Archive for the ‘Lífið’ Category

Kaffi með sítrónubökubragði

Ekki jafnslæm hugmynd og ég hélt. Kannski maður kaupi sér annað plastmál við tækifæri.

Tags:

Emil í bleyjuauglýsingu/Ari í kvikmynd

Ferðin til Tabasco verður víst að bíða um sinn þar sem Emil litli fékk sína fyrstu vinnu í dag. Hann verður einn af þremur börnum í bleyjuauglýsingu fyrir Huggies og munu tökur fara fram á miðvikudaginn og fimmtudaginn. Ég vona að þessi auglýsing endi á Youtube svo ég geti smellt henni hérna inn.

Minnir mig einnig á það að ég hef enn ekki sett neitt á bloggið um fyrsta hlutverk Ara en hann lék í kvikmynd fyrr á þessu ári sem verður frumsýnd í nóvember. Mun sú mynd bera titilinn Marcelino pan y vino og er endurgerð af frægri spænskri mynd sem kom út 1955.

Aðalsöguhetja myndarinnar er drengurinn Marcelino sem er munaðarlaus og elst upp í munkaklaustri. Söguþráðurinn er eitthvað á þá leið að hann verður vitni af kraftaverki þegar hann býður kristlíkneski brauð að snæða og við það lifnar líkneskið við, fær sér brauðbita og kynnir drenginn svo fyrir móður sinni. Þessi mynd er víst afar vinsæl í spænskumælandi löndum.

Ari fer með hlutverk Marcelino þegar hann er um tveggja ára. Minnir að fjögur börn fari með hlutverk Marcelinos en aðalhlutverkið er í höndum fimm ára drengs. Ari mun birtast í tveimur eða þremur senum í upphafi myndarinnar en önnur tvö börn leika Marcelino þegar hann er enn yngri.

Minnir að tökurnar hafi farið fram í apríl en ég komst ekki sjálfur þar sem ég þurfti að vinna eins og þægur launaþræll. Anel fór með drengjunum og það var víst spes upplifun, Ari fékk m.a. sitt eigið hjólhýsi meðan á tökum stóð. Að sjálfsögðu var allt uppihald frítt en tökur fóru fram í þorpi einu um tveggja tíma akstur frá Mexíkóborg skammt frá Toluca í Estado de México.

Við bíðum spennt eftir frumsýningardeginum, verður áhugavert að sjá Ara á hvíta tjaldinu og líklega verður hans getið á imdb.com. Vona að strákarnir verði frægir og ríkir einn daginn þannig að ég geti tekið því rólega í ellinni.

Tags: , ,

Grikkir

Ég er kannski illa innrættur en ég varpa öndinni léttar eftir að í ljós kom að það fannst í Evrópu þjóð sem slær Íslendinga út í fjármálaóreiðu og öllu því apaspili. Var reyndar að heyra það að eitt slagorðið sem hrópað er í Aþenu þessa dagana er „Ekki Ísland!“. Segir sitt um stöðu Íslands í dag en ég held að það sé einum of seint fyrir Grikkina að stunda þessar upphrópanir. Þeir eru það djúpt sokknir. Evruþjóð að leita á náðir AGS, þvílík niðurlæging.

Annars er ég orðinn hundleiður á þessari kreppu, fer ekki góðærið að koma rétt bráðum?

Tags: ,

30

Í gær hafði þessi pláneta sem við búum á farið þrjátíu hringi í kringum sólu frá því að ég fæddist. Merk tímamót vissulega. Mikill munur er á því að vera tuttugu-og-eitthvað eða þrjátíu-og-eitthvað. Alltaf þegar að eitt árið bætist á mann tekur það tíma að venjast því. Held að í þetta skiptið verði aðlögunartíminn sérstaklega langur.

Hef alltaf verið ánægður með það að hafa fæðst á ártali sem stendur á heilum tug. Öll stórafmælin verða því á fallegum ártölum. Tvítugur árið 2000. Nú þrítugur.

Aldrei óraði mig fyrir því að ég ætti eftir að halda upp á þennan afmælisdag í Mexíkóborg. Þetta mun þó vera fjórða afmælið sem ég held hér í bæ. Maí er heitasti mánuður ársins hér í landi og því er alltaf hægt að stóla á gott veður á afmælisdaginn. Hitinn yfir daginn fer upp undir 40 gráðurnar. Þessi hiti er þó alveg hættur að angra mig, er orðinn vanur því að búa á suðlægum slóðum líklega.

Margir halda í kjölfar færslu sem birtist hér í mars að ég sé atvinnulaus. Leiðrétti þann misskilning hér með. Fékk aftur vinnu á sama vinnustað sem er í eigu Carlos Slim. Velti því stundum fyrir mér hvort aðrir Íslendingar vinna fyrir þann mikla kaupsýslumann.

Vinn fyrir mér sem skrifstofublók á kaupi sem fáum þætti boðlegt. Maður lætur sig þó hafa það meðan ég leita að einhverju betra. Það eru víst ekki alltaf jólin, sérstaklega á krepputímum.

Ég er í heildina séð nokkuð ánægður með lífið og tilveruna. Fallega konan mín er alltaf góð við mig og drengirnir einstaklega vel heppnaðir í alla staði. Kátir og heilbrigðir snáðar. Bisnessinn hjá konunni er á svo mikilli uppleið að annað eins hefur ekki sést síðan að útrásarvíkingarnir voru og hétu. Rétt er þó að taka fram að okkar bisness er mun betur rekinn en hjá þeim síðastnefndu.

Sakna þess þó að vera ekki starfandi líffræðingur eins og maður stefndi að. Hef að sjálfsögðu ekki gefist upp á því en það er erfitt í þessu landi að fá störf í þeim geira. Líftækniiðnaðurinn er líka mest í öðrum borgum hér en það er ekki mögulegt fyrir okkur að flytja eins og sakir standa.

Fyrir utan það er ég sáttur við lífið og tilveruna. Eins og ég hef vikið að áður þá er ég afar feginn að hafa ekki lent í óðærinu á Íslandi og sit því ekki uppi með óseljanlega íbúð sem keypt var á yfirverði eða bíl á myntkörfuláni. Valdi líklega rétta tímann til að flytja af landi brott.

Hvað tekur við á næstu árum er auðvitað ekkert sem maður getur spáð um. Kannski verður kreppan svo slæm að við eigum öll eftir að stunda mannát og sjálfsþurftarbúskap næstu árin. Kannski er kreppan í rénum (eins og margt bendir til) og uppsveifla handan við hornið. Veit þó að einhvern daginn munum við flytja héðan og fara aftur til hins vestræna heims. Hvaða land það verður veit nú enginn, sjáum til með það.

Á marga vini og kunningja sem eru að fara yfir 30 ára múrinn þessi misserin. Óska þeim öllum til hamingju með áfangann, þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af.

Tags: ,

Apríl

Þetta netleysi er ekkert sniðugt til lengdar.

Mars

Thetta verdur kannski eina bloggid í mars. Tölvumál enn í ólestri, thrjár tölvur á heimilinu, engin í lagi. Cablevision einnig med staela, ekkert internet á mínu heimili. Mig grunar reyndar ad módemid sé í lamasessi.

Tapadi vinnunni fyrir um tveimur vikum ásamt um 300 félögum mínum, kenni hnattveadingunni um. Er reyndar nokkud sama thar sem um var ad raeda skrifstofuvinnu sem átti ekki ad vera til frambúdar. Er samt svekkjandi ad missa hana, thad var ég sem aetladi ad segja upp, ekki öfugt. Einnig eyddi ég megninu af sídasta ári í ad fá útgefid atvinnuleyfi fyrir starfid, vona ad endurnýjun verdi fljótlegri.

Thykir leitt ad geta ekki bloggad oftar, hef lítid sem ekkert fylgst med fréttum sídustu tvo mánudi. Einnig hef ég ekki séd Facebook, tölvupóst né neitt af viti sídan í byrjun febrúar. Hef sjaldan eda aldrei verid jafn sambandslaus. Vona ad thad standi til bóta fljótlega.

Tags: ,

Lengi er von á einum

Ég er ekkert hættur bloggi ef aðdáendur mínir voru farnir að óttast það. Tölvan mín var send í yfirhalningu og á sama tíma dó endanlega rafhlaðan í Makka konunnar þannig að við vorum sambandslaus um hríð.

Makkinn er kominn í gagnið en hann er yfirleitt ekki hér heima við þannig að ég sit nú á netkaffihúsi og pìkka þetta inn. Bloggið má ekki sálast þótt að tölvurnar bregðist.

Annars er ekki mikið um að vera í Mexíkó. Vinn eins og skepna daginn út og inn og allar helgar. Líklega er það eins og það á að vera.

Hef aftur blogg þegar sambandið verður orðið skikkanlegra. Nenni ekki að blogga án íslensks lyklaborðs.

Tags: ,

Ari þriggja ára

Þrátt fyrir að það séu næstum tvær vikur liðnar þá vil ég ekki sleppa því að minnast á afmæli Ara þann 11. janúar síðastliðinn. Drengurinn er orðinn þriggja ára og er nokkuð stoltur af þvi. Smelli inn einni mynd af kappanum svona til hátíðabrigða.

Fór vel á því að á afmælisdeginum skundaði ég niður á pósthús til að sækja jólapakkann frá Íslandi fullan af góðum gjöfum.

Annars gengur eitthvað hægt að blogga undanfarið. Ætla þó mér ekki að enda sem Facebook-vesalingur eins og hafa orðið örlög svo margra fyrrverandi bloggara.

Tags:

Jól, áramót o.s.frv.

Vona að lesendur mínir hafi haft það gott um jólin. Sjálfur hafði ég það nokkuð gott, fékk saltfisk á aðfangadag en það er einn vinsælasti hátíðarmaturinn hér í landi.

Ég óska ykkur öllum velfarnaðar á næsta ári. Ártalið 2010 er falleg tala, vona að árið sjálft verði líka fagurt og mannbætandi.

Tags: , ,

Brjóstmylkingar

Emil Sær er alveg við það að falla úr flokki brjóstmylkinga (skelfilega er þetta erfitt orð). Hefur ekki fengið sopa frá mömmu sinni í tvo sólarhringa og fær þá væntanlega aldrei nokkuð meir mjólkurkyns úr þeirri átt. Gott að þessum hluta er lokið, eitt af þessum stóru skrefum í lífi ungbarna. Hann er einnig farinn að labba meðfram veggjum og húsgögnum en það er enn eitthvað í að hann fari að ganga sjálfur óstuddur.

Annars eru drengirnir báðir ljúfir og góðir, höfum verið einstaklega heppin með þá báða. Heilsuhraustir og kátir piltar. Reyndar fékk Emil einhvern vírus um daginn og fékk leiðinda bólur á andlit, handleggi og fætur. Þær eru reyndar að hörfa en hann hefur haft þær í u.þ.b. þrjár vikur. Anel fór með drenginn til læknis og hann sagði henni hvaða veira var þar að baki en hún gleymdi síðan nafninu þegar heim var komið, veirufræðingi heimilisins til mikilla vonbrigða. Þetta var víst ekkert hættulegt, eitthvað sem líkaminn ræður sjálfur fram úr með tímanum.

Talandi um brjóstmylkinga (tungan á mér fer í hnút við að segja þetta) þá fékk Anel kúnna um daginn frá Kúbu. Talið barst að brjóstmylkingum (eeerrrgh) og Kúbverjinn fræddi hana um þá skemmtilegu staðreynd að hann drakk móðurmjólkina fram að tólf ára aldri. Þetta finnst mér eiginlega sjúkt, get ekki að því gert. Hver vill hafa tólf ára krakka á brjósti? Hann sagðist alltaf hafa fengið sopann sinn þegar hann kom úr skólanum og líkaði það vel.

Svo þegar hann var fimmtán ára þá gifti hann sig. Hann fór semsagt úr einu parinu yfir í annað. Ætli það sé ekkert til á Kúbu sem heitir unglingsár? Held reyndar að þetta sé ekki normið á Kúbu en hvað veit maður svosem hvað þessir kommúnistar aðhafast?

PS. Velti því fyrir mér hvað ég fæ margar aukaheimsóknir frá BloggGáttinni fyrir að nefna brjóst í fyrirsögn.

Tags: , ,