Archive for the ‘Mexíkó’ Category

Flutningar yfirstaðnir – yfirlit

Að flytja er ekki góð skemmtun og verður vonandi ekki endurtekið í bráð.

Nú er orðið töluvert síðan að við hjónin fórum að velta fyrir okkur að flytja þar sem gamla húsnæðið var of lítið og gamalt. Eftir að við komum heim frá Íslandi síðastliðið haust fór undirbúningur á fullt, við byrjuðum að fleygja hlutum sem við notuðum ekki eða höfðum enga þörf fyrir. Magnið af rusli sem við losuðum okkur við var ekki lítið en Anel og móðir hennar bjuggu í gömlu íbúðinni frá 1992, sjálfur safna ég ekki miklu af óþarfa en eitthvað var það nú sem fékk að fjúka.

En það er ekki nóg að fleygja notuðum hlutum og við settum íbúðina á sölu um mánaðamótin nóv-des og þar sem við áttum tvær íbúðir í sömu byggingunni stefndum við fyrst að því að selja báðar. Sú fyrri, sem er stærri og þar sem við Anel bjuggum með Ara, Emil og Ían var fljót að fara. Held að það hafi liðið 10 dagar frá því að ég hengdi upp auglýsingu (mexíkanska leiðin við fasteignasölu) utan á blokkina þar til íbúð 9 var seld. Þetta var í kringum 10 desember, ef ég man rétt.

Síðan liðu jól og áramót, kaupandinn var eldri kona, ekkja sem vantaði íbúð miðsvæðis og hún borgaði hana fljótt með reiðufé og allir pappírar voru frágegnir í lok janúar. Við fórum úr þeirri íbúð 10. febrúar og fluttum okkur niður í þá minni, sem var reyndar gamla tannlæknastofan okkar. Rebeca tengdamamma bjó þar í nokkur ár og við einhvern veginn tróðum öllu okkar dóti og okkur sjálfum þar inn.

Fljótlega tókum við á leigu geymslu og fluttum eitthvað að húsgögnum þangað þar sem þetta var ekki alveg að ganga upp enda íbúðin ofhlaðin. Með því losnaði aðeins um og við gátum komið okkur fyrir en ekki vel þó.

Áður en þetta gerðist vorum við að sjálfsögðu farin að svipast um eftir íbúð, fyrst til leigu og það voru drjúgar stundirnar sem ég eyddi í að skanna leigumarkaðinn. Einnig vorum við líka að athuga með að kaupa en í raun höfðum við ekki mikinn tíma aflögu til að eyða í þessi mál, eins furðulega og það hljómar. Alltaf nóg að gera.

Síðan gerist það einn daginn að við förum að skoða íbúðir í nýrri blokk sem verið var að klára. Mér leist ekkert á þetta, langt frá því svæði sem við vildum flytja til og var tvístígandi þar óþolinmóður yfir þessari tímasóun. Þá nefndi fasteignasalinn að þau voru einnig að selja hús og íbúðir annars staðar í borginni og ég lét til fallast, treglega þó, að fara nú og líta á hvað væri í boði. Þá kom einfaldlega í ljós að þarna voru skemmtileg lítil hús til sölu sem voru á hagstæðu verði, flunkuný með öllum nútímaþægindum. Einnig vorum við í göngufjarlægð frá World Trade Center og mikið af góðum skólum í hverfinu.

Við hófum því ferlið við að kaupa eitt stykki hús fyrir okkur og það hafðist af að skrifa undir kaupsamning í lok mars. Síðan um vorið og sumarið borguðum við innborgunina og fengum húsnæðislán hjá bankanum. Eftir mikið japl, jaml og fuður fluttum við loks inn 4. september sem fer í okkar sögubækur sem einn besti dagur ævi okkar.

Í millitíðinni seldum við hina íbúðina í ágúst og bjuggum hjá frænku Anelar í um rúmar tvær vikur til að brúa bilið milli heimila.

Síðan þá höfum við verið að koma okkur fyrir og erum reyndar enn að týna síðustu hlutina saman. Vandamálið við flutninga eru ekki stór húsgögn. Sérstaklega hér í Mexíkó þar sem maður ræður einfaldlega einhvern til að redda því og síðan fara stóru hlutirnir einfaldlega á sinn stað, hvort sem við erum að tala um þvottavélar, rúm, sófa eða eitthvað því um líkt. Vandamálið eru smáir hlutir, pappírar og alls kyns lítið dót sem safnast upp með árunum og maður tímir kannski ekki að fleygja en þá þarf að geyma þetta einhvers staðar með tilheyrandi fyrirhöfn.

En svo virðist sem að þessu ferli sé að ljúka. Margt vantar enn á heimilið, við hjónin fleygðum rúminu okkar og höfum enn ekki fengið okkur annað. Við eigum engin stofuhúsgögn og gamla sjónvarpið fékk ekki að koma með í nýja húsið enda um hallærislegan gamlan túbuskjá að ræða. Við eigum enn ekki flatskjá og höfum verið sjónvarpslaus í um mánuð. Það er reyndar ágætt, ég sakna þess ekki mikið enn sem komið er enda engin tími til að góna á imbann undanfarin ár.

Hvað um það, smán saman setjum við saman nýtt og gott heimili. Við erum öll hæstánægð, ég held sérstaklega að strákarnir hafi verið orðnir leiðir á þessu hálfgerða heimilisleysi og rótleysi. Ég skrifa nánari lýsingar á kofanum bráðlega.

Tags:

Páskafrí

Við ætlum okkur í páskafrí og ferðinni er heitið til Ixtapa, ferðamannastaðar á vesturströnd Mexíkó þar sem hægt er að busla í Kyrrahafinu og láta streitu ofurborgarinnar líða úr sér. Ég hef ekkert komist burt úr borginni síðan við komum frá Boston í september síðastliðnum þannig að þetta verður kærkomið frí.

Forsetakosningar 2012

Ekki get ég látið þetta bloggtækifæri framhjá mér fara. Forsetakosningar á laugardaginn á Íslandi og á sunnudaginn í Mexíkó. Þar sem kjörtímabilið í Mexíkó eru sex ár á móti hinu fjögurra ára íslenska tímabili gerist þetta ekki oft en þó á 12 ára fresti.

Gerðist síðast árið 2000 þegar Ólafur Ragnar tók því rólega á Fróni og var sjálfkjörinn í embættið. Þetta kosningaár í Mexíkó varð aftur á móti hið sögulegusta en þá urðu mikil valdaskipti í Mexíkó. Frambjóðandi PAN flokksins (Partido Acción Nacional) Vicente Fox sigraði þá og varð fyrsti forsetinn í 70 ár sem kom ekki úr röðum hins þaulsætna PRI flokks (Partido Revolucionario Institucional). Ef snara ætti þessum flokksnöfnum yfir á íslensku gæti PAN heitið Þjóðvaki og PRI Stofnana-Byltingarflokkurinn. Fox sat til 2006 og eftirmaður hans og núverandi forseti Felipe Calderón kemur einnig úr PAN flokknum.

Sá síðarnefndi hefur orðið umdeildur í Mexíkó vegna hinnar hörðu stefnu hans í fíkniefnamálum. Hann sigaði hernum á dópgengin með þeim árangri að frá 2006 hefur tala fallinna farið yfir 50 þúsund manns. Í raun ríkir einhverskonar borgarastríð í Mexíkó þrátt fyrir að það sé minna sýnilegt en hefðbundin átök. Þrátt fyrir að Calderón hafi í raun ekki staðið sig svo illa í öðrum málaflokkum líkt og ágætur árangur í efnahagsmálum gefur til kynna þá verður þetta arfleið hans í mexíkanskri stjórnmálasögu, forsetinn sem lagði allt undir og tapaði í þessu endalausa „stríði gegn eiturlyfjum“.

Fjórir frambjóðendur eru í framboði í Mexíkó. Núverandi valdaflokkur PAN sýndi lit og bauð fram konu í embættið en kona hefur aldrei vermt forsetastólinn þar vestra. Hún Josefina Vázquez Mota hefur þó ekki hitt á réttu nóturnar í þessari baráttu og hún virðist ætla að enda í þriðja sæti ef marka má skoðanakannanir. Skömmu áður en við fórum frá Mexíkó lýsti hún því yfir í fjölmiðlum að hún tryði enn á kraftaverk en sjaldnast er gott að stóla á þau í pólitík.

Litli maðurinn í þessum kosningum og sá sem mælist með minnst fylgi heitir Gabriel Quadri en hann býður sig fram fyrir Nueva Alianza (PANAL) eða Nýfylkinguna. Þessi flokkur er að bjóða fram í annað sinn, bauð fram fyrst 2006 og er enn að mótast. Reyndar líst mér ágætlega á Gabríel þrátt fyrir að hann líti út eins og illmenni úr Austin Powers mynd með sitt fjallmyndarlega yfirvaraskegg í gamla stílnum. Held ef hann myndi raka sig ætti fylgið eftir að stíga því af því sem ég hef séð af honum var margt ágætt og ætti alveg skilið meira en Ástþórs-fylgi í kosningunum.

Sá sem virðist ætla að hafna í öðru sæti gerði það einnig 2006 en Andrés Manuel López Obrador eða AMLO eins og hann er oft kallaður er fyrrverandi borgarstjóri Mexíkóborgar og tapaði naumlega 2006 fyrir Calderón. Einungis munaði um hálfu prósentustigi eða um 250 þúsund atkvæðum. Hann býður sig fram fyrir kosningabandalag sem leitt er af hans flokki PRD (Partido de la Revolución Democrática) og gæti útlagst Lýðræðissinnaði Byltingarflokkurinn. Aðrir flokkar í bandalaginu eru PT (Partido del Trabajo) eða Verkamannaflokkurinn og Movimiento Ciudadano sem ágætt er að þýða sem Borgarahreyfinguna, flokkur sem stofnaður var á síðasta ári úr eldri flokki, krataflokkur sem berst fyrir kerfisbreytingum í mexíkönsku stjórnkerfi. Verkamannaflokkurinn eru á pari við VG í stjórnmálum og jafnvel til vinstri við þá meðan PRD eru sósíaldemókratar.

Eins og menn kannski muna þá voru úrslit þessara kosninga dregin í efa af stuðningsmönnum Andrésar og reyndar fleirum. Múrinn birti þessa grein skömmu eftir að úrslitin lágu fyrir. Margir ásökuðu PAN um að hafa stolið sigrinum og falsað kjörseðla og lengi á eftir voru mikil mótmæli í gangi um allt land. Andrés var dubbaður upp sem „réttkjörinn forseti“ og Calderón kallaður „ólögmæti forsetinn“ og er reyndar enn kallaður svo af mörgum.

Karlinn sem mun þó líklega sigra á sunnudaginn ber nafnið Enrique Peña Nieto og yfirleitt kallaður báðum eftirnöfnum sínum. Sá er fulltrúi gamla valdaflokksins PRI sem býður fram í bandalagi við Partido Verde, Græningja eða Græna flokksins sem leggur áherslu á umhverfisvernd og baráttu gegn skipulögðum glæpum.

Peña Nieto þykir með myndarlegri mönnum sem hefur kannski skilað honum eitthvað áfram í pólitík. Hann var ríkisstjóri fjölmennasta ríkis Mexíkó sem kallast Estado de México og fyrir mörlandann er hægt að líkja því ríki við Kragann. Semsagt ríkið sem liggur í kringum höfuðborgina sjálfa, Distrito Federal eða alríkisumdæmið sem er kjarni Mexíkóborgar og saman mynda DF og Estado de México stórborgarsvæðið.

Það hljómar kannski skringilega að Mexíkanar vilji hleypa PRI aftur að kjötkötlunum eftir 12 ára útlegð en þeir sátu eins og áður sagði að völdum í um 70 ár og hafa ýmislegt á samviskunni. Flokkurinn virðist síðan þá hafa unnið eitthvað í ímynd sinni, segjast nú vera flokkur 21. aldar og séu nýr PRI og ég veit ekki hvað. Peña Nieto hefur kjörþokka með sér en virðist ekki vera með þeim sleipustu þrátt fyrir það. Frægt var í Mexíkó fyrir skömmu þegar hann sótti heim bókaráðstefnu og var spurður af fréttamanni hvort hann gæti nefnt þrjár bækur sem höfðu haft áhrif á hann á sínum ferli. Skemmst er frá því að segja að hann gat það ómögulega, tafsaði eitthvað og umlaði og náði að lokum eftir drykklangt hlé að segja Biblían en mundi þó ekki eftir fleiri bókum. Þessi uppákoma og fleira í þessum dúr hefur orðið til að draga andlegt atgervi forsetaframbjóðendans í efa.

Sjálfur hef ég ekki kosningarétt í Mexíkó en ég veit í sjálfu sér ekki hvað ég ætti eftir að kjósa. Líklega er AMLO illskásti kosturinn en mér hefur þó fundist hann koma frekar illa út í umræðuþættum. Leggur yfirleitt höfuðáherslu á að rægja Peña Nieto í stað þess að koma sínum málstað á framfæri. Reyndar er nokkuð furðulegt að í landi þar sem yfir 100 milljónir búa að ekki sé hægt að finna betri forsetaframbjóðendur, mér líst frekar illa á öll fjögur.

Heldur mun ég ekki kjósa í þeim íslensku vegna smá klúðurs, hefði kosið Ara en það verður bara að hafa það. Þrátt fyrir að mér líki í raun ekki illa við Ólaf en hann bauð mér í kokkteilboð fyrir nokkrum árum úti í Mexíkóborg, geri aðrir betur. Held að það væri ágætt að breyta til á Bessastöðum en ég mun ekki gráta þótt Ólafur sitji eitthvað áfram þar.

Svona hljóðaði nú fréttaskýring dagsins.

Tags: , , , , , , , , ,

Búið

Þá er 2011 á enda. Hjá mér verður þess að sjálfsögðu helst minnst fyrir það að Ían Magni fæddist þann 17. janúar. Allt hitt verður ómerkilegt í samanburði við það.

Ef nefna ætti eitthvað annað þá væri það helst nýja tannlæknastofan sem er aðeins á eftir áætlun en er gott sem tilbúin. Einnig skiptum við um bíl sem var framför fyrir okkur þrátt fyrir nokkrar óvæntar ferðir á verkstæði með gripinn.

Annars í heildina séð þá var þetta mikið framfaraár fyrir okkur.

Á nýju ári er markmiðið sett á að flytja í betra húsnæði, helst einbýlishús. Held að íbúðin sem við höfum búið í undanfarin ár verði seint talin íbúðarhæf á Fróni og við orðin leið að búa fimm í lítilli tveggja herbergja íbúð.

Sjáum til hvernig það gengur.

Gleðilegt ár!

Nýr bisness

Við Anel höfum lengi rætt um að koma á laggirnar nýju fyrirtæki en hingað til hefur ekkert orðið úr neinu. Lengi stóð til að opna veitingastað, á árinu 2009 en það varð aldrei neitt úr því vegna lánsskorts. Sjálfur er ég með eitt verkefni í gangi en veit ekki hvenær það kemst af hugmyndastiginu, vonandi einhvern daginn.

Núna erum við þó loksins komin í framkvæmdagírinn en hugmyndin er ekkert sérstaklega frumleg. Við erum að vinna við nýja tannlæknastofu sem staðsett er í verslunarmiðstöðinni Plaza Central hér í Mexíkóborg. Þetta fór af stað í sumarlok og við getum vonandi opnað í annarri viku desember. Þetta verður svo minn vinnustaður þar sem ég mun vera alráður og gína yfir öllu.

Því hef ég undanfarnar vikur eða mánuði verið á ferðinni í byggingarvöruverslunum og keypt efni hér og þar. Nokkuð hátt er til lofts í þessu rými sem við nældum okkur í og því var afráðið að smella annari hæð fyrir skrifstofu o.fl. Því hef ég fjárfest í um tonni af stáli sem notað var í burðargrind, flísar á gólfin, MDF plötur fyrir gólfið á hæðinni, óheyrilegu magni af vírum og köplum og rörum og ég veit ekki hvað.

Staðan þessa stundina er að búið er að setja upp burðargrindina og rafsjóða allt klabbið saman svo það haldi mér uppi. Flísarnar eru komnar á neðri hæðina og búið er að festa MDF plöturnar og vinna töluvert í pípulagningum og raflögnum. Síðar verður farið í að setja upp milliveggi með gifsplötum, málað og þetta verður þá nánast tilbúið til innréttingar.

Til stendur að hafa þarna þrjá tannlæknastóla og að setja einnig upp vinnustofu fyrir hina ýmsu tannsmíði, falskar tennur o.fl. Mér líst nokkuð vel á staðsetninguna og vona að þetta verði öflugur bisness þegar fram í sækir, veitir ekkert af á þessum síðustu og verstu tímum.

Tags:

31

Varð 31 árs á sunnudaginn. Finnst það frekar lítilfjörlegt miðað við stórafmælið í fyrra þótt að alltaf sé gaman að eiga afmæli. Fórum öll í skemmtigarðinn Six Flags af þessu tilefni og stefnt er að því að setja inn einhverjar myndir frá því þegar tími gefst.

Annars náðum við því að skrásetja minnsta drenginn lögformlega í dag en það er sérstakt ferli sem þarf að ganga í gegnum til að fá útgefið fæðingarvottorð. Nafnið verður þó ekki gefið upp ennþá því Anel vill fyrst halda nafnaveislu þannig að lesendur verða hér að bíða enn spenntir um stund.

Tags: ,

Frí

Við hjónin kunnum ekki að taka okkur frí. Hér er aldrei stoppað, botnlaus vinna og uppbygging. Árangur, áfram ekkert stopp á þessum bæ.

Nú verður ekkert unnið fram á mánudag eftir páska. Tilfinningin er dálítið skrítin. Helst erum við að spá í að keyra til Hidalgo ríkis á morgun og skreppa þar í sund en þar munu vera heitar laugar, svona til að gera eitthvað.

Er að myndast við að mála barnaherbergið blátt fyrir Ara og Emil þessa stundina, hér er komið fram yfir miðnætti en svefn er jú einungis fyrir dugleysinga.

Höfum fest kaup á þriðja tannlæknastólnum og bisnessinn blómstrar sem aldrei fyrr. Vorið er gengið í garð hér í Mexíkó sem þýðir að hér er alltaf vel heitt, dag sem nætur.

Sá minnsti er orðinn nokkuð stór og pattaralegur og dafnar vel.

Annars er allt ágætt að frétta héðan.

Tags: ,

Sagan af því þegar sá minnsti fæddist

Bloggskortur virðist ætla að vera hér ráðandi þrátt fyrir vonir um að úr myndi rætast þetta árið. Ástæðan er ekki andleysi heldur tímaleysi og misjafn netaðgangur.

Nú þegar færi gefst ætla ég setja hér niður söguna af því þegar þriðji sonurinn fæddist þann 17. janúar síðastliðinn. Sú fæðing er einn eftirminnilegasti dagur ævi minnar þar sem þeim stutta lá svo sannarlega á að sjá heiminn.

Allt byrjaði þetta síðla kvölds á tannlæknastofu okkar hjóna hér í World Trade Center. Þar sem þetta fyrirtæki okkar hefur stækkað síðustu misserin vorum við Anel að fara yfir nokkrar tölur, aðallega til að vita hvað við skulduðum okkar sérfræðingum. Þeir koma tvisvar eða þrisvar í viku til að annast fyrir okkur sérhæfðar skurðaðgerðir, tannréttingar og aðrar slíkar meðferðir.

Klukkan var orðin ansi margt þegar við lukum þessu en við vildum klára þetta áður en haldið væri til Cuautla þar sem fæðingin átti að eiga sér stað. Cuautla er lítil borg í Morelos ríki ekki langt frá Mexíkóborg. Þar býr móðirsystir Aneler ásamt sínum manni en hann er kvensjúkdómalæknir. Ari og Emil fæddust þar í hans umsjá þar sem um keisaraskurð var að ræða í báðum tilfellum. Við höfum farið á einkaspítala þar vegna þess að opinber sjúkrahús hér eru nokkurn veginn á mörkunum að vera boðleg.

En hvað um það. Þegar allar tölur voru komnar á hreint fórum við að tygja okkur til heimfarar. Anel stóð upp til að ganga frá einhverjum áhöldum og þá vildi ekki betur til en svo að legvatnið fór veg allrar veraldar beint á gólfið á okkar fínu tannlæknastofu. Hríðirnar hófust einnig nánast samstundis. Líklega hefur vantað um hálftíma uppá miðnætti þegar þetta átti sér stað.

Nú voru hin títtnefndu góð ráð svo sannarlega dýr. Eftir hálf örvæntingarfull símtöl við okkar ágæta lækni ákváðum við að fara einfaldlega beint til Cuautla. Ekki nokkur tími var til að fara heim til að taka með sér töskur eða farangur. World Trade Center er sunnarlega í Mexíkóborg og Morelos ríki liggur fyrir sunnan borgina þannig að þetta lá ekki svo illa við. Þó var það erfiðasta bílferð sem ég hef farið með Anel æpandi af kvölum við hlið mér, akandi eins hratt og okkar ágæti Renault Clio komst en til að komast þangað þarf að keyra yfir fjallgarð sem skilur Mexíkódalinn frá Morelos.

Vegurinn er þó reyndar góður og ég var á um 150 km/klst mest alla leiðina. Clio er enginn sportbíll en þetta hafðist á um klukkutíma. Venjulega tekur hátt í tvo tíma að keyra þetta en það var á þessum tíma engin umferð.

Læknirinn okkar, Rodolfo, beið eftir okkur á spítalanum og Anel var drifin beint á skurðarborðið. Þar fæddist svo þriðji sonurinn og var hann við bestu heilsu og hefur verið það síðan. Þetta var þó nokkuð óheppilegt, sérstaklega fyrir Anel, þar sem skammt var liðið frá hinum aðgerðunum og því var slæmt að hún skyldi fá hríðir. Tók það því mun lengri tíma fyrir hana að jafna sig og hún er reyndar ekki fullkomnlega komin yfir þessa aðgerð enn. Þetta hefur þó gengið framar vonum og hún er nánast orðin góð á ný.

Sá stutti hefur braggast vel og er nú kominn í 6,6 kíló tveggja mánaða gamall en hann nærist eingöngu á móðurmjólkinni. Fór fljótt að brosa framan í heiminn og sefur mun værar en bræður hans gerðu. Fór strax í annarri viku að sofa allar nætur og rumskar ekki frá 11 á næturnar til 6 eða 7 á morgnanna. Hann er því hið þægilegasta kríli.

Drengurinn hefur þegar fengið sitt nafn og það verður tilkynnt fljótlega. Vegna fyrri reynslu með Emil sem skipti tvisvar um nafn áður en það rétta fékkst vil ég ekki segja til um nafnið fyrr en drengurinn verður skrásettur löglega hér í landi en það er heljar mikill ferill því hér í landi er skrifræðið allt um ráðandi í þessu sem og öðru. Geri ég því ráð fyrir að næsta blogg fjalli um nafn drengsins og hvernig það er tilkomið.

Tags:

Brakandi ferskt ár

Hér er víst komið nýtt ár 2011. Ekkert sérstaklega fallegt ártal en bind samt miklar vonir við þetta ár. Ég vona að allir sem muna eftir mér hafi haft það gott um jól og áramót. Hérna voru jólin frekar í daufari kantinum þetta árið en maður kvartar ekkert yfir því.

Ákveðin tímamót verða hjá okkur um þessa dagana. Von er á þriðja drengnum í þessum mánuði og allt gengur það vel hjá Anel. Höfum þegar ákveðið að gefa ekkert upp um nafngiftir fyrr en drengurinn verður skráður hér opinberlega en líklega er amk fyrra nafnið þegar fundið, sjaldgæft nafn sem þekkist vart á Íslandi en er þó skráð hjá Mannanafnanefnd.

Rekstur tannlæknastofunnar gengur sífellt betur og konan hefur bætt við sig diplómu í tannígræðslum. Þessar tannígræðslur eru sænskar að uppruna og ganga undir nafninu Nobel. Þetta mun vera nýjasta nýtt í tannlækningum, í stað þess að fá falskar eru nýjar tennur skrúfaðar upp í kúnnana og eru jafnvel betri en þær upprunalegu.

Auk Anelar vinna nú sex manns hjá okkur þar af tvær í fullu starfi við aðstoð og markaðssetningu. Hinir fjórir eru tannlæknar sem koma ýmist á vissum dögum eða part úr degi. Þetta fer því að verða alvöru bisness og markmiðið er að opna nýja tannlæknastofu á þessu ári.

Við höfum einnig verið að vinna í öðrum verkefnum, ekkert þó komið enn sem kalla má áþreifanlegt en það breytist vonandi í þessum mánuði þar sem pantanir voru gerðar fyrir nokkrum vikum. Vil eiginlega ekki gaspra meira um þessi verkefni þangað til við verðum komin með eitthvað í hendurnar.

Vona að þetta verði betra bloggár en síðastliðin ár en það kemur í ljós með tímanum.

Gleðilegt nýtt ár öll!

Tags: ,

Enskunám Ara

Nú hefur komið á daginn eftir frumsýningu myndarinnar Marcelino Pan y Vino að senurnar með Ara voru klipptar burt. Voru frekar mikil vonbrigði en þar sem myndin sjálf er óttalegt drasl þá grætur maður það ekki mikið. Kannski verður hægt að sjá hann í DVD útgáfunni, hvur veit.

Annars gengur Ara vel í skólanum. Hann hefur lært heilmikið en það merkilegasta fyrir mér er hvernig hann hefur lært þónokkuð í ensku. Um daginn sönglaði hann í baði, „My name is Ari, would you like to play?“ þegar hann var rétt byrjaður í skólanum. Nokkru síðar taldi hann fyrir okkur upp að tíu á ensku án þess að blikna. Nú um helgina söng hann eftirfarandi kvæði fyrir okkur, hann kann líka spænsku útgáfuna.

Four little monkeys jumping on a bed

one jumped up and bumped his head.

Mom called the Doctor and the Doctor said

no more monkeys jumping on a bed.

Mér finnst þetta nokkuð merkilegt miðað við að hann er enn þriggja ára. Framburðurinn hjá honum er líka stórgóður.

Hann hefur líka lært margt fleira t.d. í stærðfræði, lestri, föndri ásamt fleiru. Hann hefur alltaf einhver heimaverkefni, m.a. er ein bók einungis fyrir lífsgildi. Á sérhverjum degi eigum við að ræða við Ara um ákveðna hluti, t.d. um að bera virðingu fyrir öðru fólki, stunda náttúruvernd og hvernig koma skal fram við skólafélagana. Svo verðum við að tjá það einhvern veginn, höfum yfirleitt farið ódýru leiðina og klippt út myndir úr tímaritum og límt inn. Eitthvað sem er gert mikið af í leikskólum hér ytra.

Nú vantar mig allan samanburð við íslenska leikskóla en ég hef það á tilfinningunni að leikskólabörn hér ytra læri meira í skólanum. Plús að prestar eru ekki velkomnir hér inn á gafl með fagnaðarerindið, nema að um kaþólska skóla sé að ræða. Ég er því enn sem komið er mjög sáttur við skólann hans og ég vona að það breytist ekkert.

Tags: , ,