinn. Drengurinn er orðinn þriggja ára og er nokkuð stoltur af þvi. Smelli inn einni mynd af kappanum svona til hátíðabrigða.

Fór vel á því að á afmælisdeginum skundaði ég niður á pósthús til að sækja jólapakkann frá Íslandi fullan af góðum gjöfum.

Annars gengur eitthvað hægt að blogga undanfarið. Ætla þó mér ekki að enda sem Facebook-vesalingur eins og hafa orðið örlög svo margra fyrrverandi bloggara.

Tags: