Archive for the ‘Ljóð’ Category

Fyrripartur II

Liðin eru meir en þrjú ár síðan að Fyrripartur I birtist hér og því er mál til komið að koma með annan. Nú þegar lítur út fyrir að helsta skemmtan ungmenna í framtíðinni á Íslandi verði að koma saman í hálfköruðum húsgrunnum undir segldúki og kveða rímur við kertaljós (ESB tók allt rafmagnið) þá er rétt að hefja æfingar í ljóðlistinni. Eina leiðin út úr kreppunni er að yrkja sig frá henni.

Svona hljóðar fyrripartur dagsins, botnið í athugasemdakerfi eða sendið póst á larus (a) kommunan.is.

Þungar eru þrautir landans,

þykir erfitt ástandið

Tags:

Golgata-Móri snýr aftur

Enn og aftur hafa páskarnir liðið hjá. Hér í Mexíkó er enginn munaður eins og annar í páskum enda skilst mér að það sé uppfinning verkalýðsfélaga á klakanum. Páskaegg eru ekki hefð hér en þó er hægt að finna þau í ýmsum nýlenduvöruverslunum. Við splæstum í einn súkkulaðiunga með pípuhatt þar sem eggin sjálf voru í dýrari kantinum, svona til að halda í hefðina. Konan vill koma á þeirri hefð á okkar heimili að drengirnir fái að hakka í sig súkkulaðiegg á páskadag að hætti Íslendinga. Ekki kvarta ég yfir því.

Páskarnir sjálfir verða annars alltaf undarlegri finnst manni þótt boðskapurinn sjálfur breytist náttúrulega ekki. Einkasonur guðs var að sögn tekinn af lífi fyrir u.þ.b. 20 öldum á ferlega viðbjóðslegan hátt til að guð gæti fyrirgefið mönnum syndir sínar. Þessi sonur er í ýmsum túlkunum kristinna trúflokka einnig guð þannig að guð framdi sjálfsmorð til að hann gæti fyrirgefið mannfólkinu. Meintur dauðdagi var svo bara allt í plati því síðar reis þessi einkasonur guðs, sem var hann sjálfur, upp frá dauðum alveg sprellfjörugur. Þetta finnst kristnum mönnum alveg ótrúleg fórnfýsi og örlæti.

Í kaþólsku landi eins og Mexíkó hafa menn mikla skreytiþörf. Fyrir utan kirkjuna í götunni minni hafa þeir sett líkneski af Jesú hangandi á krossinum með skælandi Maríu mey fyrir neðan. Rómverska hermenn og lærisveina má þar einnig sjá og svo er Júdas hangandi í snörunni í einu tré með sjálfan Satan haldandi á þríforknum fyrir neðan. Þetta er reyndar árlegur viðburður að sjá þessa sýningu og alltaf er hún jafn ósmekkleg eins og svo margt sem tengist kaþólskunni.

Já páskarnir eru skrítin skepna. Sjálfur kýs ég að halda þá sem vorhátíð og hátíð súkkulaðis. Meint upprisa Golgata-Móra og allur sá draugagangur á ekki við mig. Reyndar held ég að flest skynsamt fólk trúi engu af þessum sögum. Læt Helga Hós eiga lokaorðið um þetta.

Krosslafshræ við láð varð laust
ljótt með kauna aman
til himna eins og skrugga skaust
með skít og öllu saman.

Tags: , , , ,

Endurútgáfa Tíu Lítilla Negrastráka eðlilegt framhald klámvæðingarinnar?

Það er hreint út sagt dásamlegt á stundum að lesa fréttir af því hvað ber helst til tíðinda á Íslandi. Frónverjar ættu að hafa það í huga hvílík forréttindi það eru að geta haft áhyggjur af því hvort að tveggja ára börn séu í bílstól í umferðinni, sótt minningarathöfn um látna hunda og hvort að barnabækur innihaldi misvísandi siðferðisboðskap. Flestar aðrar þjóðir gæfu mikið fyrir að hafa þessi vandamál.

Mín skoðun á Tíu Litlum Negrastrákum er sú að hér er um eðlilegt framhald klámvæðingarinnar að ræða sem nú tröllríður hinum siðlausa vestræna heimi. Skoðum eftirfarandi vísu.

Fimm litlir negrastrákar héldu að þeir væru stórir einn þeirra fékk á hann en þá voru eftir fjórir.

Ekki gæti ég lesið þetta kvæði fyrir hann Ara minn án þess að hlæja mikið. Kannski er það bara minn innri dóni.

En þegar þetta er sett í eðlilegt samhengi við íslenska alþýðuljóðlist þá er ekki svo fjarstæðukennt að lesa eitthvað klúrt út úr þessari vísu. Íhugum eftirfarandi orð Megasar í laginu „Borðið þér orma frú Norma?“.

Ramses annar hann var alltaf að heiman eiginkonan fékk varla að sjá hann en hann eignaðist á flakkinu áttatíu börn hann fékk allverulega, sem maður segir, á hann það er oft þannig þegar maður á annað borð er kominn af stað

Semsagt, Tíu Litlir Negrastrákar eru því rasískar bókmenntir með klámfengnum undirtón. Ég legg hér með til að kvæðinu verði breytt í Tíu Lítil Grjón svo að kynjasjónarmiðin séu virt og til að hægt sé að gera lítið úr öðrum þjóðfélagshópum en negrum, okkur hinum og börnunum okkar til ánægju og yndisauka.

Nýtt landslag

Heyrið sökkva á heiðum hveri, heyrið álftir drukkna í veri: Íslands er það lag. Heyrið túrbínu taktfast duna, trukk á fjallaslóðum bruna: Íslands er það lag.

Leirburður 2.0

Leirburður gærdagsins var saminn rétt fyrir svefninn og ber þess merki. Nokkrar bragfræðireglur voru brotnar svo sem reglan um höfuðstaf. Mundi kom með betri útgáfu af kvæðinu sem sjá má hér að neðan.

Annars minnir þetta mig á að ég ætlaði alltaf að koma með fleiri fyrriparta til að botna hér, lesendum til ánægju og yndisauka.

Margir á kjördaginn völdu vaffið,
valt og framsókn á bólakaf.
Skjótt þó andstöðu kólnaði kaffið,
kratarnir sem fyrr svíkja alltaf.

Leirburður

Völdu margir á kjördaginn vaffið og framsóknin valt á bólakaf Kólnaði þó skjótt andstöðukaffið kratarnir sem fyrr svíkja alltaf

Samtal við Svía

Ég átti hálf-vandræðalegt samtal við sænskan samstúdent minn á labbanum fyrir nokkrum dögum. Samtalið var vandræðalegt vegna þess að ég þurfti að útskýra fyrir honum hvernig ástandið er heima á Íslandi í menntamálum. Jú, jú flott er, íslenska ríkið stendur sig betur en það króatíska í útgjöldum til menntamála, klöppum fyrir því. En það væri nú hægt að gera eitthvað betur.

Svíinn byrjaði á því að spyrja mig hvað mér þætti um sænskt menntakerfi, hvort að háskólinn í Skövde stæðist væntingar og þar fram eftir götunum. Ég sagði eins og er að ég væri ánægður með námið og skólann, nánast að öllu leiti. Sagðist telja að gæði námsins væri góð og það ætti eftir að nýtast manni vel í framtíðinni. Svo fór að versna í því.

Aftur spurði Svíinn hvort að á Íslandi væri svipað skólakerfi, hvort að það væri opinbert og ókeypis að mestu eða hvort að það væru einungis einkaskólar þar nyrðra. Ég sagði að það væri bæði, en raunvísindanám færi einungis fram í Háskóla Íslands sem er rekinn af ríkinu og er eiginlega ekki ókeypis þar sem innritunargjöldin eru komin upp í u.þ.b. 500 evrur á ári. Svíanum fannst það undarlegur ríkisskóli með svo há skólagjöld. Ekki bætti það úr skák þegar ég sagði honum að námsmenn geta einungis tekið lán en styrkir eru ekki fáanlegir, minnsta kosti ekki á lægri skólastigum.

Hann fór þá að spyrja út í stefnu stjórnvalda, því algengt er að ríkisstjórnir þróaðra landa leitist við að styðja og hvetja ungt fólk til háskólanáms. Ég sagði honum að mín ríkisstjórn hefur meiri áhuga á stóriðjuframkvæmdum og þungaiðnaði. Þetta fannst honum agalegt að heyra, stórar verksmiðjur á Íslandi, afhverju? Hvað um ferðamannaiðnaðinn og þess háttar? Hin víðfræga náttúra landsins, reyna menn ekki að færa sér hana í nyt?

Ég hafði eiginlega ekki geð í mér til að segja frá því að nú er að ljúka stærstu manngerðu náttúruröskun Íslandssögunnar. Þarna varð mér það endanlega ljóst að ég skammast mín fyrir stjórnvöld heima, fyrir skammsýni þeirra, gerræðislega stjórnarhætti og hreint út sagt heimsku þeirra. Sem betur fer var komið að mér að nota pH mælinn þannig að ég gat eytt þessu tali.

Ó, leyf mér, Drottinn, að deyja dapurt er mannfólkið því Fósturlandsins Freyja er farin í álverið

Ljóð dagsins

Sigurvissann sé ég hann
með sveip í hári.
Í fjórða sætið – Sigurður Kári!

höf. Halldór Blöndal #

Botnun fyrripartsins

Að botna fyrriparta er gamall og góður þjóðlegur siður og ég hélt að hagyrðingar ættu eftir að streyma hér inn á síðuna mína til að botna minn fyrsta fyrripart. Hvað gerist, jú hreyfimyndalistamaðurinn Siggi Tomm byrjar á því að brjóta allar hefðir og venjur i stökugerð og bætir svo gráu ofan á svart með því að setja síðar inn einhvert nútímalegt runuljóð sem skortir alla fágun, hrynjanda, rím eða allt það sem gerir ljóð gott. Gulli vinnur þessa fyrstu fyrripartakeppni með yfirburðum enda sá eini sem tók þetta alvarlega. Skammarverðlaunin hlýtur Davíð frá Norðurbrú fyrir að bíta höfuðið af skömminni og rifja upp texta einhverrar verstu hljómsveitar sem uppi hefur verið á Íslandi, Saktmóðugur. Sló hann jafnvel Sigga út í ósmekklegheitum. Hver sá sem minnist aftur á þá grúppu hér á minni síðu verður settur í lífstíðar IP bann.

Allavega, næst þegar að ég set fram fyrripart þá má Sigurður frá Hlíðum ekki vera með.

Uppfært. Jæja, bættist einn við í viðbót sem tók þetta alvarlega. Fleiri mega að sjálfsögðu spreyta sig ennþá.

Fyrripartur

Botnið nú þetta.

Barst að utan boðin góð Bush vill þotur flytja