Archive for the ‘Lífið’ Category

Sagan af því þegar sá minnsti fæddist

Bloggskortur virðist ætla að vera hér ráðandi þrátt fyrir vonir um að úr myndi rætast þetta árið. Ástæðan er ekki andleysi heldur tímaleysi og misjafn netaðgangur.

Nú þegar færi gefst ætla ég setja hér niður söguna af því þegar þriðji sonurinn fæddist þann 17. janúar síðastliðinn. Sú fæðing er einn eftirminnilegasti dagur ævi minnar þar sem þeim stutta lá svo sannarlega á að sjá heiminn.

Allt byrjaði þetta síðla kvölds á tannlæknastofu okkar hjóna hér í World Trade Center. Þar sem þetta fyrirtæki okkar hefur stækkað síðustu misserin vorum við Anel að fara yfir nokkrar tölur, aðallega til að vita hvað við skulduðum okkar sérfræðingum. Þeir koma tvisvar eða þrisvar í viku til að annast fyrir okkur sérhæfðar skurðaðgerðir, tannréttingar og aðrar slíkar meðferðir.

Klukkan var orðin ansi margt þegar við lukum þessu en við vildum klára þetta áður en haldið væri til Cuautla þar sem fæðingin átti að eiga sér stað. Cuautla er lítil borg í Morelos ríki ekki langt frá Mexíkóborg. Þar býr móðirsystir Aneler ásamt sínum manni en hann er kvensjúkdómalæknir. Ari og Emil fæddust þar í hans umsjá þar sem um keisaraskurð var að ræða í báðum tilfellum. Við höfum farið á einkaspítala þar vegna þess að opinber sjúkrahús hér eru nokkurn veginn á mörkunum að vera boðleg.

En hvað um það. Þegar allar tölur voru komnar á hreint fórum við að tygja okkur til heimfarar. Anel stóð upp til að ganga frá einhverjum áhöldum og þá vildi ekki betur til en svo að legvatnið fór veg allrar veraldar beint á gólfið á okkar fínu tannlæknastofu. Hríðirnar hófust einnig nánast samstundis. Líklega hefur vantað um hálftíma uppá miðnætti þegar þetta átti sér stað.

Nú voru hin títtnefndu góð ráð svo sannarlega dýr. Eftir hálf örvæntingarfull símtöl við okkar ágæta lækni ákváðum við að fara einfaldlega beint til Cuautla. Ekki nokkur tími var til að fara heim til að taka með sér töskur eða farangur. World Trade Center er sunnarlega í Mexíkóborg og Morelos ríki liggur fyrir sunnan borgina þannig að þetta lá ekki svo illa við. Þó var það erfiðasta bílferð sem ég hef farið með Anel æpandi af kvölum við hlið mér, akandi eins hratt og okkar ágæti Renault Clio komst en til að komast þangað þarf að keyra yfir fjallgarð sem skilur Mexíkódalinn frá Morelos.

Vegurinn er þó reyndar góður og ég var á um 150 km/klst mest alla leiðina. Clio er enginn sportbíll en þetta hafðist á um klukkutíma. Venjulega tekur hátt í tvo tíma að keyra þetta en það var á þessum tíma engin umferð.

Læknirinn okkar, Rodolfo, beið eftir okkur á spítalanum og Anel var drifin beint á skurðarborðið. Þar fæddist svo þriðji sonurinn og var hann við bestu heilsu og hefur verið það síðan. Þetta var þó nokkuð óheppilegt, sérstaklega fyrir Anel, þar sem skammt var liðið frá hinum aðgerðunum og því var slæmt að hún skyldi fá hríðir. Tók það því mun lengri tíma fyrir hana að jafna sig og hún er reyndar ekki fullkomnlega komin yfir þessa aðgerð enn. Þetta hefur þó gengið framar vonum og hún er nánast orðin góð á ný.

Sá stutti hefur braggast vel og er nú kominn í 6,6 kíló tveggja mánaða gamall en hann nærist eingöngu á móðurmjólkinni. Fór fljótt að brosa framan í heiminn og sefur mun værar en bræður hans gerðu. Fór strax í annarri viku að sofa allar nætur og rumskar ekki frá 11 á næturnar til 6 eða 7 á morgnanna. Hann er því hið þægilegasta kríli.

Drengurinn hefur þegar fengið sitt nafn og það verður tilkynnt fljótlega. Vegna fyrri reynslu með Emil sem skipti tvisvar um nafn áður en það rétta fékkst vil ég ekki segja til um nafnið fyrr en drengurinn verður skrásettur löglega hér í landi en það er heljar mikill ferill því hér í landi er skrifræðið allt um ráðandi í þessu sem og öðru. Geri ég því ráð fyrir að næsta blogg fjalli um nafn drengsins og hvernig það er tilkomið.

Tags:

Myndir af nýja stráknum

Með því að smella hér má sjá myndir af nýjasta fjölskyldumeðliminum en mamma vildi sjá myndir af nýjasta barnabarninu. Sagan af því hvernig hann kom í heiminn verður svo skráð hér síðar en hann kom með miklum látum í heiminn þann 17. janúar.

Tags:

Ari fjögurra ára

Nú er hann Ari Snær orðinn fjögurra ára. Fæddur 11. janúar 2007. Hátíðarhöld voru í lágmarki að þessu sinni þar sem móðir hans er ansi hreint ólétt og nóg að gera við að undirbúa tannlæknastofuna fyrir væntanlegt brotthvarf hennar í nokkurn tíma. Þó var splæst í tertu með myndum af Spiderman en hann er einhverra hluta vegna í miklu uppáhaldi hjá Ara.

Verður að viðurkennast að enn hefur ekki verið keypt afmælisgjöf en það verður vonandi gert í dag. Þá þarf að gefa Emil eitthvað einnig svo að hann verði ekki miður sín yfir því að bróðir hans fái pakka en hann enga.

Mínar fyrstu minningar eru frá því að ég var fjögurra ára og einnig lærði ég að lesa á þessum aldri. Er því eins gott að vanda sig nú við uppeldið þar sem drengurinn gæti átt eftir að muna allt héðan í frá. Vantar nú ekki mikið upp á að hann verði læs, allavega á spænsku en ég læt það duga að sinni.

Ég er ekki einn af þeim sem býsnast yfir því hvað tíminn líði hratt við svona tímamót. Mér finnst vera ógnarlangt síðan Ari fæddist, kannski er líf mitt leiðinlegra en annarra og því líður tíminn hægar? Nei, ég held reyndar að þetta sé eitthvað persónulegt hvernig fólk skynjar tímann.

Mér finnst það reyndar skrítin tilhugsun að eftir fjögur ár í viðbót mun ég enn sitja uppi með kríli á þessum aldri. Þetta barnauppeldi tekur víst seint enda!

Tags: , ,

Væntanlegur fjölskyldumeðlimur

Allt fer að verða klárt fyrir fæðingu þriðja sonarins. Búið er að þvo agnarlítil föt og taka fram hitt og þetta. Sem fyrr er þetta hálf óraunverulegt á þessari stundu en manni verður líklega kippt inn í veruleikann eftir um eina viku en áætlaður fæðingardagur er 20. janúar. Gæti kannski orðið aðeins fyrr, kemur í ljós.

Nafnið er enn til umræðu hjá okkur hjónum og ekki er búist við endanlegri niðurstöðu fyrr en með vorinu. Ari og Emil hafa verið undirbúnir andlega fyrir að deila athyglinni með þriðja aðila. Sjálfur segir Ari að hann ætli sér að hjálpa til með því að halda á þeim litla og með því að hreinsa á honum rassinn þegar á þarf að halda. Sjáum til hvort að hann standi við þetta. Emil segist ætla að gefa honum knús og koss sem verður líklega auðveldara að standa við.

Sem fyrr mun drengurinn fæðast í borginni Cuautla í Morelos ríki þar sem Anel á frænda einn góðan sem mun sjá um aðgerðina en þetta verður keisaraskurður. Vona að allt gangi að óskum eins og með Ara og Emil en þeir eru sérlega vel heppnuð börn (að eigin mati). Forvitnir geta litið hér við eftir um eina viku til að fylgjast með framvindu mála.

Tags:

Brakandi ferskt ár

Hér er víst komið nýtt ár 2011. Ekkert sérstaklega fallegt ártal en bind samt miklar vonir við þetta ár. Ég vona að allir sem muna eftir mér hafi haft það gott um jól og áramót. Hérna voru jólin frekar í daufari kantinum þetta árið en maður kvartar ekkert yfir því.

Ákveðin tímamót verða hjá okkur um þessa dagana. Von er á þriðja drengnum í þessum mánuði og allt gengur það vel hjá Anel. Höfum þegar ákveðið að gefa ekkert upp um nafngiftir fyrr en drengurinn verður skráður hér opinberlega en líklega er amk fyrra nafnið þegar fundið, sjaldgæft nafn sem þekkist vart á Íslandi en er þó skráð hjá Mannanafnanefnd.

Rekstur tannlæknastofunnar gengur sífellt betur og konan hefur bætt við sig diplómu í tannígræðslum. Þessar tannígræðslur eru sænskar að uppruna og ganga undir nafninu Nobel. Þetta mun vera nýjasta nýtt í tannlækningum, í stað þess að fá falskar eru nýjar tennur skrúfaðar upp í kúnnana og eru jafnvel betri en þær upprunalegu.

Auk Anelar vinna nú sex manns hjá okkur þar af tvær í fullu starfi við aðstoð og markaðssetningu. Hinir fjórir eru tannlæknar sem koma ýmist á vissum dögum eða part úr degi. Þetta fer því að verða alvöru bisness og markmiðið er að opna nýja tannlæknastofu á þessu ári.

Við höfum einnig verið að vinna í öðrum verkefnum, ekkert þó komið enn sem kalla má áþreifanlegt en það breytist vonandi í þessum mánuði þar sem pantanir voru gerðar fyrir nokkrum vikum. Vil eiginlega ekki gaspra meira um þessi verkefni þangað til við verðum komin með eitthvað í hendurnar.

Vona að þetta verði betra bloggár en síðastliðin ár en það kemur í ljós með tímanum.

Gleðilegt nýtt ár öll!

Tags: ,

Enskunám Ara

Nú hefur komið á daginn eftir frumsýningu myndarinnar Marcelino Pan y Vino að senurnar með Ara voru klipptar burt. Voru frekar mikil vonbrigði en þar sem myndin sjálf er óttalegt drasl þá grætur maður það ekki mikið. Kannski verður hægt að sjá hann í DVD útgáfunni, hvur veit.

Annars gengur Ara vel í skólanum. Hann hefur lært heilmikið en það merkilegasta fyrir mér er hvernig hann hefur lært þónokkuð í ensku. Um daginn sönglaði hann í baði, „My name is Ari, would you like to play?“ þegar hann var rétt byrjaður í skólanum. Nokkru síðar taldi hann fyrir okkur upp að tíu á ensku án þess að blikna. Nú um helgina söng hann eftirfarandi kvæði fyrir okkur, hann kann líka spænsku útgáfuna.

Four little monkeys jumping on a bed

one jumped up and bumped his head.

Mom called the Doctor and the Doctor said

no more monkeys jumping on a bed.

Mér finnst þetta nokkuð merkilegt miðað við að hann er enn þriggja ára. Framburðurinn hjá honum er líka stórgóður.

Hann hefur líka lært margt fleira t.d. í stærðfræði, lestri, föndri ásamt fleiru. Hann hefur alltaf einhver heimaverkefni, m.a. er ein bók einungis fyrir lífsgildi. Á sérhverjum degi eigum við að ræða við Ara um ákveðna hluti, t.d. um að bera virðingu fyrir öðru fólki, stunda náttúruvernd og hvernig koma skal fram við skólafélagana. Svo verðum við að tjá það einhvern veginn, höfum yfirleitt farið ódýru leiðina og klippt út myndir úr tímaritum og límt inn. Eitthvað sem er gert mikið af í leikskólum hér ytra.

Nú vantar mig allan samanburð við íslenska leikskóla en ég hef það á tilfinningunni að leikskólabörn hér ytra læri meira í skólanum. Plús að prestar eru ekki velkomnir hér inn á gafl með fagnaðarerindið, nema að um kaþólska skóla sé að ræða. Ég er því enn sem komið er mjög sáttur við skólann hans og ég vona að það breytist ekkert.

Tags: , ,

Sitthvað um stjórnlagaþing

Held að eitt það besta sem kom út úr Hruninu hafi verið fyrirhugað stjórnlagaþing. Stjórnarskrá Íslands sem gilt hefur frá lýðveldisstofnun endaði því miður þannig að ekki er farið eftir henni nákvæmlega, sérstaklega í greinum sem snúa að forsetaembættinu. Löngu er tímabært að endurskoða stjórnarskránna í heild sinni og ég vona að stjórnlagaþinginu takist vel til. Niðurstöður þjóðfundar eru mér að skapi og ég vona að flestar þær endi í endurbættri eða nýrri stjórnarskrá.

Sjálfur kemst ég ekki á kjörstað að sinni þar sem ég nenni ekki að eiga við ræðismann Íslands hér í borg. Ef einhver háttsettur í utanríkisráðuneytinu les þetta þá vantar okkur Íslendinga hér í Mexíkóborg skárri ræðismann, ég býð mig fram ef enginn annar fæst.

Eitt það merkilegasta við þetta allt saman finnst mér þó vera hvernig Netið getur nýst í þágu lýðræðis. Persónukjör er nú orðið miklu raunhæfari kostur þar sem hægt er að nota tól á Netinu til að greina mörg hundruð frambjóðendur á nokkrum mínútum. Sigtið er besta dæmið úr þessum kosningum. Án þess að ég sé sérstakur áhugamaður um persónukjör þá finnst manni að hér hafi þetta fræga blað verið brotið í sögu íslenskra stjórnmála.

Held reyndar að þegar öllu sé á botninn hvolft og þrátt fyrir nútímatækni muni flestir setja kunningja eða vini efst á sinn kjörseðil. Þegar yfir 500 manns eru í framboði þá held ég flest allir þekkja einhvern sem hefur boðið sig fram. Sjálfur þekki ég nokkra frambjóðendur þó ég hafi búið erlendis meira og minna í 5 ár.

Var að hugsa um að setja saman minn atkvæðaseðil en fyrst ég kem honum ekki til skila þá vil ég ekki svekkja þá sem hefðu lent efst á blaði.

Eitt af því sem ég vonast eftir er að ákvæði um ríkiskirkju verði felld burt með öllu. Vil vara fólk við því að kjósa frambjóðendur sem eru titlaðir séra eitthvað, þar eru fulltrúar forréttindastéttar mættir til að verja hagsmuni sína og ofurlaun. Þeim gæti tekist með málþófi og kjaftagangi að halda ríkiskirkjuákvæðum inni í nýrri stjórnarskrá. Það yrði þvílíkt áfall fyrir baráttuna fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju ef þetta ákvæði fengi að halda sér í óbreyttri mynd og ætti eftir að seinka aðskilnaði um mörg ókomin ár og jafnvel áratugi.

Gerið það allavega fyrir mig að kjósa ekki meirihlutafasistann séra Örn Bárð á þetta þing. Slíkur maður á ekkert erindi á slíkt þing þar sem teknar verða mikilvægar ákvarðanir um mannréttindi. Prestar Íslands virðast telja réttindi þeirra til að boða fagnaðarerindið í opinberum skólum allt niður í leikskólaaldur vera mikilvægara en eitthvað mannréttindatuð. Ég vona innilega að enginn stuðningsmaður ríkiskirkjunnar komist á stjórnlagaþing. Kannski er það bjartsýni en ég er þó hóflega bjartsýnn á að það gangi eftir. Sjáum hvað setur.

Tags:

Verðandi afmælisstrákur

Emil á tveggja ára afmæli næsta föstudag. Hann hefur þegar beðið um að afmælistertan verði skreytt með Lighting McQueen sem ég verð að viðurkenna að ég hef ekki hugmynd um hvað sá kappi heitir upp á íslensku. Á spænsku gengur hann undir nafninu Rayo McQueen sem Emil ber fram sem Læjó. Myndin Cars er í miklu uppáhaldi hjá þeim bræðrum sem skiljanlegt er.

Ari hefur þegar tilkynnt að hans afmælisterta verði skreytt með Spiderman en af einhverjum ástæðum er Spiderman það heitasta í dag í hans heimi. Vildi fá skólatösku með Köngulóarmanninum en endaði með Buzz Lightyear í staðinn þar sem Spiderman töskurnar voru ekki að gera sig. Nýjustu rúmfötin hans eru hinsvegar myndskreytt með Spiderman, Iron man og Wolverine.

Líklega verður að passa upp á það ef Emil fær einhverja pakka þá verður Ari að fá einn eða tvo í sárabætur fyrir að eiga ekki afmæli fyrr en í janúar. Eignarétturinn er mikið til umræðu hjá þeim þessa dagana, hver á hvaða dót. Ég reyni að koma með sósíalískar lausnir á þeirra deilumálum en þær falla í grýttan jarðveg.

Ari fær daglega heimaverkefni úr skólanum sem yfirleitt snúast um að lita mynd, klippa og líma myndir og þess háttar föndur. Emil þurfti því að sjálfsögðu að fá sín heimaverkefni eins og almennilegur maður og litar því með Ara daglega.

Þeir bræður eru góðir vinir yfirleitt og leika sér fallega saman. Við gætum ekki verið hamingjusamari með þessa gutta á heimilinu.

Tags: ,

Arnþór tvítugur

Arnþór litli bróðir varð tvítugur í gær og sendi ég honum hamingjuóskir með þann áfanga. Veit að honum á eftir að farnast vel sama hvað á gengur heima. Vona að þau verði ekki mörg afmælin í viðbót þar sem við verðum erlendis, held að við eigum nú inni ófáar tertusneiðar.

Innilegar heillaóskir til þín kallinn, vona að þú eigir eftir að lesa þetta. Anel, Ari og Emil senda þér kveðju.

Tags:

Ari á leið í skóla

Ari Snær var skráður í skóla nú í vikunni. Hann hefur eins og Emil verið í pössun heimavið eða hjá frænkum sínum hér í borg fram til þessa. Nú verður aldeilis breyting þar á þar sem hann er á leið í fínan einkaskóla, Colegio Williams. Sá skóli var stofnaður 1928 og er í gömlu virðulegu húsi spölkorn frá þar sem við búum. Þegar gengið er í gegnum skólahliðið liggur leiðin í gegnum fallegan garð þar sem mikið er af skrautlegum blómum. Skólabyggingin sjálf er í klassískum stíl þar sem lofthæðin er mikil, líklega í kringum 5 metrar innandyra.

Hér í Mexíkó notast flestir við skólabúninga og það verður að segjast eins og er að búningurinn sem Williams notast við er nokkuð reffilegur. Ari hefur þegar fengið peysu og vesti auk fata sem notast er við í leikfimi. Allt er þetta skreytt með skjaldarmerki skólans en við eigum eftir að kaupa skyrtur og buxur. Fínast er þó blazer jakki sem krakkarnir klæðast á mánudagsmorgnum, dimmblár jakki með gylltum hnöppum. Á hverjum mánudegi hefst skólavikan hér í Mexíkó á hátíðlegri athöfn þar sem fáninn er heiðraður, þjóðsöngurinn sunginn og þessháttar skemmtilegheit. Besti nemandinn fær þann heiður að bera fánann við þessa athöfn og þá verða allir að vera í blazernum. Hljómar allt svona semi-fasískt en svona er þetta hér vestra.

Í þessum skóla fer kennslan að helmingi til fram á ensku, allt niður í yngsta leikskólastigið en kennt er til 18 ára aldurs í þessum skóla. Mér skilst líka að það sé ætlast til að hann læri heima frá byrjun. Fyrir þá sem ekki vita er Ari þriggja ára þannig að þetta kemur manni nokkuð spánskt fyrir sjónir. Samkeppnin hér í þessu landi er svo mikil að hún hefst strax við leikskólaaldurinn. Stundum velti ég því fyrir mér hvað orðið hefði um mig í svona umhverfi, hvort að maður hefði náð á toppinn eða endað sem skóburstari á götunni.

Þetta mun hafa áhrif á daglega rútínu hér á heimilinu, Ari þarf að vera mættur í skólann 7.50 á morgnanna. Engum er hleypt inn eftir 8.00. Verður víst lítið um næturgöltur héðan í frá hjá mér nema kannski um helgar.

Sjálfur er Ari spenntur fyrir þessum nýheitum. Var vonsvikinn nú á þriðjudaginn þegar við fórum að skrá hann, hélt að hann gæti byrjað strax en skólinn hefst 23. ágúst. Man þegar að ég átti að byrja í Laugargerðisskóla 6 ára gamall í því sem þá hét forskóli 6 ára barna. Þverneitaði að fara og þurfti tiltal og nokkrar vikur þar til ég fékkst til að fara og kunni því svo vel að ég var í skóla til 27 ára aldurs og er enn að spá í frekara námi. Bæði Ari og Emil eru félagslyndari en ég var nokkurn tímann, tengist kannski því að alast upp í 27 milljóna manna borg.

Set inn mynd af Ara þegar hann verður kominn í dressið fyrir skólann í þarnæstu viku. Þetta verður bara gaman hjá honum.

Tags: ,