Archive for the ‘Lífið’ Category

Fluttur áleiðis

Við höfum nú flutt okkur um set úr íbúðinni sem hefur verið okkar heimili síðan ég fluttist til Mexíkó. Við fórum ekki langt að þessu sinni, einungis niður um tvær hæðir í aðra íbúð sem við eigum í sömu byggingu. Þetta var reyndar tannlæknastofa Anelar þegar ég kom hingað í árslok 2006. Síðar fluttist tengdamamma hingað niður og nú búum við sex í frekar smárri íbúð. Vona að við þurfum ekki að hýrast hér lengi en hver veit.

Yfirvofandi flutningar

Frá því ég fluttist til Mexíkóborgar um jólin 2006 þá höfum við búið á sama stað, frekar lítilli íbúð nálægt miðbæ borgarinnar. Fyrir allnokkru síðan varð þessi íbúð of lítil eftir því sem fjölskyldumeðlimum hefur fjölgað og nú er einfaldlega komið að því að flytja í stærra húsnæði.

Íbúðin hefur þegar verið seld, það tók um þrjár vikur enda er þetta eftirsótt svæði. Nú er bara beðið eftir að möppudýr vinni sína vinnu svo að hægt sé að afhenda íbúðina með tilheyrandi pappírum. Reyndar eigum við aðra íbúð í sömu byggingu sem var áður fyrr tannlæknastofan okkar áður en við fluttum okkur yfir í World Trade Center. Tengdamamma hefur búið þar undanfarin ár og ég held reyndar að við séum búin að finna kaupendur að þeirri íbúð einnig.

Núna stendur til að flytja okkur nær WTC og höfum við reyndar þegar fundið draumahúsið, allstórt einbýlishús með öllu tilheyrandi. Nú verður bara að koma í ljós hvort að við getum fjármagnað húskaupin. Þegar við verðum komin með húsnæðislán til að borga af er maður þá ekki loks kominn í fullorðinna manna tölu?

2012

Árið 2012 er að kveðja. Þetta var afbragðs gott ár og ég vona að nýja árið verði einnig farsælt. Hjá mér stendur upp úr að ég komst til Íslands ásamt fjölskyldunni eftir fjögurra ára fjarveru og var frá byrjun júní fram í september. Ég lenti í smá óhappi með myndirnar sem við tókum í fríinu og því miður hefur líklega hluti þeirra glatast vegna klaufaskapar. Þess vegna hafa ekki margar myndir birst á Facebook undanfarið.

Mér þykir alltaf leiðinlegt hvað þessari síðu hefur verið lítið sinnt undanfarin ár. Í rauninni er það ágætt að hafa bloggið sem yfirlit yfir það sem maður hefur verið að bauka því eftir því sem árin líða fer minnið að bregðast manni varðandi hitt og þetta. Vona að bloggið verði meira 2013 en engu er hægt að lofa.

Hafið það gott á nýju ári. Kveðjur frá Mexíkóborg.

Tags: ,

Stórafmæli

Ég vil óska mömmu minni til hamingju með stórafmælið þann 2. nóvember. Annað var það ekki að sinni.

Tags:

H&M í Mexíkó

Konan er ofsaglöð en mig er farið að kvíða fyrir löngum verslunarferðum til Santa Fe.

Tags:

Nintendo fyrr og nú

Líklega var það í október þegar ég og frúin sáum á uppgjöri einu kreditkortanna að punktastaðan var orðin ískyggilega há. Þar sem umrætt kort er alltaf notað þegar fjárfest er í einhverju stóru fyrir bisnessinn þá hafði það gefið vel af sér í punktum. Þar sem þeir úreldast hér á fimm árum og þeir elstu höfðu þegar kvatt þennan heim þótti ekki annað viðeigandi en að koma nú þessum náðargjöfum kortafyrirtækjanna í góð not.

Við athuguðum því á netinu hvað væri í boði og viti menn, við gátum fengið Nintendo Wii gefins fyrir punktana.

Ég var reyndar mjög efins um að taka Wii gripinn. Minnugur eigin reynslu af tölvuleikjum og einnig höfðu nokkrir ungir karlar haft það á orði að réttast væri að láta það eiga sig að kaupa leikjatölvu handa strákunum.

Sjálfur átti ég elstu gerðina af Nintendo þegar ég var polli, líklega kom hún á heimilið þegar ég var sjö ára (1987). Þetta var náttúrulega bylting á sínum tíma og hvað maður gatt eytt tímanum í þetta. Var reyndar galli að ekki var hægt að vista leikina man ég og því var það alltaf allt eða ekkert sem gilti. Maður þurfti að klára leikina frá byrjun í einum rykk og það var stundum ekkert áhlaupaverk.

Eftir á að hyggja veit ég ekki hversu hollt þetta var fyrir mann, ekkert sérstaklega skaðlegt kannski en maður veit aldrei. Það dempaði reyndar minn spilatíma að aðeins eitt sjónvarp var á heimilinu þannig að ég gat lítið spilað á kvöldin, fréttir og Derrick höfðu þar forgang.

Ég eignaðist aldrei PC tölvu fyrr en ég var orðinn tvítugur þannig êg datt aldrei inn í þann leikjaheim. Gömlu Nintendo var skipt út fyrir Sony Playstation árið 1995 sem var að sjálfsögðu önnur bylting en eftir að hóf háskólanám 2001 hef ég varla snert á tölvuleik fyrr en nú. Hafði einfaldlega ekki tíma fyrir slíkt dútl.

Þar sem þetta var mikill tímaþjófur fyrir mig hafði ég eins og áður sagði efasemdir um Wii. Einnig rifjuðust upp gamlar minningar um skaðsemi tölvuleikjanna. Ég man eftir einum sveitunga mínum sem var samtíða mér á heimavist Fjölbrautaskóla Akraness. Hann datt svo innilega inn í þennan heim, gott ef það voru ekki Final Fantasy leikirnir sem áttu hug hans allan. Einn góðan veðurdag vaknaði hann upp við vondan draum, búinn að skrópa sig út úr skólanum, heimavistinni og öllu saman. Foreldrarnir mættir í dyragættinni rauðir í framan til að draga hann heim, líklega skýrasta dæmið sem ég man eftir.

Fleiri sem ég þekki eyddu of miklum tíma í ýmis tölvuspil, bitnaði á þeirra námi veit ég fyrir víst.

Ég lét þó til leiðast á endanum og við fengum Wii í hendurnar nokkrum dögum síðar. Settum þó reglur um spilunartíma, einungis er hér spilað um helgar og eftir að allri heimavinnu hefur verið sinnt. Gripurinn kom með Mario Kart Wii sem er kappakstursleikur og höfum við keypt tvo leiki í viðbót síðan þá.

Man reyndar eftir forvera þessa kappakstursleiks á Nintendo 64 sem var stundum leigð á heimvist FVA af vídeóleigunni Ás. Ætli krakkar leigi ennþá svona leikjatölvur? Eru vídeóleigur ennþá til á Íslandi? kæmi mér ekki á óvart ef þær hefðu dagað uppi.

Hvað um það, Wii er hin besta skemmtun fyrir alla fjölskylduna og ég hef staðið sjálfan mig að því að vera eftir miðnætti í brjáluðum kappakstri á regnboga út í geimnum eða vera að bjarga heilu vetrarbrautunum með gamla góða Maríó, pípara með meiru. Skemmtilegt að sjá gömlu persónurnar enn í fullu fjöri, strákarnir eru að leika með sömu kallana og ég fyrir aldarfjórðung í ehm… eilítið betri grafík.

Ég sé ekki eftir því að hafa eignast Wii en hef lofað sjálfum mér því að myndarlegu drengirnir mínir fá ekki að enda sem niðurlútir tölvunirðir. Ég gæti aldrei fyrirgefið sjálfum mér, allt er best í hófi.

Tags: , , ,

Búið

Þá er 2011 á enda. Hjá mér verður þess að sjálfsögðu helst minnst fyrir það að Ían Magni fæddist þann 17. janúar. Allt hitt verður ómerkilegt í samanburði við það.

Ef nefna ætti eitthvað annað þá væri það helst nýja tannlæknastofan sem er aðeins á eftir áætlun en er gott sem tilbúin. Einnig skiptum við um bíl sem var framför fyrir okkur þrátt fyrir nokkrar óvæntar ferðir á verkstæði með gripinn.

Annars í heildina séð þá var þetta mikið framfaraár fyrir okkur.

Á nýju ári er markmiðið sett á að flytja í betra húsnæði, helst einbýlishús. Held að íbúðin sem við höfum búið í undanfarin ár verði seint talin íbúðarhæf á Fróni og við orðin leið að búa fimm í lítilli tveggja herbergja íbúð.

Sjáum til hvernig það gengur.

Gleðilegt ár!

Þreytti bloggarinn og leikskólinn

Nei, ekki þreyttur á blogginu heldur frekar svona almennt þreyttur. Hef nóg til að blogga um en þegar ég blogga þreyttur þá hef ég tekið eftir því að leiðindi bloggsins stefna í óendanlegt, sbr færsluna um Kína hér að neðan. Ég er eins og Björn Bjarna og Hannes Hólmsteinn samanlagðir í leiðindum í þessum gír. Stend við allt sem segir í Kínafærslunni en ég kom þessu ákaflega illa frá mér. Mun því einungis reyna að blogga óþreyttur héðan í frá.

Annars eru helstu tíðindi héðan að Ari og Emil eru komnir á leikskóla sem kallast Fransisco Zarco og er í næstu götu við okkur. Þetta er opinber skóli og því engin skólagjöld eða neitt slíkt. Kostnaðurinn mun vera 50 cent á dag (um 5 krónur) fyrir morgunverðinn og kaupa þarf skólabúninga, það kalla ég vel sloppið. Þarna munu þeir vera frá 9-2 alla virka daga þannig að það verður eilítið rólegra á heimilinu við þessar breytingar, vonandi.

Tags: ,

31

Varð 31 árs á sunnudaginn. Finnst það frekar lítilfjörlegt miðað við stórafmælið í fyrra þótt að alltaf sé gaman að eiga afmæli. Fórum öll í skemmtigarðinn Six Flags af þessu tilefni og stefnt er að því að setja inn einhverjar myndir frá því þegar tími gefst.

Annars náðum við því að skrásetja minnsta drenginn lögformlega í dag en það er sérstakt ferli sem þarf að ganga í gegnum til að fá útgefið fæðingarvottorð. Nafnið verður þó ekki gefið upp ennþá því Anel vill fyrst halda nafnaveislu þannig að lesendur verða hér að bíða enn spenntir um stund.

Tags: ,

Frí

Við hjónin kunnum ekki að taka okkur frí. Hér er aldrei stoppað, botnlaus vinna og uppbygging. Árangur, áfram ekkert stopp á þessum bæ.

Nú verður ekkert unnið fram á mánudag eftir páska. Tilfinningin er dálítið skrítin. Helst erum við að spá í að keyra til Hidalgo ríkis á morgun og skreppa þar í sund en þar munu vera heitar laugar, svona til að gera eitthvað.

Er að myndast við að mála barnaherbergið blátt fyrir Ara og Emil þessa stundina, hér er komið fram yfir miðnætti en svefn er jú einungis fyrir dugleysinga.

Höfum fest kaup á þriðja tannlæknastólnum og bisnessinn blómstrar sem aldrei fyrr. Vorið er gengið í garð hér í Mexíkó sem þýðir að hér er alltaf vel heitt, dag sem nætur.

Sá minnsti er orðinn nokkuð stór og pattaralegur og dafnar vel.

Annars er allt ágætt að frétta héðan.

Tags: ,